Synd og skömm

Synd og skömm

Þegar við berum saman réttmæta baráttu kvenna fyrir réttindum sínum og frelsi við syndatal Biblíunnar þá ættum við líka að horfa til þess hversu mikil bylting boðskapur Jesú var í þessu samfélagi. Fólk var flokkað eftir ýmsum leiðum. Var manneskjan karl eða kona? Var hún frjáls eða ánauðug? Var hún borgari eða eða ekki? Allt þetta skipti sköpum rétt eða réttleysi viðkomandi.

Eitt sinn fór kona ein í messu í sinni sveit. Bóndinn sat heima en þegar frúin sneri aftur spurði hann um hvað presturinn hefði talað í ræðunni. ,,Hann talaði um syndina” svaraði hún. ,,Og hvað sagði hann um syndina?” spurði karlinn áfram. ,,Hann var á móti henni” svaraði hún.

 

Já, var það ekki fyrirsjáanlegt?


Syndin

 

Syndin er sígilt umfjöllunarefni í predikun kirkjunnar, þótt menn séu auðvitað misuppteknir af henni. Það er ekki á hvers manns færi að tala um syndina og gerir nokkrar kröfur til þess sem mælir. Reynslan mín er sú að mörgum geðjast ágætlega að því þegar predikarar setja sig í spor siðapostula. Það þarf ekki að vera á vettvangi sem þessum, predikunin ómar víða í umhverfi okkar.

 

„Já, þetta þarf fólk nú að heyra!“ Heyrist þá úr ýmsum hornum. Og þar kemur að kjarna þess sem ég vil segja: syndatal beinir sjónum okkur fremur að næsta manni en okkur sjálfum. Það heyrist gjarnan þegar talað er um bresti fólks og það sem betur má fara. Þetta er sennilega mannlegt.

 

Við heyrum þetta orð, synd, reyndar ekki víða í samfélaginu. En hugtakið á sér ýmsar hliðstæður og sumar hverjar eru harla áberandi í tali fólks. Þannig standa guðfræðingar sig stundum að því að tengja umræðu daganna við biblíuleg stef eða deilur frá ýmsum skeiðum kirkjusögunnar.


#Metoo

 

Í því sambandi er áhugavert að skoða #metoo hreyfinguna sem hefur verið áberandi á ýmsum vettvangi undanfarin ár og jafnvel áratugi. Við þekkjum hana öll, en grunnurinn er vitanlega sú réttmæta afstaða að konur hafi rétt yfir sínum eigin líkama. Sögur voru sagðar af því þegar karlar, oftast í valdastöðum, brutu gegn þeim rétti með einum eða öðrum hætti. Hver frásögnin rak aðra og fá svið samfélags og menningar voru þar undanskilin.

 

Þessu fylgdi krafa um sniðgöngu, slaufun eða woke eins og það er nefnt á ensku. Frægir einstaklingar enduðu úti í kuldanum, fengu ekki að koma fram eins og þeir höfðu áður gert.

 

Þessi viðleitni, að karlar axli ábyrgð á gjörðum sínum er áberandi í hinu kirkjulega samhengi. Og þar er kemur syndin við sögu, sem presturinn á að hafa talað svo gegn í sögunni hér í byrjun. Þetta birtist með ýmsum hætti. Páll postuli talar gegn slíkri misnotkun í textum sínum en hún var ríkjandi í því umhverfi sem hann þekkti. Jesús sýndi í orði og verki að konur eru jafnsettar körlum. Í fornöld og á miðöldum sungu trúbadorar söngva um riddara sem sýndu af sér prúðmennsku í samskiptum við konur ólíkt rustamennum fyrri tíma. Púrítanar upp úr siðaskiptum töluðu fyrir því að karlar hefðu hemil á hvötum sínum en ástarsamband fólks í hjónanbandi var vitanlega lofað og prísað. Enda, þegar þeir fluttu vestur um haf á 16. öld, fylltu þeir fljótlega landið af niðjum!

 

Hérna heima þurfti fólk að kunna skil á boðorðunum þar sem meðal annars stendur að kristin manneskja eigi ekki að drýgja hór. Þrátt fyrir að stundum heyrist talað um að tónninn í boðorðunum sé boðskapur strangur, er enginn vafi á því að texta sem þessum var beint að körlum í valdastétt sem höfðu yfirburði í krafti stöðu sinnar og yfirburða. Ákvæði þetta hefur staðið vörð um konur sem nutu enn lakari stöðu í því samfélagi. Já, hafið hemil á hvötunum og berið virðingu fyrir líkama og tilfinningum annarra.


Engin slaufun?

 

En hvað? Jesús þverbrýtur svo alla slaufun og sniðgöngu í texta dagsins! Fólkið er einmitt gáttað á því að hann skyldi setjast niður með fulltrúum þessara tveggja hópa: Tollheimtumönnum og bersyndugum. Þarna eru valdakarlarnir mættir og ekki ber á öðru an að vel fari með þeim þar sem þeir lyfta glösum og fá sér meira á diskinn.

 

Hérna kemur jú inn ein áhugaverð hlið á þessu syndatali öllu. Syndin í samhengi Biblíunnar er ekki hugsuð til að aðgreina okkur – frá öðrum. Þetta er ekki við hin réttlátu við andspænis þeim hinum syndugu. Nei, syndin í munni Krists að einhverju sem allir eiga sameiginlegt. Og upp úr því myndast ákveðin spenna á milli þess að við fordæmum ákveðnar gjörðir en höfum um leið raunsanna mynd af okkur sjálfum.

 

Við þurfum jú að fara varlega í dómum okkar gagnvart náunganum. Í því sambandi setur Jesús fram kunnuglegt stef – að sjá flísina í auga náungans en látum bjálkann í okkar eigin auga óhreyfðan. Og þegar bersyndug konan kraup mitt á milli reiðra karla sem hugðust grýta hana sneri Jesús athyglinni að þeim sem héldu á grjótinu: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.“ Sú setning er einmitt hin hliðin á fordæmingu okkar og fyrirlitningu á öðru fólki.


Horft inn í hjartað

 

En hvað, hvað þá með dómana sem við þurfum raunverulega að fella yfir þeim sem brotið hafa af sér? Er þá í lagi að myrða, stela, svíkja og skemma? Já, og er ekkert mál að brjóta sjötta boðorðið?  

 

Þarna greinir Biblían á milli þess að fella dóma, já og refsa í þeim tilgangi að halda samfélaginu í réttum skorðum, og svo hins að menn setji sig í hlutverk Guðs og dæmi náunga sinn á hinum eilífu mælikvörðum. Og gleymum því ekki, að þótt við sjáum ekki allta bjálkann í eigin auga, grefur dómharkan að endingu undan okkur sjálfum. Ómeðvitað leggjum við til mælikvarða sem okkur sjálfum reyndist torvelt að fylgja og við nögum undirstöður eigin tilvistar um leið. Þetta kallar fram stöðuga samviskukvöl og veikir sjálfsmynd okkar.

 

Þegar við berum saman réttmæta baráttu kvenna fyrir réttindum sínum og frelsi við syndatal Biblíunnar þá ættum við líka að horfa til þess hversu mikil bylting boðskapur Jesú var í þessu samfélagi. Fólk var flokkað eftir ýmsum leiðum. Var manneskjan karl eða kona? Var hún frjáls eða ánauðug? Var hún borgari eða eða ekki? Allt þetta skipti sköpum rétt eða réttleysi viðkomandi.

 

Jesús horfði inn í hjarta hvers einstaklings og þar voru þessar spurningar einskis virði. Raunin var líka sú að leiðtogarnir í fyrstu söfnuðum kristinna manna voru oftar en ekki ánauðugar konur sem fengu þarna rödd og réttmætt gildi.

 

Þessi orð Páls draga þær hugmyndir saman: „Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.“

 

Allt þetta mótar hugsun okkar og afstöðu enn í dag. En aftur, ættum við að gæta hófs í dómum okkar. Fyrirgefningin er önnur hlið syndarinnar, sú afstaða að manneskjan er dýrmæt í augum Guðs, hversu ófullkomin sem hún kann að vera skiptir sköpum. Til þess þarf jú að koma játning og einlæg iðrun.

 

Syndin, í þessum skilningi er þess vegna eitthvað sem við getum minnt okkur á að tilheyrir mennskunni í föllnum heimi.


Synd og skömm

 

Það að við erum öll breysk gæti mildað dóma okkar. Hugsanlega kemur það upp í huga okkar næst þegar við hefjum grjótið á loft í reiðum og fordæmandi hópi gagnvart einhverjum sem ekki fær rönd við reist. Hugsanlega verða þau til að við hikum, hugsum, beinum sjónum okkar ekki út á við heldur inn á við og spyrjum hvort þetta sé raunverulega sú afstaða sem leiðir til farsældar og réttlætis. Þá kann að vera að við leggjum frá okkur hnullunginn, eða jafnvel fylgjum fordæmi Krists í sögunni og komum þeim til varnar sem enga björg fékk sér veitt.

 

Já, og svo þegar þið komið heim, er aldrei að vita nema að heimilisfólkið spyrji, um hvað presturinn hafi nú talað í ræðunni. ,,Jú, hann talaði um syndina", getið þið þá sagt. ,,Og hvað sagði hann um syndina?" verður þá kannske spurt. ,,Tjah - hann var nú ekkert svo mikið á móti henni!"