Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: Góðir menn, þér hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þér komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég yður að vera vonglaðir, því enginn yðar mun lífi týna, en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs, sem ég heyri til og þjóna, og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Og sjá, Guð hefur gefið þér alla þá, sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt. Oss mun bera upp á einhverja eyju.Á miðnætti, þegar vér höfðum hrakist um Adríahaf í hálfan mánuð, þóttust skipverjar verða þess varir, að land væri í nánd. Þeir vörpuðu grunnsökku, og reyndist dýpið tuttugu faðmar. Aftur vörpuðu þeir grunnsökku litlu síðar, og reyndist dýpið þá fimmtán faðmar. Þeir óttuðust, að oss kynni að bera upp í kletta, og köstuðu því fjórum akkerum úr skutnum og þráðu nú mest, að dagur rynni. En hásetarnir reyndu að strjúka úr skipinu. Þeir settu bátinn útbyrðis og þóttust vera að færa út akkeri úr framstafni.
Þá sagði Páll við hundraðshöfðingjann og hermennina: Ef þessir menn eru ekki kyrrir í skipinu, getið þér ekki bjargast. Hermennirnir hjuggu þá festar bátsins og létu hann fara. Undir dögun hvatti Páll alla að neyta matar og sagði: Þér hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og engu nærst. Það er nú mitt ráð, að þér fáið yður mat. Þess þurfið þér, ef þér ætlið að bjargast. En enginn yðar mun einu hári týna af höfði sér.
Að svo mæltu tók hann brauð, gjörði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.
Alls vorum vér á skipinu tvö hundruð sjötíu og sex manns. Þá er þeir höfðu etið sig metta, léttu þeir á skipinu með því að kasta kornfarminum í sjóinn. Þegar dagur rann, kenndu þeir ekki landið, en greindu vík eina með sandfjöru. Varð það ráð þeirra að reyna að hleypa þar upp skipinu. Þeir losuðu akkerin og létu þau eftir í sjónum, leystu um leið stýrisböndin, undu upp framseglið og létu berast undan vindi til strandar. Þeir lentu á rifi, skipið strandaði, stefnið festist og hrærðist hvergi, en skuturinn tók að liðast sundur í hafrótinu. Hermennirnir ætluðu að drepa bandingjana, svo að enginn þeirra kæmist undan á sundi. En hundraðshöfðinginn vildi forða Páli og kom í veg fyrir ráðagjörð þeirra. Bauð hann, að þeir, sem syndir væru, skyldu fyrstir varpa sér út og leita til lands, en hinir síðan ýmist á plönkum eða braki úr skipinu. Þannig komust allir heilir til lands.Postulasagan 27.21-44
Morguntexti þessa dags, skv. skrá kirkjan.is er um Krítarkrísu Páls postula. Hann er í vondum málum. Páll hafði reyndar illan bifur á íbúum á Krít og sagði um þá í fyrra bréfi sínu til Tímótesuar: Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar! Í þetta sinn, sem textinn greinir frá, átti hann þó ekki í útistöðum við þá erfiðu menn. Páll vildi ekki fara frá Krít í þetta sinn. Hann var bandingi um borð í rómversku skipi. Við fáum innsýn í mannkosti, starfshætti og mátt þessa síðasta postula Jesú. Fangi, í fjötrum, hann þekkti þá stöðu. Köllun hans í lífinu var að útbreiða boðskapinn um Jesú Krist. Hann veik sér aldrei undan að boða Krist. Hann fór beint á torgin til að tala um kraftaverkið mikla sem orðið var í heiminum. Oft var honum í kjölfarið kastað í svarthol. Enn á ný var hann dreginn fyrir dóm, en vegna stöðu sinnar sem rómverskur borgari var hann sendur til Rómar. Veðurofsi skall á, magnaður af Krítverskum snæfjöllum. Allt virtist stefna á versta veg. En Páll var draumamaður, svefnmyndirnar voru tæki í tali himins og hans. Hann hóf upp raust sína að morgni, talaði spádóms og huggunarorð, talaði kjark í áhöfn og lagði til heilt. Honum var hlýtt. Enginn fórst þegar skipið gekk á grunn.
Þetta er lítil saga af stóru skipi, fjölmennri áhöfn og úr öllum heimshornum hins þekkta heims þeirrar tíðar. Skip á siglingu frá útkjálka, en á leið til miðjunnar í Róm. Sagan er smámynd um stórheim. Í hættunni hljómar boðskapurinn að handan um björgun. Það er sá boðskapur sem gildir og gengur eftir. Hver biblíutexti, hver Ritningarsaga á sér eigin rök og eigin merkingu. En síðan hefur hver lesari möguleika á að lesa með nýjum augum, frá öðrum sjónarhól, með nýjum gleraugum, ekki til að afskræma merkingu textans, heldur til að nýta hann til andlegs fóðurs. Biblíutextar eru máltíð með ábót. Hægt er að sjá í mynd Páls kristniboðann, sem má verða okkur til lærdóms, fordæmi um siðferðisstyrk og siðvit. Hann er fyrirmynd um samskipti kristins manns og samfélagsábyrgð. En við getum dregið lærdóminn lengra og séð allan heim speglast í þessu sögulega og Biblíulega sjávarlöðri.
Heimur lendir í fárviðri og óáran. Mannkyn veit ekki hvernig á að bregðast við og dettur fyrst í hug að drepa fanga. En það er einn fanganna sem hefur boðskap til lífs. Þannig er það oft. Hinir sterku munu aldrei bjarga heiminum, heldur berst boðið um lífsbjörg að neðan, frá föngunum. Hjálpin er að handan, ef menn hlýða. Engin ástæða er til að farga föngum, heldur eru kjör manna öll hin sömu.Eitt skal yfir alla ganga.
Í Krítarkreppunni og veltingnum býður Páll til máltíðar, gerir sjálfur þakkir og brýtur brauðið. Þekkir þú orðalagið - þekkir þú aðferðina, þekkir þú gjöfina? Og þá erum við í snarhendingu komin heim, að altarinu, að borði Drottins, hingað. Um allan heim brjóta menn brauð, í snarvitlausu umhverfi og óskaplegum aðstæðum, Guð kemur sjálfur, leysir, sameinar, blessar og bjargar.
Gríska orðið krisis merkir merkir ákvörðun, dóm og dómstól. Í lífsaðstæðum við Krít þurfti dómgreind og rétta ákvörðun. Líf kristins manns er dagleg krísa, daglegur endurdómur við fætur og borð Jesú Krists. Þaðan kemur lífsdómurinn. Amen.
Dr. Sigurður Árni Þórðarson er prestur í Hallgrímskirkju. Þessi prédikun var flutt í árdegismessu í Hallgrímskirkju, miðvikudaginn 1. október 2003.