Sjokkerandi

Sjokkerandi

Annars vegar græðgi - en hins vegar opin vitund. Annars vegar ótrúlegur afli til dauða - en hins vegar ótrúlegur afli til lífs. Tvær mokveiðisögur en hvað svo?

Veiðitímabilið er hafið í ám landsins. Kannski verður mokfiskað einhvers staðar? Nokkrir ofurfiskar munu nást en hver verður besti aflinn? Boðskapur dagsins varðar fisk og líf. Fyrst er það íslensk veiðisaga, síðan önnur mokveiðisaga og svo upplyftingin um okkur, nánast í anda þýska heimspekingsins Hegel!

Skötutjörn Íslenska sagan er frá Þingvöllum. Skammt austan við kirkjuna er afar falleg tjörn og gjá í henni miðri. Tjörnin heitir Skötutjörn og nafnið verður skiljanlegt ef lögun tjarnarinnar er skoðuð. Um tjörnina er til saga í því safni, sem við köllum þjóðsögur. Í þeim er lítill áhugi á að rekja bara nöfn til náttúrufyrirbæra, eins og iðkað er skv. náttúrunafnakenningunni. Í þjóðsögum er hins vegar mikið um vísanir í táknheima og túlkað þaðan í frá og til visku. Þar er sjaldan lotið hinu einfalda. Fremur en að miðla þurrum fræðum er hlutverk þjóðsagna sumpart að skemmta en líka miðla lífsspeki að baki hinu augljósa eða yfirborðslega. Hið ytra verður leið til hins innra. Hversdagsleg mál eru færð í sögur til lærdóms og betra lífs. Svo er einnig með söguna um Skötutjörn.

Sagt var, að eitt sinn hafi Skötugjáin náð undir eldhúsið á Þingvallabænum. Fiskur hafi verið í gjánni. Matarkistan var auðvitað vel metin og verið betri en nokkur kæliskápur samtíðar, því ekki þurfti fiskbyrgja til að fylla á eða Bónus til að bæta í. Fiskgengd var nægileg í gjánni til að seðja svanga munna í Þingvallabæ. Á þessum fiskskáp var hlemmur í eldhúsinu, sem rennt var til hliðar þegar fisk vantaði í soðið. Færi var svo rennt niður. Fyrirkomulagið var því hentugt, en eins varð að gæta. Ekki mátti veiða nema til málsins, þ.e. einnar máltíðar. Sem sé allt skyldi gert í hófi og þar með er komin siðfræði sögunnar.

Mokveiðin Svo segir, að ágjarn maður hafi sest að á Þingvöllum og hann sinnti engu um þetta boð smáveiða og hófstillingar, að ekki mætti veiða nema takmarkað og samkvæmt þörf. Hann veiddi og veiddi og í lokin festi hann öngul sinn í stórskepnu. Dró karl nú sem ákafast og þegar hann sá glitta í skepnuna varð honum ljóst, að hann hafði sett í skötu og taldi að hún hefði haft annaðhvort sjö eða níu hala. Veiðimaðurinn varð skelfingu lostinn, enda var honum fullljóst að slík skepna hlaut að vera fulltrúi myrkursins og jafnvel sá svarti sjálfur. Eftir mokveiðina hefur síðan ekkert veiðst í Skötutjörn. Hún varð fisklaus. Gjáin liggur ekki lengur undir eldhús bæjarins og þessi endurnýjanlega matarkista og lifandi náttúrukælir var ekki til nokkurs magagagns.

Vernd náttúru Náttúruverndarmenn hafa numið í sögunni áherslu á náttúruvernd. Kristnin hefur um aldir innrætt mönnum hófstillingu og bætt við viskusögur úr fyrndinni. Vitrir menn hafa tekið eftir því að græðgi skilar aðeins stundarfró en engri hamingju þegar grannt er skoðað og til lengri tíma er litið. Af því tjörnin var í skötulíki varð lag hennar tilefni til spuna um hið góða og illa. Ímynd hins illa er í okkar hefð ekki fastmótuð heldur túlkuð í myndum og með hjálp máls þeirra. Klaufdýr með hala og þrífork er engin sérstök nauðsyn. Hið illa getur komið fram í líki ljósengils, í mynd manns eða bara í  skötulíki.

Fiskivötnin miklu Þingvallavatn er undur. Vatnið er lífmikið. Vatnsvísindin kenna okkur að eitt hundrað og tuttugu þúsund smáverur eru á hverjum fermetra í fjöruborðinu, sem næra síðan annað líf og stuðla að silungaparadís. Margir hafa því veitt vel, margir hafa orðið fyrir mikilli reynslu í glímunni við vatnið, líka fegurðarlifunum, en einnig lífsháska og björgun, sem vekja til íhugunar.

Þingvallavatn er stórt, 83 ferkílómetrar, en helmingi stærra er hið kunna Genesaretvatn (líka nefnt Galíleuvatn eða Tíberíasarvatn) í norðurhluta Ísraels. Það er ekki svo ólíkt Þingvallavatni, er í misgengi, og umkringt hæðum og fjöllum, fallegt og byggðin var allt um kring. Hin saga dagsins hefst á, að þar voru menn að fiska. Þeir höfðu ekkert fengið og fóru í land, hreinsuðu veiðarfærin og voru að ganga frá. Þá kemur Jesús þar að og vantar ræðupúlt. Þar sem fólk sótti að honum bað hann bátseigandann að fá að nota bátinn til ræðuhaldsins. Þegar hann hafði lokið tölu sinni leit hann á þreyttan fiskimanninn og bað hann blessaðan að leggja á djúpið og fara að fiska. En sá sagði hreinskilningslega, að hann hefði verið að alla nóttina og ekkert orðið ágengt. En svo er eins og hann sjái sig um hönd og segir að það sé nú kannski vert að taka tillit til þess sem biður og lætur sig hafa það að fara út að nýju og leggja netin. Þeir moköfluðu og fylltu tvo báta. Aflinn var meiri en þeir höfðu nokkurn tíma fengið og það á ómögulegum veiðitíma.

Þá varð fiskimaðurinn Símon Pétur forviða. Hann varð meira hissa en hann hafði nokkurn tíma orðið áður. Hann varð svo sjokkeraður á þessu mokfiskiríi, að hann gerði sér grein fyrir að nú hafði hann upplifað eitthvað algerlega sérstakt, sem öllu breytti. Hin jákvæða upplifun lýsti upp vankanta mannsins. Hann fann til bresta sinna, skelfdist og sagði Jesú, að hann væri ekki góður maður. Allir aðrir, sem nærri voru, urðu líka hræddir. Mokafli var tákn um nærveru Guðs og flekkaðir menn fundu til sektarkenndar. Það voru hræddir menn sem Jesús þurfti að sefa. Og hann segir við þá: Óttist ekki. Nú er lokið ykkar gamla lífi. Nú er bátalífið búið. Nú byrjar nýtt líf. Í stað fiskveiða skuluð þið veiða menn.

Undrun Hvað gerum við þegar við verðum fyrir mikilli reynslu. Hún verður jafnan til þess að við stöldrum við og hugsum. Hvað gerðist eiginlega? Hver var merking þess sem ég varð fyrir? Þegar hversdagsleikinn er rofinn og við verðum fyrir einhverju stórkostlegu eða ógurlegu, undursamlegu eða hræðilegu fellur haft oft af augum, líka hvernig við túlkum og fordómar falla stundum líka. Þetta getur verið aha-upplifun eða að halda á litlu barni í fangi, að sleppa úr slysi, að lifa af fall í björgum, að sleppa frá ísbirni, að lenda undursamlegri náttúrureynslu, að vera týndur en finnast, að vera elskaður þrátt fyrir að finnast maður ömurlegur. Reynsla er með ýmsu móti, en þegar mest er lifað verðum við hissa, verðum hrædd, verðum ofsaglöð – og þá opnum við og erum. Þá er okkar vitjað af þessu, sem alltaf er en við bara sjáum ekki, verðum ekki vör við – af því að við erum bundin, haldin, treg og sjálfhverf.

Að undrast er upphaf skilnings. Að hrífast er upphaf tilbeiðslu. Í bók Kazantzakis um Grikkjann Zorba segir: “Menn ná ekki hæstu hæðum með hjálp þekkingar, dyggðar, gæsku eða í stríðssigrum. Meira, dýrmætara og ógnvænlegra er hin heilaga undrun.”

Spekin byrjar jafnan í hrifnu sjálfi. Og guðfræðin eins og heimspekin byrjar í undrun, en þegar fræðin hafa tæmt flestar eða allar lindir er djúp undrunar þó ekki fullnumið.  

Andstæður Fiskimaðurinn á Þingvöllum bara dró og dró og var algerlega sjálfhverfur, en svo varð hann fyrir ískyggilegri reynslu í ati græðginnar. Þá fór hann að hugsa. Símon Pétur dró og dró og varð fyrir algeru tilverusjokki af því að hann gerði sér grein fyrir að hér var ekkert venjulegt á ferðinni.

Þetta eru tvær víddir veiðimennsku, sem við mættum gjarnan hugsa um. Annars vegar græðgi en hins vegar opin vitund. Annars vegar ótrúlegur afli til dauða, en hins vegar ótrúlegur afli til lífs. Utan marka hins slævandi hversdagsslens mætum við sjálfum okkur og þar með Guði. Erum við bara á fullu í að draga að okkur allt sem við getum í ágirnd og eignasókn? Erum við á fullu í að opna og fiska það sem er til góðs? Þegar við verðum raunverulega hissa getum við heyrt í heilögum anda. Þegar við undrumst opnum við kviku okkar. Þá byrjum við að glíma við lífsundrið sjálft. Hvenær er mikið nóg? Og hvenær verður ofgnótt til að breyta lífinu? Stundum verður gnótt til að opna gáttir. Þá getur mikið orðið nóg, mokveiðin ekki til ills heldur góðs.

Líf okkar flestra er líf offlæðis. Margt er ofur eitthvað eða súper eitthvað. Margt er yfirfljótandi. Allt á að vera svo stórkostlegt. En hugum að, erum við að draga fiska og að lokum ófreskju, hið illa? Erum við fiskimenn græðginnar, sem bara leiðir til ófara. Eða erum við tilbúin að íhuga undrið, lífslánið, sem við njótum á hverjum degi? Hvað eða hver veldur allri gæskunni og elskunni? Við megum óttast, stoppa og spyrja: Hvenær er eitthvað happ og hvað ekki? Hvenær er gamli veiðiskapurinn tilgangslaus, búinn?

Menn veiða – vera lífsins megin Héðan í frá skaltu menn veiða, sagði Jesús. Hann vildi kenna mönnum að góma inntak eigin lífs, leiða menn til Guðs. Veiðimenn nútíðar eru ekki bara þeir sem renna fyrir fisk. Veiðimenn eru allir sem eru á lífi. Öllu skiptir að veiða ekki hið fánýta heldur leggja á djúp hinna guðlegu vatna. Þar veiða menn stóru fiska hamingjunnar. Trúin er ekki til eigin ágætis heldur til ágætis allra. Guð veiðir ekki menn til eigin brúks heldur til samfélags og lífshamingju. Við erum kölluð úr bátnum, úr græðginni og í lífsverkið. Að veiða menn er að laða menn til lífs, lífshamingjunnar, þroska einstaklings og samfélags. Og hið besta í þeim veiðiskap er að vera tengdur Guði.

Í Jesú nafni, amen.

Prédikun 22. júní 2008, 5. sunnudag eftir þrenningarhátíð.

Lexía: Jer 1.4-10 Orð Drottins kom til mín: Áður en ég mótaði þig í móðurlífi valdi ég þig. Áður en þú fæddist helgaði ég þig og ákvað að þú yrðir spámaður fyrir þjóðirnar. Ég svaraði: „Drottinn minn og Guð. Ég er ekki fær um að tala því að ég er enn svo ungur.“ Þá sagði Drottinn við mig: „Segðu ekki: Ég er enn svo ungur. Þú skalt fara hvert sem ég sendi þig og boða hvað eina sem ég fel þér. Þú skalt ekki óttast þá því að ég er með þér til að bjarga þér,“ segir Drottinn. Síðan rétti Drottinn út hönd sína, snerti munn minn og sagði við mig: „Hér með legg ég orð mín þér í munn. Ég veiti þér vald yfir þjóðum og ríkjum til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna, til að byggja upp og gróðursetja.“

Pistill: 1Pét 2.4 -10 Komið til hans, hins lifanda steins, sem menn höfnuðu en er í augum Guðs útvalinn og dýrmætur. Látið sjálf uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús til heilags prestdóms, til að bera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar. Því að svo stendur í Ritningunni: Sjá, ég set hornstein í Síon, valinn og dýrmætan. Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar. Yður sem trúið er hann dýrmætur en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, orðinn að hyrningarsteini og: ásteytingarsteini og hrösunarhellu. Þeir steyta sig á honum af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað. En þið eruð „útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þið skuluð víðfrægja dáðir hans,“ sem kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. Þið sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðin „Guðs lýður“. Þið sem „ekki nutuð miskunnar“ hafið nú „miskunn hlotið“.

Komið til hans, hins lifanda steins, sem menn höfnuðu en er í augum Guðs útvalinn og dýrmætur. Látið sjálf uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús til heilags prestdóms, til að bera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar. Því að svo stendur í Ritningunni: Sjá, ég set hornstein í Síon, valinn og dýrmætan. Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar. Yður sem trúið er hann dýrmætur en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, orðinn að hyrningarsteini og: ásteytingarsteini og hrösunarhellu. Þeir steyta sig á honum af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað. En þið eruð „útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þið skuluð víðfrægja dáðir hans,“ sem kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. Þið sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðin „Guðs lýður“. Þið sem „ekki nutuð miskunnar“ hafið nú „miskunn hlotið“.

Guðspjall: Lúk 5.1-11 Nú bar svo til að Jesús stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. Þá sá hann tvo báta við vatnið en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn er Símon átti og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum. Þegar hann hafði lokið ræðu sinni sagði hann við Símon: „Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar.“ Símon svaraði: „Meistari, við höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið en fyrst þú segir það skal ég leggja netin.“ Nú gerðu þeir svo og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska en net þeirra tóku að rifna. Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana svo að nær voru sokknir. Þegar Símon Pétur sá þetta féll hann á kné frammi fyrir Jesú og sagði: „Far þú frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“ En felmtur kom á hann og alla þá sem með honum voru vegna fiskaflans er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“ Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.