Í sögunni sem er skráð er í síðastliðnar vikur höfum við örugglega flest hnotið um lífsreynslu og erfiðar sögur fólks bæði á förnum vegi og í fjölmiðlum. Þetta markar dagana okkar og tilfinningarnar eru blendnar því sumt af því sem er sagt eða gert er pirrandi eða vekur upp óróa í huganum. Samúð okkar er vakin og við erum alltaf að mynda okkur skoðun. Við glímum við erfiða hluti og margir veifa lausnum, spám, sannleika eða draga ályktanir. Það ríkir óreiða í huganum um leið og hugsað er til þess að grundvallar breytan í þessu öllu erum við, ófullkomnar manneskjur, sem reynum að skilja og vita betur en vitum þó stundum ekki betur. Í þessari óreiðu er fyrirgefningin þrungið orð og kannski ekki tímabært að fjalla mikið um hana. Veltum þessu aðeins fyrir okkur í áleitinni umræðu, óþægilegri um lítt viðráðanlega hluti og samspil margra þátta.
Fyrst, stutt dæmisaga eða frásaga um sirkusfílinn sem er bundinn með grönnu bandi við spýtu sem er rekin niður í jörðin. Með því að sveifla gildum fætinum hefði fíllinn getað rifið upp veigalítinn staurinn en af hverju reynir hann ekki að losa sig? Jú, sagði fílatemjarinn, þegar fíllinn var ungviði var hann bundinn með reipi sem var síðan bundið við keðju. Keðjan var síðan fest við gildan staur sem var kyrfilega rekinn niður í jörðina. Fíllinn litli reyndi að losa sig en í hvert sinn sem hann reyndi að toga í og rykkja þá skarst reipið inn í fótinn og smátt og smátt fann hann hversu tilgangslaust var að reyna að losa sig. En einn dag er reipið losað, keðjan tekin burt og grannt band bundið við spýtuna sem áður var minnst á. Fíllinn sér hversu veigalítið bandið er en þá streyma fram í huga hans gamlar minningar um sársaukann. Fíllinn ákveður að ef hann rykki í bandið þá komi gamli sársaukinn þegar bandið skerst inn í fótinn. Hann ákveður að hann verði aldrei frjáls og minnist bara sársaukans – reynir ekki aftur. Stundum lifum við bundin við fortíðina – erum ekki frjáls og upplifum því ekki vald fyrirgefningarinnar. Okkur þrýtur traustið og trúna því sársauki minninga og vonbrigða bindur okkur við fortíðina. Uppgjörið við fortíðina felst í fyrirgefningu. Þar er krafturinn og uppspretta lífsins – ekki kraftaverk augnabliksins heldur lífgjöfin sjálf.
Varnaðarorðin sem hljóma í kjölfarið á sögunni hér á undan eru að við megum ekki hætta að skynja lífið og fyrirgefninguna – þrátt fyrir vonbrigði og ósanngirni. Reynum heldur að eygja kraftinn og lífgjöfina og sjáum tækifærin sem felast í lífinu, samfylgdinni, náunganum, velvilja samferðarfólks og þiggum samfylgd skapara okkar á lífsleiðinni.
* * *
Á upplitaðri kaffikrús í eldhússkápnum mínum stendur: „Þegar lirfan hélt að lífið væri á enda þá breyttist hún í fiðrildi“. ....Lögmál náttúrunnar og líka það sem gerist á daglegri göngu á Guðs vegi. Við vitum ekki hvað bíður okkar við næsta skref. Ástvinir sem glæða daginn okkar lífi, mesta gleðin, þyngsta sorgin, erfiðleikar, uppörvun, hvatning, fyrirgefning. Takmark hvers skrefs er að gildi lífsins og fegurð verði skýrari í huga okkar og að við kunnum að skilja eftir það sem særir huga okkar og vekur erfiðar minningar, þorum að slíta af okkur helsið. Við verðum að viðurkenna hver takmörk okkar eru en treysta forsjón Guðs, huggun og umhyggju sem er öllum betri ..og við erum minnt á í einni af sögum guðspjallanna með orðunum: „Vertu hughraustur barnið mitt“