Í gær fór fram prests- og djáknavígsla í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þar voru fjórir guðfræðingar vígðir til hins heilaga prests- og prédikunarembættis og tveir djáknar vígðir til kærleiksþjónustu í samfélaginu.
Margt áhugavert var við vígslu gærdagsins. Helmingur vígsluþeganna vígðust til starfa í öðru landi en þrír prestanna hafa verið ráðnir sem prestar í Noregi. Norski biskupinn Ingeborg, sem flutti vígsluræðuna, nefndi það einmitt að þessar aðstæður skapist vegna þess að það vanti presta í Noregi og prestar fái ekki störf á Íslandi. Hún sagði líka að það sem geri þetta mögulegt, sé sú staðreynd að við tilheyrum og þjónum öll sömu kirkju Jesú Krists í heiminum.
Fjórði presturinn var vígður til þjónustu í æskulýðsstarfi í Neskirkju í Reykjavík. Vígsla til æskulýðsstarfs er ekki nýmæli en djákni var vígður til æskulýðsþjónustu í Hallgrímssöfnuði 1965 og prestur til æskulýðs- og ellistarfs í Bústaðasöfnuði árið 1983. Nokkur dæmi eru um slíkar vígslur síðan.
Í aðdraganda vígslu gærdagsins spunnust nokkrar umræður sem snerta nauðsyn og góða skikkan sem viðhafist í sambandi við köllun og ráðningu presta. Slíkt er eðlilegt og skiljanlegt ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem ríkir meðal íslenskra presta og guðfræðinga, að nýjar stöður verða ekki til og eldri stöður treglega auglýstar, ef þær losna. Til að mynda voru málefni kynja í þjónustu kirkjunnar rædd, eins þörfin á því að hafa vígða starfsmenn í barna- og æskulýðsstarfi.
Í því sambandi kom fram að Nessöfnuður, sem kallar viðkomandi prest, ræðst í að taka þetta skref til að styrkja barnastarf kirkjunnar með ákveðnum hætti. Kreppa ríki í þjóðfélaginu og kreppa ríki í barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Við því vilji söfnðurinn bregðast og kallar því prest til að efla æskulýðsstarfið, styrkja hina kirkjulegu vídd, og bæta aðstæður viðkomandi starfsmanns sem hefur verið umsjónarmaður barna- og unglingastarfs Neskirkju síðastliðin ár.
Djáknarnir sem vígðust í gær halda utan um samfélagsþjónustu safnaða annars vegar í Reykjavík og hins vegar á Snæfellsnesi. Í Fella- og Hólakirkju starfa nú tveir prestar og tveir djáknar og er það eini söfnuðurinn á landinu sem býr svo vel. Á Snæfellsnesi styrkist samfélagsþjónusta safnaðarins með því að fá djákna til starfa við hlið prestsins, þó í litlu starfshlutfalli sé.
Þjónustuhlutverk kirkjunnar, sem er aðgreint í prestsþjónustu, djáknaþjónustu og biskupsþjónustu, lýtur ekki eingöngu praktískum lögmálum heldur miðlar guðfræði sem sprettur upp úr sjálfsmynd kirkjunnar og skilningi okkar á því til hvers kirkjan er kölluð í heiminum. Það er, að vera farvegur náungakærleikans í ólíkum myndum.
Presturinn er vígður til að boða gleðiboðskap trúarinnar um ást Guðs og frelsi til handa manneskjunni, í orði og verki. Djákninn er vígður til að boða kærleika Guðs til manneskjunnar allrar, í orði og verki. Biskupinn er vígður til að hafa tilsjón með söfnuðunum og vera prestur prestanna.
Nýafstaðin djákna- og prestsvígsla er tímanna tákn um að kirkjan í landinu hafi frumkvæði og hugrekki til að mæta þörfum umhverfisins fyrir gleðiboðskapinn og vera þar með í sókn. Við gleðjumst yfir fleiri prestum og fleiri djáknum til að vitna um trúna á Jesú Krist í heiminum með orðum og verkum.