Skröksögur

Skröksögur

Hvað eru skröksögur og hvað eru ummyndunarsögur og hvernig eigum við eiginlega að skilja suma kaflana í Biblíunni? Hér segir af zombíum og Pútín og Ólympíuleikum og Pollapönki og svo vinunum Jesú, Jakob, Jóhannesi og Pétri sem fóru upp á fjall.

Ég á sjö ára gamla stelpu. Um daginn var hún að leika heima með vinkonu sinni sem býr rétt hjá okkur. Þær höfðu unað lengi uppi í herbergi en það var komið eitthvert óþol í stelpurnar svo við leyfðum þeim að fara út í garð með tvö vasaljós. Svo hoppuðu þær og skoppuðu og af því að það var komið myrkur sáum við ekkert hvað þær voru að gera en við sáum geislana frá vasaljósunum skjótast um.

Svo kom að því að vinkonan þurfti að fara heim og við gengum með henni af því að manni er alltaf vel við að börnin gangi ein í myrkrinu. Á leiðinni sögðu þær vinkonur mér út á hvað leikurinn hefði gengið. Þær vildu deila sögunni af sér því hún skipti þær máli. Þetta reyndist semsagt hafa verið mikil barátta góðs og ills þar sem þær voru í hlutverki verndara hins góða, vopnaðar ljóssverðum, að bægja burtu uppvakningum - Zombíum - og annars konar óværum sem herjuðu á heiminn. Þær börðust við litlar og stórar Zombíur og höfðu sigur. Þær unnu saman og það skipti sköpum. Þær voru hetjur í frásögunni sinni og glaðar með hlutskipti sitt.

Ég man að ég hugsaði tvennt þegar ég heyrði hana segja frá þessu:

  • Ímyndunaraflið er magnað, úr bakgarðinum heima og tveimur vasaljósum verður til ævintýraland og saga.
  • Mikið er gott að litlar stelpur geti líka séð sig í þessum hlutverkum – þetta segi ég vegna þess að hún á alveg sín bleiku prinsessu kjóla móment líka.

Var þetta skröksaga hjá stelpunum?

* * *

Í dag er hinn svokallaði ummyndunarsunnudagur í kirkjunni. Við lesum litríka frásögn í guðspjallinu af því þegar Jesús fer upp á fjall með þrjá lærisveinum og ummyndast fyrir augum þeirra og þeim birtast þekktir karlar úr Gamla testamentinu – Móses og Elía – og þeir heyra rödd Guðs og sjá Jesú eins og hann er. Þeir sjá sýn og hún hefur grundvallandi áhrif á þá. Þetta er mögnuð frásögn sem hefur greinilega haft mikil áhrif á þá sem urðu vitni að henni.

Er þetta skröksaga?

Ja, það hafa ekki allir trúað þessu. Það lesum við meira að segja í pistli dagsins þar sem Pétur segir: „Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans.“

Og það er ekki alltaf sem við sjáum merki um það í Biblíunni að textum eða sögum sem þar er að finna hafi ekki verið trúað sem sannleika.

En gerðist þetta þá svona? Geturðu sannað það, svo notað sé orðalag sem ég man eftir frá mínum eigin unglingsárum? Kannski þekkið þið þetta sem eruð í fermingarfræðslu núna - eða kannski er þetta bara gamaldags orðalag fyrir ykkur.

Við getum ekki skorið úr um það hvort þetta gerðist svona. Við vorum ekki vitni að þessu. Reyndar segir í textanum að þetta hafi verið sýn og um sýnir gilda ekki hefðbundin lögmál hins sannreynanlega. Það er ekki tilgangur þeirra. Sýnin hefur áhrif á þann sem verður fyrir henni. Hún breytir afstöðu hans. Jafnvel svo mikil áhrif að hann vilji eða verði segja frá.

* * *

Skröksaga. Hvað merkir þetta orð? Hvað er skröksaga?

Ein skilgreining er sú að skröksaga sé ósönn saga. Saga sem er ekki í samræmi við raunveruleikann. Ok. En hvað er sannleikur? Og hvað er raunveruleiki? Er ástin til dæmis sönn eða raunveruleg? Getum við sannað það?

Ef mér finnst birta eða lifna yfir herberginu sem ég er í þegar konan sem ég elska gengur inn í það – og ef ég segi öðrum frá því af því að það er svo magnað – af því að hjartað slær nokkur aukaslög – er það skröksaga af því að ég get ekki sannað þetta? Er þetta skröksaga af því að þetta er lýsing á minni upplifun, á mínum veruleika en ekki annarra?

Nei, við þurfum aðra skilgreiningu. Og kannski þurfum við að nálgast þetta úr annarri átt.

Prófum svona nálgun:

Skröksaga er saga sem afbakar og afmyndar, gerir lítið úr og beinir athyglinni frá því sem skiptir máli. Andstæða hennar er ummyndunarsaga. Hún lyftir upp, skerpir sýn og lýsir því sem er fallegt og beinir umfram allt athyglinni að því sem skiptir máli.

Pétur, Jakob og Jóhannes fóru upp á fjall með Jesú. Þeir sneru niður af fjallinu með staðfestingu í huga og hjarta á því hver Jesús var. Þeir upplifðu tilganginn með ferðalaginu sínu, starfinu sínu. Og hafið í huga að þeir höfðu yfirgefið allt fyrir einmitt þetta. Þessi reynsla, og auðvitað annað sem þeir upplifðu á ferðum sínum með Jesú, var svo sterk að þótt Jesús dæi stuttu síðar héldu þeir áfram að starfa og úr varð kirkjan sem hefur verið til síðan. Hvað getum við þá sagt um sögu af ferðinni á fjallið? Hún er ummyndunarsaga.

* * *

Þetta hefur verið viðburðarík helgi.

Á föstudaginn var opnunarhátíð vetrarÓlympíuleikanna. Það er alltaf hátíð og ástæða til að fagna þegar afreksfólkið frá öllum heiminum kemur saman til að gleðjast og keppa í íþróttunum sem hafa þau hafa helgað líf sitt. Ólympíuleikar eru veraldarhátíð sem dregur fram sumt af því besta við okkur mannfólkið og birtir líka fjölbreytni mannlífsins. Og opnunarhátíðin var stórfengleg, ljósadýrð og mannfjöldi og mögnuð tónlist og falleg sýn á landið og þjóðina sem hýsir leikana að þessu sinni. Sem slík er opnunarhátíðin ummyndunarsaga sem dregur fram það besta og skerpir og minnir okkur á það góða og fagra sem Rússland stendur fyrir.

Við sem horfðum fengum innsýn í sögu stórþjóðar sem hefur unnið mörg afrek. Það er mikilvægt. Og við fögnum með íþróttafólkinu sem tekur þátt og hefur lagt mikið á sig. Sem Íslendingar erum við auðvitað sérstaklega stolt yfir fólkinu okkar sem keppir. En það var skuggi yfir opnunarhátíðinni og hann er viðvarandi á leikunum öllum. Rússland hefur nefnilega ekki hreinan skjöld þegar kemur að mannréttindabrotum og stöðu ýmissa minnihlutahópa. Nærtækast er að nefna samkynhneigða. Þeir eru óvelkomnir í Rússlandi.

Og við viljum ekki taka þátt í að upphefja slíka fordóma. Að þessu leytinu til er opnunarhátíðin skröksaga. Því hún skautar framhjá mikilvægum þáttum sem er ekki hægt að horfa framhjá, en það er reynt með því að beina athyglinni annað.

* * *

Í gær fór fram síðara undanúrslitakvöldið í Eurovision. Fjölskylduhljómsveitin Pollapönk átti eitt lagið og þar er fjallað um málefni sem er þeim piltum hugleikið: Baráttuna gegn fordómum. Ég hef hlustað á tónlistina þeirra og er þeim þakklátur fyrir þeirra framlag til opins samfélags sem virðir fjölbreytnina í mannlífinu og fyrir baráttu þerira gegn fordómum og ofbeldi. Sagan sem þeir sögðu í gær í laginu „Enga fordóma“ er saga af ummyndun skröksögu í samfélaginu.

Þeir syngja:

„Burtu með fordóma Og annan eins ósóma Verum öll samtaka Þið verðið að meðtaka Þótt ég hafi talgalla Þá á ekki að uppnefna Þetta er engin algebra Öll erum við eins.“

Við getum öll tekið undir. Söngur pollanna er ummyndunarsöngur sem lýsir leiðinni að samfélagi sem við viljum vera hluti af.

Ég veit að tónlistarsmekkur fólks er misjafn og síst af öllu vill presturinn vera með Eurovisjónáróður, en ég myndi gjarnan vilja að við sendum pollana til Evrópu með þennan uppbyggilega boðskap. Það væri góð Evrópukveðja frá Íslandi.

* * *

Kæri söfnuður, góðu vinir.

Að vera kristin manneskja - að hafa kristna lífssýn - er að lifa í ummynduninni - sem gefur okkur fallega sýn á líf og manneskjur og sér ljósgeislana í myrkrinu í bakgarðinum - og vilja lyfta þessu og einmitt þessu upp.

Að vera kristin manneskja er líka að vera meðvituð um skröksögurnar í lífinu, um skuggahliðarnar, og vinna gegn þeim. Að berjast við zombíur afmyndunarinnar svo vitnað sé til leiks ungu stúlknanna og neita að taka þátt eða taka undir skröksögur sem gera lítið úr fólki.

Sem samfélag, sem kirkja, skulum við vera samtaka í því að gera samfélagið okkar að ummyndunarsamfélagi sem horfist í augu við skröksögurnar og vinnur gegn þeim til að við getum lifað í ummyndunarsögunni.

Saman.

Guð leiði okkur til þess.