Tími kirkjuársins frá hvítasunnu og til aðventu kallast oft hátíðalausa tímabilið. Það er þá sem reynir á í trúarlífi og iðkun kirkjunnar. Engin sérstök tilefni til guðsþjónustu og tilbreytni, aðeins sunnudagurinn einn.
Kristin trú og kirkja fer ekki í sumarfrí. Trú okkar er ekki tyllidagatrú, ekki hátíðapunt, heldur hversdagstrú. þjóðkirkjan er að starfi vegna þess að Kristur er á ferð og mælir sér móts við mannanna börn. Og að hverju leitar hann? Hann leitar að trú. Að trú sem starfar í kærleika. Trú sem elskar Guð og náungann, biður, vonar, elskar.
„Mun mannssonurinn finna trúna á jörðu þegar hann kemur?“ Spurði Kristur eitt sinn. Það er sársauki og undrun í þeirri spurningu.
Við skulum vera jákvætt svar við þeirri spurn. Og við skulum leitast við að vera þar sem Kristur mælir sér móts við okkur, í bæninni, í orði nýja testamentisins, við altarið, í þjónustunni við þau sem hann kallar sín minnstu systkin, í trúnni, voninni og kærleikanum.
Guð blessi þér sumarið og birtu þess, og gefi þér vöxt og þroska í trú.
Friður í kirkju og frelsi guðlegt ríki, friður í landi, heift og sundrung víki, friður í hjarta færi sumargróður, faðir vor góður! (Fr.Fr. Sb.336)