Fyrir því læt ég ekki hugfallast. Jafnvel þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður. Þrenging mín er skammvinn og léttbær og aflar mér eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Ég horfi ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilega eilíft. 2Kor 4.16-18
Það eru tímamót í árinu.
Í fleiri en einni merkingu. Fyrir tveimur vikum fögnuðum við sumri. Grasið grænkar dag frá degi og trén bruma og í beðunum spretta upp plöntur. Um alla borg er líka fólk að hjóla og innan skamms fyllast gangstéttirnar niðri í bæ af brosmildu fólki með sólgleraugu.
Það eru tímamót í samfélaginu.
Í gær gerðum við hlé á daglegu amstri og hugleiddum það okkar með verkafólkinu í landinu. Beindum sjónum að því sem þarf að bæta, að kjörum, aðstöðu, skiptingu gæðana í samfélaginu okkar. Hruninu. Og við ætlum líka að kjósa okkur forseta á næstunni.
Það eru tímamót í kirkjunni.
Frá síðustu viku höfum við fagnað nýjum biskupi á Íslandi. Fyrstu konunni í röð rúmlega eitt hundrað biskupa. Hún er annar nýi biskupinn okkar á tæpu ári og innan mánaðar munum við hafa eignast þann þriðja. Og við erum bjartsýn um að það sé von á góðu í þjóðkirkjunni sem er okkur svo kær.
* * *
Kæri söfnuður. Ég ætla að leyfa mér að vera svolítið ósammála nálgun Páls í morgunlestri dagsins. Hann talar um dýrðina sem er ekki hér, um það sem er eilíft og ósýnilegt. Hann beinir sjónum að framtíðinni. En mig langar til þess að við þessi tímamót séum við ekki upptekin af því sem koma skal – einhvern tímann – heldur af því sem er. Af því sem er áþreifanlegt.
Nú eru gleðidagar.
Tíminn sem tekur við af föstunni. Tíminn þegar við íhugum ekki bara það góða heldur leyfum því að móta lífið allt. Horfum með gleraugum gæsku og vonar á samfélagið allt. Þess vegna gleðjumst við yfir vorinu og komandi sumri. Þess vegna væntum við réttlætis og sanngirni í samfélaginu og þess vegna erum við vissum að gott er í vændum í kirkjunni.
Nú er ekki tíminn til að vera upptekin af fortíðinni. Nú er ekki heldur tíminn til að vera upptekin af framtíðinni. Nú er tími samtíðarinnar. Og hún er góð.
Guð gefi ykkur góðan dag. Guð gefur ykkur góðan dag. Þiggjum hann og þjónum náunganum.