Enn höfum við fengið að ganga inn í helgi og hátíð hinnar helgu nætur. Þakka ykkur, kórarnir hennar Þorgerðar, og allt sem að ykkur stendur og ykkur fylgir, sem gefið af ykkur til að auðga þessa helgu stund í Dómkirkjunni, og bera englasöng og helga hljóma til okkar, enn einu sinni. Þakka ykkur fyrir það. Guð launi það og blessi ykkur. Gleðileg jól!
Jólaguðspjallið lætur ekki mikið yfir sér. Engin saga er þó áhrifaríkari, fegurri og tærari: “Það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina... Fóru þá allir að láta skrásetja sig ... Þá fór og Jósef úr Galíleu...”
Þetta er sem sagt baksvið jólanna. Skattheimta keisarans. Flóknar samfélagsaðstæður í skattlandinu og sívaxandi þarfir ríkisins að auka tekjur sínar. - Heimurinn, hversdagsveruleiki manns, - ó, hve það er órafjarri nú! Hvað er það nema stílrof og helgispjöll að nefna það hér á helgri jólanótt? Nei, annars, öðru nær. Vegna þess að jólaguðspjallið er ekki ævintýri, jólin eru ekki þykjustuleikur. Guðspjöllin gerast ekki í tilbúinni töfraveröld, kristin trú er lífsskoðun sem snýst um heiminn okkar.
Valdboð keisarans, manntalið, ösin og ærustan, troðfullu gistihúsin, þetta er heimurinn, samur við sig. Við höfum séð sitthvað af því undanfarna daga og vikur. Og ferð þeirra, smælingjanna frá Nasaret og til Betlehem, þungi og þreyta Maríu, þrautirnar, sóttin, áhyggja Jósefs og kvíði, kuldinn og skíturinn í fjárhúsinu, kvalaópin, barnsgráturinn, feginstárin. Þetta er nóttin helga. Heimurinn okkar. “Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn..” til að frelsa.
“...boð kom frá Ágústusi keisara... Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi.”
Oft er sagt að ekki megi blanda saman pólitík og trú. En hér eru nöfn pólitíkusa í upphafi helgasta texta kristinnar trúar. Annar öllum þekktur, hinn gleymdur. Þannig er það nú, með nöfnin stóru, frægu og fallegu sem taka uppi forsíðurými fjölmiðlanna. Þessir tveir staðsetja jólaguðspjallið í sögunni, í heiminum.
Í Rómaborg eru rústir af grafhýsi sem Ágústus keisari lét reisa til hinstu hvílu. Það var 87 metrar í ummáli og fjörutíu og fjórir metrar á hæð, klætt gulli og marmara. Á toppi þess stóð gullin stytta keisarans. Enginn skyldi vera í vafa um að hér væri voldugastu hetju veraldar minnst. Nú eru þetta rústir einar. Rómverjar segja að þær líkist helst risastórum, skemmdum jaxli. Minnismerki mannsins volduga, sem lét það boð út ganga að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Hann vildi kasta tölu á hjörðina sína, heimsbyggðina. Nú minnist heimurinn hans umfram allt vegna barnsins hennar Maríu. Guð hefur svo ótrúlega kímnigáfu! Hann snýr öllu á hvolf. Keisarinn mikli er neðanmálsgrein í sögu barns sem tímatal heimsbyggðarinnar er talið frá. Vald keisarans, ofurefli heimsveldisins hrundi til grunna fyrir áhrifamætti manns sem fæddist í fjárhúsi, og átti síðan hvergi höfði sínu að að halla. Sem eina vopn hans var máttarorð af munni hans og mild hönd sem blessaði börnin og læknaði hina snauðu og sjúku sem löðuðust að honum. Munnur sem var þaggaður, hendur sem voru negldar á kross. En hann sigraði þó.
Jólaguðspjallið er ekki ævintýri, ekki helgisögn, þó það minni um margt á goðsögur og ævintýri. Betlehem er á jörðinni, persónurnar eru raunverulegar manneskjur af holdi og blóði í heiminum okkar.
Betlehem er í dag umkringd átta metra háum múr, sem gerir fæðingarbæ Jesú að risastóru fangelsi. Að ímynda sér! Óttinn, ógnin, ofbeldið læsa helgreipum allt. Það er svo grátlegt hvernig friðspillarnir og ofbeldismennirnir virðast alltaf fá sitt fram. Þetta er heimurinn okkar í dag. Þetta er heimurinn sem Kristur fæddist í.
Stef jólaguðspjallsins er kunnuglegt. Hliðstæður þess má finna í goðsögum um allan heim. Þess vegna er ekkert skrítið þótt margir vilji setja það allt í sömu skúffu og geri lítinn greinarmun á. Sömu stef hljóma í samtímagoðsögnum, eins og StarWars og Harry Potter, Narníu, og slíkum sögum og kvikmyndum. Þeir Pétur og systkin hans, Harry Potter, Frodo og Jesús eiga það sameiginlegt að vera fremur lítilsigld í augum heimsins. Um Jesú var sagt: “Hann var fyrirlitinn og menn forðuðust hann.” En allir sem þekkja Narníu sögurnar, Hringadrottins sögu, Harry Potter eða jólaguðspjallið vita að hinn illi Sauron, Voldemort lávarður, hvíta nornin og Heródes, sem halda öllum í járngreipum ótta og ógnar, munu allir lúta í lægra haldi fyrir þessum drengjum. Þeir munu bjarga heiminum. Það er þeim ætlað. Gandálfur og Dumbledore, Jósef og María og hirðarnir á Betlehemsvöllum trúa því og veita þeim fulltingi sitt. En myrkraöflin tefla fram ofurefli dauða og eyðingar til að ganga milli bols og höfuðs á því sem drengirnir hugrökku standa fyrir.
Svona eru goðsögurnar gjarna sögur af uppgjöri milli sannleika og lýgi, milli kærleika og kaldhæðni, milli dauða og lífs. Sögurnar eru eins og mynstur, margræð og leyndardómsfull og ófyrirséð. En þær eru spurning til okkar: Hvorum megin stendur þú?
Þrátt fyrir þau sannindi sem þær tjá, eru goðsögurnar staðleysur. En þar er ætíð að finna þessa baráttu. Þar eru bjargvættir og englar, eyðendur og ógnvaldar. Þetta er mannlífið, það er ofið þessum þáttum. Ávallt og alls staðar. Goðsögurnar minna okkur á að þessi barátta er sístæð og hún á sér stað í hjörtum okkar allra. En á hverjum tíma eru til manneskjur sem treysta og vitna um þá barnslegu von og trú að réttlæti, sannleikur, frelsi og friður muni um síðir sigra, að lífið muni bera sigurorð af öllu sem ógnar því. Og í þeirri trú er fólginn sigur.
Jólaguðspjallið er ekki staðleysa. En samhljómur goðsagnanna og jólaguðspjallsins á rætur að rekja til þess að í hjörtu mannsins er lögð mynd og mynstur þess ríkis sem höfðingjar þessa heims fá ekki sigrað.
“Nýfætt grátandi barn er ótvíræðasta viljayfirlýsing almættisins um að heimurinn skuli halda áfram að vera til,” sagði bandarískur rithöfundur. Annar spekingur, Indverjinn Tagore sagði: ”Sérhvert barn kemur í heiminn með þann boðskap frá Guði, að hann hafi ekki enn misst trúna á manninn.”
Nóttin helga leiðir okkur að jötu í Betlehem, þar sem hvílir nýfætt, grátandi barn. Kristin trú staðhæfir að í því barni sjáum við auglit Guðs, ljós dýrðar hans og finnum hlýtt þel hjarta hans. Það sjáum við ekki í Ágústusi né í öðrum handhöfum valdsins, við sjáum það ekki heldur í ofurhetjum goðsagnanna fyrr og síðar. Barnið í Betlehem, sem Ágústus og Kýreníus höfðu ekki hugmynd um, er hinn almáttugi, frelsari. Með mildi í ásjónu sinni og blessun í höndum sínum.
Rómverska heimsveldið var ósigrandi. Enginn velktist í vafa um það. Múrarnir umhverfis Betlehem virðast ókleifir. Og eins múrar fordóma, haturs og hefndarhuga. Ofurefli hins illa og ljóta verður oft til að menn missa móðinn, flýja af hólmi, inn í tálstigu lífsflóttans. Glötun er möguleiki. Múrarnir geta hækkað, vopnin orðið mikilvirkari, hlýnun andrúmsloftsins getur aukist, höfin geta gengið á land. Og við með allt okkar afl og auð, alla okkar þekkingu, allt okkar vald yfir kröftum náttúrunnar, við með öll okkar mistök, alla okkar synd, öll okkar skelfilegu mein. Hvers þörfnumst við? Jólaguðspjallið segir okkur þann heilaga sannleika að atvik og örlög lífs og heims eru orðin hluti ástarsögu, sögu kærleikans eilífa sem leitar skjóls í mannheimi. Guð er að leita þín. Hann hefur trú á manninum, þrátt fyrir allt, og hann vill að heimurinn haldi áfram að vera til. Hvers leitar hann hjá þér? Hann leitar trúar. Trúar eins og barnsins, trúar eins og hins unga og opna hugar, trúar sem er lífsþróttur og lífsgleði og umfram allt lífsviska. Hann leitar trúar sem treystir því að viðleitni til að gera gott, ganga fram í góðvild og umhyggju, hógværð og nægjusemi, viðleitni til að rísa gegn órétti, líkna þjáðum, leysa fjötra, lækna mein, græða undir jarðar, það er aldrei til einskis. Hann leitar trúar á son sinn, Jesú Krist, frelsarann. Sú trú er siguraflið, sem sigra mun allt sem ógnar, allt sem deyðir.
Og nú ber til um þessar mundir, á þessari hljóðu, helgu nótt, að boð kemur til þín, frá Guði þínum. Það er heimboð til þess sem þú ert skapaður fyrir og veist að eitt megnar að lækna líf þitt allt og frelsa þennan heim.