Hafís í París - tímamót

Hafís í París - tímamót

Ræða flutt á gamlársdag á Siglufirði. Loftslagsráðstefnan í París var ofarlega á baugi eins og ég kemst að orði í ræðunni: "Það er byrjuð ný öld þar sem frelsi og kærleikur fara saman. Við getum ekki haldið fram hömlulausi frelsi til framtíðar, heldur verður frelsið að vera leitt af visku og kærleika til sköpunarinnar, náttúrunnar, lífsins. Það er dýrmætast í tilveru okkar, lífið, vatnið og loftið. Hamingjan er ekki fólgin í græðgi og svölun á girnd heldur í því að lifa í samræmi í friði við Guð og menn og náttúru.“ Daginn eftir ráðstefnuna samdi ég kvæðið Hafís í París sem ég flutti í lok ræðunnar.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Nú er árið að líða! Það er þrennt sem ber hæst í mínum huga þegar ég lít yfir liðið ár.

(1) Í ár hafa konur fengið verðskuldaða athygli í tilefni af hundrað ára afmæli kosningaréttar hér á landi. (2) Þá höfum við verið minnt á 200 ára afmæli Hins íslenska Biblíufélags margsinnis á árinu. (3) En það hefur einnig verið viðburðarríkt ár þar sem loftslagsráðstefnan í París var talinn marka tímamót í sögu mannkyns.

Við höldum þrettán daga jól í skammdeginu. Á sjöunda degi er gamlárskvöld þegar við horfum til baka, metum árið. Guðspjallið er dæmisaga Jesú um víngarðsmanninn sem biður húsbónda sinn að leyfa fíkjutréi að standa enn eitt ár í von um að það muni bera ávöxt. Í aldanna rás með atburðum líðandi stundar taka dæmisögur Jesú á sig mismunandi myndir. Þessi dæmisaga talar sterkt inn í aðstæður okkar, kallar okkur til ábyrgðar á sköpun Guðs. En hugsunin um Guð er ekki aðeins ábyrgð og þungi heldur miklu meira undrun og þakklæti. Guðstrúin nærir þessar tvær trúartilfinningar sem hjálpa okkur að takast á við tilveruna eins og hún er.

1.

Pistill gamlársdags hefur alltaf vakið hjá mér undrun og þakklæti. Ástæðan er vafalaust sú að þar er Kristur tilbeðinn sem Drottinn:

„Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ (Rómverjabréfið 8. kafla).

Hann er ofar tíma og rúmi. Við erum háð tíma og rúmi en Guð er það ekki. Við snúumst á jarðarkringlunni okkar en hann snýr henni. Sú hugsun er stærri en við getum ímyndað okkur. Enda margir sem sleppa því að leiða hugann að því. En það vekur hjá okkur traust og öryggi að vita að handan við sköpunina er Guð sem elskar.

En hvernig get ég vitað það?

Það var eðlilega kona sem fékk það hlutverk að fæða frelsara heimsins. Líklega hefur hún verið ung þar sem stúlkur voru gefnar ungar í þá daga meðal gyðinga. Hún var trúlofuð manni sem Jósef hét. Henni vitraðist engill sem boðaði henni þetta undur að Guð var að vitja mannfólksins, gerast einn af okkur.

Þetta hljómar í eyrum okkur kannski eins og gömul og úrelt kenning, eitthvað sem við lærðum misvel í fermingarfræðslunni. En er þetta eitthvað meira en orð, haganlega til tekin og upphugsuð?

Með einhverjum einstökum hætti verður María með barni. Menn gera það að orðaleik í dag að einhver er eingetinn, þegar skortir skýringar. En það var raunverulegur vandi parsins unga Maríu og Jósefs samkvæmt guðspjallinu. Boðskapurinn er beinlínis sá að Jesús fæddist af Guði.

En það er nú aðeins smáræði miðað við það að Kristur var einnig fæddur af Guði föður frá eilífð. Og meira en það að sonur Guðs var ljósið og orðið sem allt skóp í upphafi. Svo þetta litla barn í faðmi Maríu móður sinnar hafði sem sagt öll sólkerfi veraldar í hendi sér. Ég er kannski að ganga fram af ykkur og ögra hugsun ykkar einum of. En reynið að fylgja mér. Það er vit í þessari ræðu minni.

Vitið er þetta undur og leyndardómur að Guð birtist okkur í jólabarninu. Í þessari persónu, mannsbarni, sjáum við Guð eins og hann er í raun. Þegar við virðum hann fyrir okkur sjáum við hvernig Guð er. Og hvernig er Guð þá? Hann er gæskuríkur og góður! Hann elskar, kærleikur hans birtist í Kristi Jesú, Drottni okkar.

Það er það sem ég er alltaf að reyna að segja fólki en það er ótrúlegt hvað mönnum reynist það erfitt að trúa því að Guð sé þannig, að Guð er kærleikur. Ástæðan er sú þverstæða sem við lifum við í mannlegri tilveru. Það er eitthvað harmsögulegt við líf okkar. Auðvitað eru einstaka undantekningar þar sem allt virðist leika í lyndi alltaf. Eða hvað? Gerist það bara í skáldsögunum? Ekki gerist það í guðspjallinu alla veganna, þó frásaga hennar sveipast á köflum helgisagnablæ.

Maríumyndirnar mörgu þar sem móðirin dáist að barninu sínu, tilbiður það, biður til þess, tjá þennan leyndardóm, þetta undur. Það er kjarninn í tilbeiðslu okkar kristinna manna um jól og áramót og alla bænadaga, alltaf þegar við biðjum í Jesú nafni.

2.

Undrið er geymt í þessu orði sem varðveitt er á ölturum kristinna manna. Það eru tvö hundruð ár síðan Biblíufélagið hóf starf sitt að koma þessu orði til almennings eins og verið hafði stefna siðbótarinnar. Við þyrftum svo sannarlega að endurnýja það að gera orð Guðs að almenningseign. Nú er það ekki fátækt sem gerir það að verkum að við eigum ekki Guðs orð heldur meira sinnuleysi. Við höfum orðið við höndina en notum það okkur ekki til góðs. Stundum held ég að Guð sé að taka það frá okkur Íslendingum. Það er skelfilegasti dómur yfir nokkurri þjóð, þegar Guð yfirgefur hana og lætur hana ganga í villu sinni. Það má ekki gerast.

Orðið er ekki stafur á bók heldur er það Jesús sjálfur. Hann kemur til okkar til að dvelja hjá okkur. Hann er ljósið eilífa, vitið í tilveru okkar. Hann sýnir okkur um hvað lífið á að snúast. Það á ekki að snúast um að njóta, hrifsa til sín, éta, drekka og vera glöð. Lífið snýst um það að elska Guð og náunga sinn, kærleikurinn er leiðin, sem Guð vísar okkur til lífsins. Og ef við höfum eyru til að heyra með og augu til að sjá með þá blasir þetta við okkur í myndinni af Jesú.

3.

Ef mannkynið ætlar að lifa á þessari jarðarkringlu okkar fram yfir næstu aldamót þurfum við að gera iðrun eins og það heitir á máli Biblíunnar og rammri íslensku. Við verðum að ganga í okkur og lifa í samræmi við Guð og náttúruna sem hann hefur gefið okkur. Kærleikurinn þarf að vera leiðarljós okkar. Það þarf að fæðast af okkur líf og von og væntumþykja.

Það er byrjuð ný öld þar sem frelsi og kærleikur fara saman. Við getum ekki haldið fram hömlulausi frelsi til framtíðar, heldur verður frelsið að vera leitt af visku og kærleika til sköpunarinnar, náttúrunnar, lífsins. Það er dýrmætast í tilveru okkar, lífið, vatnið og loftið. Hamingjan er ekki fólgin í græðgi og svölun á girnd heldur í því að lifa í samræmi í friði við Guð og menn og náttúru.

4.

Daginn eftir loftslagsráðstefnuna í París komu þessi erindi til mín sem ég vil deila með ykkur um þessi áramót vegna þess að það er mannkynsins stóra viðfangsefni. Ekki aðeins leiðtoga þjóðanna heldur verðum við hvert og eitt að lifa í samræmi við Guð og menn og náttúru. Kveikjan var listaverk Ólafs Elíassonar og Minik Rosing sem höfðu látið flytja hafís frá Grænlandi á torg í París og raðað tólf ísklumpum upp eins og klukku til að vekja til umhugsunar:

Hafís í París (Samið daginn eftir loftslagsráðstefnuna í París 2015)

Hafís bráðnar! Hlýnun lofts! Í París heimsbyggð þingar, fólk upp þar rís, heimur þangað horfir, framtíð sér. Áður var hann Íslands forni fjandi, fraus með heljarhrammi’ að landi. Nú hann líf og ljós í skauti ber. Meiri ógn er mannsins tæknivæðing. Mannvitið vék fyrir græðgi, girnd. Nú er ráð að náttúrunnar græðing nái fram í allri sinni mynd.

Öldin nýja undir lífsins merki á að koma fram í góðu verki, umhyggju um jörð og andrúmsloft. Ferskur vindur, frelsi og kærleikur fara saman, vonir manna eykur, ef samhuga förum, finnumst oft. Berum við í barmi, við og hinir, bæði heill og ógn í för með sér. Allir bera ábyrgð, systkin, vinir, allt mannkyn á sama báti er.

Heljarafl í himingeimnum sjáum, hnötturinn er skel ein, að því gáum, loft og vatn er góða gjöfin best. Lifum svo að blessist stjarnan bláa, beri ávöxt lífstréð himinháa, biðjum Guð um grið og náð sem mest. Barnið litla lyftir veikri hendi, ljósaspil um norðurskautið berst, jafnvægið, það frost og funa sendi, frelsistákn á næturhimni sést.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.