Það gerðist ekki í Betlehem

Það gerðist ekki í Betlehem

Hvers vegna löðumst við að þessari sögu? Er það vegna þess að hún hjálpar okkur til að hafa samúð með þeim sem lítils eru megnugir en verða að lúta tillitslausu valdi. Ung kona fær ekki að fæða frumburð sinn heima heldur er hrakin í ferðalög til að valdsmaður geti innheimt skattinn sinn svo enginn komist undan?
fullname - andlitsmynd Sigurður Pálsson
25. desember 2005
Flokkar

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Lk.2.1-14

Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.

Þá erum við enn einu sinni búin að rifja upp söguna af hinum fyrstu jólum. Söguna af Jósef sem þurfti að fara á milli landshluta með Maríu sína barnshafandi á síðasta mánuði svo keisarinn í Róm gæti haft reiður á skattheimtu sinni. Og enn einu sinni erum við búin að fylgja þeim á milli gististaða og heyera þeim úthýst og loksins fylgdum við þeim inn í fjárhúsið. Og við höfum líka heimsótt hirðana út á Betlehemsvelli og hlustað á englasönginn með þeim og við fylgdum þeim þegar þeir litu undrandi inn í fjárhúsið og sáu móðurina og barnið liggjandi í hálminum. Ár eftir ár rifjum við þetta upp eins og börnin sem vilja láta lesa fyrir sig sömu söguna aftur og aftur. Ár eftir ár viljum við líka syngja þessa sögu og íhuga hana með sálmaskáldunum. Og svo segjum við hvert við annað: Gleðileg jól.

Hvers vegna löðumst við að þessari sögu? Er það vegna þess að hún hjálpar okkur til að hafa samúð með þeim sem lítils eru megnugir en verða að lúta tillitslausu valdi. Ung kona fær ekki að fæða frumburð sinn heima heldur er hrakin í ferðalög til að valdsmaður geti innheimt skattinn sinn svo enginn komist undan? Er það vegna þess að sagan hjálpar okkur að slást í för með þeim mörgu sem alls staðar koma að lokuðum dyrum, sem er úthýst bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu? Er það vegna þess að okkur er boðið á himneskan konsert með daglaunamönnum á næturvakt,- ókeypis? Dýrð sé Guði. Er það vegna þess að við fáum að vera samferða þessum sömu daglaunamönnum þegar þeir fara að heimsækja ungu konuna í fjárhúsinu á sængina,- án sængurgjafar,- með undrunina eina meðferðis og himneskan, nýortan sálm í tilefni af fæðingu barnsins.

Er það vegna þess að við mýkjumst öll upp við að sjá hvítvoðung hvíla við brjóst móður sinnar, þetta undur lífsins, þetta bjargarleysi sem kallar fram í okkur verndarhvötina, hlýjuna, elskusemina?

Vafalaust allt þetta og án efa ýmislegt fleira. Það eru svo margir þættir í þessari sögu sem hjálpa okkur til að lifa okkur inn í hana, hjálpa okkur að finna okkur stað í henni.

Eða er það kannski vegna þess að í gegnum þessa sögu finnst okkur auðveldara að nálgast Guð en í gegnum nokkra aðra sögu. Okkur hefur jú verið kennt að í þessu litla, úthýsta barni er Guð að vitja okkar. Og hann kemur ekki í mætti og mikilli dýrð, - þá hefðum við orðið óttaslegin. Hann kemur í barninu í jötunni og við vitum að það stafar engin hætta af barni í jötu. Hann gæti verið bróðir okkar. - Ó, Jesú, bróðir besti. - Það er gott að eiga slíkan bróður.

Jólasagan er æfisaga Jesú Krists í hnotskurn. Hann hraktist um án þess að eiga sér stað að halla höfði sínu. Hann kom gjarnan að lokuðum dyrum, en þeir sem minnst máttu sín opnuðu fyrir honum, hann var þeirra og þeir hans. Guð meðal manna, meðal þeirra sem opnuðu fyrir honum svo hann gæti gengið inn. Guð kærleikans.

Já, kærleikurinn, vel á minnst. Er nokkuð eins berskjaldað og kærleikurinn? En eff Guð er kærleikur, er hann þá ekki berskjaldaður og dæmdur til að bíða ósigur fyrir illskunni? Ef barnið í jötunni er tákn Guðs í heiminum, eru það þá ekki skilaboð um að Guð má sín einskis. Stundum finnst okkur það. Þegar við heyrum um hörmungar og mannvonsku spyrjum við gjarnan: má kærleikurinn sín nokkurs? Er það ekki fyrst og fremst harkan, tillitsleysið, ofbeldið og ágirndin sem vinna sigra? Hvað megnar kærleikurinn? Það er stundum talað um gátu þjáningarinnar, gátu hins illa. Það er sjaldnar talað um gátu kæleikans, þess kærleika sem leitar ekki síns eigin. Berskjaldaður kærleikurinn kemst þangað sem bryndrekar komast ekki. Kærleikurinn kveikir líf, andstyggðin eyðir lífi, kærleikurinn sættir og sameinar, illskan sundrar. Kærleikurinn kveikir von, illskan nærist á vonleysi. Kærleikurinn er sigurafl. Hatrið er uppgjöf.

Það gerðist í Betlehem. Síðan eru rúm 2000 ár. Samt var það ekki nóg, hefur aldrei verið nóg. Sagan hefði aldrei verið sögð ef hún hefði ekki endurtekið sig. Norska skáldið Finn Björnseth var glímumaður. Hann hafði lengi leitað, glímt, trúað og efast. Hann lá sjúkur í litlu blámáluðu herbergi þegar það gerðist. Þar lifði hann sína jólanótt sem hann lýsti síðar í ljóði:

það gerðist ekki í Betlehem þegar Kyreneus var landstjóri á Sýrlandi það var í litlu blámáluðu mjög hversdagslegu herbergi rúm og borð og hvítur stóll þar voru engir hirðar og engir englar aðeins svolítill ljósgeisli sem þrengdi sér inn á milli rifjanna og inn í hjartað - skyndilega vissi ég allt það sem ég hafði áður reynt að skilja og barnið sagði: svona fæðist ég aftur og aftur árþúsund eftir árþúsund ég er allt í öllu Orðið Sannleikurinn Vegurinn og Lífið sá sem tekur við mér hér og nú hefur eignast hlutdeild í eilífðinni.

Jólin eru ekki ævintýri eða fjarlægir draumórar. Við hengjum okkur ekki í drauminn heldur fögnum lifandi raunveruleika, raunveruleika sem blasti við í afskekktu þorpi hins Rómverska heimsveldis, en er sífellt að endurtaka sig þegar barnið fæðist í hjörtum þeirra sem búa því stað þar. Vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér minn kæri.

Við óskum hvert öðru gleðilegra jóla með bros á vör. Yfir hverju er að gleðjast? Hækkandi sól? Góðum mat? Góðum gjöfum? Fallegu skrautii? Já, yfir öllu þessu, en ekki aðeins þessu. Gleðileg jól, vegna þess að barnið ber að dyrum og vantar vöggu að hvíla í. Gleðileg jól, vegna þess að barnið vill taka sér þar bústað, verða hluti af þér og lífi þínu um gleðileg jól, en einnig þegar sorgin sverfur að þér, þegar vonin daprast. Gleðileg jól vegna þess að í barninu birtist Guð sem ekki hverfur á braut þótt jólahátíðinni ljúki, heldur býr með oss, fullur náðar og sannleika. Amen.