Kirkjulykt

Kirkjulykt

Á öðrum sunnudegi í aðventu hringir kirkjan inn messuhald dagsins í Árbænum einu af úthverfum Reykjavíkur. Allur vindur var úr veðrinu frá deginum áður. Fallegur og kyrrlátur morgunn, hitastigið mínus - 2°-3° gráður. Hvellur hljómur kirkjuklukknanna; sem eiga sinn uppruna suður á Spáni, en samt þykkur, ýtir við myrkrinu sem lúrir fyrir utan upplýsta kirkjuna og dökklæddar manneskjur stíga inn úr kuldanum og glaðvær börn með rauðar eplakinnar í ögn lítríkari göllum fylla kirkjuna af eftirvæntingu fólks á öllum aldri.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
11. desember 2018

Á öðrum sunnudegi í aðventu hringir kirkjan inn messuhald dagsins í Árbænum einu af úthverfum Reykjavíkur. Allur vindur var úr veðrinu frá deginum áður. Fallegur og kyrrlátur morgunn, hitastigið mínus - 2°-3° gráður. Hvellur hljómur kirkjuklukknanna; sem eiga sinn uppruna suður á Spáni, en samt þykkur, ýtir við myrkrinu sem lúrir fyrir utan upplýsta kirkjuna og dökklæddar manneskjur stíga inn úr kuldanum og glaðvær börn með rauðar eplakinnar í ögn lítríkari göllum fylla kirkjuna af eftirvæntingu fólks á öllum aldri. Fjölskylduguðsþjónusta dagsins með rebba og mýslu, aðventuljósum og jólalögum eftirvæntingar beið þess eins að síðasti tónn klukknanna héldi för sinni áfram eitthvað út í veröldina, áfangastaður ókunnugur, kannski unnir sér aldrei hvíldar eða leitar síns heima til Santander á Spáni til skapara síns.

Ung stúlka á að giska 14 ára kemur inn úr myrkri morgunsins og heilsar glaðlega. Henni verður að orði þar sem hún stendur í anddyri kirkjunnar.
„Mikið er góð kirkjulykt hér inni.“

Kirkjulykt…„hvernig er kirkjulykt? spyr annar messuþjónn dagsins vingjarnlega, þar sem hann stóð við anddyrið albúin að taka á móti kirkjugestum með hlýlegri kveðju.

„Það er hlýtt og friðsælt.“ segir unga stúlkan og að þeim orðum sögðum fór hún inn í kirkjuna og sameinaðist öllum hinum sem þar voru fyrir með sínar hugsanir og væntingar.

Hlýtt og friðsælt. Hverri nema kirkjunni er mögulegt að kalla fram þannig lykt? Það er ekki hægt að bera hana á sig. Aðeins fundið fyrir henni. Ilmvötn þessa heims hafa verið til í nokkur þúsund ár sem hægt er að bera á sig - já og fundið fyrir.

„En Guði séu þakkir, sem fer með oss í óslitinni sigurför Krists og lætur oss útbreiða ilm þekkingarinnar á honum á hverjum stað.“ — 2. KORINTUBRÉF 2:14.

Málshátturinn-bragð er að þá barnið finnur-á sannarlega við hér.

Hlýtt og friðsælt.

Ekki tóm flaska ekki tóm kirkja heldur fyllt af kirkjulykt einhverju óræðu í hverjum krók og kima, sem er ekki að finna á öðrum stað en í kirkjunni.

Megi aðventan vera þér og þínum hlý og friðsæl.