Hana vér allir prýðum
Lýðurinn tendri ljósin hrein
Líður að helgum tíðum
Gerast mun nú brautin breið
Bjart í geiminum víðum
Ljómandi kerti á lágri grein
Líður að helgum tíðum
Þessi fallegu vers Jóhannesar úr Kötlum leituðu á huga minn þegar ég settist niður til að skrifa þessa prédikun nú þegar líður að helgum tíðum og við tendrum kertaljós á hátíðarborðinu heima þegar aftaninn gengur í garð á aðfangadagskvöld. Þá tendrar lýðurinn ljósin hrein, eins og skáldið segir, og fyrir vikið gerist brautin breið fyrir jólabarnið að setjast að í hjörtum okkar.
Í rafmagnsleysinu í kjölfar óveðursins í síðustu viku laukst upp fyrir mörgum hversu rafmagnið er mikilvægt fyrir alla, fólk, tæki og tól og fyrirtæki. Ugglaust hafa margir kveikt á kertum til að ná upp varma. Ein fjölskylda þjappaði sér saman í einu herbergi í húsinu sínu og kveikti á mörgum kertum til að ná upp varma til að unnt yrði að halda hita að börnunum.
Ég velti því fyrir mér hvernig fólk fór að því að lifa af í harðri lífsbaráttunni hér á landi fyrir tíma steinsteypunnar, þegar fólk bjó í húsnæði sem var byggt úr torfi og grjóti og var þiljað að innan með fjölum úr rekavið. Íslendingar náðu sennilega ekki háum aldri í harðbýlu landinu og urðu reglulega fyrir hörðum búsifjum í kjölfara náttúruhamfara, og annarra harðinda sem herjuðu á fólk, t.d. sjúkdóma eins og infúensu sem engin lækning var til við.
Þrátt fyrir þessi harðindi reyndi fólk að halda heilög jól með sínum nánustu og gjafirnar voru t.d. nýir skór og ný föt, spil og ekki síst kerti sem var sennilega búið til úr tólg á þeim tíma. Með ýmsum hætti var reynt að lýsa upp húsakynnin, ekki síst í svartasta skammdeginu og þegar dró nær jólum þá var allt þrifið hátt og lágt. Og þegar hátíðin gekk í garð þá var reynt að gera vel við sig í mat og drykk og ljómandi kertið fékk nýja merkingu í hugskotum fjölkskyldumeðlima, ekki síst þegar jólaguðspjallið var lesið sem er að finna í Lúkasarguðspjalli. Ég reikna þó með að sumir hafi þá sem nú lesið upphátt jólaguðspjall Jóhannesar guðspjallamanns þar sem guðspjallamaðurinn skrifar í jólaljóði sínu. ,,Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.“ Jóh. 1,6-8.
Guðspjall þessa Drottins dags sem ég las nú þegar líður að helgum tíðum segir okkur meira um það sem Jóhannes skírari var ekki en hvað hann var. Það er eins og að Jóhannes skírari sé staddur á dómþingi og spurður spjörunum úr. Hann er spurður að því hver hann sé?
Hann sagðist ekki vera ljósið, hann var ekki Messías, hann var ekki Elía, hann var ekki spámaður. Hann var kominn til að bera vitni um annan mann. Sjálfur væri hann ekki verður að leysa skóþveng hans. Þegar Jóhannes skírari bar vitni um Jesú þá lagði hann líf sitt undir.
Það er athyglisvert að Jóhannes skírari sagðist ekki vera spámaður en í lexíu texta þessa drottins dags í fimmtu Mósebók segir Móse fyrir munn Drottins sjálfs ,,Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða. Ég mun leggja honum orð mín í munn og hann mun boða þeim allt sem ég býð honum.“
Að sönnu var Móse spámaður en við kristið fólk trúum því að með fæðngu sonarins eingetna sem lagður var lágt í jötu hafi fæðst spámaður spámannanna, prestur prestanna og konungur konunganna. ,,Því svo elskaði Guð heiminn, segir Jóhannes guðspjallamaður, ,,að hann gaf einkason sinn, til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ Með lífi sínu og starfi vitnaði Jesú um þetta fagnaðarerindi og hann var krossfestur og dó fyrir syndir mannanna. Í stað þess að mannkyn tæki út dóminn fyrir syndir sínar þá tók Jesú allar syndir mannkynsins á sig til þess að hver sem á hann trúi myndi ekki glatast heldur hafa eilíft líf. Það er að sönnu hörmulegt að verða glötuninni að bráð en Guð einn getur breytt þeim dómi gagnvart þeim sem iðrast vill synda sinna.
Daginn eftir þetta svokallaða dómþing þar sem Jóhannes var spurður um það hver hann væri þá sá hann að Jesú var að koma til sín. Þá benti hann á Jesú og sagði. ,,Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins. Jóhannes guðspallamaður lítur ekki svo á að syndin sé ekki siðferðisleysi mannanna eða hin ýmsu afbrot sem við höfum framið og getum svo auðveldlega talið upp daglega. Synd er eintöluorð hjá Jóhannesi guðspjallamanni. Hann segir að synd sé vantrú sem hafi hörmulegar afleiðingar, já, valdi aðskilnaði frá Guði. Á tímum Jesú slátruðu gyðingar lömbum til að fá fyrirgefningu synda sinna eins og gamli sáttmálinn kvað úr um. En fyrirgefning þýddi þá að hylja yfir. Syndin var þarna en hún var falin með blóði, og menn þurftu stöðuglega að vera að fórna til að láta hylja yfir syndir sínar.
En Jesús sem er lamb Guðs kemur með hina fullkomnu fórn og það þarf alldrei framar að færa fórn til fyrirgefningar syndar okkar. Því að fórn Jesú var fyrir allan heiminn þá og allt til enda veraldar eða þar til Jesús snýr aftur og sækir þá sem tilheyra honum. Orðið fyrirgefning fær líka nýja merkingu á Golgata, það þýðir ekki lengur að hylja yfir, heldur að afmá. Jesús hefur afmáð syndina í eitt skipti fyrir öll. Og þetta er það fullkomin fyrirgefning að þegar Guð lítur á okkur þá er eins og við höfum alldrei syndgað, þvi hann sér Jesús í okkur. Við erum fullkomnlega réttlætt frammi fyrir Guði og leyst undan valdi syndarinnar. Það sem við höfum gert og eigum eftir að gera hefur okkur verið fyrirgefið. Það er þetta sem guðspjallamaðurinn Jóhannes undirstrikar svo vel er hann segir í jólaguðspjalli sínu. ,,En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans.“ Jóh.1. 12.
Þetta er að sönnu mikið fagnaðarefni því að með því að taka á móti Jesú í hjörtu okkar þá eignumst við lifandi von sem enginn getur frá okkur tekið.
Postulinn Páll undirstrikar þessa gleði í pistli þessa drottins dags er hann skrifar: ,,Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur. Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd.
Við lifum í ófullkomnum heimi sem skortir dýrð Guðs. Undanfarið hef ég verið að kynnast aðstæðum hælisleitenda og flóttafólks. Þær eru yfirleitt mjög slæmar. Fólk er á flótta um allan heim af ýmsum ástæðum, jafnvel munaðarlaus börn eru í þeim hópi.. Á þessu ári hafa margir misst atvinnuna hér á landi í hóp uppsögnum með tilheyrandi afleiðingum vegna minni innkomu. Við þekkjum fólk sem er að glíma við veikindi af ýmsum toga. Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að lifa sínu lífi í þessum brothætta heimi.
Jóhannes skírarai prédikar í eyðimörkinni og segir: ,,Þetta allt mun breytast.“
Líkt og Jóhannes skírari var sendur af Guði til að bera vitni og gera götuna greiðfæra fyrir konung konunganna þá er kirkjan send út til að bera vitni um fagnaðarerindið í orði og verki. Og við skulum aldrei gleyma því að við erum Krists börn. Hann er ætíð nálægur okkur í anda sínum og veitir okkur styrk til góðra verka í þágu hins góða, fagra og fullkomna.
Mér er í þessu sambandi hugsað til þeirra aðila sem unnu óeigingjarnt hjálparstarf við Núpá í Eyjafirði í síðustu viku þegar drengurinn féll í ána. Mér er líka hugsað til starfsfólks heilsugæslu og sjúkrahúsa sem sinna sjúku fólki til líkama og sálar árið um kring. Mér er líka hugsað til starfsfólks Hjálparstarfs kirkjunnar og Rauða krossins og annarra hjálparsamtaka. Mér er líka hugsað til þeirra sem sinna sjálfboðaliðastarfi í þágu þeirra sem minna mega sín, eru einmana, eiga við geðrænan vanda að stríða, þeirra sem starfa í þágu aldraðra og fatlaðra. Víða er unnið gott og óeigingjarnt hjálparstarf í anda barnsins í jötunni, hins krossfesta og upprisna frelsara mannanna Jesú Krists. Það er þakkarvert.
Við vitum hver svör Jóhannesar skírara voru við spurningunum sem að honum var beint. En hverju myndum við svara ef spurningunni yrði beint að okkur. ,Hver ertu? Hvað segir þú um sjálfan þig? Með þessari spurningu er maðurinn knúinn til að taka afstöðu til Krists, með honum eða móti. Hverju mundum við svara ef við væru spurð? Hvað segir þú um sjálfan þig? Erum við erindrekar Krists í þessum eða sóum við tímanum til einskis? Erum við sjálflæg eða hógvær og auðmjúk í anda tollheimtumannsin
Myndum við standa við hlið fariseans og þakka Guði fyrir að við erum ekki eins og aðrir menn eða skipum við okkur í hóp þeirra sem hefja augu sín til Guðs og biðja hann.. ,,Guð, vertu mér syndugumlíknsamur.“ Í svari Jóhannesar skírara kom fram hógvæð, auðmýkt og lítillæti. Hann var sér þess meðvitandi að hann var einungis verkfæri í hendi almáttugs Guðs, rödd sem vísaði veginn til hans sem var að koma, konungsins sem við minnumst á hverjum jólum. Svar Jóhannesar skírara fólst í því að benda á komu Krists og hvetja menn til að undirbúa komu hans, taka við honum sem hinum eina sanna konungi og fela sig honum á vald.
Svar okkar á að vera hið sama, fólgið í því að viðurkenna Krist sem herra okkar og frelsara og að langa til að benda öðrum á hann í orði og verki Þá erum við þjónar Krists, börn Guðs, umvafin kærleika hans og þá veitist okkur hin eina og sanna jólagleði fyrir þá gjöf sem Guð vill gefa okkur í Jesú Kristi. Sú gjöf sem Guð gefur er lífið sjálft, ekki aðeins á jörðu, heldur eilíft líf í dýrðarríki hans.
Jóhannes úr Kötlum lýkur ljóði sínu með eftirfarandi orðum.
Heimsins þagna harmakvein
Hörðum er linnir stríðum
Læknast og þá hin leyndu mein
Líður að helgum tíðum.
Flutt í Kópavogskirkju 22.12.2019