Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, prófastur í Bolungarvík, hefur verið kjörin Biskup Íslands. Hamingjuóskir eru efst í huga um leið og við bjóðum nýjan biskup velkominn til starfa. Hér eru skráð tímamót í sögu kirkjunnar þegar kona er í fyrsta skipti kölluð til biskupsembættis og er til vitnis um kirkju sem ræktar jafnræði í starfsháttum sínum. Sr. Agnes stendur djúpum rótum í þjónustu kirkjunnar og hefur notið trausts í störfum sínum þar sem farsæld trúar og kirkju hefur ætíð verið í fyrirrúmi. Hún er vel búin til þess að leiða kirkjuna inn í framtíðina.
Sr. Agnes tekur við embætti af sr. Karli Sigurbjörnssyni sem hefur þjónað í 13 ár. Á þeim tíma hefur kirkjan eflst mjög að þjónustustyrk og fjölbreytni í starfi og gengið í gegnum umfangsmiklar skipulagsbreytingar þar sem aðskilnaðarferlið á milli kirkju og ríkis rís hátt. Það var ekki einfalt verk að aðlaga starfshætti kirkjunnar að nýju skipulagi og setja því formlega umgjörð. Þessa vinnu hefur sr. Karl leitt af myndugleik og festu í samstarfi margra með heill kirkjunnar að leiðarljósi. Á starfstíma sr. Karls voru til meðferðar erfið mál til úrlausnar innan kirkjunnar. Þar tókust oft á skiptar skoðanir, heitar tilfinningar og ekki einföld lausnarorð. Þar lagði sr. Karl sig fram um, að regluverk kirkjunnar yrði styrkt í ljósi reynslunnar svo hún mætti verða réttlát í viðbrögðum sínum fyrir komandi tíma. Sr. Karl hefur lagt mikið að mörkum fyrir kirkjuna okkar í biskupsstörfum og með predikun sinni.
Innan kirkjunnar blómgast gróska og öflugt starf sem byggist á mannauði í traustri þjónustu. Á sama tíma nýtur kirkjan skertra tekna vegna ákvörðunar Alþingis um að láta stóran hluta sóknargjaldanna renna í ríkissjóð. Eigi að síður er kirkjan kjölfesta í menningar-og félagslífi þjóðarinnar þangað sem fólkið sækir í vaxandi mæli eftir þjónustu og þátttöku í fjölbreyttu starfi og nýtur athafna á stærstu stundum lífsins. Nýr biskup tekur því við góðu búi. Þá er mikilvægt að taka höndum saman með nýjum biskupi um að halda áfram að efla þjónustu og starf kirkjunnar á traustum grunni þar sem Guð er í miðju, blessar og nærir.