[audio:http://tru.is/hljod/2009-04-12-thrjar-kirkjuferdir-og-paskar.mp3]
Kæri söfnuður. Gleðilega páska. Mig langar að segja ykkur frá tveimur kirkjuferðum. Mig langar að segja ykkur tvær páskasögur.
Sú fyrri gerist á páskum 1997. Ung hjón voru brúðkaupsferð í Lundúnum. Og á leiðinni á hótelið þar sem hveitibrauðsdögunum skyldi eytt sáu þau litla auglýsingu frá kirkju í grenndinni. Þar var sagt frá páskavöku sem skyldi haldin um kvöldið. Allir voru velkomnir.
Og þau fóru um kvöldið og upplifðu notalega stund í góðum hópi. Að lokinni messu tók einn úr söfnuðinum þau tali:
— Verið velkomin í kirkjuna okkar. Hvernig fannst ykkur? Komið þið ekki með í veisluna? — Í veisluna? — Já, páskaveisluna. Þið skuluð endilega koma með.
Þau voru eitthvað á þessa leið, þessi orðaskipti. Og ungu hjónin fóru með og nutu samfélags með söfnuði sem þau þekktu ekki neitt. Þau fundu sig velkomin og fögnuðu upprisu Krists með ókunnugu fólki sem þau höfðu ekki séð áður og sáu aldrei aftur.
Þarna varð páskasamfélagið sýnilegt.
* * *
Ári síðar voru ungu hjónin stödd í Svíþjóð og páskavakan var ekki ein heldur voru þær tvær. Sú fyrri var í Dómkirkjunni og helgihaldið var fallegt og hátíðleikinn mikill. Allt var eins og það átti að vera. Páskavakan hófst laust fyrir miðnættið og að henni lokinni gengu hjónakornin út í nóttina, stigu á reiðhjólin sín – því það hjóla allir stúdentar í Svíþjóð – og þau héldu sem leið lá í litla kirkju í miðju stúdentahverfi. Þar var líka páskavaka sem hafði hafist aðeins síðar og stóð aðeins lengur. Og helgihaldið var fallegt og hátíðleikinn var mikill.
Athöfninni lauk með því að söfnuðurinn allur (og kirkjan var þéttsetin) gekk syngjandi út í nóttina: Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. Upprisusöngurinn ómaði í nóttinni og það var eins og húsin í kring tækju undir þetta fagnaðarhróp og mögnuðu það upp og margfölduðu: Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.
Þarna heyrðist páskaboðskapurinn.
* * *
Kæri söfnuður, mig langar eiginlega að bæta við þriðju kirkjuferðinni. Þeirri sem nú stendur yfir. Því hér erum við saman komin. Við vöknuðum snemma og lögðum land undir fót. Og við komum saman sem söfnuður til biðja og til að fagna, í þjónustu. Og athöfnin öll miðlar helgi og dýrð og gleði páskanna. Helgihaldið dregur boðskapinn fram og miðlar honum áfram.
Við byrjuðum úti, á dýrðarsönginum. Við endum á hallelúja-gleðihrópi í lokasálminum. Og allt stefnir að því sama. Allt miðlar því sama.
Hér verður páskagleðin sýnileg.
* * *
Kæri söfnuður. kirkjuferðir, þar með talið þessar þrjár, birta okkur ákveðna sýn á páskana. Þær birta okkur ákveðna sýn á kirkjuna.
Og hvað segja þær þrjár kirkjuferðir okkur? Á hvað minna þær?
Þær minna á páskasamfélagið, á páskaboðskapinn og á páskagleðina.
Þær minna okkur á fjölbreytileikann, að við eigum sem samfélag að vera opin gagnvart öðrum, taka á móti hinum ókunnugu og fjarlægu. Vera opin gagnvart þeim sem eru öðruvísi.
Þær minna okkur á boðunina, að við eigum sem samfélag – að miðla boðskapnum áfram og – þegar svo ber við – syngja á torgum úti svo að undir taki allt um kring.
Og þær minna okkur á gleðina, að við eigum sem samfélag að einkennast af fögnuði yfir því sem hefur átt sér stað: Guð hefur sigrað dauðann! Fyrir þig!
* * *
„Hann er ekki hér. Hann er upp risinn,“ heyrðu konurnar sem komu til grafarinnar árla morguns.
„Hann er ekki hér. Hann er upp risinn,“ heyrðum við frá altarinu hér áðan.
Hann er upp risinn.
Fögnum því.
Og verum glöð.
Það er boðskapur páskanna. Sem við skulum miðla áfram.
Það er hvatning páskanna. Við skulum boða.
Saman.
Því Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn!
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi. Er og verður um aldir alda. Amen.