Í síðustu viku var haldið karlakvöld í fermingarfræðslu Laugarneskirkju þar sem drengirnir komu til kirkju með feðrum sínum og öfum til að ræða um kynlíf og karlmennsku. Gerður Aagot Árnadóttir heimilislæknir fjallaði um kynþroska og kynlíf á hispurslausan hátt og síðan unnu kynslóðirnar verkefni sem fólst í að koma auga á karlmennskufyrirmyndir og karlmennskuímyndir þeirra. Drengir þurfa á fyrirmyndum að halda og þó sjónum hafi verið beint að Superman og Tarzan í verkefninu, voru þeir staddir í kirkjunni með mikilvægustu fyrirmyndunum í sínu lífi.
Við sem sáum um kvöldið gerðum enga tilraun til að leggja feðgunum línurnar í sannri karlmennsku en við deildum með þeim hverjar okkar fyrirmyndir hafa verið og hvernig þær hafa reynst okkur. Þegar ég var á þessum viðkvæma aldri voru hetjurnar körfuboltamenn úr NBA deildinni, tónlistarmenn á borð við Kurt Cobain, söngvara hljómsveitarinnar Nirvana, og James Bond. Auk þeirra var Páll Óskar að slá í gegn á þessum árum, með uppsetningu leikfélags MH á Rocky Horror, og bókstaflega allar stelpurnar í skólanum mínum voru skotnar í honum, þó þær vissu að við stákarnir ættum meiri sjéns í hann en þær.
Ég hefði aldrei trúað því sem unglingur en Páll Óskar er besta karlmennsku-fyrirmyndin úr þessum hópi, maður sem hefur verið sjálfum sér trúr, verið baráttumaður fyrir mannréttindum og reynst ungu fólki góð fyrirmynd. Örlög Kurt Cobain eru flestum kunn en hann tók líf sitt eftir mikla eiturlyfjaneyslu og James Bond er fársjúkur alkóhólisti og kynlífsfíkill, sem reglulega bjargar heiminum en er ófær um að taka ábyrgð á tilfinningum sínum eða samskiptum.
Til þessa dags skipta fyrirmyndir mig máli og sú karlmennskufyrirmynd sem Jesús hefur reynst mér, skipti sköpum í þeirri ákvörðun að helga starfsævi minni kirkjunni. Karlmennska Jesú hefur verið til umræðu frá upphafi kristindómsins, þó eiginleg kynjafræðileg rýni á textum Biblíunnar séu ung fræði. Það er merkilegt til þess að hugsa að þrátt fyrir mikla áherslu á líkama Jesú í Nýja testamentinu eru engar útlitslýsingar á honum að finna í frumkristnum ritum. Við getum þó útilokað að hann hafi verið vestrænn í útliti og sú upphafna helgimynd sem okkur er tömust úr listasögunni gerir Jesú allt að því kynlausan utan það að hann er með skegg. Af frásögnum guðspjallanna vitum við að Jesús var í samfélagi iðnaðarmanna og sjómanna, venjulegra manna af almúgastéttum, og stóð ekki úr í hópi þeirra ef marka er handtöku hans.
Karlmennskuhugmyndir fornaldar byggðu að miklu leiti á hetjuímyndum og í fornum sögnum á borð við Gilgameshkviðu og Hómerskviður sönnuðu hetjur karlmennsku sína með því að sýna hugrekki, hreysti og visku í verki. Hin hebreska arfleifð lagði áherslu á að ættfeður Ísrael, sem lögðu grunninn að átrúnaði gyðinga, sýndu karlmennsku sína í hlýðni við vilja Guðs. Kynjahlutverk Ísraels voru fastmótuð og skýrt afmörkuð og öll markarof, þegar konur fóru yfir á svæði karla eða öfugt, voru álitin brot á lögmáli Guðs. Þær persónur sem mörkuðu viðmið karlmennskunnar voru Abraham og synir hans, forfeður hinna tólf ættkvísla Ísrael; Móse, sem þáði boðorð Guðs af fjallinu og leiddi þjóðina til fyrirheitna landsins; Davíð, sem með hersigrum gerði Ísrael að stórveldi; og Elía, spámaðurinn mikli sem sigraði guði Fönikkíumanna með táknum. Þeir eru táknmyndir karlmennsku-dyggðanna frjósemi, hlýðni við lögmál Guðs, herkænnsku og spámannlega visku.
Í grísk-rómverskri hugmyndafræði grundvallaðist hugsun manna á tvíhyggju og kynin voru því álitin andstæð í eðli sínu. Á lýðveldistímanum byggðu karlmennskuhugmyndir rómverskra hefðarmanna á þeirri trú að karlmennska birtist í dyggðum á borð við sjálfstjórn, visku, réttlæti og hugrekki, sem að konur og karlkyns þrælar höfðu ekki til að bera. Konur voru álitnar andstæður karlmanna, jafnt líffræðilega sem og í siðferði sínu, taldar skorta sjálfstjórn og vera kjánalegar, hvatvísar og veiklunda. Vettvangur karla á sviði hernaðar, stjórnmála og á sviði einkalífsins staðfesti kalmennsku þeirra og svo nátengdar eru hugmyndir um dyggðir og karlmennsku að dyggðahugtak Rómverja virtus er dregið af orðinu yfir karlmann eða vir.
Á tímum Jesú voru hefðbundnar karlmennskuhugmyndir samfélagsins í uppnámi, bæði meðal Gyðinga og Rómverja. Tilraunir Gyðinga til að endurheimta sjálfstæði þjóðarinnar höfðu mistekist og á helleníska tímanum sóttu gyðinglegir rithöfundar í glæsta fortíð til að árétta karlmennsku þjóðarinnar. Samtímarit segja frá þeirri ógn sem að karlmennskunni stafaði, af framandi siðum Grikkja og Rómverja, á borð við að stunda naktir íþróttir og eiga í ástarsamböndum utan hjónabands, jafnvel við karlmenn. Rómverskir karlar af hefðarættum áttu æ erfiðara með að árétta karlmennsku sína á keisaratímanum. Herinn var orðinn vettvangur útlendinga og deilur og ósigrar tóku ljómann af hinu dyggðuga hermannslífi, þátttaka í stjórnmálum hafði ekki sömu áhrif og á lýðveldistímanum vegna einræðis keisarans og staða karlmannsins sem höfuð fjölskyldunnar, paterfamilies, var dregin í efa í kjölfar þess að konur sóttust eftir réttindum á borð við að skilja við eiginmenn sína og ráðstafa eignum sínum án aðkomu karla.
Upphaf kristindómsins markar nýjar hugmyndir um karlmennsku og hlutverk kynjanna í báðum menningarheimum og skjóta útbreiðsla kristinna hugmynda má meðal annars skýra með því hvernig að guðspjöllin fjalla um karlmennsku. Þó ógjörningur sé að aðgreina með vissu hvað Jesús sjálfur sagði og gerði frá áherslum þeirra sem settu sögur hans og boðskap í búning guðspjallanna, gætir greinilegrar spennu í ritum Nýja testamentisins er varðar hugmyndir um karlmennsku. Margt bendir til að Jesúhreyfingin hafi verið jafningjahreyfing þar sem konur voru mikils metnar og róttækni Jesú birtist í því að koma fram við konur sem jafningja, sem var óhugsandi bæði í gyðinglegu og grísk-rómversku samhengi. Þá er að finna í karlmennsku Krists viðsnúning á hefðbundnum karlmennskuhugmyndum menningarheimanna, karlmennska hans byggðist ekki á frjósemi (hann giftist ekki), hermennsku (hann beitti ekki ofbeldi), eða veraldlegum völdum (sem hann sóttist ekki eftir), heldur í kærleiksríkri afstöðu sinni til annarra og þeim innri styrk sem hann bjó yfir.
Hin róttæka boðun hélt velli í ýmsum myndum í frumkristni, þó að hin stofnanavædda kirkja hafi að lokum orðið feðraveldinu að bráð. Páll boðar t.d. róttæka jafningjasýn í Galatabréfi ,, Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú” (Gal 3.28). Kristnir höfundar á 2. og 3. öld kepptust við að árétta karlmennsku sína með orðræðu sem að gengur gegn feðraveldinu með róttækum hætti: Gegn hugmyndum um dyggðir hermennsku stilltu þeir upp píslarvottum sem gáfu líf sitt í ofsóknum. Þeir unnu sigur sem hermenn Krists með því að grípa ekki til vopna. Þá voru þeir brúðir Krists og undirstrikuðu þannig undirgefni sína við Guð og staðhæfðu að með því að hafna kynlífi og hjónabandi urðu þeir fullkomnari karlmenn en þeir sem völdu fjölskyldulíf.
Í þessari deiglu karlmennskuhugmynda stendur Kristur uppúr sem fyrirmynd hins sanna karlmanns. Í Guðspjalli dagsins, ummyndunarfrásögninni svokölluðu, stendur Jesús uppi á fjalli ásamt vinum sínum og sérstaða hans í frelsunarsögunni er áréttuð. Með þessari frásögn hafa karlmennskufyrirmyndir gyðingdóms allar verið tengdar Jesú í Matteuasarguðspjalli. Upphafsorð guðspjallsins eru ,,Ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams (Mt. 1.1)” og þar er hann tengdur við arfleifð ættfeðranna og í guðspjalli dagsins stendur hann með Móse og Elía sér við hlið.
Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan (Mt. 17.1-9).
Andstætt frjósemi Abrahams er Jesús barnlaus, andstætt rétttrúnaði lögmálshefðar Móse gagnrýnir Jesús prestana sem kúga fólk á grundvelli lögmálshyggju, andstætt hervaldi Davíðs hafnar Jesús ofbeldi og valdsöfnun í öllum myndum og andstætt spámanninum Elía, sem upphefur Jahve á kostnað guða Fönikíumanna, upphefur Jesú trú útlendinga á kostnað trúbræðra sinna. Karlmennska Jesú leysir því af hólmi hefðbundnar karlmennskuhugmyndir og hafnar þeirri karlmennsku sem upphefur sig á kostnað annara.
Staða karlmennskuhugmynda í okkar vestræna samhengi er að mörgu leiti sambærileg samtíma Jesú og þörfin fyrir ný viðmið karlmennskuhugmynda jafn brýn. Ástæður þessu eru jafnvel nokkuð sambærilegar. Hermennska var í kjölfar Seinni heimstyrjaldarinnar í hugum þjóða bandamanna vettvangur til að berjast fyrir réttlæti og frelsi undan kúgun en hefur snúist í andhverfu sína eftir hrylling Víetnam stríðsins og því hernaðarbrölti sem sömu herir hafa staðið fyrir síðan. Hin hefðundnu kynjahlutverk sem héldust fram undir lok 19. aldar tóku að riðlast með kvenfrelsishreyfingunni og breyttri stöðu kvenna á vinnumarkaði, og heimsmynd nýlendustefnunnar, sem bar með sér hugmyndir um sjálfgefna yfirburði vesturveldanna og kynþáttahyggju hvíta mannsins, hrundi með friðsömu andófi spámanna á borð við Mahatma Ghandi á Indlandi og Dr. Martin Luther King í Norður-Ameríku.
Þessar breytingar hafa orðið á stuttum tíma og þó þær séu allar af hinu góða, krefja þær karlmenn um að endurskoða hugmyndir sínar og sjálfsmynd. Það ferli er þegar hafið og til marks um það má nefna þann aukna áhuga sem að háskólar hafa sýnt karlafræðum á undanförnum árum og víðsvegar hafa sprottið upp hreyfingar sem vinna með og fjalla um karlmennsku. Það er ekki sjálfgefið að sú deigla verði til góðs og það bendir margt til þess að bakslag sé að eiga sér stað í jafnréttisumræðunni, sérstaklega meðal ungs fólks.
Frú Vigdís Finnbogadóttir fjallaði á dögunum í viðtali um þá ábyrgð sem að henni var falin á alþjóðavettvandi að vera fyrsti þjóðkjörni kvenforseti sögunnar og það hvernig að klæðaburður skiptir máli í því samhengi. Í lok viðtalsins varar hún við því að nú þegar konur eru virkilega farnar að láta í sér heyra í öllum samfélögum og heimurinn er orðinn svo var við það hvernig að farið er með konur í þeim löndum þar sem þær eru þústaðar og kúgaðar, að þá kemur þessi ósýnilega hönd og minnir stelpur á að þær eru kynverur en ekki andlegar verur (Viðtalið, RÚV 4.2.2014). Klámvæðingin sem tröllríður allri dægurmenningu samtímans sendir þau skilaboð til kvenna jafnt sem karla að konur séu kynverur fyrst og síðast og grefur undan jafningjasamskiptum kynjanna. Klámmenningin fjallar ekki um ást og kynlíf, sem er í eðli sínu fallegt og heilagt, heldur ber með sér kynferðislega hlutgervingu og réttlætir ofbeldisfull samskipti á hátt sem lítillækkar bæði kynin.
Frú Vigdís er spámaður og í lok viðtalsins segir hún að konur muni bjarga heiminum með vináttu og hjálp karla. Ég trúi henni og tel að til að svo geti orðið þurfi karlmenn að taka höndum saman og ala drengi sína upp við ný viðmið karlmennsku. Rannsóknir sýna að drengir standa höllum fæti í samfélaginu okkar, um 80% barna sem glíma við hegðunarvanda eru drengir og líðan þeirra í skóla og námsárangur er að hraka miðað við stúlkur á öllum skólastigum. Sem uppalendur hlýtur lausnin að felast í því að standa með, styðja og leiðbeina þeim ungu mönnum sem eiga erfitt með að fóta sig og leita leiða til að mæta þörfum þeirra í skólakerfinu með nýjum hætti.
Sú karlmennska sem að upphefur karla á kostnað kvenna, gerir lítið úr báðum kynjum og viðheldur þeirri ofbeldismenningu sem að birtist í kynbundnu ofbeldi. Sönn karlmennskuhugsjón þarf grundvallast á jafnrétti; hugrekki til að standa með þeim sem beitt eru kúgun, ofbeldi eða sæta fordómum; virðingu fyrir öllu fólki; og kærleika, sem krefst þess ekki vera endurgoldinn. Sú karlmennska er ekki kynjuð og þær dyggðir sem hér hafa verið nefndar einkenna ekki karla frekar en konur, en sú yfirborðslega karlmennskuímynd sem grundvallast á fjölda rekkjunauta, skjótfengnum gróða eða valdbeitingu stendur okkur karlmönnum fyrir þrifum.
Þar getur Kristur reynst okkur fyrirmynd, drengjum jafnt sem fullorðnum körlum.