„Af hverju ertu að stunda umhverfisvernd á trúarlegum forsendum?“
Þessa spurningu fékk ég eftir að hafa reynt að útskýra vistguðfræði fyrir vinum mínum, róttækum umhverfisverndarsinnum, sem voru jákvæðir í garð þess að ég aðhylltist slíka guðfræði en skildu ekki þörfina fyrir að blanda saman trú og umhverfisvernd. Ég svaraði að allir hefðu ákveðin hlutverk og skyldur í ljósi umhverfisvandans. Vísindamenn, lögfræðingar og stjórnmálamenn hafi sín hlutverk en guðfræðingar og söfnuðir hefðu líka hlutverk. Guðfræðingar geta kafað í helgitexta og kirkjusöguna, dregið fram guðfræðileg og trúarleg rök fyrir því að manneskjan eigi að standa vörð um og hlúa að sköpunarverki Guðs. Þannig leggja þeir fram ákveðna vistguðfræði. Í söfnuðunum hagnýtist vistguðfræðin en hana má nota við skipulagningu safnaðarstarfs og helgihalds.
Til verndar umhverfinu
Vistguðfræði er stefna sem kallar trúað fólk til verka til verndar umhverfinu. Víða í nágrannalöndum okkar hafa söfnuðir gerst grænir, stigið skref til að minnka vistspor sín og tengt umhyggju fyrir sköpunarverkinu inn í boðun kirkjunnar. Í kringum þessar grænu kirkjur hafa sprottið upp græn kirkjunet sem aðstoða kirkjur í grænkunarferlinu og eru vettvangur fyrir söfnuði að deila bænum, sálmum og vistvænum hugmyndum fyrir helgihaldið. Þessar grænu kirkjur hafa víða verið vettvangur góðra verka og verkefna og stutt samfélög við að öðlast betri umhverfisvitund. Það sem mér þykir dýrmætt við hina trúarlegu nálgun á umhverfisvernd er að í henni fléttum við saman ábyrgð mannsins á sköpunarverkinu, spurningum um tilgang lífs okkar, von og trú. Þar eru vonin og trúin hvað mikilvægastar því að í þessu verkefni að vernda plánetuna fyrir frekari skaða, sem oft getur virst ómögulegt, er styrkur fólginn í að vita að yfir okkur sé vakað.
Vísir að grænum kirkjum
Grænar kirkjur og vistguðfræði eru langt því frá nýjung í íslenskri trúarumræðu. Á Trú.is má finna prédikanir og pistla undir áhrifum vistguðfræði. Þar hnaut ég um pistil frá 2009, „Hvar er græna kirkjan?“ eftir Kristínu Þórunni Tómasdóttur. Þar gagnrýnir hún að kirkjan sé ekki virkari í umhverfisumræðunni. Eins og staðan er nú árið 2014 hafa einstaka söfnuðir og prestar gert tilraunir til að grænka starf sitt, minnkað vistspor safnaðarins, tileinkað ákveðna daga sköpunarverkinu og verið með umhverfisfræðslu. Hinsvegar er spurning Kristínar enn gild þó að grænar kirkjur eða vísi að þeim megi blessunarlega finna á einstaka stöðum.
Umhverfisstefna frá 2009
Það fer nú ekki hátt en þjóðkirkjan setti sér umhverfisstefnu árið 2009 og gaf út handbók fyrir umhverfisstarf í söfnuðum. Það er metnaðarfullur og flottur leiðarvísir fyrir söfnuði og því má segja að öll tækin séu til staðar fyrir söfnuði að gerast grænir. Það sem vantar er utanumhald, kynning og hvatning. Það er þörf á að hér starfi grænt kirkjunet sem styður söfnuði í grænkunarferlinu, miðlar hugmyndum fyrir helgihaldið og myndar samfélag fyrir þá sem áhuga hafa á þessum málum.
Tækifæri vistguðfræðinnar
Vistguðfræðin býður okkur ýmis tækifæri, ekki aðeins til samtals við samtímann heldur einnig við aðrar kirkjudeildir. Umhverfisvandinn og vistguðfræði eru nefnilega ekki einkamál þjóðkirkjunnar. Hversu yndislegt væri ef að hér á landi starfaði grænt kirkjunet opið öllum kirkjum og söfnuðum þar sem við myndum deila grænum bænum, sálmum, hugvekjum, víxllestrum og hugmyndum? Ef þú ert nú full/ur af eldmóði og tilbúinn að taka þátt í stofnun slíks nets bendi ég þér á að finna hópinn Græna Kirkjan á Facebook og taka þátt í samtalinu! Tökum höndum saman fyrir sköpunarverkið, náungann og framtíð okkar allra.