Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga.Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta? En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra. Filippus svaraði honum: Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt. Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?
Jesús sagði: Látið fólkið setjast niður. Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist. Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu. Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn. Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs. Jh. 6.1-15
Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.
Heilagi faðir. Helga þú oss í sannleikanum. Þitt orð er líf, andi og sannleikur. Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Að vera eins og illa gerður hlutur er í málvenjunni ekki fyrst og fremst ástand eða ásigkomulag heldur tilfinning þess sem er hvorki á réttum stað né á réttri stundu. Þetta er óþægileg tilfinning. Vísast má reikna með því að enginn sækist eftir henni. Viðbragðið er þetta: að láta fara lítið fyrir sér og reyna að láta sig hverfa sem fyrst.
Í dag er miðfasta.
Sumir þekkja sænskan söng sem hljóðar eitthvað á þessa leið í lauslegri þýðingu:
Nú eru jól á ný, og jólin eru allt til páska. Það er þó ekki satt því þar í milli kemur fastan.
Fullyrða má að fastan sé komin í þessa einkennilegu stöðu, eins og illa gerður hlutur milli jóla og páska. Og væri ekki fyrir fermingarnar væri ekki hægt að hafa af henni nokkurn bisniss. Kannski er það líka ástæðan. Fastan er ekki viðskiptahvetjandi, heldur þvert á móti, nema ef fólk vill borða sólþurkaðan saltfisk á föstunni, eins og venja er víða um heim, nema helst í því eina landi í heiminum þar sem finna má mynd af saltfiski á predikunarstóli, en það væri hollt og líka fyrir hagvöxtinn. Hann er góður, en hann er rándýr!
Sannleikurinn er sá að við erum í dálitlum vandræðum með föstuna allavega ef við skoðum hana í almennu samhengi þessara 82 % sem tilheyra Þjóðkirkjunni. Það er ekki hið almenna viðhorf að feta veginn fram með Kristi á leið þjáningarinnar.
Það er eiginlega ekki nema andspænis dauðanum í eigin lífi eða eigin fjölskyldu, þegar við getum ekki lengur horft framhjá, sem við neyðumst til að taka eftir því að lífið er hverfult. Margur lærir þá fyrst að þakka þegar dauðans ógn er gengin hjá. Kannski getur hann þá tekið undir með skáldinu Þorsteini Valdimarssyni:
Ó, undur lífs, er á um skeið að auðnast þeim, sem dauðans beið - að finna gróa gras við il og gleði' í hjarta að vera til. Hve björt og óvænt skuggaskil! (Sb 410)
Hvenær rennur fastan upp í allri sinni ógnartign ef páskar taka við af jólum? Hvar eru þá skuggaskil?
Það segir kannski sína sögu að okkur þykir eðlilegt að halda litlu jólin en höfum fyrir löngu gleymt því að kirkjan var áður vön að kalla miðföstusunnudaginn, daginn í dag, litlu páskana. Í dag eru skuggaskil. Meira að segja virðist sólin vita það, sem skín hér inn um gluggana og fyllir húsið birtu.
Í dag lítur kirkjan upp og horfir fram til páskanna og gleðst. Í samræmi við það er guðspjallið valið. Í miðjum hinu dimmu og döpru áherslum föstunnar birtir yfir á miðföstusunnudeginum. Birtan kemur fram í hinu forna nafni dagsins: Laetare. Það þýðir að gleðjast og fagna.
Gleðjist með Jerúsalem og fagnið yfir henni, allir þér sem elskið hana! Kætist með henni, allir þér sem nú hryggist yfir henni, (Jes.66.10)
Það er rétt að taka fram að þetta er texti frá Jesaja, sjö öldum fyrir Krist, en ekki nýjustu fréttir, þó að svo gæti verið!
Á leiðinni löngu með Jesú Kristi, sem grét yfir Jerúsalem, leiðinni gegnum þjáningu og dauða, megum við ekki missa sjónar á takmarkinu. Kristin trú er ekki dapurleg og gleðivana eins og margur heldur stundum fram, þvert á móti. Takmark kristnilífsins er gleði. Gleði í miklu magni og það meira að segja nú þegar. Ekki bara einhverntíma eftir dauðann.
En djúp gleði sem nær yfir allt, verður ekki til án dauðans. Reynslan af þjáningu og sársauka er hluti af lífi okkar. Aðeins þá þegar við horfumst í augu við hana verður lífið heilt, Þegar alvaran er djúp getur gleðin verið djúp. Þetta er undirstrikað í yfirskrift og minnisversi dagsins:
„Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt“. Jh.12.24
Ég er hér er með hveitikorn. Þessi skál verður fram við dyr þegar þið farið heim á eftir. Takið með ykkur nokkur hveitikorn og setjið í mold þegar heim kemur og leyfið þeim að predika um upprisuna og eilífa lífið, og um Krist sem er brauð lífsins.
Hann var hveitikornið, heilagt lífsins sáð sent til vor að veita vöxt í ást og náð. (Sb.166,v.3)
Hveitikorn. Korn til að baka úr. Korn í brauð.
Það er frásagan um mettunina sem er megin íhugunarefni þessa dags. Við höfum heyrt þessa frásögu áður í annarri mynd. Jóhannes guðspjallamaður segir alltaf öðruvísi frá en hinir guðspjallamennirnir. Til dæmis man hann svo vel eftir því hvað var mikið gras á staðnum. Þar gréri gras við il.
Með því að velja mettunarfrásöguna úr Jóhannesarguðspjalli á miðföstu er verið að undirstrika að þessi frásaga verður ekki skilin nema í samhengi við það sem á eftir fylgir í 6. kaflanum í guðspjalli Jóhannesar. Það er ræða Jesú um brauð lífsins, sem ofan kom frá himni og gefur heiminum líf. Mettunarfrásagan er ekki venjuleg kraftaverka saga. Hún er tákn. Hún er á tungumáli Nýja Testamentisins: σημειον. Þetta er ekki bara atburður til að birta það hver Jesús er. Hann sem mettar af litlu sem vex og margfaldast í höndum hans.
Frásögnin öll byggir á aðferð Jóhannesar. Allt hefur dýpri merkingu. Þetta gerist hinummegin við vatnið, þetta er eyðistaður, í merkingunni óbyggð, eða frjálst víðerni, þarna er fjallið sem Jesús gengur upp á. Það koma þúsundir á staðinn á þeim tíma sem Jesús hafði ætlað að verja með lærisveinunum einum. Það er nákvæm tímasetning. Bæði innri tími og ytri tími. Í nálægð páskahátíðar gyðinga.
Hvert einstakt atriði færir mann nær leyndardómi þessarar fráagnar. Og ekki vantar heldur það sem einkennir stíl Jóhannesar, þ.e.a.s. miskilningur, annað hvort gyðinganna eða lærisveinanna sem hann notar svo til að vísa á hina raunverulegu merkingu. Eins og td. útreikningatilraunir Filippusar. Og svo er það vilji fólksins að gera kraftaverkamanninn að konungi sínum. Að konungi sem uppfyllir óskir þeirra. Messíasarvonin breytist í þann sem gerir þeim lífið auðvelt. Þau telja að þau þurfi þá ekki lengur að afla sér matar sjálf. svo lengi sem hann gengur um á meðal þeirra.
Hinn eiginlegi leyndardómur birtist ekki fyrr en í framhaldi guðspjallsins þegar Jesús bendir á sjálfan sig sem hið lifandi brauð sem Guð gefur frá himni. Og með því að neyta þess öðlumst við hjálpræðið. Í hinni undursamlegu mettun sést hvert er samband föður og sonar (v.57): Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og ég lifi fyrir föðurinn, svo mun sá lifa fyrir mig, sem mig etur.
Allt frá fyrstu tíð hefur kirkjan séð í þessari mettunarfrásögn beinar vísarnir til heilagrar kvöldmáltíðar. Leyndardómur guðsþjónustunnnar er tákn þessarar frásögu. Það er mysterium fidei. En það var texti sem lengi var sunginn eða kallaður fram sem hluti þakkargjörðarinnar og er víða enn og er að koma aftur: Þetta eru orðin: Leyndardómur trúarinnar: Dauða þinn, ó, Drottinn kunngjörum vér, og upprisu þína boðum vér, þar til þú kemur í dýrð.
Það sem frá er sagt í guðspjallinu verður veruleiki í hverri kristinni guðsþjónustu.
Hingað streymir fólkið sem býr við þá sífelldu ógn að hungra á eyðimörk síns eigin lífs, Hér í sakramenti kvöldmáltíðarinnar og í boðun orðsins er brauðið brotið og því útdeilt. Það er brauðið sem ekki minnkar af því að margir neyta heldur margfaldast það í höndum þeirra, af því að sérhver sem tekið hefur við því, meðtekið það í útdeilingunni verður sjálfur að brauði fyrir aðra. Þetta sagði Marteinn Luther.
Einn ágætur ritskýrandi skrifar: Hvaða merkingu ætti það svo sem að hafa fyrir fólk , bæði fyrir stóra og smáa, að segja frá stórkostlegu atviki sem liggur fullkomnlega utan við veruleika þeirra eigin lífs, ef það væri ekki mögulegt að fara með það á þann stað sem einmitt hið sama gerist sem Drottinn í líkingu gefur fyrirheit um og hefur þegar uppfyllt.
Þetta undur munum við sjá hér á eftir, eins og í hverri messu hér í kirkjunni, þegar söfnuðurinn breytist í straum hinna þjónandi handa og fúsu fóta.
Brauð og fiskur eru í myndmáli frumkirkjunnar tákn Krists. Þau eru einnig leynitákn um kristsfæðuna við kvöldmáltíðina, og tákn fyrir söfnuðinn. Gríska orðið fiskur er ichþys, en það eru upphafs bókstafirnir í orðunum Jesús Kristur, Guðs sonur frelsari. Þessvegna er hin undursamlega mettun sem Jóhannesarguðspjall segir frá, tákn eða liking. Kristur seður ekki aðeins af miskunnsemi sinni hið náttúrulega hungur þeirra sem komθ til að hlýða á predikun hans í auðninni, heldur setur hann fram táknmynd leyndardóms starfa sinna og hjálpræðis. Hann er sjálfur næringin sem hann útdeilir lærisveinum sínum á öllum tímum. Þegar hann nærir þau hin mörgu, minnkar þessi fæða ekki, heldur vex hún, þegar margir deila henni með sér.
Um leið og mettunarfrásagan er um raunverulegan mat, líkamlega fæðu, eins og þegar maðurinn sem á degi hverjum tekur til sín nauðsynlega næringu og tengist þar með allri sköpuninni og verður hluttakandi í krafti hinnar náttúrulegu næringar, sem líkami hans styrkist af, tekur hinn trúaði til sín Krists næringuna, líf Krists og allt sem hann gjörir og segir, inn í hugsun sína og veruleika.
Drottinn las þakkarbænina yfir brauðinu og gaf það lærisveinunum, en lærisveinarnir þeim sem sátu og biðu í hópum sínum.
Í dag eins og þá hafa lærisveinar og þjónar Krists það æðsta hlutverk að rétta brauð hins sanna lífs til þeirra sem hungra í auðninni.
Sjá! Hann er brauð og hann er vín. Rís upp og gakk því von ei dvín. Þín græðir Drottinn mein, þið gangið aldrei ein.
Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda um aldir alda. Amen.