Grímulaust ár

Grímulaust ár

Það er engin tilfinningarleg ábyrgð, engin virðing, engin heiðarleg orð. Á bak við símann þinn ertu nefnilega Guð, hefur allt í höndum þér. Þar sem þú ert skapari og hönnuður að þínu litla lífi og þar sem þínar reglur gilda. Þar sem þú ert skapari og hönnuður að þínu litla lífi og þar sem þínar reglur gilda. Þar er allt leyfilegt, þú mátt allt og þarft aldrei að horfast í augu við þau/þá sem þú ert að særa eða meiða.
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
03. janúar 2023
Flokkar

Það eru enn ein áramótin. Þau eru víst jafn óumflýjanleg og það að borga skatta og taka lýsi beint úr skeið þegar við erum börn, sem nota bene framkallar enn þann dag í dag ákveðin líkamleg viðbrögð hjá mér við tilhugsunina eina, skatturinn gerir það reyndar líka. En ég ætla ekki að ræða hér í kvöld um lýsi og skatta.


Áramót eru alltaf ákveðin tímamót hjá okkur öllum. Þau eru tækifæri til að líta yfir farinn veg um leið og þau minna okkur á að tíminn líður, í sínum reglubundna takti og það er ekkert sem við fáum gert eða breytt sem stöðvar tímans rás.


Já, þessi tími. Mér er svo oft hugsað til þess hvort að ég sé að nýta tímann minn til fulls, hugsanlega eitthvað sem gerist með auknum aldri og vonandi þroska.


Tíminn bara líður einhvern veginn áfram, örlítið eins og óð fluga.


Ég man eftir þegar ég var lítil og mér fannst ég hafa allan tíma í heiminum. Föstudagurinn langi var heiðarlega langur. Ég sé mig fyrir mér heima í stofu í Hraunbænum þar sem ég bjó þá og bara að bíða. Þá var ekki barnaefni í sjónvarpinu, ekkert net, ekki Netflix eða leikjatölvur. Bara bið. Ekki mátti spila, helst ekki brosa.


Í dag er enginn dagur langur, mér finnst ég alltaf vera að fara að sofa. Og dagarnir líða.


Hver dagur er sannarlega ekki þúsund ár, alla vega ekki í raunheimum heldur örskot, sekúnda, andartak og allt í einu er allt liðið hjá.


Á hverjum degi eru sögð orð, samskipti sem fara úrskeiðis, eða sem eru bætt. Koss á enni þegar þú legst á koddann eða tár sem rennur í hljóðri bæn um eitthvað betra, eitthvað annað, draum sem þú vilt að rætist.


Ég verð að viðurkenna eitt hér,  en þegar ég settist niður að skrifa þessa ræðu fann ég að það er einhvern veginn ekki auðvelt að skoða þetta ár í einhverju línulegu samhengi. Ég bara fæ einhvern veginn ekki eina heildstæða mynd út úr þessi ári, sama hvað ég reyni.


Mér finnst það einhvern veginn hafa verið alls konar og engan veginn og ég veit ekkert hvort að það sé einhver brú í þeirri hugsun minni.


Ég sé bara að svo miklu leiti mikla umróta tíma, bæði í samfélaginu öllu og á einkasviðinu.


Ég veit að þetta er árið sem við stigum út úr Covid, takmörkunum sem við erum búin að þekkja í tvö ár á undan. Það voru væntingar og tilhlökkun að fá loksins að lifa raunverulegu lífi á ný en samt finnst mér stundum svo mikil aftenging í gangi í samfélaginu. Svolítið eins og við vitum ekki alveg hvað við eigum að gera við þetta frelsi sem við fengum á ný og hvernig við eigum að höndla það.


Félagsleg einangrun og samskiptaleysi í langan tíma er engu okkar hollt en þetta var það sem samt skapaði okkur öryggi og ákveðið skjól. Alla vega veitég og er hér að tala fyrir vin, að hún hentaði introvertum afar vel.


Þegar ég horfi yfir samfélagssviðið sé ég líka svo mikla reiði, mér finnst við oft svo full af reiði, reiði í garð náungans, reiði vegna eigin hlutskiptis, bara almenn innibyrgð reiði og reiðin í dag á sér einhvern veginn engan heilbriðan farveg, hún brýst út á svo annarlegan og undarlegan hátt.


Aukið ofbeldi, ömurleg orðræða á netinu, morð eru að verða mánaðarleg frétt, heimilisofbeldi eykst, einelti skólabarna og biskup Íslands má ekki nefna lengur að orðræða um trú og Guð hafi verið úthýst út af hinu opinbera sviði án þess að vera ásökuð netmiðlum um græðgi Þjóðkirkjunnar. Hugsanlega hefur hún þó mikið til síns máls?


Það er allt einhvern veginn gagnrýnt og tekið niður og í þannig umhverfi þrífst þöggun, því hver þorir að tjá sig, þegar öllu sem þú segir er mætt með reiði, vonsku og gremju.


Það er engin uppbygging, engin jákvæð uppbyggileg samskipti og orðræða. Og við blasir glansmyndin á samfélagsmiðlum og netmiðlarnir birta okkur vikulega fréttadálkinn “Vikan á Instagram” þar sem við fáum innsýn inn í það líf og það útlit sem á að skapa hina sönnu hamingju. Hvaða merkjum þú átt að klæðast í vetur til að vera gjaldgeng. Balenciaga trefill og Gucci veski eru staðalbúnaður. Ef þetta er ekki til, má þá alltaf skella í mynd af bossanum í litlu bikini til að fá athyglina sem þú þráir svo sterkt.


Ég velti oft fyrir mér hvernig við urðum svona týnd. Af hverju við erum orðin svona óttaslegin við hvert annað,  en um leið full af öfund, af  hverju allt sem sagt er og gert, er litið gagnrýnum augum eða talin persónuleg árás.


Af hverju heilu fjölsklyldurnar sundrast út af samskiptavanda og það er ekki lengur hægt að fylgja nánum aðstandanda til grafar án þess að fólk fari að rífast og sé ekki sammála um framkvæmd eða tilhögun á hinni hinnstu kveðju.


Og eftir sitja allir í sárum og vita ekki hvernig á að takast á við allar þessar tilfinningar sem hlaðast upp innra með okkur eins og kvikusöfnun á Reykjanesinu og engin getur spáð fyrir um hvenær gýs næst.


Og ofan á þetta, þorum við ekki lengur að vera veik, vegna þess að landsspítalinn er alltaf á heljarþröm, reglulega birtast fréttir af yfirfullri bráðamóttöku, undirmönnun og yfirþreytt starfsfólk að reyna sitt allra besta miðað þær aðstæður sem þeim er boðið upp á og eiga ekkert nema hrós skilið.  


Við komumst ekki að hjá geðlæknum með vandann okkar, biðin eru ár, sálfræðingar eru yfirbókaðir og ekki allir sem hafa efni á að sækja sér slíka þjónustu og ómeðhöndlaðir geðsjúkdómar, kvíði og þunglyndi er orðið norm frekar en undantekning.


Og fólk verður sífellt aftengdara og aftengdara. Það að sýna tilfinningar er runnið út á tíma. Manneskjur eru orðnar skiptimynt á netmiðlum. Ekkert er einfaldara í dag en að redda sér nýjum félaga. Þú bara svæpar til hægri eða vinstri og velur. Og þegar þú ert orðin þreytt á nýjasta viðfanginu, lokaru bara á og heldur áfram að svæpa til hægri eða vinstri. Alltaf sama hringrásin þar sem skuldbinding er of gamaldags, því þú gætir verið að missa af einhverju betra.


Það er engin tilfinningarleg ábyrgð, engin virðing, engin heiðarleg orð. Á bak við símann þinn ertu nefnilega Guð, hefur allt í höndum þér. Þar sem þú ert skapari og hönnuður að þínu litla lífi og þar sem þínar reglur gilda. Þar er allt leyfilegt, þú mátt allt og þarft aldrei að horfast í augu við þau/þá sem þú ert að særa eða meiða.


Og samfélagið verður aftengdara og aftengdara kjarnanum, því sem gerir það heilt og því sem skapar raunveruleg gæði fyrir okkur öll sem heild. Ekki bara okkur sjálf sem persónur í leikriti sem við erum að leikstýra sjálf á hverjum degi.


Og bak við tjöldin ríkir fullkominn ótti við að gríman falli og fólk sjái þig eins og þú raunverulega ert. Og Guð forði okkur frá raunveruleikanum, sem er stundum hrár og stundum ljótur en samt raunverulegur.


Nú má ekki misskilja mig. Ég er mikil stuðningskona þess að fólk sé með sjálfræði yfir eigin lífi og ákvörðunum og við eigum að gera það sem við getum til að skapa okkar eigin hamingju og velsæld í lífinu.


En hvenær erum við hamingjusömust. Ef þú sem ert hér í dag, hugsar raunverulega um það, stundarkorn, framkallar í hugann mynd af því hvenær þú varst rauverulega hamingjusöm eða samur. Hvaða aðstæður voru, hver var þér við hlið. Hvað varstu að gera sem skapaði þessa hamingju og vellíðunar tilfinningu þess efnis að allt færi á endanum vel . þú hafðir von í hjarta, kærleika í brjósti og bollinn þinn var ekki alltaf hálftómur og þú að gefa af skorti þínum, heldur af yfirflæðinu vegna þess að þú lifir þannig að þú kannt að gefa af þér og taka við kærleika og ást. Jafnvel einstaka sinnum uppbyggilegri gagnrýni án þess að taka hana persónulega eða fara í fýlu.


Það er ekki ætlun mín hér í kvöld að drepa alla úr bölsýni.


Það er mikilvægt að hafa í huga koma jólanna og jólaboðskapurinn sem við erum nýbúin að fá að heyra hér í kirkjunni á aðfangadegi, kennir okkur og sýnir okkur að við jötuna í Betlhem mætast himinn og jörð og þar er kveikt á ljósi fyrir þig, þar sem allt í veröldinni verður eitt. Þar verður allt breytt. Allt sem þú hefur misst, allt sem þú syrgir, allt sem þig skortir, öll þín gleði og hamingja, allar þínar langanir sem þú telur að aldrei verði uppfylltar, að staðan sem þú ert í verði alltaf óbreytanleg.


Hvernig væri að taka ákvörðun um að kveikja ljós líka og lifa! Ég veit að okkur skortir svo margt, ekki veraldlega heldur andlega og líkamlega. Þú hefur þarfir sem þú orðar aldrei af ótta við höfnun. Lengi tók enginn utan um þig af ótta við covid, þú tókst ekki einu sinni í höndina á náunganum. Mannleg snerting var tekin frá þér. Og eftir sast þú ein eftir með þrána og langanirnar.


Mundu þetta að Guð sér þig eins og þú ert. Þegar þú ert sorgmædd, leið, kvíðin, reið, gröm, áhyggjufull að þá er Guð þar, hvíslar að þér: "Þú ert það dýrmætasta sem ég á, þú ert ég, þín ábyrgð er mín ábyrgð, allt sem þú snertir, snerti ég, allt sem þú elskar, elska ég, allt sem þú missir og syrgir, syrgi ég og missi og vernda alla tíð undir mínum vængjum. Ég elska þig segir Guð. Ég elska allt sem þú ert. Allt sem þú finnur og snertir. Allt sem þú gerir og allt sem þú vilt verða. Allt sem gæti orðið en þú þorir ekki að láta af verða."


Já, himinn og jörð þar sem allt verður eitt. Þú mátt trúa, þú mátt hafa von um að það sé eitthvað annað og meira í þessu lífi en við sjálf. Þú þarft ekki alltaf að treysta eingöngu á sjálfan þig. Þú mátt tala við Guð og um Guð, þú mátt raungera nærveru hans í þínu lífi. Þó að þér finnst allt mæla gegn því að hann sé til og hann vaki yfir þér.  


Þú mátt trúa að þú sért ekki ein eða einn á ferð í þessu lífi. Guð birtist alls staðar, hann er í umhverfinu okkar, í kærleikanum, alls staðar þar sem fólk kemur saman og reynir sitt besta miðað við þær aðstæður sem það hefur. Þar sem fólk þorir að vera grímulaust og að takast á við raunveruleikann og tímann samann.


Guð er í grunninum sem þú stendur á og í kjarnanum innra með þér og þráir ekkert meira en að þú finnir og sjáir að þú sért mikilvæg og dýrmæt manneskja sem átt allt það besta skilið í þessu lífi.


Já góður Guð gefi að við gefumst aldrei upp, við sáum í góða jörð, okkur öllum og þeim sem standa okkur næst til heilla og blessunar og góður Guð gefi að við uppskerum ríkulega á nýju ári í kærleiksríkum samskiptum, við lærum að finna tilfinningum okkar farveg og um fram allt sýnum okkur þá sjálfsmildi sem við eigum skilið og látum ekki undan kröfuhörðum stöðlum nútíma samfélags sem brjóta niður frekar en byggja upp. Árið 2023 gerum við þetta á okkar hraða og út frá því sem við teljum mikilvægast og sem samræmist okkar gildismati og trú. Að við lifum þannig í sannleika og heiðarleika gagnvart okkur sjálfum og náunganum.


Hvernig væri að prófa að fella grímuna á nýju ári og raunverulega lifa?  


Guð gefi okkur öllum gleðilegt ár, 2023.