Í kviði fisks

Í kviði fisks

Í teiknimyndinni um Leitina að Nemo er að finna eftirminnilegt atriði. Fiskarnir Marlin og Dory eru á leið til Sidney í Ástralíu (að leita að Nemo syni Marlins) þegar þau eru gleypt af hval. Orðaskipti þeirra í hvalnum endurspegla vanda sem Marlin glímir við í eigin lífi. Dory - sem segist geta talað við hvali - spyr hvalinn hvað sé á seyði.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
16. júní 2004

Og Jónas bað til Drottins Guðs síns í kviði fisksins og sagði: Ég kallaði til Drottins í neyð minni, og hann svaraði mér. Frá skauti Heljar hrópaði ég, og þú heyrðir raust mína. Þú varpaðir mér í djúpið, út í mitt hafið, svo að straumurinn umkringdi mig. Allir boðar þínir og bylgjur gengu yfir mig. Ég hugsaði: Ég er burt rekinn frá augum þínum. Mun ég nokkurn tíma framar líta þitt heilaga musteri? Vötnin luktu um mig og ætluðu að sálga mér, hyldýpið umkringdi mig, höfði mínu var faldað með marhálmi. Ég steig niður að grundvöllum fjallanna, slagbrandar jarðarinnar voru lokaðir á eftir mér að eilífu. Þá færðir þú líf mitt upp úr gröfinni, Drottinn, Guð minn! Þegar sál mín örmagnaðist í mér, þá minntist ég Drottins, og bæn mín kom til þín, í þitt heilaga musteri. Þeir sem dýrka fánýt falsgoð, þeir hafna hjálpræði sínu. En ég vil færa þér fórnir með lofgjörðarsöng. Ég vil greiða það er ég hefi heitið. Hjálpin kemur frá Drottni.

En Drottinn bauð fiskinum að spúa Jónasi upp á þurrt land. Jón 2.1-11

Í teiknimyndinni um Leitina að Nemo er að finna eftirminnilegt atriði. Fiskarnir Marlin og Dory eru á leið til Sidney í Ástralíu (að leita að Nemo syni Marlins) þegar þau eru gleypt af hval. Orðaskipti þeirra í hvalnum endurspegla vanda sem Marlin glímir við í eigin lífi. Dory - sem segist geta talað við hvali - spyr hvalinn hvað sé á seyði. Hún segir svo við Marlin:

Dory: Hann segir okkur að við eigum að fara aftast í hálsinn ... Marlin: Auðvitað - hann ætlar að eta okkur!!! Dory: Nei, hann segir að það sé kominn tími til að sleppa takinu. Marlin: Hvernig getum við verið viss um að okkur hendi ekki eitthvað slæmt? Dory: Við getum það ekki, en við verðum að treysta ...

* * *

Jónasi spámanni var falið það að af Guði að fara til Níníve og prédika mót borginni. Hann var kallaður af Guði, en vildi ekki taka þessari köllun. Það leiddi hann í hvalsmaga. Og þar fær hann að dúsa þrjá daga og þrjár nætur. En atburðarásin sem leiðir hann þangað hefur kennt honum lexíu. Og í hvalnum syngur Jónas þakkarsálm sem er í senn lofgjörð til Guðs og traustsyfirlýsing um að Guð muni vel fyrir sjá:

„Vötnin luktu um mig og ætluðu að sálga mér, hyldýpið umkringdi mig, höfði mínu var faldað með marhálmi [...] Þá færðir þú líf mitt upp úr gröfinni [...] Hjálpin kemur frá Drottni.“

* * *

Dory og Marlin komast úr hvalnum þegar þau treysta því að allt fari vel - þótt þau geti ekki verið viss. Jónas kemst úr hvalnum eftir að hann hefur lært að treysta á Guð og treysta Guði.

Hérna höfum við þá boðskap dagsins: Þegar við höfum sjálf verið gleypt af stórfiski - hvali - og það gerist örugglega einhverju sinni í lífi okkar allra - þá þurfum við að geta treyst á aðra. Fyrst og fremst á Guð, en einnig á þá menn sem þjóna honum í og með lífi sínu.

Ef við kunnum það erum við vel sett, eins og segir í lestri dagsins: „Hjálpin kemur frá Drottni.“ Slík hjálp verður aðeins þegin í trausti og það traust köllum við trú.

Amen.