„[E]ins mikið og ég þráði að trúa þá gat ég það ekki. Mér var það fyrirmunað. Hugmyndin um persónulegan guð gengur gegn minni heilbrigðu skynsemi og upplifun og skilningi á heiminum.”
Þannig lýsir Jón Gnarr niðurstöðu sinnar trúarlegu vegferðar í pistli í Fréttablaði gærdagsins. „Guð er ekki til” er niðurstaða hans, sem þrátt fyrir daglega messusókn, klausturdvöl og lestur á Biblíunni spjaldanna á milli, fær ekki séð að hugmyndin um Guð samrýmist heimsmynd sem byggir á vísindum og heilbrigðri skynsemi.
Pistill Jóns er í senn einlægur og upplýsandi og í lýsingum hans á fjölskyldu sinni er að finna þrjú meginviðhorf sem einkenna trúarafstöðu Íslendinga.
Hann lýsir þar ömmu sinni, sem var einlæg trúkona og átti Jesú að vini, móður sinni, sem áleit trú „félagslega siðvenju” sem bæri að standa vörð um án þess þó að ræða sérstaklega, og föður sínum, sem var trúleysingi sem hafði gaman að því að gera góðlátlegt grín að trúuðum.
Jón staðhæfir að hann vilji virða rétt fólks til trúar en orðar jafnframt andstöðu í garð trúarbragða, sem hann byggir á því að trúarbrögðin standi í vegi fyrir vísindalegum framförum, séu helsta fyrirstaða læknavísindanna til að bæta heilsu og bjarga mannslífum, að þau beiti hópa á borð við samkynhneigða og konur ofbeldi og að hugmyndin um kærleiksríkan Guðs standi ekki undir nafni.
Af þessu leiðir, segir Jón, að þrátt fyrir að trú geti verið ágæt til persónulegra nota, þá eigi ekki að tala um trú sína við ókunnuga eða troða henni upp á fólk, ekki skrifa lög á grundvelli trúar og mikilvægast telur hann að hugsa ekki með trú sinni.
Alhæfingar í garð trúarbragða, líkt og birtast í greinarskrifum Jóns, verða æ háværari í almennri umræðu og sú andstaða sem birtist í skrifum hans í garð trúarbragða byggir á þeirri söguskýringu að trú og trúarbrögð séu ekki órofa hluti mannkyns, heldur framandi hugmyndafræðileg ógn.
Þeirri hugmynd verðum við sem tilheyrum trúarsamfélagi að svara, ellegar horfast í augu við tilgangsleysi okkar og hreinlega leggja kristni og kirkju til hliðar. Ef Guð er ekki til er engin þörf á kirkju, nema mögulega sem félagslega siðvenju byggða á fánýtri blekkingu.
Aðkoma mín að kirkjunni er um margt lík þeirri sem Jón Gnarr lýsir, þó ég hafi ekki átt kost á daglegri messusókn, hafi aldrei dvalið í klaustri og eigi enn ólesnar örfáar bækur Gamla testamentisins. Í fjölskyldu minni, líkt og flestum fjölskyldum, er að finna þau sem vilja að börn séu skírð og fermd án þess að vilja ræða trúmál af mikilli alvöru, trúleysingja sem gera góðlátlegt grín að trúuðum og eldra fólk sem á einlæga trúarafstöðu er mótað hefur líf þeirra með afgerandi hætti.
Sjálfur kynntist ég kirkjunni sem barn, í sunnudagaskóla og fermingarfræðslu í Dómkirkjunni, og leitaði Guðs sem ungur maður í 12 spora kerfi eftir róstursöm unglingsár. Það sem aðgreinir okkur hinsvegar er að ég tel mig hafa fundið það sem Jón ekki fann, samband við kærleiksríkan Guð, sem ég nálgast á einföldum og skiljanlegum forsendum í gegnum bæn og samfélag kirkjunnar. Á grundvelli þeirrar reynslu starfa ég sem prestur.
Þó niðurstaða hinnar trúarlegu leitar sé ólík er ekki hægt annað en að bera virðingu fyrir þeirri viðleitni sem Jón Gnarr lýsir í grein sinni og það mættu fleiri taka sér til fyrirmyndar. Alhæfingar hans um trú og trúarbrögð eru hinsvegar þess eðlis að þeim ber að svara.
Vandinn við að hrekja alhæfingar um eðli trúarbragða er að þegar eitthvað er alhæft þá er allt lagt að jöfnu og þar með er allt undir í umræðunni. Útgangspunktur Jóns er kristindómurinn en hann yfirfærir gagnrýni sína á trúarbrögð sem fyrirbæri, án þess að skilgreina hvað hann á við. Með sama hætti er hægt að afskrifa nánast allt í mannlegri hegðun á grundvelli neikvæðra birtingarmynda með fullyrðingum á borð við, peningar eru rót alls ills eða stjórnmál leiða einungis til spillingar.
Fyrsta staðhæfing Jóns er að trú á persónulegan Guð sé ekki samrýmanleg heilbrigðri skynsemi og í kjölfarið fullyrðir hann að trú og vísindi séu ekki samrýmanleg. Hvorugt er rétt, þar sem báðar fullyrðingar horfa fram hjá þeirri staðreynd að sjónarhorn trúarbragða og vísinda er ólíkt þó viðfangsefnið sé það sama.
Það er sannarlega rétt að tilvist Guðs verður hvorki sönnuð né afsönnuð með rökleiðslu en það á við um fleiri svið mannlífs. Birtingarmyndir mannlegrar hegðunar á borð við listsköpun, ást og tilgang er hægt að setja í röklegt samhengi og hægt er að lýsa þeim með aðferðum hug-, félags- og raunvísinda en þau verða ekki leidd út með rökum. Það sama á við um fjölmargar guðssannanir trúarheimspekinnar, sem eiga sér langa sögu í vestrænni hugsun, þær eru tilraunir til að setja guðstrú í röklegt samhengi en ekki að leiða út Guð með rökum.
Þá fá þær vissulega mikið vægi í umræðunni þær kirkjudeildir sem hafna aðferðum vísindalegrar hugsunar og vilja byggja heimsmynd sína á bókstaflegum lestri Biblíunnar. Þau viðhorf eru hinsvegar í minnihluta og hin vísindalega aðferð í okkar vestræna samhengi varð til í háskólum Evrópu, sem allir byggja á kirkjulegum grunni. Gleymum því ekki að margar af helstu framförum vísindanna voru grundvallaðar á starfi trúmanna og nægir þar að nefna föður erfðafræðinnar, sem var munkur af reglu ágústínusar.
Fullyrðing Jóns um að helsta fyrirstaða læknavísindanna til að bæta heilsu og bjarga mannslífum séu trúarkreddur gerir lítið úr þeirri heilbrigðisþjónustu sem að kirkjan hefur sinnt um aldir og gerir til þessa dags. Hér á landi voru það kaþólskar nunnur sem fyrstar hófu rekstur sjúkrahúsa og kirkjulegar hjálparstofnanir hafa unnið ómælt starf í þágu hjúkrunar og lækninga um allan heim.
Loks er fullyrðing hans um ofbeldi í garð kvenna og útskúfun hinsegin fólks einungis önnur hlið sögunnar. Í ritum Nýja testamentisins er að finna spennu á milli frásagna sem boða róttækt jafningjasamfélag og hinar kunnuglegu myndir feðraveldisins. Þannig er að finna í Pálsbréfum hugsjónir um jafnrétti kynjanna í hinni kristnu hreyfingu (Gl. 3.28) og boð um að konur eigi að þegja á safnaðarsamkomum (14.34).
Valdbeiting og ofbeldi hefur ítrekað verið réttlætt á trúarlegum grundvelli en trúarsannfæring hefur samtímis verið uppspretta andófs í garð ofbeldis. Þrælahald var réttlætt með vísan í Biblíuna en þangað sóttu samtímis þeir sem börðust gegn þrælahaldi innblástur og þeldökkir fundu í Biblíunni hugrekki til að berjast gegn kúgun þrælahaldara. Hinsegin fólk er í dag beitt ofbeldi á grundvelli örfárra ritningatexta en sú fordæming er ekki biblíuleg eins og ítrekað hefur verið bent á.
Ofbeldi, valdbeiting og fordómar eru hluti mannlegs samfélags og grunnstefin í frásögnum guðspjallanna af Jesú Kristi. Jesús reis upp gegn ofríki valdshafa síns samfélags, barðist gegn græðgi prestanna og ofríki Rómarveldis, með friðsömu andófi og með því að benda á aðstæður þeirra sem stóðu höllum fæti í samfélaginu. Í dag þykist ég fullviss um að hann væri jafn gagnrýninn á syndir trúarbragðanna og jafn fús til að starfa í þágu fátækra, hælisleitenda, kvenréttinda og mannréttinda hinsegin fólks.
Líf Jesú gat einungis endað með aftöku, um það voru prestar og yfirvöld sammála, og það er jafn óskynsamlegt í dag að fylgja honum í raun og það var á fyrstu öldinni. Textar dagsins bera þess vitni.
Í Fyrra Korintubréfi segir Páll: „Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs.” Kristin trú bryti í bága við heilbrigða skynsemi ef ekki væri fyrir þann kraft sem fólginn er í því að eiga skjól í faðmi Guðs. Í 2.000 ár hafa menn litið á þennan krossfesta Guð með augum skynseminnar og staðið ráðþrota frammi fyrir táknmyndum hans. Valdið sigraði, Jesús veitti ekki mótspyrnu en rödd hans verður ekki kæfð þrátt fyrir það. Til þessa dags beitir valdið sömu aðferðum og af þeim sökum á boðskapur Biblíunnar erindi sem aldrei fyrr.
Áfram segir Páll að „Gyðingar heimta tákn og Grikkir leita að speki en við prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku en okkur sem Guð hefur kallað, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs. Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.” Páll var sjálfur gyðingur og sótti innblástur í heimspeki hellenismans en var jafnframt meðvitaður um takmörk þeirrar afstöðu að krefjast sannana eða að reiða sig á rökleiðslu.
Guð er til.
Vísindin eru ekki í andstöðu við Guð, hann er þar að finna. Skynsemin er ekki í andstöðu við Guð, hún er okkur af Guði gefin. Þó skynsemi og vísindi séu gagnleg verkfæri til að lýsa og greina eru þau ekki upphaf og endir mannlegrar tilveru. Djúpt í sálu hvers manns býr þráin eftir tilgangi, elsku og samfélagi og öll erum við leitandi á þeirri vegferð. Kristin kirkja, og trúarbrögðin almennt, endurspegla þessa þrá og eru háð þeim takmörkunum sem mannskepnunni er sett. Þó kirkjan hafi sem samfélag þegið náð Guðs og eigi fyrirmynd og frelsara í Jesú Kristi hefur hún ekki höndlað algildan sannleika. Þessvegna er í nafni trúar haldið á lofti verstu hliðum mannlegrar tilveru en í trúnni birtist jafnframt sú von að við getum brotist úr þeim viðjum.
Hugmyndin um persónulegan Guð er ekki fjarlæg og óskynsamleg, heldur aðgengileg öllum sem eru fús að leita hans í bæn. Trúin birtist í sinni fegurstu mynd við rúmstokka barna, sem borin eru á bænarörmum ástvina sinna og í þeim aðstæðum þar sem við á lífsleið okkar finnum þörf til að leita Guðs í bæn. Í slíkum aðstæðum er Guð ávallt nálægur og reiðubúinn að veita okkur þann kraft sem við þurfum til að eignast það líf sem okkur er ætlað. Um það þurfum við ekki að þegja, heldur ber okkur að deila því sem við höfum fundið með öðrum og á þeim grundvelli byggir kristin kirkja.