Veraldarvafstrið og tækifæri lífsins
Sjálfur er ég ekki mannanna bestur og er vitaskuld á kafi í þessu veraldarvafstri eins og hver annar Íslendingur. Og við erum í óða önn að vinda ofan af þennslunni og ná okkur niður á jörðina. Sumir gera það bókstaflega með því að kynnast jörðinni upp á nýtt og eru farnir að ganga og hjóla meira en þeir aka um á bílum sínum. Þörfin á yfirbótaverki er eins og samofin líking við þessar ytri aðstæður. Við förum yfir lánin og aðgætum hvort við getum endurfjármagnað íbúðakaupin. Við veltum því fyrir okkur hvort við getum sparað bílinn og bensínið eða jafnvel skipt yfir í sparneytnari farkost. Við gætum meira að segja verið að hugsa um breytingu á starfsvettvangi eða erum að endurmeta stöðuna á einhvern hátt. Fjöldi fólks snýr einmitt núna við blaðinu og sest á skólabekk. Það notar efnahagslægðina til að leggja stund á nám sem gefur meiri lífsfyllingu. Þannig láta margir langþráðan drauminn rætast. Sumir höfðu bara ekki haft tíma til þess í allri þenslunni. Trésmíðanemi hefur unnið baki brotnu án þess að hafa haft minnsta tíma aflögu til að klára námið. Hann fer í Iðnskólann í haust og klárar réttindindanámið sitt. Í breyttum högum hans sér hann tækifæri til að bæta lífs sitt til frambúðar.
Að heyra kallið og finna návist Guðs
Þetta er hluti af hugleiðingu minni af því að hér er svo sterk samlíking við það sem þarf að gerast varðandi endurmat á sjálfri lífsafstöðunni. Önnur samlíking er líka þekkt. Ég hef oft verið með fólki sem hefur slasast eða veikst skyndilega og verið þannig kippt út úr hringiðu athafnalífsins. Við slíkar heimsóknir hef ég orðið vitni að því hvernig maðurinn hugsar allt líf sitt algjörlega uppá nýtt. Hann nýtir næðið til að íhuga alvarlegt atvikið sem hann skoðar ef til vill sem áminningu. Það hefur verið kallað á hann og það er ekki fyrr en hann er lagður inn á spítala að hann heyrir kallið. Það er fátt eins merkilegt og upplifa slíka stund með fólki þegar stefnan er tekin á ný og háleitari mið en stefnt hefur verið á í langan tíma. Í lífi flestra hefur bátinn þó aðeins rekið af leið. Taka þarf mið að nýju og leiðrétta driftina. Guð er vitaskuld ekki svo vondur að hann veiti beinlínis áminningar með slysum, plágum eða ágjöfum. Það samrýmist allavega ekki minni kristnu trú. Hitt er vonandi hluti af trúarupplifun flestra að í ágjöfinni er návist Guðs mjög áþreifanleg og hann er ekkert að yfirgefa okkur þar frekar en í atgangi daglegs lífs.
Endurmat á gildi lífsins
Á Jónsmessu erum við minnt á að þessi Drottinn okkar og Frelsari er aftur og aftur að senda sendiboða sína með þau mikilvægu skilaboð að okkur ber að endurnýja skynbragð okkar á hinu heilaga. Á Jónsmessu opnast á vissan hátt hlið milli himins og jarðar og skerpt er á tengingunni milli þess himneska og jarðneska í tilveru mannsins. Við þessi skil verður allur hégómi heimsins augljós og allt hysmið blasir við. Falsið opinberast þegar minnt er á trúfesti Guðs við manninn. Þá er ekki unnt að víkja sér undan því að iðrast. Á nútímalegan hátt er það gert með endurmati og leiðréttingu á kúrsinum sem lífið hefur stjórnast af til þessa. Við þurfum öll á því að halda að komast í nánara samfélag manna og Guðs. Við þurfum að setjast á skólabekk og læra aftur að þekkja Guð og vilja hans. Við þurfum að endurmeta gildi þess lífs sem við höfum þegið úr hendi hans.
Jónsmessa – Kristsmessa
Það er engin tilviljun að Jónsmessa er hálfu ári á undan fæðingarhátíð Jesú Krists, en jólin eru stundum kölluð Kristsmessa. Hann kemur á undan og boðar komu Drottins. Þetta þekkja flestir en ekki nærri því allir þeir sem halda upp á Jónsmessuna með ýmsum tilburðum. Það er ekkert undarlegt að við skulum eiga sagnir og ævintýri og jafnvel drauma á Jónsmessunótt. Það er af því að á þeirri nóttu opnaðist hlið himnaríkis á jörðu á þann hátt að maður var sendur beint frá hásæti almættisins með skýr og afdráttarlaus skilaboð. Þessi beina íhlutun í heim mannsins er guðlegt inngrip í framrás þessa jarðneska lífs. Þess vegna skynjar fólk hina yfirnátturulegu töfra sem kenndir eru við Jónsmessu. En ef við skynjum þessa himnesku vídd í einum degi eða einni nóttu ættum við að kannast við þann boðskap sem Jóhannes skírari flutti. Það var boðskapur iðrunar og endurmats er snúa átti fólki frá slæmum siðum og sinnuleysi gagnvart Guði sínum. Það er boðskapur um að ganga nú með gleði út í sólskinið sem ríkir alla daga á vegi Drottins. Það er vegurinn til lífsins af því að það vegur sannleikans. Er þá orðið stutt í samlíkinguna við það að vera réttu megin í lífinu og fylgja Jesú með allri breytni sinni, hugsun og trú. Það eru ótrúlega margir sem nota ýmis hvörf, einsog þessi, til að bæta líf sitt til frambúðar og öðlast nýjan skilning á tilgangi lífsins. Það eru ekki lítil hvörf.