Legg þú út á djúpið

Legg þú út á djúpið

2) Við þykjumst svo oft vera þess umkomin, að hafa vit fyrir Guði og dæmum hann þá vísast oftast úr leik. Já, við mennirnir þykjumst þess jafnvel á stundum umkomin, að leiða "skynsamleg" rök, eins og við köllum það, að því, að trúin á Guð og allt, sem henni heyrir til, sé næsta úrelt og gamaldags.

Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð.Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.

Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.

Símon svaraði: Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna. Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.

Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður. En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.

Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum. Lúk. 5.1-11

I.

Ef ég hefði nú bara stundað námið betur í vetur, hefði ég ekki fallið á prófinu! Ef ég hefði verið ofurlítið sparsamari, hefði mér sennilega tekist að láta endana ná saman og ekki misst ofan af mér íbúðina! Ef ég hefði aldrei tekið fyrsta staupið, hefði ég ekki orðið ofdrykkjunni að bráð og eyðilagt líf ástvina minna! Ef....ef....ef.... Hefði ég bara....

Ætli við þekkjum ekki flest spurningar og vangaveltur svipaðar þessum? Oft reynum við að sjá fyrir okkur, hvernig hefði getað farið í lífi okkar, ef við hefðum bara breytt á annan og betri veg en við gerðum. Slíkar hugsanir eru t.d. algengar þegar við stöndum á tímamótum og verðum að taka örlagaríkar ákvarðanir, sem geta haft mótandi áhrif á líf okkar og framtíð. Og ætli slíkar vangaveltur verði ekki að teljast tiltölulega saklausar, ef við gleymum því bara ekki, að við getum hvorki stöðvað rás tímans né tekið upp þá leiki, sem við höfum þegar leikið á skákborði lífsins. Gleymum ekki þeirri staðreynd, að enginn fær breytt því, sem liðið er og heyrir sögunni til. Það má hins vegar öllum ljóst vera, að breytni okkar og þær ákvarðanir sem við tökum geta haft örlagarík áhrif og skipt sköpum um framtíðina. Okkur má aldrei gleymast, að við erum ekki viljalaus verkfæri eða strengjabrúður, sem stjórnað er af öðrum og fá því engu um það ráðið, hvert leiðin liggur. Þvert á móti erum við sköpuð með frjálsan vilja, og okkur ber að velja og hafna. Við berum ábyrgð á lífi okkar og breytni. Og þetta gildir þá auðvitað jafnt í andlegum sem veraldlegum efnum. Við þekkjum þannig eflaust mörg dæmi þess, að mannlegar ákvarðanir geta haft áhrif á framgang Guðs ríkis hér á jörðu. Þar getum við með lífi okkar og starfi ýmist orðið til eflingar eða hindrunar. Á þetta erum við einmitt minnt í guðspjalli dagsins.

II.

Jesús var staddur við Genesaretvatn og mannfjöldinn þyrptist þannig að honum, að hann átti erfitt með að flytja mál sitt. Hann brá því á það ráð, að stíga út í bát Símonar Péturs og bað hann að leggja lítið eitt frá landi. Þaðan talaði hann svo til fólksins. Það má hins vegar ljóst vera, að þetta, sem hér er nefnt, var ekki eini tilgangur Jesú með því að stíga út í bátinn þennan dag. Hann vantaði, ef svo má segja, ekki bara hentugt ræðupúlt þarna við ströndina, heldur átti hann líka erindi við eiganda bátsins. Að ræðunni lokinni snýr Jesús sér því að Símoni Pétri og segir við hann: "Legg þú út á djúpið, og leggið net ykkar til fiskjar." Ósköp held ég, að þessi beiðni Jesú hafi komið Símoni Pétri á óvart! Þeir voru nýkomnir í land, félagarnir, eftir árangurslausa nótt! Allir, sem minnsta vit höfðu á fiskveiðum, vissu, að þetta, sem Jesús nú lagði til, braut gegn öllum venjum og allri reynslu. Það var hreinlega engin veiðivon í Genesaretvatni að degi til og hefur aldrei verið. Fiskurinn gefur sig einfaldlega ekki í sterku sólarljósinu! Þetta vissi Símon Pétur, og við heyrum það líka af svari hans: "Meistari, við höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið......" Þarna talaði hinn reyndi veiðimaður, sem þekkti vatnið betur en flestir aðrir. Og þótt hann, eins og aðrir, hafi hrifist af prédikaranum, sem hafði fengið bátinn hans lánaðan, þá gat þessi landkrabbi þó varla vitað það betur en Pétur sjálfur, hvenær helst væri veiðvon. Skynsemi hans og reynsla sögðu því, að þetta væri algjörlega tilgangslaust. Vonlaust. Já, hreinlega út í hött!

III.

Símon Pétur stóð þarna á tímamótum, miklum tímamótum, þótt hann hafi vafalaust ekki gert sér það ljóst á þeirri stundu. Hvað hefði gerst í lífi hans þennan dag, ef hann hefði látið "skynsemina" svokallaða ráða þarna í bátnum, og einfaldlega hrist höfuðið yfir þessari fáránlegu beiðni, sagt nei og lagt bátnum síðan að landi? Hvað hefði þá gerst?

Jú, nákvæmlega ekki neitt!! Jesús hefði þá stigið út úr bátnum, sennilega horft hryggur á Símon Pétur og gengið síðan burt. Og líklega horfið úr lífi hans fyrir fullt og allt. Og Símon Pétur hefði þá aðeins átt þessa einu endurminningu um þennan undarlega farandprédikara, sem að vísu flutti fallegan og hrífandi boðskap, en hafði áreiðanlega ekkert vit á fiskveiðum. Að láta sér til hugar koma aðra eins fásinnu og það, að leggja netin um hábjartan daginn! Hann hefði orðið laglega til athlægis í hópi starfsbræðra sinna, ef hann hefði látið að orðum hans. Ef til vill hefði Pétur sagt hinum fiskimönnunum frá þessari furðulegu beiðni og þeir hefðu þá getað skemmt sé vel saman yfir þessari undarlegu vanþekkingu prédikarans. Og auðvitað hefði Pétur svo alla ævi verið sannfærður um, að hann hefði breytt rétt. Ef Pétur hefði neitað beiðni Jesú, hefði nákvæmlega ekkert gerst í lífi hans þennan dag. Hann hefði misst af tækifærinu, fallið á prófinu, án þess að hafa jafnvel hugmynd um það sjálfur. Ef....ef....og hefði....

IV.

En Pétur stóðst prófið! Það er það, sem öllu skiptir og öllu breytir í þessari frásögu. Hann hafði heyrt boðskap Jesú og treysti honum. Þess vegna hlýddi hann boði hans, þrátt fyrir allt. Þótt hann hafi eflaust innst inni verið sannfærður um, að það væri til einskis. Og því tók hann ákvörðunina afdrifaríku og bætti við orðunum, sem öllu breyttu um líf hans: "…..en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin!" Hann treysti m.ö.o. Jesú og tók hann á orðinu, þrátt fyrir efasemdir og mótmæli skynseminnar. Og kraftaverkið varð. Veiðin varð svo mikil, að þeir urðu að kalla á félaga sína á hinum bátnum sér til hjálpar. Jesús vissi vel hvað hann var að gera þennan dag. Hann var að prófa Símon Pétur. Ekki þekkingu hans á fiskveiðum, heldur traust hans og fúsleika að fara að orðum sínum. Og Pétur stóðst prófið. Þótt hann möglaði, þá hlýddi hann samt orðum frelsarans. Þess vegna eigum við einmitt þessa frásögu varðveitta. Þess vegna varð Pétur leiðtogi postulanna. Og síðar gaf hann einmitt fyrstur allra játninguna miklu, sem annað af guðspjöllum dagsins segir frá: "Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs!" (Mt. 16:16) Ætli Pétur hafi ekki stundum hugsað til þessa atviks síðar á ævinni? Kannski hefur hann þá spurt sjálfan sig: "Hvað hefði gerst, ef ég hefði látið skynsemi mína eina ráða og sagt nei?" Ætli það hafi ekki sett að honum ónotahroll við tilhugsunina eina um það, af hverju hann hefði þá getað misst?

V.

Og nú erum við svo saman komin hér í dag og heyrum þessa frásögu við upphaf tuttugustu og fyrstu aldar. Við teljum okkur vafalaust vera skynsamt og upplýst nútímafólk og teljum okkur því jafnvel geta brosað að ýmsum barnaskap forfeðranna. Enda stendur þekking okkar þeirra þekkingu í ýmsum efnum langtum framar, og þá ekki síst í tæknilegum efnum. Og því getum við spurt: Hvernig hefðum við brugðist við, undir svipuðum kringumstæðum? Hvað hefðum við gert í sporum Símonar Péturs? Látum við skynsemina alltaf ráða? Gerum við það eitt, sem mannleg þekking telur vera rétt? Já, teljum við okkur e.t.v. vera vaxin upp úr því að trúa?

Ég held, að þetta guðspjall eigi einmitt sérstakt erindi við okkur, sem látum oft svo mikið yfir okkur og teljum okkur vita best. Við getum áreiðanlega mikið lært af Símoni Pétri, eins og raunar mörgum öðrum af forfeðrum okkar. Við þykjumst svo oft vera þess umkomin, að hafa vit fyrir Guði og dæmum hann þá vísast oftast úr leik. Já, við mennirnir þykjumst þess jafnvel á stundum umkomin, að leiða "skynsamleg" rök, eins og við köllum það, að því, að trúin á Guð og allt, sem henni heyrir til, sé næsta úrelt og gamaldags. En það skyldi þó ekki vera, að munurinn á okkur og Símoni Pétri þarna í bátnum, sé þá raunverulega, þegar dýpst er skoðað, sá einn, að við höfum fallið á prófinu, því prófi sem hann stóðst með svo mikilli prýði? Það skyldi þó ekki vera, að við höfum látið okkur nægja að bera fram rök og mótbárur mannlegrar skynsemi gegn boðum Guðs, neitað að hlýðnast boðum hans og þannig misst af tækifærinu, sem hann gaf okkur? Því slík afstaða leiðir í raun það eitt í ljós, að við höfum ekki komið auga á Guð og gerum okkur, þrátt fyrir alla þekkinguna, enga grein fyrir því, hver hann er. Við höfum fallið á prófinu. Við mennirnir erum hinsvegar bara svo gjörn á það, að snúa hlutunum á haus og teljum því, að við höfum prófað Guð og hann hafi fallið á prófinu hjá okkur. Og staðhæfum svo jafnvel sigrihrósandi, að hann standist ekki okkar kröfur, okkar skynsemi. Ætli við séum þá ekki stundum álíka sannfærð og Pétur hefði líkast til orðið, ef hann hefði látið skynsemi sína ráða yfir Guði þarna í bátnum þennan dag og haldið að landi í stað þess að leggja á djúpið?

VI.

Að trúa á Guð er að treysta Guði, án skilyrða. Að trúa á Guð er að taka hann á orðinu og hlýðnast honum, þrátt fyrir allt. Jafnvel þótt "skynsemi" okkar, svo kölluð, kunni á stundum að mögla. Þetta lærðist Símoni Pétri í bátnum þennan dag. Augu hans lukust upp og honum lærðist að fulltreysta Jesú. Og Guð vill kenna okkur þetta sama. Hann vill prófa okkur mennina, sama á hvaða tímum við lifum, og kenna okkur að treysta sér. Í því trausti er trúin sjálf einmitt fólgin. Það er megin staðreynd mannlegrar tilveru, að sá Guð, sem skapaði okkur, kallar okkur hvert og eitt til fylgdar við sig, til samfélags við sig. Við þurfum að læra að treysta honum og þora að hlýðnast boðum hans. Auðvitað bæði megum við og eigum raunar beinlínis að nota skynsemi okkar, sem er ein af bestu gjöfum Guðs. Hér skal ekki neinu öðru haldið fram. Og skiljirðu orð mín á einhvern annan hátt, þá ertu að misskilja mig. En við megum hins vegar bara aldrei gleyma þeirri einföldu staðreynd, að við mennirnir getum aldrei beygt Guð undir skynsemi okkar. Hann er skaparinn, sem setur sköpun sinni lögmál og hefur gefið okkur mönnunum, sköpun sinni, allt það sem við höfum, og þá einnig skynsemi okkar og vit. Og skynsemin er okkur gefin til að glíma við sköpunarverk hans, sköpunarverk Guðs. En Guð er hinsvegar, sem skapari, að sjálfsögðu utan við sköpunarverkið og lýtur því ekki lögmálum þess, eins og við, sem sköpun, hljótum hins vegar að gera. Hann er höfundurinn og er þess vegna utan við mörk skynsemi okkar. Annars væri hann hreinlega ekki Guð, heldur eitthvað allt annað. Já, hugsanlega bara maður eins og við, og hver vildi þegar grannt er skoðað eiga slíkan guð. Guð, sem takmarkaðist af skynsemi okkar og þekkingu hverju sinni? Væri það ekki heldur aumur og ómerkilegur guð? Við megum aldrei gleyma því grundvallaratriði, að við getum aldrei beygt Guð undir skynsemi okkar, einfaldlega vegna þess að hann er sá sem hann er, Guð en ekki maður. Og því er það, að Guð er heldur ekki bundinn af skynsemi okkar þegar hann vill leiða okkur til samfélags við sig. E.t.v finnst þér það undarlegt, ósanngjarnt eða jafnvel heimskulegt? Það finnst a.m.k. mörgum þeim, sem vilja hafa vit fyrir Guði eða segja honum fyrir verkum. En hefurðu þá gert þér grein fyrir því, að ef svo væri, ef Guð væri þannig bundinn af skynsemi okkar, þá ættir hvorki þú né nokkur annar maður í rauninni minnsta möguleika á því að eignast samfélag við Guð? Nema þá því aðeins, að hafa örugglega næga greind til að bera! Og hver gæti þá verið alveg viss? Og hvað þá með þau, sem eru með einhverjum hætti andlega skert, jafnvel frá fæðingu, og geta því ekki náð þeim þroska sem krafist væri? Já, og hvað með þig? Hvernig litist þér á þína stöðu ef svo væri, að allt væri háð þinni skynsemi? Gætir þú þá verið alveg viss um það, að greind þín hrykki til?

VII.

Guði sé lof fyrir það fagnaðarerindi, að guðssamfélagið er ekki háð skynsemi okkar eða greind. Guð spyr aðeins um hlýðni okkar og traust. Og í þeim efnum erum við öll jöfn fyrir honum. Þar er engin greinarmunur gerður. Þorum við að leggja allt okkar ráð í hans hendur, treysta honum og fyrirheitum hans? Þorum við að taka hann á orðinu? Um það er spurt hér í dag. Því Guð mætir okkur hverju og einu á þessum degi, á svipaðan hátt og hann mætti Pétri forðum. Hann beinir orðum sínum til okkar, til mín og þín, og segir: "Legg þú út á djúpið!" "Fylgdu mér." "Treystu mér." Stöndumst við prófið, er við mætum honum, eða föllum við? Það er í raun spurning dagsins. Þorum við að treysta Guði, þá fáum við að reyna náð hans og miskunn, alveg á sama hátt og Pétur fékk að reyna. Þá verður undrið í lífi okkar. Hið yfirfljótandi undur. Því hefur hann heitið. En hverju svörum við? Það getur vel verið, að okkur finnist stundum, sem boð Guðs stangist á við skynsemi okkar. Kannski eigum við eftir að mögla gegn honum. En það er þó ekki það, sem mestu máli skiptir heldur hitt, hvernig við bregðumst við, er hann spyr um traust okkar og hlýðni. Það sem öllu skiptir er það, hvort viðbrögð okkar verða hin sömu og Péturs, er hann sagði: "…en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin." Fyrst þú segir það. Það er aðalatriðið.

VIII.

Og undir lokin vil ég svo fá að benda þér á eina staðreynd. Ég hef hitt eldra fólk, sem hefur litið um öxl yfir líf sitt með hryggð í huga og sagt: "Bara að ég hefði nú fyrr þorað að treysta Guði! Bara að ég hefði fyrr lært að ganga á vegum Guðs og hlýðnast boðum hans!" En enn þá hef ég hins vegar engum manni mætt, sem hefur að ævikvöldi sagt: "Ég iðrast þess mest af öllu, að hafa mætt Jesú á unga aldri og fylgt honum. Hann hefur eyðilagt líf mitt." Ég hef aldrei mætt neinum, sem hefur þannig iðrast hlýðni sinnar við Guð.

"Legg þú út á djúpið!" Kall Guðs berst til okkar hingað í dag. Hann kallar okkur til fylgdar við sig, til lífs með sér, að við megum fá að þiggja allar gjafir hans. Margir hafa mætt þessu kalli í aldanna rás og svörin hafa verið margvísleg og misjöfn, en nú er komið að okkur. Hverju svörum við? Guð gefi okkur náð til að standast próf hans. Guð gefi okkur náð til að treysta honum, sem einn er traustsins verður, þannig að undrið megi verða í lífi okkar. Til þess hjálpi okkur góður Guð fyrir Jesúm Krist. Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postulegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.