En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Lk.2.1-14
Nótt og nýfætt barn. Augu sem sjá óskírt. Önnur af því að þau eru bara rétt búin að opnast fyrir ljósi jarðar hið fyrsta sinn, hin af því að þau eru full af tárum. Þakkartárum. Gleðitárum. Merkilegt hve mörg börn koma í heiminn um nótt.
Þegar augu okkar hvíla á nýfæddu barni skynjum við best hversu óumræðilega mikils virði það er að vera elskuð. Og við skiljum betur en áður hvað Guð á við með elsku sinni til okkar og með sínum elskulega syni þarna í jötunni.
Og hér er jata og hey til að minna okkur á. Og kerti í heyinu. Kerti til að minna á ljós heimsins, Jesús.
Hingað gengum við syngjandi sálminn Nóttin var sú ágæt ein, og sóttum okkur kerti í jötuna og tendruðum ljós af skírnarkertinu. Leyfið ljósinu að loga, eða tendrið það að nýju áður en þið farið héðan og berið það út. Út í heiminn, og inn á heimilin.
Við gengum að jötunni og sáum með innri augum okkar jötuna í Betlehem og Jesúbarnið.
Þarna er hann, eins og hvert annað nýfætt barn, ofurseldur ógnum þessa heims, en þó í fullkomnu trausti til þess öryggis sem foreldrar og ástvinir kunna að veita.
Fæddur í heiminn. Friðarhöfðingi.
Friður jólanna, sem við höfum vonandi öll reynt á þessu kveldi og nú í nótt, er gefinn okkur aftur og aftur á hverjum jólum að nýju, Ekki vegna þess að hann sé aðeins að finna á jólum, heldur vegna þess að okkur hættir til að týna honum.
Við týnum honum vegna þess að við sinnum ekki um að leita hans þar sem hann er, hjá Jesú sjálfum. Við týnum honum vegna þess að löngunin til að vera góð manneskja er of sjaldan jafn sterk aðra daga ársins.
Okkur er öllum gefinn friður á jörðu. Okkur er öllum trúað fyrir honum.
Okkur, sem sitjum ekki í neinum sáttanefndum, eða tökum þátt í stórpólitík heimsins, okkur er líka trúað fyrir honum, vegna þess að friður þarf ekki bara að verða milli þjóða, heldur líka milli einstaklinga, og nákominna, við sama borð.
Það er friður á jörðu, vegna þess að frelsarinn er fæddur. Þar sem hann er þar er friðurinn.
Þar sem enginn friður er, þar er heldur enginn Jesús, ekkert jólabarn.
Það gæti nefnilega verið að þrátt fyrir allan undirbúninginn fyrir þessa hátíð, - þrátt fyrir að allt væri hreinsað og fágað og því öllu ýtt til hliðar sem skyggir á jólahátíðina, væri samt enginn friður.
Það þarf ekki hermenn Ágústusar til að spilla honum, - okkar eigin hugsanir geta valdið því sama.
Þar sem Jesús er, þar er friður.
Kom þú Drottinn Jesús á þessari heilögu nótt með frið þinn inn á heimili okkar og inn í huga okkar og bú þér stað, sem ekkert fær spillt.
Ekki bara konungar þessarar jarðar heldur núorðið börn yfirleitt, fæðast í háreistum sölum, þar sem öryggis er gætt og ekkert skortir og sterk ljós lýsa.
Jesús. Þú fæðist í fjárhúsi og María verður ein að bjarga sér.
Kannski var ekki einu sinni hægt að baða þig almennilega.
Og ljósið var stjörnuskin,og flöktandi eldur.
Jósef og María brutu brauðið sem þau höfðu í nesti og drukku vatn.
Við höfum notið veislumáltíðar á þessari jörð, með ástvinum okkar.
Hér er boðið til annarrar veislu, himneskrar veislu. Í litlum bita brauðs og víns. Undur og stórmerki Guðs eru stundum svo smá og venjuleg.
Máltíðir okkar eru jarðneskar, og yndislegar, fullar af kærleika milli manna.
Máltíð Drottins innsiglar kærleika Guðs til okkar mannanna, og aldrei augljósar en á þessari heilögu nótt, þegar María vaggar barni sínu.