Aðventan er einstakur tími – nálægð jólanna opnar hjörtu okkur og gerir okkur næmari fyrir umhverfi okkar - jafnvel viðkvæmari - og gerir það að verkum að við eigum auðveldara með að sýna samstöðu og samhug með þeim sem eiga um sárt að binda, eða standa af einhverjum ástæðum höllum fæti í samfélaginu. Á aðventunni verðum við vitni að því hvernig fólk tekur höndum saman til að hjálpa þeim sem eru þurfandi og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið jólahátíðarinnar með fjölskyldu og vinum.
Jólaguðspjallið fjallar um fólk sem er staðsett úti á jaðri samfélagsins; um fólk sem er hjálparþurfi; um fólk á flótta; um húsnæðislaust fólk; um fólk í viðkvæmri stöðu; um varnarlausa einstaklinga sem leita skjóls; um verðandi foreldra er leitast við að undirbúa fæðingu barnsins sem er væntanlegt á hverri stundu. Þarna er fátækt fólk; fólk sem nýtur lítillar virðingar í samfélaginu og vinnur verk sem gefur lítið í aðra hönd og litla von um að geta unnið sig upp úr gryfju fátæktar og öryggisleysis sem fátæktinni fylgir.
Það er fátt sem er umkomulausara, viðkvæmara og varnarlausara en nýfætt barn. Það bara liggur þarna - fullkomlega háð því að aðrir sinni um það – sjái til þess að það fái það sem það þarfnast. Það er ekkert sjálfsagt við það að barnið nái að dafna og þroskast og verða fært um að sjá um sig sjálft. Það er heldur ekkert sjálfsagt að þau sem minna mega sín í samfélagi okkar nái að fóta sig á ný; að þau öðlist kjark og kraft til þess að sjá um sig sjálf; að þau sem brotið hefur verið gegn læri að treysta umhverfi sínu á nýjan leik.
Umræðan á þessari aðventu hefur litast mjög af þeirri kröfu sem sett hefur verið fram á síðustu mánuðum af konum úr hinum ýmsu hópum samfélagsins um að sannleikurinn um kynferðislega áreitni, kynferðislega misnotkun og kynferðislegt ofbeldi fái að koma fram í dagsljósið. Krafan var sett fram í íslensku samfélagi á síðasta sumri í átakinu „höfum hátt“ í tengslum við umræðuna um uppreist æru dæmdra kynferðisbrotamanna. Í kjölfarið fylgdi „me too“ eða „ég líka“ gjörningurinn. Vegna samstöðunnar hafa þolendur öðlast kjark og kraft til þess að stíga fram og segja sögu sína. Samstaðan sem hefur verið svo áberandi í kringum „höfum hátt“ og „me too“ hreyfingarnar, er ekki aðeins samstaða þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á yfirgangi og ofbeldi, heldur einnig hinna sem hafa tekið sér stöðu við hlið þolendanna og tekið undir kröfu þeirra um breytingar – um hina afgerandi kröfu um „hingað og ekki lengra“!
Sú samstaða sem við höfum orðið vitni að hér á landi og í hinu alþjóðlega samhengi hefur fyrst og síðast snúist um gildi sannleikans og kjark til að rísa upp og vitna um sannleikann. Hér á altarinu í kapellu Háskóla Íslands stendur skrifað: „Sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ Það eru sannarlega orð sem tala sterkt inn í umræðuna í dag. Margar konur tala um að hafa verið eins og fangar, ófrjálsar og heftar, á meðan þær treystu sér ekki til, eða sáu sér ekki fært að stíga fram og vitna um sannleikann.
Barnið í jötunni í jólafrásögunni er tákn um hið veika og varnarlausa á meðal okkar. Þær konur sem hafa valið að stíga fram og segja sögu sína af ofbeldi og áreiti hafa upplifað veikleika og varnarleysi sem fram að þessu hefur komið í veg fyrir að þær ryfu þögnina og afhjúpuðu óréttlætið sem þær hafa orðið fyrir. Foreldrar litla barnsins í jötunni veittu því þá vernd og það öryggi sem það þurfti til að fá að dafna og þroskast. Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra að slá skjaldborg um þær konur sem hafa ákveðið að segja sannleikann.
Það er gömul saga og ný að sannleikurinn er hvorki sjálfgefinn né sjálfsagður. Alltof oft á sannleikurinn í vök að verjast. En góðu fréttirnar eru eftir sem áður þær að sannleikurinn mun gera okkur frjáls! Áhrif samstöðunnar með þeim sem hafa stigið fram hafa verið mikil og nánast áþreifanleg. Hvort þau áhrif verða til frambúðar, hvort sú siðbót sem nú er kallað eftir verður að veruleika, fer eftir því hvort við, ég og þú, stöndum undir þeirri ábyrgð sem kallað er eftir. Það er okkar að svara því hvort að tími sannleikans sé raunverulega runninn upp, eða hvort við séum aðeins að sjá forsmekkinn af því hvað sannleikurinn er fær um að gera.
Megi hátíð ljóss og friðar hjálpa okkur að skynja mátt sannleikans og frelsið sem hann færir okkur!
Hugvekja á jólasöngvum fyrir starfsfólk Háskóla Íslands, 19. desember 2017