Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 20. júlí síðastliðinn bregst Óli Gneisti Sóleyjarson við grein minni Trú og vísindi: Viðbrögð við málflutningi prófessors Richard Dawkins sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins þann 8. júlí en í þeirri grein gagnrýndi ég málflutning sem Richard Dawkins prófessor í líffræði við Oxford-háskóla viðhafði um trú, trúarbrögð og trúað fólk í viðtali í kastljósi Sjónvarpsins. En Dawkins kom hingað til lands sem fyrirlesari á ráðstefnu um trúleysi sem haldin var í Reykjavík í lok júní. Í grein sinni gerir Óli Gneisti athugasemdir við fáein atriði í grein minni með nokkuð stóryrtum hætti og vænir mig m.a. um að ýkja og oftúlka orð Dawkins. Þó að mér sé það sárt að umræða sem mér er annt um fari að snúast um persónur fremur en málefni þá finnst mér rétt að svara Óla Gneista hér. Ég vona enn sem áður að hið margræða og mikilvæga samtal milli trúarbragða og vísinda mótist af og miði að gagnkvæmri virðingu, umburðarlyndi og skilningi.
Það fyrsta sem Óli Gneisti finnur að grein minni er meintur misskilningur minn á heiti umræddrar ráðstefnu; að ekki hafi verið um að ræða ráðstefnuna „Trúleysi á Íslandi“ heldur ráðstefnuna „Jákvæðar raddir trúleysis“. Hvað þetta snertir get ég mér að sársaukalausu játað slíkan misskilning á mig ef sú er raunin enda breytir það í engu orðum mínum né hefur það áhrif á málflutning minn.
Því næst vitnar Óli Gneisti til orða minna þar sem ég lýsi þeirri skoðun minni að málflutningur Dawkins miði að því meira eða minna að kenna trú og trúarbrögðum um allt sem farið hefur miður í sögu mannsins og að það beri vitni um frumstæða vísindahyggju að mínu mati. Það er rétt hjá Óla Gneista að Dawkins komst ekki þannig beint að orði í viðtalinu. En ég tel það ekki oftúlkun að draga slíka ályktun í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hann lét falla um trú og trúað fólk. Þá ályktun sem ég dreg af orðum Dawkins tel ég í hlutfalli við þau orð sem hann lét falla. Ég stend við hana enda þótt Óli Gneisti sé mér ósammála. Dawkins gekk að mínu mati lengra en að segja trú og trúarbrögð „stóra áhrifavalda [. . .] til ills í ógæfuköflum mannkynssögunnar“ eins og Óli Gneisti segir í grein sinni. Að „ógæfuköflum“ slepptum hlýtur rás sögunnar að mótast af einhverju betra. Dawkins talaði ekki um slíkt heldur staðhæfði að trú sé í reynd hættulegt fyrirbæri sem byggist á fáfræði og skorti á sjálfstæðri hugsun sem beri að mæta með aukinni menntun; að trú ali á fjandskap milli fólks og hópa sem séu andstæðrar trúar, leiði af sér sundrungu, ófrið og styrjaldir – og laði þannig fram allt hið versta í fari mannsins; því hvað getur verið verra?
Óli Gneisti heldur því ranglega fram að ég geri tilraunir til þess „að sýkna trúarbrögð af áhrifum á stríð og illvirki“. Það reyndi ég ekki en ég gerði hins vegar alvarlegar athugasemdir við fullyrðingar Dawkins þess efnis sem ég tel fyllilega rangar og minnti jafnframt á að ekki er hægt að alhæfa um trú á grundvelli misbeitingar hennar í sögunni; og jafnframt að maður verður að gera greinarmun á gjörðum þeirra sem kalla sig trúaða (m.a. kristið fólk) og trú sem slíkri (m.a. kristinni trú). Vondur maður gerir ekki góðan og göfugan málstað vondan enda þótt hann aðhyllist hann og misbeiti honum. Kristinni trú hefur verið misbeitt rétt eins og vísindum en það réttlætir ekki öfgakenndar alhæfingar.
Í meintri viðleitni minni til að fegra trúarbrögð segir Óli Gneisti það afar lélegt dæmi hjá mér að halda því fram að „ekki sé einu sinni hægt að skoða gyðingahatur Hitlers [. . .] í trúarlegu ljósi“ og heldur Óli Gneisti því fram að „gyðingahatur [eigi] sér fyrst og fremst rætur í kristni“. Óli Gneisti vitnar m.a. í orð Gísla Gunnarssonar sagnfræðiprófessors sem finna má í pistli hans um antísemitisma á Vísindavef Háskóla Íslands þess efnis að „Hitler og nasistar smíðuðu gyðingahatur sitt úr gömlum arfi kristinnar hefðar“. Skoðun sína styður Óli Gneisti jafnframt með því að nefna til andgyðinglegt rit Marteins Lúthers Um gyðingana og lygar þeirra. Hér er ekki rými fyrir nægilega ítarlegt svar við flóknu viðfangsefni. Hér verð ég að láta nægja að segja að Óli Gneisti fellur í þá gryfju að gera ekki greinarmun á „trú“ og „hefð“ og tekur hann sögulega staðreynd úr samhengi sínu. Í ofangreindri tilvitnun er Gísli Gunnarsson ekki að ræða um „kristna trú“ heldur „kristna hefð“. Að sönnu hefur margt misgott fylgt kristinni hefð í gegnum söguna og síst horfi ég framhjá því í grein minni. En „hefð“ er ekki „trú“ og „kristin hefð“ er ekki „kristin trú“. Það er rétt að frá fyrstu tíð var samfylgd gyðinga og kristinna erfið á báða bóga enda töldu gyðingar kristna menn trúvillinga og öfugt og gengu kristnir oft hart fram og fóru á stundum með ofsóknum. Því miður hefur andúð í garð gyðinga löngum fylgt kristinni hefð í einni eða annarri mynd en það hefur ekkert að gera með kristna trú og boðskap hennar. Það felur í sér grófan anakrónisma að túlka andúð í garð gyðinga í kristinni trúarhefð í ljósi Helfararinnar. Vissulega talaði Lúther illa um gyðinga í nefndu riti sínu en kristin trú stendur ekki og fellur með Lúther og orðum hans né heldur grundvallast hún á þeim. Lúther er ekki Kristur heldur lærisveinn hans og túlkandi hins kristna boðskapar og ritningarinnar. Lúther hafði vissulega geysilega mikil áhrif innan kristinnar trúarhefðar og hefur enn í dag en hann er engu að síður brigðull sem aðrir þótt ekki megi dæma hann út frá þessu einu heldur þarf að líta til langrar og margþættrar sögu í sínu rétta samhengi.
Til eru þeir sagnfræðingar og trúarbragðafræðingar sem spyrja sig hvort það sé ekki í reynd tímaskekkja að skoða viðhorf Lúthers sem dæmi um eða sem undanfara kynþáttabundins antísemitisma – haturs í garð gyðinga sem kynþáttar – þegar vera má að hann hafi einfaldlega verið að sýna gyðingdómi sem trúarbrögðum megna lítilsvirðingu sína. En hvort sem gagnrýni Lúthers í garð gyðinga hafi grundvallað antísemitisma í þýskri þjóðarsál eða ekki þá er ljóst að það sem og antísemitismi Hitlers og nasista hefur ekkert með kristna trú að gera né boðskap hennar. Hitler og flestir nasistar voru andsnúnir kristindómi og grundvölluðu þeir antísemitisma sinn fyrst og fremst á ofstækis- og hatursfullri kynþáttahyggju sem á rót sína að rekja til margra þátta sem ekki er unnt að rekja hér. Án þess að sýkna kristna trúarhefð ber þó að nefna hér að svokallaður sósíalískur darwinismi, sem grundvallast á vísindahyggju, var ásamt mörgu öðru mikill áhrifavaldur; en þar var vísindalegu lögmáli þróunarkenningar Darwins um „afkomu hins hæfasta“ (e. survival of the fittest) misbeitt á mannlegt samfélag sem leiddi af sér hugmyndir um virka kynbótastefnu og hina svokölluðu herraþjóð (Herrenvolk) með sorglegum afleiðingum fyrir gyðinga. Það verður því miður að horfast í augu við vonda þætti úr kristinni trúarhefð þegar andúð í garð gyðinga er annars vegar, því verður ekki neitað. Það er hins vegar ekki hægt að leggja andúð í garð gyðinga eins og hún hefur komið fram innan kristinnar trúarhefðar að jöfnu við kynþáttabundinn antísemitisma nasista eins og hann kom fram á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar og Helfararinnar né heldur að túlka hann í ljósi kristinnar trúar!
Óli Gneisti rekur einnig ofan í mig þá athugasemd sem ég geri við skilning Dawkins á trú og segir mig misskilja hvað Dawkins á við með trú. Dawkins grundvallar mikið af gagnrýni sinni á trú og trúað fólk á því að trú, þ.e. guðstrú (e. theism), verði ekki rökstudd með vísindalegum hætti. Ég minni á það í grein minni og geri það aftur hér að eðli sínu samkvæmt verður guðstrú ekki rökstudd með neinum slíkum hætti. Þá athugasemd telur Óli Gneisti furðulega þar sem gagnrýni Dawkins sé einmitt í því fólgin. Ég spyr mig hvort að efahyggjumaðurinn Dawkins sé orðinn að óskeikulum spámanni í huga Óla Gneista? Mér þykir Óli Gneisti fara í hringi í umræðu sinni um trú og vísindi og slíkt leiðir varla til fræðilegrar niðurstöðu. Þá staðreynd að guðstrú verður ekki studd rökum tel ég alls ekki gagnrýni verða né gera lítið úr henni sem slíkri þar sem guðstrú er einfaldlega þannig farið og gef ég því lítið fyrir gagnrýni Dawkins hér. Því vill Óli Gneisti hins vegar ekki una mér! Vill hann fremur að ég feti í fótspor sumra bókstafstrúarmanna eða dulhyggjumanna sem sífellt blanda þessu tvennu saman? Vísindi og rökleg hugsun geta ekki ógilt guðstrú vegna þess að guðstrú er í eðli sínu ekki bundin af rökum. Af þessum ástæðum fellur gagnrýni Dawkins um sjálfa sig. Orð Dawkins bera að mínu mati miklu fremur vitni um viðhorf hans til trúaðs fólks heldur en trúar sem slíkrar enda segist hann kenna í brjósti um trúað fólk vegna hugsunarleysis þess. Að ræða um trú út frá þeim forsendum sem Dawkins gerir jafnast á við að rýra guðstrú eðli sínu og innihaldi. Ég get ekki sannað fyrir neinum að Guð sé til ekki frekar en nokkur getur sannað fyrir mér að Guð sé ekki til; og þar kemur til kasta trúar. Í gegnum aldirnar hafa margir heimspekingar og guðfræðingar reynt að sanna eða afsanna tilvist Guðs. Slík hugarleikfimi getur nært guðleysi eða guðstrú þeirra sem hugsa um Guð út frá slíkum brautum en hún leiðir ekki til almennrar niðurstöðu vegna þess að þekkingin á Guði grundvallast ekki á þessum rökum eða öðrum, heldur á innri tilfinningu og skynjun. Í menningarsögu mannsins svarar merking orðins Guð ekki til einhvers sem leiða má af vitsmunalegri röksemdarfærslu. Þversögnin er sú að jafnvel einstaklingur sem trúir á Guð getur tekið undir með guðleysingja að tilvist Guðs gangi þvert á öll rök, því ef unnt væri að rökstyðja guðstrú með einhverjum hætti þá væri ekki um trú að ræða. Rökstudd guðstrú er ekki til! Af þeim ástæðum átta ég mig ekki á málflutningi Dawkins hér og ítreka þá skoðun mína að ég tel Dawkins byggja málflutning sinn á afar takmörkuðum skilningi á trú á grundvelli hvers hann alhæfir með ósanngjörnum hætti.
Í fullyrðingum Dawkins um guðstrú er fólgið það viðhorf að átrúnaður eigi að einskorðast við það sem sanna má með röklegum hætti og þess vegna eigi fólk ekki að leggja trúnað á annað en það sem styðja má með aðferðum vísinda. Ekki er ekki hægt að fullyrða með þessum hætti nema maður telji að vísindaleg þekking sé hið eina áreiðanlega form þekkingar. Að þessu leyti grundvallar Dawkins viðhorf sitt til lífsins (það sem á ensku kallast system of belief) í trú á, eða í trausti til, þeirrar heimspekistefnu sem kölluð er pósitívismi. Pósitívismi er vísindaleg hugmyndafræði sem heldur fram yfirburðum vísinda og vísindalegrar hugsunar sem einu gildu leiðinni til þekkingaröflunar. Það sem einkennir pósitívisma er það viðhorf að allir hlutir séu mælanlegir. Að því leyti eru náin tengsl á milli pósitívisma og smættarhyggju þar sem bæði fela í sér að hlut eða ferli af einum toga megi leiða af hlut eða ferli af öðrum toga; til dæmis að hugarástand (t.d. tilfinningar og trú) megi leiða af efnaskiptum í líkamanum. Nú er hægt að ganga út í öfgar með flest eins og við vitum, trú jafnt sem vísindahyggju. Ég hafna alls ekki vísindum né vísindalegri hugsun en ég geri athugasemdir við það grunnfærnislega viðhorf vísindalegrar hugsunar sem ég tel málflutning Dawkins bera vitni um, m.a. þar sem hann gerir lítið úr trú fólk á vísindalegum forsendum sem einfaldlega ganga ekki upp. Trúuðu fólki hefur verið legið á hálsi um að leggja þeim sem kenna sig við „trúleysi “ það í munn að þeir telji vísindin skýra allt. Ég er ekki að halda slíku fram. Ég geri einungis athugasemd við þann málflutning að vísindi – sem einmitt geta ekki skýrt allt – ógildi sjálfkrafa guðstrú. Slíka ályktun tel ég aðeins hægt að draga af takmörkuðum skilningi á „trú“ og eðli þess „að trúa“.
Óli Gneisti gerir það sem hann kallar „hlaðborðskristni“ einnig að umtalsefni og segir hann slíka „kristni“ fela í sér að fólk velji sér það sem því hugnast best úr Biblíunni og vitnisburði hennar út frá eigin hyggjuviti og þar af leiðandi sé Biblían í raun „tilgangslaus“. Þetta leggur hann að jöfnu við afstæðisbundna túlkun á Biblíunni – og bætir því við að Dawkins gagnrýni einmitt slíka túlkun – sem hann segir mig „prédika“ þegar ég ræði um sögulegan og gagnrýnin Biblíuskilning; en í honum er meðal annars fólgið að skilja boðskap Biblíunnar frá sögulega og menningarlega skilyrtri framsetningu þess boðskapar enda sé það viðurkennt að Biblían er mannsins verk til orðið á löngum tíma við ólíkar aðstæður í sögu mannsins og þurfi því túlkunar við og eigi ekki að taka bókstaflega í einu og öllu.
Mér virðist Óli Gneisti hrapa að ályktunum og skipa sér rökfræðilega í flokk með íhaldsömum bókstafstrúarmönnum og kunna því illa að ég sé ekki einn af þeim. Hann virðist vilja að hvert orð Biblíunnar sé gjörnýtt til jafns við önnur sem er óneitanlega öfgafull afstaða. Óli Gneisti er í raun að segja að ef þú tekur þetta gilt eða trúir þessu úr Biblíunni þá verður þú að taka allt annað gilt eða trúa öllu öðru. Ætli honum finnist ekki slæmt að allt kristið fólk sé ekki af gerð bandarískra sjónvarpsprédikara? Ég á erfitt með að sjá annað en að Óli Gneisti mæli hér bókstafshyggju bót; eða fær Biblían tilgang á ný í hans huga ef trúað fólk gengur á eftir öllu sem í henni stendur?
Að greina ekki á milli innihalds og umbúnaðar Biblíunnar tel ég merki um öfgar og bókstafshyggju. Í þessu samhengi gerði ég sköpunarfrásögur Biblíunnar að umtalsefni í grein minni og lagði áherslu á að túlkun Biblíunnar er fólgin í að fanga hinn tímalausa og trúarlega boðskap á bak við annars sögulega skilyrtan umbúnað. Ég tel það ekki afstæðishyggju að meðtaka boðskap þeirra frásagna um upphaf heims og manns í og hjá Guði um leið og heimsmynd nútíma vísinda er réttilega viðurkennd enda er engin þverstæða fólgin í því í mínum huga. Auðvitað fallast ekki allir á hvaðeina sem stendur í Biblíunni og heiðarleg og ábyrg nálgun til Biblíunnar krefst þess að mínu mati. En það hefur ekkert með grundvöll kristinnar trúar að gera sem er orð og verk Guðs í Jesú Kristi og það er í ljósi hans sem innihald Biblíunnar ber að nálgast eins og ég hef sagt áður. Enda þótt Biblían, eðli sínu samkvæmt, beri t.d. víða vitni um samfélagslega hegðun og siði sem í dag þykja ótæk, m.a. kúgun kvenna og þrælahald, þá ógildir það eitt ekki kristna trú og boðskap hennar að við kjósum að taka ekki slíkan vitnisburð inn í kristna trúarhefð; enda má nefna að tiltekin dæmi eru félags– og menningarleg hegðun sem Jesús frá Nasaret barðist hart gegn sem og gegn þeirri óbilgjörnu bókstafstúlkun á boðum ritningarinnar (Gamla testamentinu) sem slík hegðun grundvallaðist á og var réttlætt út frá (sjá t.d. 2M 20.10; Mt 12.10-12; Mk 2.27). Þá efa ég einnig stórlega að einhverjum þætti það kristnu fólki til vegsauka ef það tæki allt slíkt bókstaflega upp úr Biblíunni og gerði það að sínu í orðum og háttum. Biblían er margþætt safn bóka sem skoða má í margvíslegu ljósi. En Biblían sem slík er ekki viðfang kristinnar trúar heldur Guð í Jesú Kristi. Tiltekið viðhorf til Biblíunnar er ekki mælikvarði á trú fólks eða réttmæti trúar þess. Við trúum ekki á Biblíuna sem geymir orð Guðs. Við trúum á orð Guðs sem er geymt í Biblíunni.
Þá ber að nefna hér í ljósi gagnrýni Óla Gneista að fólk getur að sjálfsögðu gert greinarmun á réttu og röngu án fulltingis Biblíunnar og ekki held ég öðru fram. Innan kristinnar trúarhefðar er ekki litið svo á að Biblían fari með óskeikult siðferðisvald yfir fólki. En þó að svo sé þá ber það vitni um afar takmarkaðan skilning á Biblíunni og kristinni trú og kristnu trúarlífi að halda því fram að Biblían sé þá til einskis annars nýt. Í kristinni trúarhefð hefur ætíð falist ólík túlkun á og ólík viðhorf til Biblíunnar á hverjum tíma en sá boðskapur sem er túlkaður er ævinlega einn og hinn sami. Rétt eins og vísindi hafa þróast í gegnum söguna með auknum skilningi mannsins á sjálfum sér og heiminum þannig hefur og kristin trúarhefð og viðhorf til Biblíunnar og guðfræði almennt einnig breyst í sögunni. En það hefur hins vegar ekki breytt í neinu grundvelli kristinnar trúar.
Í grein sinni vænir Óli Gneisti mig um að gera Dawkins upp skoðanir þar sem ég held því fram að mati Óla Gneista að Dawkins tali gegn trúfræðslu barna. Ég hélt engu slíku fram heldur gagnrýndi aðeins það sem Dawkins sjálfur lét hafa eftir sér, m.a. það að trúarleg fræðsla jafnist á við níðingshátt og andlegt ofbeldi gagnvart börnum og að jafnframt sé það sorglegt að ala börn á þeirri ranghugmynd að trú og trúarbrögð geti nokkurn tíma jafnast á við mikilfengleika vísinda og vísindalegrar hugsunar; raunheimurinn sé undraverður staður sem hafi upp á allt að bjóða og því þurfi fólk ekki á ímynduðum vini í skýjunum að halda. Í ljósi þessa gerði ég þá sanngjörnu athugasemd að ekki er hægt að alhæfa um barnauppeldi almennt út frá hinum trúarlega þætti og sér í lagi ekki í ljósi þess skilnings sem Dawkins hefur á trú. Ég er sammála Óla Gneista um að gera greinarmun á „trúarlegri boðun“ annars vegar og „trúarlegri fræðslu“ hins vegar. Óli Gneisti segir Dawkins jákvæðan í garð trúarlegrar fræðslu en neikvæðan í garð trúarlegrar boðunar. Ég gat þó ekki séð í viðtalinu að Dawkins gerði slíkan greinarmun. Fyrst og fremst alhæfði hann um trú á grundvelli öfgakenndra birtingarmynda hennar. En hvort heldur sem er þá spyr ég sjálfan mig í ljósi orða Dawkins um börn og trú í hverju slík trúarleg fræðsla ætti að vera fólgin. Dawkins sagði beinum orðum að hann „kenndi í brjósti um“ trúað fólk vegna fávísi þess, þ.e. það fólk sem telur sig þurfa á Guði að halda, og ennfremur að „bæta þyrfti gæði menntunar í ljósi þess“. Ekki veit ég hvernig trúfræðsla í jákvæðri merkingu fellur að slíku markmiði. Mér dettur helst í hug að trúfræðsla að hætti Dawkins hefði fyrst og fremst forvarnargildi, þ.e. að forða fólki frá helsi fáfræði og hugsanaleysis.
Í lok greinar sinnar sakar Óli Gneisti mig um að afneita trúleysi Dawkins enda telur Óli Gneisti að ég haldi því fram að „traust á aðferðir vísinda sé [. . .] svipað því að treysta (eða trúa) á ósýnilegan Guð.“ Þetta er algjörlega rangur skilningur hjá Óla Gneista. Ég hafna í vissri merkingu trúleysi enda hefur orðið trúleysi harla litla merkingu í mínum huga og á ég erfitt með að viðurkenna það sem slíkt. En ég hafna með engum hætti guðleysi Dawkins né legg að jöfnu það sem ofangreind tilvitnum ýjar að. Rangtúlkun Óla Gneista á orðum mínum leiðir af ólíkum skilningi okkar á því sem kallað er „trúleysi“ og hugtakinu „guðleysi“ en ólíkt mér álítur Óli Gneisti að um samheiti sé að ræða. Fyrir mér er svokallað trúleysi ekki hið sama og guðleysi (e. atheism). Trúleysi er jafnan þýðing enska orðsins agnosticism sem væri þó miklu betur þýtt með íslenska orðinu efahyggja. Það var breski líffræðingurinn Thomas Huxley (1825–1895) sem setti saman orðið agnostic (enska orðið gnostic er dregið af gríska orðinu gnosis sem merkir „þekking“ og er það sett hér með neikvæðu forskeyti). Huxley var eindreginn fylgjandi þróunarkenningarinnar sem þá hafði nýlega verið sett fram af Charles Darwin. Huxley var hins vegar ekki tilbúinn til þess að kasta kristinni trú og kristnum trúarlærdómum algjörlega fyrir róða enda þótt samtíma framfarir í vísindum, þ.m.t. þróunarkenningin, kölluðu á trúarlegt endurmat í hans huga. Í huga Huxleys tjáði agnostic þó ekki afdráttarlaust guðleysi né það sem sumir kalla trúleysi heldur lýsti miklu fremur þeim, m.a. honum sjálfum, sem töldu að spurningin um tilvist Guðs væri ekki á færi manns að svara. Orðið agnostic lýsir skoðunum þess sem hvorki játar né neitar, þ.e. afstöðu þess sem hefur ekki ástæðu (eða rök) til að trúa einhverju en hefur heldur ekki sannanir gegn slíkri trú. Þá er trúaður maður er ekki laus við efahyggju í lífi sínu eins og ég fjallaði um í fyrri grein minni.
Við þetta má bæta að í pistli sínum Hvað er trúleysi (www.vantru.is/2004/12/13/00.40/) gagnrýnir Óli Gneisti þá trúmenn sem halda því fram að „trúleysingjar noti [trúleysi] sem samheiti yfir guðleysi“ og segir að svo sé ekki. Í pistli sínum sem og í svargrein sinni í Morgunblaðinu skilgreinir Óli Gneisti trúleysi þannig að það sé fólgið í því að hafna öllum „yfirnáttúrulegum fyrirbrigðum“ sem og öllum „hindurvitnum“. Í svargrein sinni í Morgunblaðinu bætir hann því ennfremur við að honum þyki líklegt að Dawkins skilgreini trúleysi á sama hátt og hann. Sem dæmi um yfirnáttúruleg fyrirbrigði nefnir Óli Gneisti t.d. „guð (Guð/guði/goð/gyðjur), álfa, jólasveina og bleika ósýnilega einhyrninga“. Samkvæmt skilgreiningu Óla Gneista hafnar trúleysingi sem sagt Guði eða trúnni á Guð (af því að Guð er yfirnáttúrulegt fyrirbæri). Það má heita undarlegt að Óli Gneisti neiti því að nota trúleysi og guðleysi í sömu merkingu því hér hefur hann einmitt gefið okkur skilgreiningu guðleysis (e. atheism), sem er einmitt að hafna trúnni á Guð eða guði, andstætt því að játa trú á Guð eða guði (e. theism). Með öðrum orðum er guðleysi fólgið í skilgreiningu trúleysis. Óli Gneisti fylgir þessu eftir með því að fullyrða að „[a]llir trúleysingjar eru guðleysingjar en það eru ekki allir guðleysingjar trúleysingjar“. Það eru þá til guðleysingjar sem ekki eru trúleysingjar að mati Óla Gneista! Það eru með öðrum orðum til einstaklingar sem hafna trúnni á „guð (Guð/guði/goð/gyðjur)“ en hafna samt ekki „yfirnáttúrulegum fyrirbærum“ sem Óli Gneisti er þó búinn að skilgreina að „guð (Guð/guði/goð/gyðjur)“ sé. Eitthvað virðist rökfræðin bogin hér hjá Óla Gneista. En hvernig sem því líður þá fæ ég ekki séð að hann geri skýran mun á því sem hann kallar „trúleysi“ og „guðleysi“, þvert á móti.
Merking enska orðsins atheism er ekki trúleysi enda þótt það sé oft þýtt sem svo. Orðið atheism er dregið af gríska orðinu theos sem þýðir Guð og með neikvæðu forskeyti er merking þess að trúa ekki á Guð eða hafna trúnni á Guð og þannig er það réttilega þýtt sem „guðleysi“. Með orðinu atheism er því tiltekinni trú hafnað eða tiltekninni tegund trúar – guðstrú – ekki trú yfirleitt eða trú annarrar tegundar. Þess vegna tel ég rangt að nota orðið trúleysi í sömu andrá og guðleysi. Þegar það er gert er einfaldlega fyrirframgefinn skilningur á „trú“ ranglega heimfærður á hugtakið atheism eða sá skilningur að trú geti ekki falist í öðru en trú á „yfirnáttúruleg fyrirbrigði“.
Ég er hins vegar fyllilega sammála Óla Gneista þegar hann segir í sama pistli að „til að skilgreina trúleysi þarf fyrst að skilgreina trú“. Með þessum orðum hefur Óli Gneisti gert grein fyrir því hvað skilur okkur að í þessari umræðu fyrst og fremst. Við göngum út frá ólíkri skilgreiningu og höfum þar af leiðandi ólíkan skilning á trú. Til þess að skilgreina trú (og þar með trúleysi) finnst Óla Gneista „gott að leita í Biblíuna“. Það er skemmtilegt í ljósi þeirrar gagnrýni Óla Gneista á trúað fólk að það velji sér úr Biblíunni aðeins það sem gott er og þægilegt sem sé fráleit notkun á Biblíunni að hans mati og grafi undan henni allt notagildi. Auðvitað er Óli Gneisti ekki kristinn maður eða trúaður í þeim skilningi og þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvernig hann umgengst Biblíuna en hún er greinilega ekki jafn „tilgangslaus“ og ónothæf og hann heldur fram, að minnsta kosti ekki fyrir hann.
Óli Gneisti vitnar í framhaldinu til eftirfarandi orða Hebreabréfsins: „Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá“ til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að „[t]rú gengur gegn skilningarvitunum og rökum“. Hér vísar Óli Gneisti í trú í samhenginu trú á „yfirnáttúruleg fyrirbrigði“. Ég er sammála því að guðstrú gangi þvert á mannlega rökhyggju í þeim skilningi sem ég hef greint frá hér að ofan. En í ljósi þess hvernig ég skilgreini trú almennt þá er ég ekki sammála þessari fullyrðingu. Hægt væri að fjalla í löngu máli um merkingu þessa ritningavers úr Hebreabréfinu og gæti það komið að notum í þessari umræðu. Hins vegar vil ég aðeins benda á að þar segir ekki aðeins að trú sé sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá; trú er einnig fullvissa um það sem menn vona!
Þegar ég ræði um trú þá geri ég það í ljósi þess hvernig ég skil trú og hvernig ég nálgast þann veruleika sem trú felur í sér. Að sjálfsögðu eru til margar skilgreiningar á trú og fólk skynjar trú með mismunandi hætti. Í mínum huga er trú hið sama og að treysta; trú er að leggja traust sitt á eitthvað og láta sig það varða með ýtrustum hætti. Trú tel ég vera það sem ákvarðar með hvaða hætti við sjáum lífið og tilveruna og hvernig við lifum lífinu og hvaða skoðanir móta líf okkar; trú er það sem ljær lífi hins trúaða merkingu og innihald. Þannig hefur trú grundvallandi og mótandi áhrif á fólk. Fyrir mér snýst trú ekki eingöngu um „yfirnáttúruleg fyrirbrigði“. Ég tel alla trúaða í merkingu þess að bera traust til einhvers sem hefur skilgreinandi áhrif á viðkomandi og afleiðingar fyrir líf hans, orð hans, hugsanir og breytni. Í þessum skilningi gæti ég kallað ákafan kommúnista guðleysingja ef svo ber undir en ég mundi ekki viðurkenna hann sem trúleysingja. Hitt er annað mál að það er mjög misjafnt í hverju sú trú felst, að hverju hún beinist og með hvaða hætti hún kemur fram í lífi hins trúaða. Kristinn maður er sá sem leggur traust sitt á Jesú Krist, orð hans og verk, og lifir eftir fremsta megni í ljósi boðskapar hans. En innihald trúarinnar eða viðfang hins auðsýnda trausts getur verið eitthvað allt annað og fólk getur lagt traust sitt á æði margt og hagað lífi sínu, orðum og gjörðum í ljósi þess; vísindi eru að mínu mati eitt dæmi. Þegar ég segi þetta á ég ekki aðeins við „traust á aðferðir vísinda“ eins og kom vel fram í fyrri grein minni; enda er ég viss um að vísindi hafi meiri þýðingu en svo í huga Dawkins og þeirra sem hugsa eins og hann. Ætla má að vísindin móti ekki aðeins heimsmynd Dawkins heldur og mannskilning hans og ráða því miklu um viðhorf hans til lífsins og tilverunnar; ég hygg að þau segja með öðrum orðum ansi margt um það sem skilgreinir persónu hans og hugsun.
Þegar trúarhugtakið er annars vegar þá er ég óneitanlega undir áhrifum frá kristna tilvistarheimspekingnum Paul Tillich (1886–1965). Tillich skilgreinir trú með þeim hætti að trú sé að láta sig eitthvað varða eða vera umhugað um eitthvað með ýtrustum hætti. Að hans mati felur trú í sér grundvöll (e. essence) veru (e. being) okkar. Það sem við látum okkur varða með ýtrustum hætti er það sem ákvarðar veru okkar eða ekki-veru okkar (e. non-being), þ.e. tilvist okkar eða ekki-tilvist. Hér er Tillich ekki að tala um efnislega tilvist okkar heldur tilvist okkar í ljósi þess hvað það er sem ákvarðar uppbyggingu, tilgang, markmið og raunveruleika tilvistar okkar. Svarið við spurningunni „Hvað skiptir þig mestu máli?“ eða „Eftir hverju sækist þú framar öðru?“ væri vísbending um það sem þú lætur þig varða með ýtrustum hætti. Og fólk lætur sig ýmislegt varða með ýtrustum hætti, t.d. þjóðerni sitt, persónulega velgengni, trúarbrögð, vísindi o.fl. Að láta sig eitthvað varða með ýtrustum hætti var í huga Tillich óhlutstæð þýðing á hinu mikla boðorði: „Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ Skilgreining Tillich á trú er af heimspekilegum toga og víðfeðm. Það er ekki um að ræða skilgreiningu á kristinni trú eða guðstrú. Um er að ræða skilgreiningu á trúarhugtakinu almennt og eðli trúarinnar má ráða af innihaldi hennar. Að sjálfsögðu er Tillich ekki hafin yfir gagnrýni frekar en aðrir enda hefur skilgreining hans verið gagnrýnd. Það gerir öllum gott, sem vilja ræða þessi, að leggja sig eftir sem víðtækustum skilningi á trúarhugtakinu. Og það er mikill hæfileiki og gjöf að kunna að setja sig í spor viðmælanda síns. Allt trúað fólk hefur gott af því sem og allt fólk sem kennir sig við trúleysi.
Það kann vel að vera að Dawkins skilgreini trúleysi sem vantrú á „yfirnáttúruleg fyrirbrigði“ eins og Óli Gneisti gerir. Ég geri engar athugasemdir við það. (Hins vegar ber að nefna hér þá staðreynd að trúarbrögð grundvallast ekki í öllum tilvikum á trú á yfirnáttúrulegan veruleika). Ég geri fyrst og fremst athugasemdir við skilgreiningu Dawkins á trú, og þ.m.t. guðstrú, og þann málflutning sem af henni leiðir. En það er ekki rétt hjá Óla Gneista að ég reyni að gera lítið úr Dawkins með því að hengja utan á hann guðstrú í einhverjum skilningi. Ég er heldur ekki að væna Óla Gneista sjálfan um guðstrú né nokkurn annan sem deilir skoðunum Dawkins enda væri það rangt og máli mínu ekki til framdráttar.
Óli Gneisti hefur sagt að „sönnunarbyrðin [sé] augljóslega á þeim sem heldur því fram að raunveruleikinn sé öðruvísi en hann virðist vera“ og hefur sakað trúað fólk um að reyna að færa sönnunarbyrðina yfir á trúlausa. Að mati Óla Gneista hlýt ég að skipa mér í hóp þeirra sem svo reyna. Hins vegar má ljóst vera að ég tel ekki um neina sönnunarbyrði að ræða í þessu samhengi, hvorki af minni hálfu né Óla Gneista. Trú, þ.e. guðstrú, verður ekki sönnuð. Guðstrú verður aðeins játuð og iðkuð og lifuð í orði og verki. Það má e.t.v. draga ályktanir um trú fólks í ljósi þess hvernig það gengur fram í orði og verki. En viðfang trúarinnar, í merkingunni guðstrú, verður ekki sannað. En óháð því er ég ekki að reyna að sanna fyrir Óla Gneista réttmæti kristinnar trúar eða guðstrúar yfirleitt. Ég er ekki heldur að reyna að sannfæra hann um réttmæti þess skilnings sem ég hef á trúarhugtakinu eða nokkru öðru. Ég er eingöngu að taka þátt í gagnrýnni umræðu og lýsa yfir túlkun minni og skoðunum mínum til þess sem um er rætt. Ég vona að Óli Gneisti líti ekki á umræðuna sem vettvang til annars né túlki skrif mín í öðru ljósi. Grundvöllur umræðunnar liggur ekki í tilraunum til þess að reyna að sannfæra aðra um réttmæti skoðana okkar heldur fyrst og fremst í því að ávinna okkur það umburðarlyndi að geta mætt fólki eins og það er þrátt fyrir ólíkar skoðanir og virt alla að verðleikum. Til þess að umræðan skili okkur áleiðis að því marki verður að minnsta kosti að forðast rangar og ósanngjarnar alhæfingar og gildishlaðna og persónulega gagnrýni á fólk.
Hins vegar segir Óli Gneisti að „þeir sem ætla í einhvern orðaleik til að losna við trúleysið eru einfaldlega að dæma sjálfa sig frá þátttöku í umræðunni“. Það er lítið umburðarlyndi fólgið í þessum orðum og þykir mér miður að lesa þau. Óli Gneisti verður að þola það að skoðanir eru skiptar en vera um leið tilbúinn að taka þátt í umræðu sem hverfist í kringum ólík viðhorf og ólíkar túlkanir. Það getur enginn leyft sér að fella úrskurði eða haldið að hann geti átt síðasta orðið í þessum efnum eða öðrum. Hvorki ég né aðrir geta gert það.
Ég er ekki að reyna að slá um mig né snúa út úr með einhverri mælsku eða orðskrúð án tillits til aðalatriða þessarar umræðu. Markmið mitt er ekki að „skilgreina trúleysi út úr myndinni“ eins og Óli Gneisti heldur fram. Ég geri mér grein fyrir því að það sem Óli Gneisti kallar trúleysi er afdrífaríkur þáttur í hans sjálfsmynd. Ég er ekki að reyna að taka það af honum. Markmið mitt er einfaldlega að taka þátt í mikilvægri og áhugaverðri umræðu. Það sem ég kalla trú er með sama hætti afdrífaríkur þáttur minnar sjálfsmyndar og grundvallandi fyrir sjálfsskilning minn. Ég lít ekki svo á að Óli Gneisti sé að reyna að taka það frá mér. Ég og Óli Gneisti erum einfaldlega ósammála um grundvallaratriði í þessari umræðu og sjónarhorn okkar er ólíkt. Ég held að við ættum samt að geta skilið hvor annan enda þótt við séum ósammála. Ef við sýnum það umburðarlyndi og þann skilning að vera sammála um það að vera ósammála er ég viss um að við getum lært margt hvor af öðrum og að þetta samtal geti verið uppbyggilegt.
Umræðu um trú og vísindi tel ég mikilsverða og mikilvæga og af þeim sökum vil ég taka þátt í þeirri umræðu og láta að mér kveða. Fyrir utan almennan áhuga á merkilegu viðfangsefni fyrir margar sakir þá er alveg ljóst að þessi umræða veltir oft á undan sér afar andkristnum og andkirkjulegum áróðri, misjafnlega marktækum en því miður oftar en ekki fordómafullum; og einnig af þeim sökum fæ ég ekki orða bundist. Og þótt ég reyni að vera eins málefnalegur og mér framast er unnt þá er alveg ljóst að ég tek þátt í umræðunni út frá mínum eigin sjónarhóli og á mínum forsendum. Þegar ég tjái mig til dæmis um trú þá geri ég það í ljósi þess hvernig ég skil og nálgast trú og upplifi hana sjálfur – í senn persónulega og fræðilega. Hitt er annað mál að ég og Óli Gneisti höfum ólíkan skilning á trúarhugtakinu eins og fram hefur komið. Fyrir mér felur hugtakið „trú“ og sá veruleiki sem fólginn er í því ekki endilega í sér „guðstrú“ og þannig geri ég greinarmun á trú sem mannlegri tilfinningu og skynjun og því að hverju sú tilfinning og skynjun beinist og með hvaða hætti hún kemur fram í lífi manns. Kristinn maður er trúaður einstaklingur en trúaður einstaklingur þarf ekki að vera kristinn maður – eða almennt guðstrúar – vegna þess að trú er ekki viðurkenning einhvers án sannanna heldur traust til þess án skilyrða.
Að síðustu gagnrýnir Óli Gneisti lokaorð greinar minnar er ég segi að „ég réttlæti ekki trú mína heldur réttlætir trú mín mig“. Óli Gneisti segir að orð sín og gjörðir þurfi að réttlæta sig. Það er gott að vita það og ég tek undir orð hans því að ég vil líka að orð mín og gjörðir beri mér gott vitni og réttlæti persónu mína. Það sem skilur okkur hins vegar að er að ég reyni að móta orð mín og breytni mína í ljósi trúar minnar á Jesú Krist. Það gerir mig þó ekki betri eða verri mann en Óla Gneista heldur aðeins ólíkan honum. Vonandi getum við sæst á það á grundvelli gagnkvæmrar virðingar og umburðarlyndis og lært hvor af öðrum. Við ættum báðir eftir sem áður að geta orðið lífinu gagnlegir og gengið fram af kærleika gagnvart mönnum og dýrum og heimi, hvor okkar með sínum hætti og á sínum forsendum. Í þessum anda vil ég velja mér önnur lokaorð núna en skyld þeim úr fyrri grein minni er ég vitna í ágætan prest sem sagði: „Ég á ekki sannleikann en ég vil að sannleikurinn eigi mig.“ Undir það tek ég fyllilega.