Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. Sálm 90.12Að telja dagana. Það er eitthvað sem við gerum þegar við erum eftirvæntingarfull, getum varla beðið eftir að eitthvað gerist, líkt og börnin og blaðið á aðventunni þegar beðið er eftir jólum. En nú er nýársdagur. Er ekki full snemmt að fara að telja daga nýja ársins? Það er þó einmitt það sem við gerum í hraða nútímans; megum ekki vera að því að staldra við nokkra stund í amstri daganna, alltaf eitthvað framundan sem þarf að taka mið af, búa sig undir, kvíða eða hlakka til. Getur verið að heilög ritning ýti undir þetta viðhorf, skipulagingaráráttuna sem víst er nauðsynleg svo allt gangi upp?
Stöldrum við Þessi gömlu orð eiga nú líklega ekki við að skipuleggja tíma sinn, dagbækurnar í föstu formi og rafrænu, hversu mikilvægar sem þær eru okkur til að geta náð öllu sem þarf að gera. Sennilega er frekar átt við einmitt þveröfugt: að vera fær um að staldra við, vera í augnablikinu, dvelja við það sem er, núna, og öðlast þannig visku.
Við upphaf nýs árs er gott að spyrja sig einmitt um tímann. Hvernig ver ég tíma mínum? Hvernig vil ég verja tíma mínum? Hvað er mér dýrmætt? Hvernig vil ég forgangsraða? Það er gott að spyrja slíkra spurninga frammi fyrir Guði, í þeim getur verið falin bæn, bænin sem við tökum undir með sálmaskáldinu: Kenn mér að telja daga mína að ég megi öðlast viturt hjarta.
Afstæði tímans Í þessum sama Davíðssálmi, sálmi 90 sem þjóðsöngurinn okkar Íslendinga byggir einmitt á, kemur fram hvað tíminn er afstæður: „Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka,“ segir í sálminum. „Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár, og þúsund ár dagur, ei meir,“ syngjum við hér á eftir með orðum séra Matthíasar. Gagnvart þessu tímaleysi Guðs - Guðs sem með leyndardómsfullum hætti er „frá eilífð til eilífðar“ – er ævi manneskjunnar harla stutt:
Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrasta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burtsegir í tíunda versi þessa fræga sálms sem reyndar er bæn guðsmannsins Móse. Þar er talað bæði um bros og tár, líkt og í ljóði Maríu Bjarnadóttur sem ég vitnaði í hér í gær:
Þetta líkt sem önnur ár augum hverfur mínum, flytur bæði bros og tár burt á vængjum sínum.Í tárum sínum og þjóðar sinnar sér Móse reiði Guðs skína í gegn, reiði vegna misgerða og leyndra synda sem koma í ljós þegar Guð horfir á manneskjuna. Reiði Guðs er algengt stef í Biblíunni en ávallt, eins og hér, stillt upp sem bakgrunni ástar Guðs. Upphaf sálmsins og endir er – líkt og lífsins sjálfs – að Guð elskar manneskjuna, lætur sér annt um hana: „Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns“ segir í fyrsta versinu og síðustu versin fjalla um miskunn Guðs, gleði og gæsku. Sálmurinn endar síðan á bæn um blessun.
Millikafli: Reiði Guðs Í þessu hugtaki, reiði Guðs, speglast harmur manneskjunnar og vanmáttur þegar við þurfum að lúta í gras fyrir eigin mistökum eða annarra, erum beitt ranglæti eða illa komið fram við okkur á annan hátt. Mikið væri gott ef Biblían talaði bara um elsku Guðs! En þá væri hún ekki í samræmi við veruleika okkar, sem er ekki bara góður.
Ef hvergi væri minnst á hina hliðina á kærleika Guðs, reiðina sem hlýtur að vera eðlileg viðbrögð við misbresti og brotum gegn kærleika - líkt og við sjálf finnum til reiði gagnvart elskuðum börnum okkar sem á einhvern hátt spilla fyrir sér eða öðrum - væri veruleikanum ekki rétt lýst. Hins vegar er gæska Guðs upphaf og endir alls, svo sem sálmur 90 gefur til kynna í uppbyggingu sinni. Reiðin og kærleiksleysið, sem veldur reiðinni, er bara millikaflinn.
Upphaf og endir: Elska Guðs Sá millikafli, sem skáldkonan María Bjarnadóttir kennir við tár, er að vísu oft fyrirferðarmikill í veruleika okkar en hann á ekki síðasta orðið og er enn síður grunnur tilveru okkar. Grunnurinn er eilífð Guðs, ást Guðs og miskunn, löngun Guðs og máttur til að endurreisa, endurnýja, koma á sátt. Við erum því ekki lengur innilokuð í gæslu lögmálsins, eins og segir í pistli dagsins, Gal 3.23-29, ekki innilokuð í vanmætti okkar gagnvart því að framganga í kærleika, ekki lengur undir tyftara, heldur íklædd elsku Guðs sem er Jesús Kristur. Hann er athvarf okkar, eins og Hallgrímur Pétursson yrkir um í Passíusálmunum (24, sbr. 198 í sálmabókinni):
Athvarf mitt jafnan er til sanns undir purpurakápu hans, þar hyl ég misgjörð mína.Að við höfum íklæðst Kristi merkir að í stað brotakennds kærleika okkar og brotinnar sjálfsmyndar sér Guð mynd Jesú í okkur, mynd æðsta kærleika. Þannig endurreisir Guð okkur í ást sinni og hjálpar okkur að dvelja ekki við sársaukann vegna liðinna mistaka, hvorki eigin né annarra, og heldur ekki kvíðann gagnvart því ókomna, heldur dvelja í sér, í Jesú Kristi, hér og nú í trausti til þess að gæska Drottins, Guðs vors, sé með okkur; að Guð blessi verk handa okkar, borin fram í vanmætti. Þar er bros daganna að finna, bros Guðs sem gleðst yfir okkur, bros manneskjunnar í birtu náðar Guðs.
Eitt vers Guðspjallið í dag er stysta guðspjall ársins. Eitt vers, það er allt og sumt sem fyrsta degi nýja ársins er úthlutað. En þetta eina vers er nóg. Það dugar. Við veljum stundum magnið fram fyrir gæðin en oft gildir að minna er meira, eins og er svo vinsælt að segja í dag. Oft gleymum við þessu, ekki síst á jólum þegar matar- skreytinga- og pakkaflóðið stendur sem hæst eða á gamlárskvöld þegar ýmsir keppast við að skjóta á loft sem flestum flugeldum.
Nú er uppi bylgja sem kennir sig við mínimaliskan lífsstíl. Það merkir að einfalda líf sitt, til dæmis með því að eiga bara og gera hluti sem hafa gildi. Með því er ekki átt eingöngu við hagnýt notagildi heldur fyrst og fremst það sem við njótum að hafa í kring um okkur – að einfalda líf sitt til að geta einfaldlega lifað lífinu, eins og segir á síðu slíks hóps á netinu.
Tiltekt í skápum og skúffum hugans Með því að gaumgæfa vandlega á öllum sviðum lífsins hvað það er sem við höfum raunverulega þörf fyrir getum við stigið skref í átt að meiri vellíðan í hversdeginum. Þetta er ekkert auðvelt skref. Það krefst tiltektar, í bókstaflegri og yfirfærðri merkingu, tiltektar í skápum og skúffum en líka tiltektar á venjum, hugarfari og áætlunum. Þá er gott byrja á því að leita kjarnans. Kristin trú gefur okkur þann kjarna sem við getum miðað allt annað við, kjarna kærleika Guðs sem birtist í Jesú Kristi og felst hreinlega í nafni hans en nafnið Jesús merkir Guð frelsar. Guð frelsar, frelsar okkur frá því sem þrengir að okkur, lokar okkur inni, frelsar til lífs í fullri gnægð.
Á nýársdag erum við hvött til að íhuga hvaða áhrif sá kjarni hefur og getur haft á líf okkar. Við teljum dagana okkar, gaumgæfum þá og biðjum Guð um frelsi undan því sem bindur okkur, rænir okkur gleðinni, frelsi frá kærleiksleysi og kulda, frelsi til einfaldara lífs, til sannra gæða, til gæsku Guðs. Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta – og brosa í gegn um tár. Gleðilegt 2016.