Ég er ennþá í skýjunum yfir því hvað vel gekk um síðustu helgi þegar söfnuðurinn okkar hélt prjóna- og nytjamarkað í Vídalínskirkju til styrktar söfnun þjóðkirkjunnar fyrir nýjum línuhraðli. Það var fullt út úr dyrum, við hlustuðum á hann Eirík okkar Jónsson, yfirlækni og sóknarnefndarmann flytja hugvekju sem minnti á mikilvægi mannauðs og góðs tækjaafla í traustu heilbrigðiskerfi og það ætti að vera í fyrirrúmi í uppbyggingu Landspítalans. Mannaflinn, fagfólkið okkar, er lykillinn að því að byggja upp gott samfélag þar sem fólki er vel sinnt í veikindum og árangur næst í baráttunni fyrir velferð, heilsu og vellíðan.
Fjöldi manns gæddi sér einnig á vöfflum með rjóma og gerði síðan góð kaup í fallegum prjónavörum, fötum og húsbúnaði sem við höfðum safnað saman upp á síðkastið. Mig langar að nota þetta tækifæri til að þakka enn og aftur þeim konum sem breyttu garnafgöngum og gjafahespum í fallegar prjónavörur; peysur, sokka, teppi, sjöl, trefla og fleira. Þar varð kunnátta og örlæti á eigin tíma til góðs fyrir aðra. Um 400 þúsund söfnuðust með vöfflusölunni og á markaðinum og það verður helsta framlag okkar safnaðar til söfnunar þjóðkirkjunnar fyrir nýjum línuhraðli.
Strax eftir helgi skall síðan á með miklum þunga fréttir og umfjöllun um vonda stöðu Landspítalans og heilbrigðiskerfi á heljarþröm. Fólk hefur áhyggjur og fréttir af forgangsröðun í ríkisfármálum nú í upphafi nýs þings, eru ekki til að létta þeim áhyggjum nema síður sé.
Staðan er slæm eins og margir hafa bent á með skörpum og greinandi hætti - en kannski eru áhyggjurnar ennþá verri og kannski valda þær ekki síður skaða. Við erum sífellt minnt á hvað neikvæða og vonlausa sjónarhornið hefur skaðleg áhrif á möguleika okkar til að breyta, vaxa og bæta. Þá virðist engu máli skipta hvaða viðfangsefni er um að ræða.
Ein tegund af neikvæðu viðhorfi er það sem í sífellu leitar að sökudólgum fyrir því að eitthvað hefur farið úrskeiðis. Slíku viðhorfi kynnumst við heldur betur í guðspjalli dagsins, þegar Jesús mætir blindum manni og fólkið í kring fer strax að letia skýringa á því hvers vegna hann sé og hafi verið blindur frá fæðingu. Þar hlýtur einhverjum að vera um að kenna - skýringin hlýtur að vera sú að hann hafi syndgað - nú eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur.
Sagan um blinda manninn í 9. kafla Jóhannesarguðspjalls veitir innsýn í hugarfar og heimsmynd þar sem syndum og misgjörðum er kennt um líkamlega sjúkdóma og fatlanir. Það er manneskjunni afskaplega eðlislegt að leita eftir skýringum á því sem okkur finnst erfitt að ná utan um. Tilvist sjúkdóma og staðreynd þjáningarinnar er eitt af því sem við reynum að skilja og fá til að ganga upp.
Hvers vegna er svona mikil þjáning í heiminum? Hvers vegna fá sumir krabbamein? Hvers vegna fæðast lítil börn með fötlun sem hindrar þau í að njóta lífsins? Er það vegna þess að þetta fólk hefur syndgað? Eða foreldrar þess? Uh - nei....og við myndum aldrei halda því fram...eða hvað?
Það er mikilvægt að vera gagnrýninn á eigin samtíð og orðræðuna sem skapast á hverjum tíma. Ef að er gáð er stutt í skýringar á sjúkdómum sem eru af sama meiði og þær sem rekja sjúkdóma og fötlun til syndugs lífernis.
Það dynja á okkur skammir fyrir það hvað við borðum og drekkum, hvernig við lifum, hreyfum okkur, hugsum og horfum, og þessum skömmum fylgja vitanlega útskýringar á þá lund að flest sem hrjáir okkur sé vegna alls þess sem við gerum rangt. Og meðvitað eða ómeðvitað reynum við fara eftir því sem nýjustu uppljómanir leiða í ljós, hvort sem það er að borða litla eða mikla fitu, mjúka eða harða, 9 brauðsneiðar á dag eða alls engar, kartöflur eða kolvetnissnautt. Við gerum það vegna þess að við viljum reyna hafa áhrif á hvernig okkur farnast og forðast afleiðingar af hinni röngu breytni. Við erum til í að breyta flestu til að ná markmiðum sem eru skilgreind sem æskileg og eftirsóknarverð.
Viljum við kannski forðast að vera eins og við erum? Erum við kannski að reyna að breyta okkur án afláts? Og trúum við því kannski innst inni að það sé samband á milli þess sem við erum og þess sem við verðum fyrir í lífinu?
Auðvitað er augljóst orsakasamband milli sumra hluta. Við fitnum af því við borðum meira en við brennum. Við ruglum efnaskipti og kirtlastarfsemi með því að gúffa í okkur sætuefnum. Og auðvitað förum við í spað ef við lendum í árekstri á miklum hraða án þess að vera með bílbelti. Þetta vitum við.
En svo erum við líka mjög meðvituð um að fullt af því sem aflaga fer, mikið af þjáningu lífsins, gengur ekki að rekja til einhvers sem við gerðum rangt. Og það er þetta sem Jesús staðfestir í svari sínu til fólksins sem leitaði að skýringu á því hvers vegna maðurinn sem hann mætti á leið sinni var blindur frá fæðingu.
Nei, segir Jesús. Þessi maður er ekki blindur vegna einhvers sem hann gerði eða vegna þess sem foreldrar hans gerðu. Heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum!
Hér á sér stað hnik frá því að líta á hlutina með vegna-þess-að augum til að horfa á þá með til-þess-að augum. Hið mikilvæga er ekki að leita að ástæðu heldur að leita að því hvar lausnin liggur, hvar frelsið frá því sem kreppir og heftir.
Þetta er Jesú-leiðin og það sem við ætlum að læra af honum í dag. Ekki að festast í því að leita að skýringum og ástæðum fyrir því að eitthvað fer úrskeiðis heldur mæta aðstæðunum, mæta þjáningunni og erfiðleikunum, með hugarfarinu: hvað getum við gert til að snúa hlutum til góðs, hvernig linum við þjáningu, hvernig komum við með ljós þangað sem myrkur ríkir, hvernig veitum við líkn í þraut, miðlum friði í ófriðaraðstæður og kærleika þangað sem hatur ríkir.
Í sögunni um blinda manninn gefur Jesús honum sjónina og opnar augu hans. Líf mannsins gjörbreytist og hann getur staðið á eigin fótum í fyrsta sinn á ævinni og finnur fyrir reisn sem hver manneskja býr yfir á alveg nýjan hátt.
Ég held að til-þess-að nálgunin á viðfangsefnin og vandamálin í lífinu, felist ekki síst í því að virða manneskjuna eins og hún er, koma auga á og endurreisa virðinguna og reisnina sem býr í hverri og einni manneskju sem Guð hefur skapað.
Við getum nálgast okkar eigin mál þannig og málin sem snerta samfélagið okkar - eins og Landspítalann. Getum við sameinast um að líta á stöðuna og segja:
Svona er staðan...til þess að....við getum gert breytingar sem miða að því að virða manneskjuna og reisa við rétt þeirra sem minnst mega sín.
Svona er staðan.... til þess að við getum forgangsraðað í þágu mannlífs og velferðar, í þágu mannvits og náttúru, í þágu náungasamfélags sem gefur öllum tækifæri.
Svona er staðan... til þess að við getum tekið höndum saman, lagt okkar af mörkum og stutt við mikilvæga og lífsnauðsynlega starfsemi.
Til-þess-að. Mættum við horfa á hvort annað, á viðfangsefnin í lífinu, á erfiðleikana, áskoranirnar og verkefnin, með augum Jesú sem sjá leiðir til að breyta til góðs, rétta við manneskjur og horfa til himins!
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.