Að morgni 16. maí 2011, á degi heilags Brendans/Breandans ( 486-587?) lagði írska seglskútan Ar Seachrán/Wayfarer /Ferðalangur úr höfn frá bænum Ventry í Kerrýhéraði á vesturstönd Írlands í tveggja mánaða siglingu og rannsóknarleiðangur um papaslóðir á Norður-Atlantshafi allt til suðurstrandar Íslands og Vestmannaeyja. Heilagur Brendan moccu Altai var þekktur fyrir sjóferðir sínar og varð dýrlingur sæfara. Víðþekktur sægarpur Paddy Barrý stýrir skútunni en leiðangursstjóri verður örnefna- og þjóðháttafræðingurinn dr. Breandan Ó. Ciobháin, sem er á áttræðisaldri.
,,Ferðalangur” er 45 feta skúta með 20 m. mastur og 70 hestafla hjálparvél. Svefnrými er um borð fyrir níu manns. Fimmtán manns verða samt í för, vísinda- og fræðimenn í sagn- og fornleifafræðum, skáld og listamenn auk reyndra sæfara. Þeir skiptast á um að sigla á milli áfangastaða en fimm þeirra fara þó leiðina alla. Þeir stefna að því að kanna staði á Atlantshafseyjum þar sem forn papaörnefni finnast og/ eða ummerki, sem gætu bent á papa.
Norrænir menn/víkingar kölluðu munka og klausturbúa, er þeir komust í kynni við á ferðum sínum á vestur - og norðurslóðum úthafsins, papa, sem höfðu þá víða komið sér fyrir á afviknum stöðum eða eyðieyjum til bænaiðkunar og helgihalds. Á latínu nefndust slíkir förumunkar ,,peregrini”, pílagrímar og ferð þeirra ,,peregrinatio.” Þeir lögðu út frá ættjörð, vandamönnum og vinum í þrá og leit að ,,Desertum/a/ eða herminum/a in oceano”, auðn og athvarfi á úthafinu. Þessi orð vísuðu í huga þeirra til óbyggðra eyðistaða þar sem einsetumenn í Egyptalandi höfðu fyrrum komið sér fyrir og helgað Guði í Jesú nafni og haft víðtæk áhrif með trúariðkun og líferni sínu.
,,Desertum” merkti ekki eyðimörk í þessu samhengi heldur fremur tæmingu, hreinsun af veraldlegum áhrifum, illum öndum og öflum og vísaði jafnframt á annars konar veruleika, aðra vídd og tilveru en þá sýnilegu. Auðnin/athvarfið varð snertiflötur milli heima, helgaður staður, þar sem greina mátti æðri lífsstrauma. Slíka staði fundu papar á eyjum og eyðistöðum úthafsins og helguðu með trúarlífi sínu allt til dauða og biðu upprisudags og komu Guðsríkis í Jesú nafni.
Í ævisögu heilags Bre(a)ndans /Betha Brennain/Vita Brendani segir frá sjóferðum Brendans í leit að landinu fyrirheitna en þar fer hann vart lengra en milli staða á Írlandi og Bretlandseyjum enda þótt undur gerist á leiðinni. Brendan er jafnframt söguhetjan í vel þekktri sögu frá miðöldum ‘Navigatio Sancti Brendani Abbatis’, ,,Sjóferð heilags Brendans ábóta”, sem mun vera frá lokum 8. aldar. Þar fer Brendan mun lengra út á Atlantshafið. Ferðasaga hans er ævintýraleg og segir frá ýmsum sérstæðum áningarstöðum. Hún er þó öðru fremur lýsing á ,,innra ferðlagi”, því að nákvæmlega er fylgt forskriftum klaustra um lífshljóm og helgihald á siglingunni, á farinu veika, skinnbáti á trégrind. Báturinn veiki minnir á, að líkami manns er einnig viðkvæmur farkostur á lífsförinni hér í heimi.
Sagan ber þó með sér að frést hefur af eyjum og landnámi í úthafinu áður en hún er skrifuð. Greint er frá eyjum fjár og fugla með þeim hætti að þar mun sagt frá Færeyjum. Og logandi grjótklumpum og -flygsum er lýst, sem fleygt er frá landi, er gætu minnt á eldgos upp af suðurströnd Íslands. Einnig er sagt frá kristalbjörgum á úthafinu, sem verið gætu ísdrangar og rekís.
Lýsing Decuils, munks frá Iona, af eylöndum í norðri í bók sinni, ,,Liber De Mensura Orbis Terrae ”, ,,Bók um mælingu jarðarkringlunnar” frá 825, er mun trúverðugri og áreiðanlegri. Þar greinir hann frá rannsóknarferð kennimanna, er átt hefur sér stað um miðja 8. öld. Af náttúru- og umhverfislýsingum þeirra að dæma hafa þeir verið við rannsóknir bæði í Færeyjum og á Íslandi. Þeir dveljast á Thule/ Íslandi frá febrúarmánuði fram í agústmánuð og reyna bæði vetrarmyrkur og náttlausa sumarfegurð.
Fyrsti viðkomustaður skútunnar ,,Ferðalangs” á papasiglingu sinni verður klettaeyjan ,,Sceilg Mhichíl/Skellig Michael”, sem er skammt/15 mílur undan Kerrýströndum. Eyjan er klettadrangur en var þó byggð munkum á fyrri tíð, svo sem býkúpulaga steinabyrgi, er enn standa, vitna um og voru vistarverur þeirra og helgidómur.
Þaðan liggur leiðin á papaslóðir við vesturströnd Írlands og á Suðureyjum. Ein þeirra er ,,Iona”, þar sem heilagur Kolum- Killi kom upp klaustri á öndverðri 6. öld, er varð móðurklaustur fjölda annarra klaustra enda barst trúin þaðan með sínum vestrænu/keltnesku einkennum vítt um lönd og höf. Í ævisögu Kolum-Killa, sem Adómnán, 9. ábóti klaustursins, skráði á sjöundu öld, er sagt frá tilraunum til að sigla frá Iona á úthafið í leit að auðnar- og griðarstöðum.
Frá Iona verður siglt til eyja norður af Skotlandi, Orkneyja og Shetlands, þar sem finnast fjöldi papastaða- og ummerkja, og svo til Færeyja. Þar verður komið við í Þórshöfn, Brendansvík í Kirkjubæ og Leirvík á Austurey, þar sem eru merkar leifar bænhúss vestrænnar gerðar. Einnig verður farið til Klakksvíkur á Borðey. Á leiðinni til Íslands verður siglt að Mýkinesi þar sem finnast fornar rústir af kirkju, er borið hefur augljós írsk auðkenni.
Dr. Jonathan M. Wooding, sem er víðþekktur sérfræðingur um siglingar og sjóferðir til forna á Miðjarðar- og Atlantshafi, kemur um borð í Færeyjum, þar sem hann er við rannsóknarstörf.
Frá Mýkinesi siglir ,,Ferðlangur” til Íslands að Papey og svo inn í Djúpavog. Við Fjölnir Torfason frá Hala í Suðursveit, er fann fyrir fáeinum árum fornar byggðarrústir, sem talið er að hafi verið hið forna Papabýli, munum taka á móti sæförunum ásamt heimamönnum í Djúpavogi. Fjölnir mun aka með gestina góðu um Suðurland og koma við í Papósi og Papafirði. Þjóðhátíðardaginn 17. júní munu þeir dvelja á Þórbergssetri í Suðursveit og fjalla þar á opinni ráðstefna um sjóför sína og papaferðir. Dr. Breandan mun lýsa sjóferðinni og rannsóknarmarkmiðum hennar og dr. Jonathan segja frá ferðum papa á fyrri tíð. Á bakaleið verður komið við í Papabýli.
Daginn eftir 18. júní siglir svo ,,Ferðlangur “ frá Djúpavogi til Vestmannaeyja og kemur við af sjó í Papaósi og Papafirði. Ég slæst með í för til að greiða götu leiðangursmanna. Þeir hyggjast vera í Vestmannaeyjum á sumarsólstöðum 21. júní, en þær sólstöður höfðu mikla merkingu í hugarheimi Kelta til forna og líka fyrir kristnun þeirra. Þaðan munu þeir bregða sér yfir á ,,Seljaland’ á meginlandinu, þar sem finnast merkir manngerðir hellar. Niðurstöður rannsókna fornleifafræðingsins og Vestur-Íslendingsins Kristjáns Ahronsonar hafa sýnt fram á það, að uppgröfturinn úr þeim er undir svonefndu landnámsöskulagi frá um 870 og því töluvert eldri en það.
,,Ferðlangur” heldur héðan af landi um Jónsmessuleytið á leið til eyjarinnar Sánkti Kildu og svo nokkurra áfangastaða enn á Atlantshafi áður en hann kemur samkvæmt áætlun aftur til Írlands.
Dr. Jonathan Wooding mun þó staldra við hér á landi í fáeina daga. Sunnudaginn 26. júní tekur hann þátt í útiguðsþjónustu á Esjubergi á Kjalarnesi sem hefst kl. 14 og haldin er í tilefni af Kjalnesingadögum. Við dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur, stýrum helgihaldinu, sem verður með ,,vestrænum” trúarblæ. Til stendur að Jonathan flytji fyrirlestur á málþingi í Fólkvangi á Kjalarnesi, sem hefst kl. 15, og segi þar frá siglingunni á ,,Ferðalangi” og ferðum papa á fyrri tíð á Atlantshafi.
Þessi sérstæða og eftirtektarverða sigling ,,Ferðlangs” á úthafinu og könnunarleiðangur fræðimanna á eyjum þess sýna fram á, að rannsóknir hafa í auknum mæli beinst að því síðustu árin að huga þar að merkjum um vestræna menn/Kelta og landnám þeirra á fyrri tíð.
Svo er að sjá sem nýjar fornleifarannsóknir dragi þar fram óræk merki um veru þeirra og slóðir. Sú niðurstaða kann að hafa víðtæk áhrif og gæti breytt viðteknum hugmyndum um rætur íslenskra þjóðmenningar og sögu.