Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni, Jesú Kristi. Amen.
Hvað ber nýtt ár í skauti? Við upphaf nýs árs búa ákveðnar vonir og væntingar í hugum okkar og hjörtum. Við höfum reyndar verið vöruð við, þetta ár 2009 verði íslenskri þjóð erfitt í efnahagslegu tilliti en þegar við horfum til framtíðar mega vonir okkar ekki aðeins byggjast á efnahagslegum forsendum. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn ekki meira en klæðin sagði Kristur í fjallræðunni. Við höfum kannski verið of upptekin undanfarin ár við að tengja hamingjustuðulinn við gengi úrvalsvísitölunnar. Sannarlega er jarðvegur íslensks efnahagslífs frekar þurr um þessar mundir og uppskeran rýr. En tækifærin eru til staðar, áburðurinn er ekki uppurinn og tækifæri fyrir nýja uppskeru ekki endilega langt undan. Það þarf þó að verða breyting á hugsunarhætti og við þurfum að hreinsa burt illgresið. Fégræðgi, einkahagsmunir og peningahyggja hafa kæft þau gildi sem varða hagsmuni heildarinnar, samhug, samheldni, traust og trúnað, já og virðingu gagnvart því sem mestu máli skiptir. Erfiðleikar og hindranir mæta okkur öllum einhvern tímann, þeir eru sannarlega hluti af þessu lífi okkar. Saga mannsins hefur alla tíð einkennst af blíðu og stríðu og í Biblíunni er að finna margar sögur af fólki í miklu mótstreymi. Við getum nefnt 40 ára eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna, herleiðingu til Babýlón, fall konungsríkja, borgum sem var rústað, fjölskylduharmleiki, foreldramissi, barna og ástvina missi, fall mannlegrar reisnar og niðurlægingu.
Hvergi í Biblíunni er hinum trúuðu lofað að líf þeirra verði alltaf dans á rósum að Guði lofi endalausum peningum, þjáningalausu lífi og góðri ímynd í augum annarra. Nei, þvert á móti birtast okkur í Biblíunni breyskar manneskjur sem klúðra hlutum og missa. Þar er ekkert verið að skafa utan af hlutunum og manneskjur birtast með öllum sínum vörtum og veikleikum.
Ung kona sem slasaðist illa skrifaði eitt sinn:
Að vera sterk er ekki það að detta aldrei, ekki það að vita alltaf og geta alltaf. Að vera sterk er ekki það geta hlegið og hoppað hæst eða sýnt mest æðruleysi eða mestan vilja styrk. Að vera sterk er að sjá lífið eins og það er, að viðurkenna kraft þess og nýta hann. Að vera sterk er að detta, meiða sig en rísa upp aftur. Að voga að vona, jafnvel þegar trúin er veikust. Að vera sterk er að sjá ljós í myrkrinu og berjast alltaf fyrir að ná þangað.
Nú þurfum við, íslensk þjóð að horfa til þeirra gilda sem næra jarðveginn, gefa vöxt og góða uppskeru. Við skulum leyfa okkur að eiga von um bjarta tíð, við höfum svo margt í höndum þannig að svo megi verða. Dýrmætar auðlindir, hátt menntunarstig og seiglu en umfram allt þjóð sem í gegnum tíðina hefur þjappað sér saman þegar á reynir. Sú samstaða hefur trúlega sjaldan verið eins mikilvæg og einmitt nú. Sameinuð stöndum vér og sundruð föllum vér. Það má kannski halda því fram að sundrung samfélagsins hafi leitt það á villigötur. Þegar samhug skorti og lítt hugað að þörfum náungans. Kannski gengum við götu eigingirninnar í stað kærleikans. Siðaboð og siðareglur voru álitnar gamaldags, flest var leyfilegt ef það gaf fjárhagslegan gróða. Þannig hefur forgangsröðun breyst og vinnan orðin sífellt stærri og mikilvægari þáttur í lífi margra. Barbara Bush, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna sagði eitt sinn ,,Við leiðarlok munum við ekki sjá eftir því að hafa ekki tekið enn eitt prófið, sett enn eitt metið, eða náð enn betri árangri í starfi. Við munum iðrast þess að hafa ekki eytt meiri tíma með maka, barni, vini eða foreldri“.
Þetta er staðreynd sem við auðvitað öll vitum, en kannski veitir ekki af að minna okkur á nú, þegar við horfum til breytts samfélags, og við spyrjum okkur hverju við þurfum að breyta og hverju við getum breytt?
Flestir foreldrar vilja barni sínu hið besta. En yfirsést gjarna sú gjöf sem börnunum, já og foreldrunum sjálfum er mikilvægust alls: nærvera, athygli, tími. Fyrir tveimur árum kynnti Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna skýrslu þar sem er að finna niðurstöðu rannsókna sem tóku fyrir stöðu barna í ríkustu löndum veraldar. Þegar Ísland er skoðað sérstaklega í samanburði við önnur lönd er margt merkilegt sem kemur í ljós. Við getum að mörgu leyti verið stolt af þeim aðstæðum sem við bjóðum unga fólkinu upp á, íslensk börn eru mjög heilsuhraust miðað við börn samanburðarlöndunum, tíðni ungabarnadauða er langlægst hér, menntun hefur aukist frá fyrri árum og níu af hverjum tíu íslenskum unglingum neyta oft í viku máltíðar með foreldrum sínum. Þar eru okkar ungmenni í öðru sæti, á eftir Ítölum sem eru einmitt þekktir fyrir sterk fjölskyldutengsl.
Hins vegar birtir skýrslan okkur einnig nokkra neikvæða þætti, sem eru verðir umhugsunar. Hugsið ykkur það að aðeins 40% íslenskra ungmenna eiga reglulegar samræður eða spjallstundir við foreldra sína. Í samanburði við 27 önnur lönd, nýtur Ísland þess vafasama heiðurs að vera í fimmta neðsta sætinu á listanum, einungis foreldrar í Þýskalandi, Rússlandi, Lettlandi og Ísrael gefa sér minni tíma til viðræðna við börn sín. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur einnig fram að mun fleiri 15 ára ungmenni eru einmanna hér á landi en jafnaldrar þeirra í samanburðarlöndunum og að fáir foreldrar stunda jafnlangan vinnudag og hinir íslensku. Þetta er umhugsunarverðar staðreyndir og hefur kannski verið ein helsta ógn við íslensks samfélag og íslenskra æsku undanfarin ár. Já gildin og forgangsröðunin mega sannarlega breytast í þessum efnum. Því þrátt fyrir allt og hvað sem á dynur í þessu samfélagi má það aldrei gerast að æskan finni fyrir ógn eða öryggisleysi. Við þurfum að slá skjaldborg um börnin. Því hefur verið heitið á tímum efnahagsþrenginga og við þurfum að láta kné fylgja kviði.
Á þeim tímum sem Jesús Kristur var á jörðu var ógn og ófriður gagnvart ungum sem öldnum. Í guðspjalli þessa Drottins dags er mikil ógn sem steðjar að litlu barni. Myndin sem dregin er upp er ekki fögur. Hin helga nótt var liðin, barnið fætt, frelsarinn sjálfur. En það leið ekki langur tími þar til veraldlegir valdhafar fóru að ókyrrast yfir saklausa barninu sem hafði litið þennan heim.
Heródes, sá mikli konungur var hræddur um að þetta litla barn myndi varpa skugga á eigin tign, að þar færi konungur sem myndi hafa meiri áhrif en hann . Já, Jesús var rétt nýfæddur inn í þennan heim þegar jarðneskir konungar tóku að óttast hann, að í boðskap hans leyndist sá sannleikur sem myndi brjóta á bak aftur gildi stigskiptingar samfélagsins, óréttlætis og eiginhagsmuna. Heródes vissi það að þegar Messías kæmi yrðu konungar sem og aðrir að lúta honum. Í reiði sinni og afbrýðissemi sendi hann því aftökusveitirnar af stað, til þess að gera úti um þá ógn sem honum birtist í þessu litla barni.
En Drottinn bjargar og blessar. Það gerði hann þegar Jósef fékk þau skilaboð engilsins um að flýja með fjölskyldu sína til Egyptalands til að sleppa undan sendisveinum Heródesar. Jósef er raunar ekki áberandi í frásögnum guðspjallanna, og í þau skipti er hann kemur fyrir er hann nokkurskonar aukapersóna. En hér reynir á. Honum er falið að bjarga barninu og móður þess. Hann treysti þeim himnesku skilaboðum sem honum birtast í draumi, jafnvel þó hann hafi þurft að leggja upp í langa ferð án nokkurs fyrirvara. Það var ekki í fyrsta sinn sem Jósef fékk skilaboð frá Drottni. Áður hafði hann talið unnustu sina hafa brugðist sér. Án nokkurs vafa hafa margir komið að honum og æst hann til ofsa og haturs vegna slíks trúnaðarbrots. En Drottinn talaði til hans og þá eins og í guðspjalli þessa dags treysti hann orðum Guðs og vissi að hann myndi vel fyrir sjá.
Og á sama hátt megum við leyfa okkur treysta. Við getum treyst því að Guð hefur ekki og mun aldrei yfirgefa börn sín, hann vakir yfir og verndar. Því megum við treysta að hann er hér mitt á meðal þegar við tökumst á við vandasöm verkefni í þjóðfélaginu. Og ef við gefum gaum að orði hans, treystum boðskap hans í heilagri ritningu, þá megum vera fullviss að það er sá boðskapur sem hjálpar okkur til þess að reisa þetta þjóðfélag aftur til vegs og virðingar. Þannig að gildismat og lífsviðhorf þjóðarinnar verði heilbrigt og hinn eftirsóknaverði gróður vaxi úr jarðveginum.
Vegna þess að Drottinn Jesús Kristur er sá Guð sem stendur mér þér, sem vill ganga með þér gegnum lífið. Reisa þig við er þú hrasar, áminna þig er þú reikar á rangri leið, þerra tárin er þú grætur. En umfram allt sá Guð er lætur sig þig varða. Höfum það í huga nú og alla tíma og þjónum honum í gleði og þakklæti. Okkur sjálfum til blessunar, Guði einum til dýrðar.
Dýrð sé Guði föður vorum og Drottni, Jesú Kristi og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.
Takið postullegri blessun: Náð Drottins varðveiti hjörtu yðar og hugsanir að eilífu. Amen.