Ekki er ýkja vinsælt á okkar dögum að minnast á hugtakið synd. Væri þó hollt að dusta rykið af því og gefa gaum. Kristin trú leggur áherslu á að maðurinn er syndugur, manneskjan er syndug í föllnum heimi, það merkir, frásnúin Guði og hinu góða. Við þekkjum öll grundvallarboðorð umhyggju og kærleika, en það dugar ekki til. Í okkur blundar í senn engill og ári, demón og dýrlingur. Hið góða og illa eiga sér bústað í sérhverri sál og hverju hjarta.
Jesús segir dæmisögur til að varpa ljósi á það, svo sem dæmisöguna um illgresið meðal hveitisins. Maður sáði hveiti í akur sinn. Óvinur hans sáði illgresi í akurinn. Það kom í ljós þegar frá leið. Menn vildu rjúka til og rífa burt illgresið, en húsbóndinn neitaði því: „Nei, með því að tína illgresið gætuð þið slitið upp hveitið um leið. Látíð hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði.... þá mun ég segi við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína.“ (Matt.13.24-30) Þarna dregur hann upp mynd af aðstæðum okkar, illgresið og hveitið vaxa saman. Regla og upplausn, blessun og bölvun, siðaður maður og ósiðlegt samfélag eru samofin.
Í lífinu takast á hinn góði vilji skaparans, og illvilji óvinarins, það illa vald og vilji sem vill eyða, spilla, tvístra, menga og deyða. Samt er Guð stöðugt að verki að skapa, leysa og lækna þetta líf. Og Guð þekkir sína. „Hann hveiti sitt þekkir” segir í páskasálminum góða (Sb.149,5). Sérhvert verk til varnar og viðhalds lífinu og Guðs góðu sköpun, allt sem gert til henni til eflingar og lækningar, fyrirgefningar og miskunnsemi, allt sem hamlar gegn óhamingju og dauða, allt sem hlynnir að lífi og eflir hið góða og fagra er verk og áhrif skaparans að skapa og endurleysa. Við erum kölluð til að taka þátt í því verki.
Guð birtir vilja sinn og lögmál í kerfum sköpunarverksins og höfðar til samvisku manna. Konan sem fæðir finnur þegar hvað henni ber að gera sem móðir, lífsaflið knýr hana, afl umhyggju, móðurástar, kærleikans. Í öllu litrófi sköpunarinnar, kynlífi, stjórnmálum, trú, er Guð að tala gegnum lömálið sem ritað er á hjörtu mannanna, með samviskunni sem tekur á móti boðunum, les í táknin, afsakar eða ákærir þau þar til dagur Guðs rennur upp og hann kemur til að dæma (Róm.1.15-16)
Heiminum verður ekki skipt í lið hins góða og illa, þau góðu sem eru okkar megin og hin vondu sem eru á móti okkur. Slík einföldun leiðir alltaf til ófarnaðar. Við erum syndug, frásnúin Guði og hans góð vilja og valdi. Hvað þarf til að varast það og koma í veg fyrir að vald og áhrif hins illa nái undirtökum í mannlífinu? Hér kemur fagnaðarerindið til skjalanna, sem boðar fyrirgefninu syndanna og endurlausn lífsins innan þessa heims. Fagnaðarerindið boðar sigur Jesú Krists yfir synd og dauða og valdi hins illa, og boðar von þess að um síður muni Guð setja vald sitt yfir öllum óvinum sínum og lífsins. Þess vegna er von og framtíð. „Gerið iðrun og trúið fagnaðarerindinu“ segir Jesús (Mark. 1.15). Fagnaðarerindið boðar afl fyrirgefningarinnar.
Í dæmisögunni um Týnda soninn (Lúk. 15.11-32) lýsir Jesús hvað í því felst. Engar aðstæður eru vonlausar, engin útlegð, engin svínastía vonlaus. Maður getur alltaf staðið upp og snúið heim. Og að viðleitni til að láta gott af sér leiða sé aldrei til einskis. Boðskapur fagnaðarerindisins er ekki aðeins fyrirgefning heldur líka endurlausn frá afli dauðans og demóniskra afla sem eru að verki í sögunni og mannlífinu.
Krossfestur og upprisinn Jesús Kristur hefur sigrað Satan og dauðann. Í Kólossubréfinu 2.15 segir: „Hann fletti vopnum tignirnar og völdin......“ Með krossdauða sínum og upprisu hefur Kristur sigrað afl dauðans og hins illa valds í eitt skipti fyrir öll. Þessi sigur er samt ekki augljós öllum. Dauðinn er sigraður, en samt deyr fólk. Syndin er að velli lögð, lausnargjaldið er greitt, samt syndgum við, brjótum boðorðin, afneitum því góða sem við viljum og þráum.
En afl og áhrifamáttur hins góða er að verki. Það birtist okkur í orði Guðs sem vekur, áminnir, kallar til iðrunar. Það birtist í sakramentunum þar sem Guð veitir okkur fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp. Það birtist í góðvild, umhyggju, gæsku og mildi góðs fólks sem vekur og virkjar samviskuna og beinir á veg hins góða.
Jesús er ekki siðavandur móralisti. Víst er hann skorinorður gegn hvers konar spillingu og synd. En hann kemur alltaf fram eins og mildur faðir eða móðir sem elskar barn sitt þótt svo að val þess og ákvörðun sé henni á móti skapi. Guð virðir val mannsins, jafnvel þótt það valdi honum sársauka og sorg. Og föðurfaðmur hans stendur opinn öllum sem snúa við, það er iðrast. Að iðrast er að snúa sér að því, snúa sér til Guðs. Á máli dæmisögunnar um týnda soninn: Fara heim. Sérhver dýrlingur á fortíð og sérhver syndari sér framtíð, það er fagnaðarerindið: fyrirgefning syndanna.