Áramótin eru allt of nálægt jólunum, andvarpaði vinkona mín, sem rekur verslun og blómlegt fyrirtæki í höfuðstaðnum. Alveg ofan í desemberhamaganginn og stórviðskiptin sem ná orðið yfir lungann af sólarhringnum, kemur tíminn sem þarf að stemma af og gera upp bókhald, birgðir og stöðu. Áramótin eru reikningsskil. Í viðskiptum þýðir þetta að horft er um öxl, yfir allt sem kom inn og fór út og staðan tekin. Þá kemur í ljós hvar við erum og hvernig staðan er.
Hvernig er staðan hjá okkur þessi áramót? Erum við í plús eða mínus? Hvernig er staðan á samskiptareikningnum og í kærleiksbankabókinni? Erum við á sama stað og fyrir einu ári síðan, þegar við horfðum fram á árið 2012, höfum við vaxið og dafnað eða finnum við okkur veikari fyrir?
Ekki rætast allar vonir sem við berum í brjósti þegar nýtt ár gengur í garð. Elskuleg vinkona mín sagði þegar við ræddum um árið sem er að líða, að hún hefði verið full bjartsýni og vonar fyrir ári þegar hún lyfti glösum með fjölskyldunni sinni síðasta gamlárskvöld og hugsað: mikið verður árið 2012 gott ár! En það varð þvert á móti, annus horribilis, eða hryllilegt ár! Við sjáum ekki hlutina fyrir - kannski sem betur fer.
Það eru miklar vonir og væningar sem við berum í brjósti þegar nýtt ár gengur í garð. Stundum eru það vonir um að ákveðnar breytingar eigi sér stað en stundum eigum við þá helsta von í brjósti að hlutirnir breytist einmitt ekki. En það er þó það lögmál sem við öll lifum undir - að allt hefur sinn tíma og ekkert helst óbreytt. Við eldumst, börn fæðast, fjölskyldur verða til og fjölskyldur breytast, og ástvinir og félagar falla frá.
Þetta fær aðalpersónan í bókinni Undantekningin eftir Auði Övu Ólafsdóttur, sem kom út nú fyrir jólin, að reyna. Sagan hefst á gamlárskvöld í þann mund sem flugeldarnir lýsa upp himininn og hávaðinn af þeim yfirgnæfir allt mælt mál. Þá tilkynnir eiginmaður Maríu henni að hann ætli að flytja burtu, vilji skilnað og ætli upp frá þessu að lifa með ástmanni sínum.
Á þeirri stundu hvolfist breytingin yfir Maríu, ofan í steikina og góða vínið og hátíðarstemninguna - breytingin sem kemur óvænt og óvægið og neyðir hana til að taka upp nýja hætti, horfa á sig sjálfa með öðrum augum og nálgast framtíðina á allt annan hátt en henni hafði komið til hugar að hún myndi gera.
Nýja árið sem átti að færa henni framhald og vöxt þess sem var, bar því í skauti sér allt önnur örlög. Örlög sem hún hefði ekki óskað sér - en beindu henni þó á braut sem leiddi til nýrra hluta og nýs lífs.
Elsku vinir í Kristi, hvort sem áramótin bera okkur kollsteypu, kyrrstöðu eða hæga framrás, þá eru þau góður tími til að staldra við og taka púlsinn. Hlusta og horfa. Lesa í stöðuna. Telja dagana okkar - dagana sem við höfum lifað, sem eru liðnir og koma aldrei aftur.
Kannski snúast áramótin fyrst og fremst um að taka á móti. Taka á móti því sem kemur og við höfum í raun ekki stjórn á. Þess vegna æðruleysisbænin sérstaklega vel við um áramótin:
Guð - gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og visku til að greina þar á milli.Að lifa einn dag í einu, njóta hvers andartaks fyrir sig, viðurkenna mótlæti sem friðarveg, með því að taka syndugum heimi eins og hann er, eins og Jesús gerði en ekki eins og ég vil hafa hann
og treysta því að þú munir færa allt á réttan veg ef ég gef mig undir vilja þinn svo að ég megi vera hæfilega hamingjusamur í þessu lífi og yfirmáta hamingjusamur með þér þegar að eilífðinni kemur.
Svona hljómar þessi fræga bæn eftir Reinhold Niebuhr, sem er m.a. notuð í 12 spora starfi í ólíku samhengi. Hugsun hennar hittir í mark, því hún orðar tilfinningu í brjósti manneskjunnar, sem við þekkjum öll, sem fylgir því að takast á við mótlæti og vonbrigði lífsins og snúa því í bata og sigur. Mikilvægast er að geta greint á milli þess sem við fáum breytt og þess sem er handan okkar vilja. Þess vegna er kjarkurinn og vitið eins mikilvægt og æðruleysið. Eintómt æðruleysi á það á hættu að snúast upp í sinnuleysi sem rænir okkur hugrekki og þori til að vaða í aðstæður sem hægt er að breyta. Og víst er að það er nóg af aðstæðum í samfélaginu okkar og hinum stóra heimi sem knýja okkur til aðgerða og til að breyta til góðs.
Lögfræðingurinn og rithöfundurinn Þórdís Elva Þorvaldsdóttir skrifaði grein í gær sem fangaði athygli lesenda og hefur farið eins og eldur í sinu um netið. Tilefni skrifanna var hin ömurlega árás í Nýju-Delhi á Indlandi, þar sem ungri konu var nauðgað og misþyrmt af hópi karla, með þeim afleiðingum að hún lést nú í vikunni af sárum sínum.
Þórdís er ein af þeim sem brýnir okkur til að líta ekki á ofbeldi gegn konum sem eitthvert náttúrlögmál heldur samfélagslegt mein sem má breyta. Hún segir m.a. í greininni:
„Með fræðslu og samstilltu átaki tókst okkur að ráða niðurlögum sjúkdóma á borð við skyrbjúg og beinkröm, sem hrjáðu Íslendinga á árum áður. Ofbeldi gegn konum er heimsfaraldur sem drepur og örkumlar fleiri ungar konur á ári hverju en krabbamein, malaría, stríðsátök og umferðarslys samanlagt. Engin þjóð hefur gert alvöru tilraun til þess að útrýma þeim sjúkdómi. Við erum lítið land sem stendur framarlega að vígi í jafnréttismálum á heimsvísu. Við ættum að geta þetta - og varpa þar með birtu inn í myrkrið sem ofbeldi sprettur úr.“
Þetta er ekki ónýt áskorun fyrir nýtt ár. Upprætum ofbeldi gegn konum og gerum heiminn að öruggari stað fyrir alla, konur, karla og börn. Lítum á það sem tækifæri - nýtt tækifæri á nýju ári. Nýtt ár færir okkur tækifæri til að breyta því sem við fáum breytt, en líka tækifæri til að sætta okkur við það sem við fáum ekki breytt. Sætta okkur við það hver við erum, hvaðan við komum og lífið sem við höfum lifað.
Kæru bræður og systur í Kristi, um áramótin finnum við fyrir þakklæti, en líka söknuði til þess tíma sem var, til þeirra sem við höfum elskað en eru ekki lengur með okkur. Við finnum líka til auðmýktar og smæðar og hvað það er gott að geta lagt okkur í hendur Guðs, sem er kærleikur og hvorki þjáning, þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð getur gert okkur viðskila við.
Í trausti til þess, leggjum við okkur sjálf og öll sem okkur eru kær í hendur Guðs, um áramót, biðjum um blessun og líkn á ókomnum stundum og þökkum fyrir allt sem er liðið og kemur ekki aftur.