Í baráttu yðar við syndina hafið þér ekki enn þá staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið. Og þér hafið gleymt áminningunni, sem ávarpar yður eins og syni: Sonur minn, lítilsvirð ekki hirtingu Drottins, og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig. Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og hirtir harðlega hvern þann son, er hann að sér tekur.Þolið aga. Guð fer með yður eins og syni. Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar?
En séuð þér án aga, sem allir hafa fyrir orðið, þá eruð þér þrælbornir og ekki synir. Enn er það, að vér bjuggum við aga jarðneskra feðra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum vér þá ekki miklu fremur vera undirgefnir föður andanna og lifa?
Feður vorir öguðu oss um fáa daga, eftir því sem þeim leist, en oss til gagns agar hann oss, svo að vér fáum hlutdeild í heilagleika hans. Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis. (Heb 12.4-11)
Þessi texti er um viðbrögð okkar við mótlæti og þrautseigju í þrengingum. Á hnitmiðaðan hátt minnir hann okkur á þá augljósu staðreynd að lífið er erfitt og getur farið um okkur ómjúkum höndum. Mennirnir missa, elska, gráta og sakna kvað Jóhann Sigurjónsson í vögguvísu sinni og bað þess að unginn mætti sofa sem lengst til að verða síður fyrir mæðunni sem bíður allra manna. Texti Hebreabréfsins talar til þeirra sem í mótlætinu velta því fyrir sér hvers vegna Guð leyfi allt það illa og erfiða sem við þurfum að ganga í gegnum. Hvernig stendur á því að jafnvel góðar manneskjur sem ganga á Guðs vegum upplifa erfiðleika og hryggð? Hvernig geta þær komið því heim og saman að Guð sem er góður leyfi allt það erfiða og vonda?
Textinn svarar þessum stóru spurningum ekki. En hann stappar stálinu í þau sem gætu verið að missa móðinn og missa trúna á að þau eigi nokkuð gott í vændum. Hann minnir á að þótt eitthvað geti virst óbærilegt í augnablikinu þá eru þau sem setja traust sitt á Guð í öruggri hendi hans. Eins og börn í umsjón ástríkra og ábyrgra foreldra. Þessi áminning er ekki sett fram til að gera lítið úr upplifunum fólks á erfiðleika- og hryggðartímum – þvert á móti þá eru þrengingar lífsins dauðans alvara og afar raunverulegar. Mótlæti er aldrei gleðiefni, heldur hryggðar. Þess vegna er ómögulegt að segja við þau sem þjást og spyrja sig áleitinna spurninga um tilgang þess sem þau eru að ganga í gegnum að þau muni vissulega upplifa eitthvað gott vegna þess hvað þau eiga erfitt núna.
Hins vegar geta þau sem finna sig einangruð og afskipt í þrengingunum verið viss um að þau eru elskuð af Guði sem er trúfastur og gleymir engum. Að upplifa erfiðleika í samskiptum og sambandi við annan þýðir ekki að við séum gefin upp á bátinn. Samband sem er byggt á trausti og ást er sterkara tímabundnum ágjöfum og persónulegu mótlæti.
Og þversögn lífsins er að þrátt fyrir erfiðleika og mótlæti lærum við á því að takast á við lífið í trú á að við erum elskuð. Agi gefur þeim sem við hann hafa tamist ávöxt friðar og réttlætis. Og andlegur agi sem við getum lært að nýta okkur til að vaxa og þroskast í trúnni gefur hlutdeild í heilagleika Guðs. Það er agi sem vert er að sækjast eftir – látum vera með sjálfsaga sem beinist að því að takmarka súkkulaðiinntöku og hámarka kraftgöngur.
Markmið okkar sem kristnar manneskjur á að vera að nærast í samfélaginu við Krist í gegnum orð og sakramenti. Þaðan drögum við okkar sjálfsmynd og þangað sækjum við okkar styrk í mótlæti og þrengingum.
Flutt í árdegismessu í Hallgrímskirkju 8. október 2003.