Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“ Mark. 16.1-7
Dýrð vald virðing og vegsemd hæst, viska, makt, speki og lofgjörð stærst sé þér, ó, Jesú, herra hár, og heiður klár. Amen, amen, um eilíf ár.
Gleðilega páska! Kristur er upprisinn, já hann er sannarlega upprisinn.
Þetta er merkileg yfirlýsing, já, í rauninni er þetta stórkostlegasta kveðja, sem nokkur manneskja getur tekið upp í sig, þetta er kveðja sem byggir á áhrifamesta boðskap sem kunngjörður hefur verið á þessari jörð.
Og nú kemur þessi blessaða kveðja til okkar sem hér sitjum í Hallgrímskirkju í árdagsbirtunni. Guð gefi að við getum öll tekið á móti með opnum huga og sagt í hjarta okkar: Kristur er sannarlega upprisinn!
Eilífum rómi öll þín hjörð, englar á himni, menn á jörð, syngur lof þér og þakkargjörð. Hallelúja, hallelúja, hallelúja.
Þannig sungum við og þannig tökum við undir með kirkju Krists um víða veröld.
Eigum við í stutta stund að fylgjast með konunum, sem guðspjallið segir frá. Um sólarupprás komu konurnar að gröfinni, þær ætluðu að sýna hinum látna vini virðingu, kærleiksþjónustu við hæfi, þær ætluðu að smyrja líkama Jesú með þar til gerðum ilmsmyrslum. Þær vissu hvar gröfin var, þær sáu hvar hann var lagður eftir krossfestinguna – þær mæltu sér mót, gengu af stað, eflaust niðurlútar, sorgmæddar – þær voru í liðinu sem tapaði á föstdaginn langa.
Nú var þriðji dagurinn að renna upp, árdagsskíman var farin að lýsa upp landið. - Já, við sólarupprás kemur margt í ljós, í þess orðs fyllstu merkingu! Þær gengu eflaust fram hjá Golgata, vegsumerkin voru enn sýnileg, krossarnir þrír, tákn þjáningar og dauða, minningar föstudagsins voru ljóslifandi fyrir hugskotssjónum þeirra. Þær höfðu staðið við krossinn, án þess að geta nokkuð gert, lærisveinahópurinn var svo lítill, allsendis ófær um að standa á móti straumnum, mannhafinu sem hrópaði, korssfestu, krossfestu. Kannski hljómaði enn fyrir eyrum þeirra orð Jesú frá krossinum: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig“ – „Mig þyrstir,“ – „Það er fullkomnað“. Ef til vill hefur þetta allt runnið saman í óskiljanleg orð, sem reyndar síðar fylltust merkingu og boðskap.
Þær héldu áfram göngunni, og þegar þær nálguðust gröfina, þá fóru þær að hafa áhyggjur af stóra steininum, sem hafði verið velt fyrir grafarmunnann. Hver skyldi hjálpa okkur með hann? Kannastu við þessa tilfinningu, að framundan sé verkefni, vandamál, sem virðist óyfirstíganglegt? Hver getur hjálpað mér!
En árdagsbirtan leiddi fleira í ljós, þær voru komnar að gröfinni og þær sáu, að steininum hafði verið velt frá. Gröfin var opin, tóm og skínandi engill flutti þeim páskaboðskapinn.
Þið leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. hann er upprisinn, hann er ekki hér: Farið og segið lærisveinunum og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu... Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður.
Í frásögn Markúsar, sem er guðspjallstextinn okkar í dag, segir í framhaldinu frá því, að konurnar hafi flúið frá gröfinni, því ótti og ofboð var yfir þær komið.
Fyrsta kastið sögðu þær engum frá.
En þegar þær fengu kjark til að segja lærisveinunum, sem í angist og sorg höfðu læst sig inni, frá því sem þær höfðu sé og reynt, - fengu þær ekki góðar undirtektir, þetta hljómaði eins og þvættingur í eyrum þeirra.
Frásögn Markúsar er mjög ekta, hún sleppir ekki þessum sammannlegu viðbrögðum, afneituninni, reiðinni, vonleysinu, örvæntingunni. Þessum sorgarviðbrögðum, sem við öll þurfum að kljást við í einhverri mynd fyrr eða síðar á lífsleiðinni.
Það eru ekki allir jafn glaðir á þessum páskadagsmorgni, svo mikið er víst. Það fer reyndar eftir því hvað blasir við í árdagsbirtunni. Það geta verið hræðilegar eyðileggingar á átakasvæðum syrjalda og voðaverka. Það er ekki falleg sjón, sem blasir við í landinu helga, þar sem páskasagan átti sér stað, það er ekki falleg sjón sem blasir við í Tíbet, Írak. Já, þannig gæti ég lengi haldið áfram að telja upp, rústir, eyðilegging, - vegsumerki illskunnar og þjáningarinnar blasa víða við í dag.
Hvað blasir við þér og mér? Jú, það er eflaust eins margt og fjölbreytilegt eins og við erum mörg. Aðstæður okkar eru mjög mismunandi, sumum líður mjög vel, eru hamingjusamir og glaðir í hjarta, öðrum líður illa, berjast við angist, kvíða, þjáningu og sorg, allt eftir því hvað liggur að baki, í hvaða aðstæðum við lifum.
Það tók tíma fyrir konurnar í guðspjallinu og lærisveinahópinn að trúa því, að Jesús væri risinn upp frá dauðum, en trúin kom, páskagleðin fæddist, og hún hefur vissulega verið til staðar í kirkju Krists æ síðan
Pétur, afneitarinn, sem hafði algerlega brugðist meistara sínum í hallargarðinum, hann fékk sérstaka kveðju frá Jesú, tókstu eftir því? „Gleymið ekki að segja Pétri frá, hann þarf á því að halda núna,“ sagði engillinn.
Kæri söfnuður, sama umhyggja er enn til staðar hjá hinum upprisna gagnvart hverju og einu okkar. Hinn upprisni er með kveðju til okkar allra á þessum morgni.
Páskatrúin styrktist í litla hópnum í Jerúsalem, kraftur upprisunnar fór að segja til sín í lífi og starfi hinnar ungu kirkju. Þessar vonlausu manneskjur sem höfðu tapað með meistara sínum, gengu nú fram og vitnuðu um sigur hins krossfesta og upprisna freslara. Nú fengu setningarnar merkingu, sem Jesús hafði kennt lærisveinunum. “Ég lifi og þér munuð lifa” “Ég er upprisan og lífið”. “Ég er hið leifnadi brauð, sem gefur heiminum líf.”
“Sigurhátíð sæl og blíð ljómar nú og gleði gefur... já, nú sér trúin eilíft ljós.”
Í Jesú Kristi, hinum upprisna, sér kristin trú eilíft ljós, eilífa von og eilíft líf. Páskagleðin byggir á þessu, lofsöngurinn sem í dag fyllir kirkjur og heimili víða um heimsbyggðina byggir á þessu. Já, hinn kristna menning sprettur upp úr þessari páskastrú, hugsið ykkur öll listaverkin, tónverkin, málverkin, já marskonar listsköpun í bókmenntum, leiklist, höggmyndum, ballet, dansi, sem í mjög mörgum tilfellum á upptök sín í páskagleðinni, upprisugleðinni.
Kristur er sannarlega upprisinn!
Stundum er spurt: “Hvernig getur þú sannað að Kristur sé upprisinn”. Kristin trú svarar: Horfðu á vegsumerkin, horfðu á ávexti trúarinnar, sjáðu upprisukraftinn sem fór af stað og er enn að verki. - Kirkjan hefur lifað af í 2000 ár
“..nú sér trúin eilíft ljós” trúin er reynsla, sem er í ætt við ástina, hrifninguna, trúin getur gagntekið okkur, fyllt okkur friði og gleði, - þetta er reynsla kristins fólks gegnum allar aldir. Í ljósi upprisunnar kemur líka margt í ljós, sem trúin þarf að takast á við, - sá sem trúir á hinn upprisna, hann fer að sjá betur það sem miður fer, birtan hefur hreinlega þau áhrif, hann fyllsit löngun til að leggja samborgurunum lið.
Engillinn var búinn að velta steininum frá grafarmunnanum!
Hvað þýðir orðið engill, jú það þýðir sendiboði himinsins, - við erum kölluð til að vera sendiboðar himinsins í daglegu lífi.
Samhjálpin er kristin dyggð. “Steinarnir” í lífi okkar, geta orðið stórir og þungir, en saman getum við áorkað ýmsu, ekki í eigin krafti, heldur í krafti hins upprisna, með Guðs hjálp.
Leyfum upprisukraftinum að flæða í auknum mæli í gegnum líf okkar, þannig að trúin lifni við, að trúin knýi okkur til dáða, að trúin taki að starfa í kærleika, gefi okkur kjark til að hjálpa þar sem hjálpar er þörf, að trúin leiði okkur til þeirra sem í sannleika þurfa á hjálp okkar að halda, - þurfa uppörfun, huggun, nýja von.
Kristur er sannarlega upprisinn!
Dýrð sé Guði, föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi en enn og verður um aldir alda. Amen.