1. Rappari á markaði
Eitt vinsælasta lag vorsins er nýtnilagið Thrift Shop - eða Nytjamarkaðurinn - með rapparanum Macklemore. Lagið hefst á bón ungrar stúlku sem spyr hátt og snjallt: „Getum við farið á nytjamarkaðinn?“ Svo lýsir rapparinn á litríkan hátt þeirri nálgun við fatakaup að nýta hið gamla og kaupa frekar notað en nýtt. Með smápening í vasanum getur hann eignast alls konar dót og flíkur sem hann fílar. Að innkaupunum loknum lýsir hann því yfir að hann sé í fötunum hans afa þíns og hann líti brjálæðislega vel út.
Á Íslandinu góða hefur verið vakning í nytjamörkuðum og endurvinnslu. Góði hirðirinn er besti vinur þeirra sem þurfa að losna við gömul húsgögn og Rauði krossinn og Hjálparstarf kirkjunnar taka við fatapokum þeirra sem eiga of mikið. Svo er líka gaman að gramsa í Góða hirðinum í leit að hagnýtum og ódýrum húsgögnum og í Rauðakrossbúðinni og Hertex og öllum sekond-hand búðunum má oft finna dásamleg föt á góðu verði.
Nytjamarkaðarnir koma inn í hið hagræna líf á ýmsan máta. Fyrst taka þeir við því flóði fata og muna sem skapast hjá ríkri þjóð sem nýtur þess að versla og eignast nýja hluti. Til að rýma fyrir nýju vörunum þarf eitthvað af gamla dótinu að víkja. Nytjamarkaðarnir taka við því.
Í annan stað koma nytjamarkaðarnir sér vel þegar það er ekki mikið á milli handanna. Þar er hægt að gera góð kaup, og finna gæðaklæði á góðu verði. Það kemur sér vel, því hjá ríkri þjóð sem elska að versla eru líka margir sem þurfa að velta hverri krónu fyrir sér, til að fæða og klæða sig og börnin sín.
Í þriðja lagi standa nytjamarkaðarnir fyrir því að það sem kemur inn fyrir vörurnar, er notað í góðgerðastarfi og til að styðja þau sem minnst mega sín. Nytjamarkaðir safna fé til aðstoðar innanlands og utan og standa undir hjálparstarfi samtaka á borð við Rauða krossinn, Hjálpræðisherinn og ABC barnahjálp.
Í fjórða lagi standa nytjamarkaðarnir fyrir hugmyndafræði nýtni, endurvinnslu og efnahagslegt réttlæti á hnattræna vísu. Þetta eru hvorki meira né minna en ein stærstu málum okkar daga. Neysla vesturlanda hvílir á hlutum sem eru siðferðilega vafasamir svo ekki sé meira sagt. Þá þarf að endurskoða.
Ódýr framleiðsla í þriðja heiminum hvílir að aðgengi að ódýru vinnuafli - sem eru manneskjur, oft á barnsaldri, sem lifa og starfa við aðstæður sem oft eru óviðunandi og við myndum ekki vilja bjóða okkur eða börnum okkar.
Endalausar flug- og skipaferðir sjá til þess að framleiðslan komist síðan á þá staði í heiminum þar sem neytendurnir búa. Flutningarnir teygja sig um hnöttinn þveran og endilangan. Neyslan skilur eftir sig mörg kolefnisspor. Og oft að nauðsynjalausu.
Til dæmis rifjast upp þegar Eyjafjallajökull gaus um árið og flug yfir Evrópu féll niður í nokkra daga. Þá komu áhugaverðar aukaverkanir í ljós á því að neyslukeðjan rofnaði, þótt í stuttan tíma væri. Á milli þess sem sjónvarpsstöðvar spiluðu myndskeið af pirruðum flugfarþegum sem urðu að lúta í lægra haldi fyrir náttúruöflunum, voru sýndar myndir af deyjandi rósum í Kenýa, sem mynduðu sífellt stærra fjall, því daglegir flutningar með nýskornar rósir frá sveitum Kenýa á markaði í Evrópu röskuðust.
Umhverfinu blæðir líka í framleiðslu hlutanna. Bómullarrækt skilur eftir sig eiturefni í jörðinni og auðæfi jarðar eru notuð til að framleiða drasl. Og við kaupum og kaupum, þótt við eigum nóg.
Þess vegna er nytjamarkaðurinn svona skynsöm og heilbrigð viðbót við hagkerfið og neysluna okkar. Því fleiri hringi sem dótið og fötin fara, því meira léttir á framleiðslu nýrra hluta, flutningi á milli heimsálfa og á starfsfólkinu sem bókstaflega fórnar sér til að Vesturlandabúar geti verslað án afláts.
Allir græða, þau sem þurfa að losa um dót, þau sem geta keypt vörur fyrir lítinn pening, þau sem njóta þess sem nytjamarkaðurinn gefur af sér, kolefnissporum fækkar, og þar fram eftir götunum. Nytjamarkaðurinn er svar við kalli tímans.
2. Páfinn og erkibiskupinn og biskupinn
Í guðspjalli dagsins meðtökum við orðaskipti Jesú og Símons Péturs, lærisveinsins sterka, breyska og mannlega. Samtalið snýst ekki um fortíðina eða að rifja upp mistök. Samtalið snýst um framtíðina. Jesús hefur kallað Símon Pétur til að vera leiðtogi í kirkju sinni. Og það sem þarf er tvennt: Ást til Jesú og umhyggja fyrir fólki. Þau sem eru kölluð til að vera leiðtogar verða að hafa þetta rótgróið í sér og láta það móta stefnu sína og aðgerðir.
Um miðjan mars var valinn nýr páfi, sem er leiðtogi stærstu kirkjudeildar og stærsta trúfélags veraldar. Nýi páfinn er að sögn hógvær og laus við tilgerð og prjál. Hann notar almenningssamgöngur og vill frekar búa í lítilli íbúð meðal annarra presta en í íburðarmikilli, tuttuguherbergja páfaíbúð með útsýni yfir Róm. Í nafninu sem nýr páfi velur sér felst alltaf vísbending um markmið hans, sjálfsskilning og áherslur í boðun og starfi. Frans frá Assisi, merkisberi umhyggju og málsvarnar fyrir fátæka og Guðs góðu sköpun, er dýrlingurinn sem nýi páfinn valdi að kalla sig eftir.
Viku eftir páfavalið var nýr leiðtogi þeirra sem tilheyra anglikanskri trúarhefð settur inn í embætti. Nýi erkibiskupinn af Kantaraborg - sem er stundum kallaður ABC - Archbishop of Canterbury - heitir Justin Welby og er þekktur fyrir vinnu sína að sáttagjörðarstarfi á forsendum dómkirkjunnar í Coventry og umræðuna um siðlega bankastarfsemi í kjölfar bankahrunsins í Bretlandi árið 2008.
Frans páfi og Justin erkibiskup taka við af mönnum sem fyrst og fremst eru þekktir sem guðfræðingar. Josef Ratzinger og Rowan Williams teljast með helstu kennimanna sinna kirkjudeilda á síðustu áratugum og báðir höfðu sent frá sér fjölda bóka áður en þeir tóku við leiðtogastöðu í kirkjunni sinni. Það gildir ekki um arftaka þeirra. Þeir hafa hins vegar haslað sér völl sem athafnamenn eða aktivistar í kirkjunni, á sviði spámannlegrar díakoníu og málsvarnar þeirra sem minna mega sín.
Með vali sínu á nafni setti Frans páfi frið, fátækt og umhyggju fyrir sköpuninni á dagskrá. Með starfi sínu að sáttagjörð og sáttamiðlun í Bretlandi og Afríku hefur Justin erkibiskup verið á svipuðum slóðum. Það sama sjáum við á Íslandi þar sem Agnes, okkar eigin biskup, hefur lagt áherslu á samstöðu og sátt íslensku þjóðarinnar með ákalli um söfnun í þágu Landspítalans og umhyggju fyrir þeim sem minnst mega sín í kjölfar Afríkuferðar með fulltrúum Hjálparstarfs kirkjunnar.
Agnes, Justin og Frans taka við embætti á tímum efnahagslegrar misskiptingar og neyslu þar sem hallar stórlega á suma íbúa jarðarinnar, og eins náttúruna sjálfa. Orð þeirra og athafnir gefa fyrirheit um að kirkjurnar muni láta sig varða um þessi mál og svara kalli tímans sem eru áhyggjur af fátækt, misskiptingu og arðráni náttúrunnar. Þessar áhyggjur eru sammannlegar og ganga þvert á trúarbrögð og þjóðerni. Lausnirnar og sáttin þurfa að vera það líka.
3. Lyklavöldin og kosningarnar
Elskar þú mig - spyr Jesús? Sýndu þá manngæsku, samábyrgð og frumkvæði. Láttu þig varða hin fátæku og mannvirðingu þeirra og sóaðu ekki sameiginlegum auðlindum og gjöfum náttúrunnar. Það eru kristin gildi sem eru þess virði að berjast fyrir - og hafa í sáttmála þjóðar, sem stundum er kölluð stjórnarskrá.
Fátækt og náttúra eru á dagskrá á Íslandi þar sem kosningar eru í nánd. Þjóðin gengur senn til atkvæða og kýs hver fær lyklavöldin á Íslandi næstu fjögur árin, gerir upp hug sinn hverjum hún treystir til að vinna vel og gera gott. Það er ábyrgð að fá að velja stjórnvöld og það bera að þakka að við búum í frjálsu landi þar sem kosningaréttur og þátttaka í lýðræði er virt.
Stóru málin nú sem endranær, hljóta að snúa að því að lyfta mannvirðingu og mannréttindum upp og ryðja úr vegi því sem hindrar þessi grunngildi samfélagsins. Og enginn ætti að bjóða sig fram til að leiða þjóð, sem ekki treystir sér til að standa á sama hátt vörð um náttúruna og gjafir hennar, treysta sér til að láta náttúruna stundum njóta vafans þegar áhrif af uppbyggingu og nýtingu eru annars vegar.
Kall tímans er að manneskjan sættist við umhverfi sitt, manneskjur og náttúru. Stórt skref í þá átt er að gera upp við neyslu og lífsstíl sem misnotar aðra og misnotar náttúruna. Líf sem byggir á ranglæti getur ekki verið gott líf. Rányrkja og sóun er vond í sjálfu sér og við bætist að hún kemur að lokum aftan að þeim sem hana stundar og bitnar á þeim beint.
Kall tímans er um sátt við Guð og menn.
Kall tímans er á langtímalausnir ekki skammtíma.
Kall tímans er að róa sig - nema staðar, njóta blómanna sem vaxa í garðinum þínum eða í gróðurhúsi í Biskupstungum, í staðinn fyrir að kaupa rósir sem nýrskornum er flogið frá miðbaug upp að heimskauti.
Kall tímans er að taka ábyrgð á hvert öðru, vegna þess að þannig byggjum við samfélag sem er þess virði að tilheyra.
Kall tímans er að nýta og endurnýta, versla í nytjamarkaðnum – slæa tvær flugur í einu höggi með því að styrkja málefni og líta vel út í fötum afa einhvers, eins og rapparinn Macklemore.
Kall tímans er siðbót í trú og verkum, til lífs sem metur hið smáa, hæga og staðbundna, nýtnina og gleðina yfir því sem Guð gefur okkur.
Guðsþjónusta í Víðistaðakirkju. 2. sunnudag eftir páska, 14. apríl 2013. Lestrar Sl 23, 1Pét 5.1-4, Jh 21.15-19.