Sálmur fyrir prédikun:
Árdegis, röðull reis úr nótt, í roða fór María að gröf Jesú hljótt. Felldi hún tár á föla jörð sem fann ekkert til en var náköld og hörð.
Guð hennar var í gröf og svaf, í guðsdýrkun sinni gaf þakklæti af smyrsl, sem hún bar við barminn sinn, en brynjaður vopnum var hermaðurinn.
Gröfin var tóm og gatan auð, Guð hennar huldi sig, þar stóð hún snauð. Felldi hún tár við fætur manns sem fór þarna hjá, framhjá gröf Lausnarans.
María spurði manninn þann um meistara sinn hvar hann lagt hefði hann. “María, ég er upprisinn, ég er alltaf hjá þér, ég, Drottinn Guð þinn. Guðm. Guðmundsson
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi
Frásagan af Maríu Magdalenu úti fyrir gröfinni á páskadagsmorgni er ein tilfinningaþrungnasta saga guðspjallanna og sögumaður okkar er Jóhannes guðspjallamaður. Andstæðar tilfinningar takasta á í brjósti hennar sorg og gleði, harmur og fögnuður, grátur og hlátur. Matteus segir þannig frá konunum sem farið höfðu út að gröfinni og orðið vitni að undrinu mesta, að þær fóru í skyndi frá gröfinni “með ótta og mikilli gleði” að flytja lærisveinunum boðin góðu. María Magdalena fer svo aftur að gröfinni eftir að hafa stunið upp fyrstu ályktun sinni um það sem gerst hafði: “Þeir hafa tekið Drottinn úr gröfinni og við vitum ekki hvar þeir hafa lagt hann.” (Jóh. 20.2). Ekki að undra að Pétur og Jóhannes, sögumaður okkur, hlaupa út að gröfinni. Það var allt í uppnámi í hópi lærisveinanna þennan morgun, óróleiki, undrun, spurningar. Jóhannes var á undan en hann leit aðeins inn í gröfina en Pétur fer inn og sér að Jesús hefur horfið úr líklæðunum eins og fiðrildi úr púpu sinni. Hvað hafði gerst? Ég veit ekki hvort þið takið eftir glettninni í frásögninni, það er eitthvað sem iðar innra með sögumanninum, þegar hann lýsir viðkvæmum og titrandi tilfinningum.
Hér í kirkjunni hef ég tekið eftir því að það er hefð fyrir að segja sögur en ég vona að ég móðgi engan þegar ég segi að Jóhannes hefur betur í sinni listilegu frásögn. Enda hefur hann með guðspjallamönnunum lagt grunn að þessari listgrein eða haldi henni áfram í anda hebreanna, að segja frá. Merkilegt til þess að hugsa að kjarni kristninnar er geymdur í frásögn, frásögunum af páskadagsmorgninum þessum. Það sem átti sér stað þennan morgun úti við gröfina snertir einhvern djúpan streng í mannlegri sál og tilveru. Jóhannes segir söguna af Maríu Magdalenu við gröfina til að segja mér og þér það að þessir atburðir sem þarna gerðust eiga við mig og þig eins og þeir snertu Maríu. Samskipti við Guð eru alltaf persónuleg, það innilegasta í lífinu, leyfi ég mér að segja, þar sem maður er algjörlega með sjálfum sér og Guði, þar sem við lifum merkingu lífsins og tilgang. Hvað segir svo þessi saga? Hún segir að það sé alltaf von, von gegn von segir postulinn á einum stað. Kristinn trú er óstjórnlega bjartsýn trú og þess vegna er hún líka svo gáskafull og gleðileg, eins og þessi frásaga ber með sér. Full af lífskrafti og fjöri. Og ástæðuna höfum við folgna í þessari frásögu.
Ef við hlustum og horfum vel þá sjáum við bros í gegnum tárin. Ég trúi því að konurnar og lærisveinarnir sem lifðu þennan morgun hafi skemmt sér við að segja þessar sögur vegna þess að upprisan kom þeim svo skemmtilega á óvart. Páskaboðskapurinn er óskiljanlegur með öllu, hann er ofar mannlegri skynsemi, mannlegu viti, hann er svo ósennilegur, að hann hefur ekki getað komið upp í huga nokkurs manns, enda á hann guðlegan uppruna, og það ekki aðeins að hugsuninni til, heldur hinu sem skiptir meiru, að Guð reisir við son sinn frá dauðum, dáinn maður rís upp til lífsins að nýju. Og miklu meira en það lífið sigrar og ljósið, Guð.
Snúum okkur aftur að sögunni um Maríu. Hún er svo yfirkomin af sorg og gráti að hún tekur ekki eftir því að englarnir í gröfinni tala til hennar sitjandi þar í hvítum klæðum sem Jesús hafði legið. Mönnum bregður frekar þegar þeir rekast á engla. Ég hef svo sem ekki mikla reynslu af því en biblían segir frá því að menn fylltust gjarnan ótta þegar englarnir birtust. María endurtekur hugsun sína sem hún var altekin af þegar þeir spyrja. “Kona, hví grætur þú?” Hún svarar: “Þeir hafa tekið burt Drottinn minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.”
Þá kemur þetta afgerandi augnablik í lífi hennar sem allt hverfist um, þau gleðilegu umskipti, sem kristin trú boðar okkur, mér og þér. Við eigum það með henni og öðrum vitnum að þessum atburðum. Hún snéri sér við og sér Jesús standa þar. Hún þekkti hann ekki. Ég sé Maríu Magdalenu fyrir mér í söfnuðinum forðum þar sem hún segir frá þessu með bros á vör: “Ég þekkti hann ekki samt stóð hann þarna. Og hvað haldið þið að ég hafi sagt við hann, það er skondið, ég hélt að hann væri garðyrkjumaðurinn og spurði hann hvar hann hefur lagt hann svo ég gæti sótt hann. En þá sagði hann við mig: “María”. Þá snéri ég mér við og sá hann. Hvern sá hún? Hún sá og heyrði Guð sinn nefna sig með nafni. Og þannig kemur Guð til okkar hvers og eins og nefnir okkur með nafni, sigurvegari alls hins illa, myrkursins og hatursins, til að vera með okkur, standa með okkur. Hann bregst ekki heldur gengur á undan til að opna okkur leið áfram til ljóssins og lífsins eilífa. Og María bætir við sögu sína orðinu upp á hebresku sem hún sagði þá: “Rabbúní!” Við hér í Akureyrarkirkju á þessum páskadagsmorgni höfum ekki hugmynd um hvað það þýðir nema þeir sem muna guðspjallið vel. En þetta var orðið sem hún heilsaði meistara sínum með. Það er útskýrt fyrir okkur rabbúní þýðir meistari.
Þá koma þessi dularfullu orð Jesú: “Snertu mig ekki. Ég er ekki enn stígin upp til föður míns.” Þessu hafa menn velt fyrir sér. Var einhver umbreyting að eiga sér stað á þessu augnabliki. Og margar eru skýringarnar. Menn tala um dýrðarlíkama osfrv. Fiðrildið sem losnar úr púpunni, fræið sem verður að blómi. En hvað um það? Þetta augnablik sem María sér meistara sinn rennur upp fyrir henni merking þess og Jesús staðfestir það fyrir henni með því að senda hana aftur til lærisveinanna sem sátu saman að virðist, kannski í lofstofunni, ráðalausir með tómu gröfina sem staðreynd. Jesús sendir hana með þessi orð: “Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar”. Í því felst tvennt: (1) Upprisan og uppstigningin merkir það að Drottinn er alltaf nálægur, nær en við sjálfum okkur, hann býr með okkur, þar sem hann er stíginn upp. Lyftir þú augum þín til himins í bæn þá er hann þar og um leið svo nærri þér að hann er í hjarta þér. (2) Hitt er að við erum Guðs, hann er faðir okkar allra, við erum í sömu stöðu og Jesús gagnvart Guði, vegna þess að hann hefur með upprisu sinni opnað okkur leið til Guðs, við erum hans elskuð börn, njótum náðar hans. Við eigum allt með honum, ljósið og lífið eilífa.
Við bárum barn til skírnar í söfnuðinum í dag, heyrðum þar orð Drottins: „Ég er með ... allt til heimsins enda“. Við sem skírð erum vorum öll merkt krossinum, sem í ljósi upprisunnar er sigurtákn lífsins, við helgum barnið því besta og æðsta sem hugsun okkar geymir, Guði, og Guð gefst þessu barni, eins og hann hefur gefist okkur hverju einu, til þess að leiða okkur til lífsins. Við erum endurfædd til lifandi vonar fyrir upprisu Krists. Ræktum þá gleði með okkur, látum þann fögnuð einkenna samskipti okkar, vekjum von og trú með samferðafólki okkar. Sú blessunarbæn fylgi kveðjunni í dag: Gleðilega páska! Hver sunnudagur er upprisuhátíð til að næra þessa trú og traust, lifa þennan innileika og djúpu tilfinningar með Guði. Vonin varir við vegna þess að hún byggist ekki á neinu þessa heims heldur á Guði sjálfum sem hefur birt sig eins og hann er í Kristi upprisnum.
Þessi vegna gengum við hingað inn með gleðisöng, til að eiga þetta mót við Guð eins og María Magdalena forðum fyrir utan gröfina. Boðskapur hennar var afar einfaldur en skipti sköpum fyrir hana, fyrir okkur, fyrir heim allan: “Ég hef séð Drottin.” Þannig hefur eilífur Guð birst okkur í Jesú Kristi, persóna, sem við getum nálgast og hann okkur.
Með þann boðskap erum við send héðan og eftir bæn og blessun munum við ganga út með Hallelújavers á vörum og syngja það fyrir kirkjudyrum til að tjá brot af þeirri óumræðulegu gleði og fjöri sem felst í upprisunni. Þessa von erum við send með, lífið eilífa, sem byggist á engu þessa heims, heldur á Guði einum sem hefur birst okkur á upprisudeginum. Drottinn nefnir þig með nafni, segir við þig í dag: “Ég er alltaf hjá þér, ég, Drottinn Guð þinn.”
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postulegri blessun:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.
Sálmar sem sungnir voru:
Inngöngusálmur: Sálmur 147 “Sigurhátíð sæl og blíð” Sálmur “Herran lifir, höldum páska” Skírnarsálmur 256: "Ó, blíði Jesú blessa þú" Kórsöngur: Páskasálmur, sænskt lag, texti GG Predikun Tónlist eftir prédikun: Gloria eftir A. Vivaldi Sálmur 212 “ Dauðinn dó, en lífið lifir” Útgöngulag, almennur söngur: "Sjá ljóma yfir húmsins höf"