Eitt kvöld fyrir skömmu

Eitt kvöld fyrir skömmu

Hvað er það sem ekki líður undir lok? Það er fregnin sem drengurinn litli fékk að heyra hjá föður sínum kvöldið sem heimurinn hrundi. Sú góða reynsla að vera ekki látinn einn eftir í hrynjandi veröld, heldur sé maður leitaður uppi og sá sem elskar mann mest og maður þarfnast helst af öllum sest hjá manni til þess að strjúka hár manns og segja manni söguna aftur og betur.

Það gerðist eitt kvöld fyrir skömmu í húsi einu hér í austurbæ Reykjavíkur að heimurin hrundi í lífi átta ára drengs. Manstu hvernig slíkt gat gerst, og getur svo sem enn? Þegar maður er átta ára er veröldin bara svo björt og lofandi og sálin manns trúir því að lífið sé töfraheimur. Með miklum rétti má segja að veröld barns sé töfraveröld og það er sárt og háskalegt þegar töfraveraldir hrynja. En veraldir eru nú einu sinni þannig saman settar að þær hrynja. Allar veraldir hrynja einhvern tímann. Það eru forn sannindi og ný sem guðspjall dagsins tjáir að himinn og jörð líði undir lok. Og þegar það gerist og maður er átta ára þá fer maður helst inn í herbergið sitt og skríður undir sæng. Þar er einna skást að þrauka heimsendi þegar hann skellur á.

Já, þetta örlaga kvöld fyrir um viku síðan, um það bil er flestir borgarbúar voru að næra sig á laugardagskvöldi eða sestir framan við sjónvarpið að sjá eitthvað skemmtilegt, stöðvaðist gangur tilverunnar í lífi þessa unga pilts svo hann flúði á náðir sængurinnar sinnar og rúmsins, grátandi.  „Þegar hann var búinn að gráta einn inni í herbergi svolitla stund, fór ég inn til hans” sagði faðir hans mér í vikunni sem leið.  Ég settist á rúmstokkinn hjá honum og strauk drengnum mínum um kollinn á meðan gráturinn sefaðist. Svo sagði ég honum söguna af því þegar hann fæddist, - hann elskar að heyra þá sögu. Ég sagði honum hvað við mamma hans vorum glöð að fá hann, hvað hann hefði verið fallegur og strax svo líkur mér. Og hvað ég hefði verið stoltur af honum og væri það enn. Ég sagði honum frá því þegar við komum heim af fæðingardeildinni og hvernig allt var þá.” 

Ég fór að hugsa það eftir samtal mitt og þessa góða föður sem kann að hugga börnin sín, hve undarleg tengsl eru í lífi okkar á milli heimsendis og upphafs lífsins. Þegar heimurinn  ætlar að hrynja eru engar sögur betri en fæðingarfrásagnir. Kannt þú þína sögu? Var þér sagt hvernig þér var tekið, hvernig allt var daginn sem þú fæddist og fyrstu dagana á eftir? Hvað fólkið í lífinu þínu var að hugsa, hvernig því leið og hvaða merkingu fæðing þín hafði fyrir veröldina? 

Í dag er annar sunnudagur í aðventu. Fæðing frelsarans nálgast, og hvað er til umræðu í guðspjalli dagsins?  Nú, heimsendir. Hvað annað? 

„Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný.” Segir Jesús „Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast.” Í bjarma jólaljósanna, þegar hátíð fæðingarinnar nálgast, vogum við að taka pottlok óttans af sálartetrinu og íhuga þetta sem er verst og óttalegast af öllu, heimsendi.  - “Himinn og jörð munu líða undir lok!” segir Jesús í niðurlagi guðspjallsins. “Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.”  (Lúk 21.25-33)

En er það nokkur frétt að himinn og jörð muni hverfa? Sé að því gáð má í rauninni segja að það sé það eina sem við vitum fyrir víst, að við lifum í einhvers konar seigfljótandi veröld þar sem ekkert stendur kyrrt. Það vissu grísku frumspekingarnir og þekktust eru orð Heraklitosar sem uppi var var á 5. – 6. öld fyrir Krist og hjóða svo: Panta hrei. Allt hreyfist.  Ekkert stendur kyrrt. Nei, heimsendir er engin frétt. Bara bláköld staðreynd. Og hvert sinn sem við stígum fæti inn í kirkjuskip erum við á það minnt. Við þröskuld helgdómsins hugsum við til fæðingar okkar og þegar við horfum upp að altarinu hugsum við til dauðans sem bíður allra. Kirkjuólfið er svona hugsuð tímalína, táknræn fyrir þau fáu skref sem við eigum í þessum heimi uns veröld okkar líður undir lok. Faðirinn sem settist á rúmstokkinn hjá drengnum sínum kom til að boða fögnuð Guðs ríkis. Færa drengnum sínum nærveru og lyfta fram merkingunni í tilveru hans. Ég sat í gær til borðs með eldri konu og sagði við hana: - Já nú eru liðin tvö ár frá því maðurinn þinn dó. - Nei, það eru fjögur ár síðan, svaraði konan og horfði skilningsrík á mig og mér leið eins og tíminn þyti við hlustir mínar. ...Tvö ár, fjögur ár, ...fjörutíu ár líða eins og andvarp og maður horfir á samferðamenn sína verða að rosknu fólki. Panta hrei – Allt hreyfist, ekkert stendur kyrrt. Bílar ryðga, skallar og ungviði stækka, borgir breytast og tilveran öll er á hverfandi hveli. M.a.s. tungmálið er ekki lengur eins og það var. Sjálf tungan þróast. Dag einn er allt sem við sögðum óskiljanlegt þeim sem tala og hlusta.

„Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.” Mælir Jesús. Hver eru þau orð? Hvað er það sem ekki líður undir lok? Það er fregnin sem drengurinn litli fékk að heyra hjá föður sínum kvöldið sem heimurinn hrundi. Sú góða reynsla að vera ekki látinn einn eftir í hrynjandi veröld, heldur sé maður leitaður uppi og sá sem elskar mann mest og maður þarfnast helst af öllum sest hjá manni til þess að strjúka hár manns og segja manni söguna aftur og betur. Söguna sem staðfestir að í uphafi alls var ást og gleði og feginleiki yfir lífinu. Og í þeirri sögu ert þú, elskað barn. Þess vegna verður m.a.s. heimsendir bærilegur og ástæða til þess að rétta úr sér og bera höfuðið hátt vitandi að lausnin er í nánd. Já, lausnin er í nánd. Lausn okkar. Drengurinn litli sem ég sagði ykkur frá ber þungan harm í litlu hjarta sem ég hef ekki umboð til að tala um. Upp á hans bernsku himinn hafa hrannast óveðursský og þjáning hans er enginn barnaleikur. Ef unnt væri að mæla mannlega þjáningu þá held ég að barnssálir þjáist mest og ákafast í þessum heimi. Þess vegna held ég líka að Guð hafi fæðst sem barn. Barn í ósanngjörnum aðstæðum þar sem dauðinn vofði yfir lífi hans frá fyrstu stundu. Ætli hann Jósef hafi ekki sagt Jesú söguna af fæðingu hans upp aftur og aftur eins og faðirinn góði segir sínum sorgmædda litla dreng söguna sína til þess að færa honum huggun og tilgang og von. Fæðingarsaga Jesú er í aðra röndina sagan um fæðingu okkar allra og áminning um það hve dýrmætt lífið er í varnarleysi sínu. Dýrmætt og máttugt í senn. Í henni sjáum við hvernig fólk, venjulegt fólk eins og ég og þú í óvissu og ótta, fer að því að rétta úr sér og bera höfuðið hátt því  það þekkir gjafara allra góðra hluta og veit innst og dýpst að lausnin er í nánd. Nú kemur heimsins hjálparráð, helgasta líf í duftið sáð. Soninn Guðs eina, sannan mann, sælust María fæða vann.

Ljómar nú jata lausnarans, ljósið gefur oss nóttin hans. Ekkert myrkur það kefja kann, kristin trú býr við ljóma þann.

Amen.