Vegurinn

Vegurinn

Síðastliðina viku hefur margt verið sagt og skrifað um Þjóðkirkjuna. Tilefnið eru átakanlegar frásagnir kvenna um kynferðislegt áreiti, ofbeldi og sifjaspell eins af fyrrum biskupum Íslands. Einnig hefur verið mikið rætt og skrifað um hvernig Þjóðkirkjan tók á málinu þegar það komst í fjölmiðla fyrir 14 árum síðan og hvernig viðbrögð hennar hafa verið að undanförnu.
fullname - andlitsmynd Sigurður Arnarson
29. ágúst 2010
Flokkar

Guðspjall: Lúk 10.23-37 Og Jesús sneri sér að lærisveinum sínum og sagði einslega við þá: „Sæl eru þau augu sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þér heyrið en heyrðu það ekki.“Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“ Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“ En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“ Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur. Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“ Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“ Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama“

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Síðastliðina viku hefur margt verið sagt og skrifað um Þjóðkirkjuna. Tilefnið eru átakanlegar frásagnir kvenna um kynferðislegt áreiti, ofbeldi og sifjaspell eins af fyrrum biskupum Íslands. Einnig hefur verið mikið rætt og skrifað um hvernig Þjóðkirkjan tók á málinu þegar það komst í fjölmiðla fyrir 14 árum síðan og hvernig viðbrögð hennar hafa verið að undanförnu. Sést og sögð hafa verið orð eins og:

“Kirkja í kreppu.” “Þöggun.” “Flokkadrættir innan kirkjunnar.” “Yfirstjórn kirkjunnar hagar sér eins og mafia.” “Prestar skulu fylgja landslögum”. “Það er verið að éta kirkjuna innan frá.” “Biskup Íslands á að íhuga stöðu sína.” “Varnarmúr fyrir embættismenn”.

Áfram má telja. Talað hefur verið um grjótkast úr glerhúsi. Aukist hefur tala þeirra sem hafa sagt sig úr Þjóðkirkjunni. Forsætisráðherra hefur sagt að hún hafi íhugað úrsögn úr Þjóðkirkjunni. Reiðin og tilfinngarnar eru miklar og hafa beinst í ýmsar áttir. Er þjóðfélagið okkar undirlagt reiði, neikvæðni, æsingum, hefndar- og dómasýki frá efnahagshruninu í október 2008? Er skaðlegt ef fólk tapar sér og skilur einhverja eftir í nepju neikvæðar afstöðu til samfélagsins og grundvallarstofnana þess?

Biskup Íslands hefur fyrir hönd kirkjunnar beðið umræddar konur fyrirgefningar á því að kirkjan hafi brugðist þeim, og á þeirri skelfilegu raun sem þær hafa þurft að ganga í gegnum í skugga hennar. Biskup Íslands biður þess að allir geti tekið höndum saman um að vinna að lækngu þeirra sára sem af hafa hlotist, þess sársauka, sem svo ótal margir líða.” Kynferðislegt áreiti, ofbeldi og sifjaspell mega ekki líðast.

Í seinustu viku skrifaði rithöfundur á samskiptavefnum “Facebook” um Þjóðkirkjuna: “Dálítið merkilegar þessar endalausu skynsemis- og réttlætiskröfur sem gerðar eru til stofnunar sem á tilveru sína undir því að menn trúi í blindi 2-6 þúsund ára gömlum þjóðsögum frá Miðausturlöndum.”

Er Guð til? Er Biblían, gamlar þjóðsögur frá Miðausturlöndum? Hverju trúir þú? Hverjum treystir þú í þessu lífi? Á vegi lífsins hittir maður marga. Sumum tekur maður eftir og heilsar öðrum tekur maður eftir og heilsar ekki. Kannski vegna þess að maður þekkir viðkomandi ekki eða að maður þekkir viðkomandi og vill ekki heilsa honum eða henni.

Er það tilviljun að guðspjall dagsins í dag, 13. sunnudag eftir þrenningarhátíð, sunnudaginn eftir allar umræðurnar og orðin um Þjóðkirkjuna sé guðspjallið um “Miskunnsama samverjan?” Þar segir meðal annars:„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Hver er elska okkar til náungans? Stundum gleymum við þeim sem við höfum hitt á vegi lífsins. Stundum förum við hratt yfir og komumst langt og víða á marga staði. En einn er upphafsstaðurinn, fæðingarstaðurinn og einn er staðurinn þar sem við komumst hingað og ekki lengra. Ferðin úr vöggunni í kirkjugarðinn er nánst alveg hin sama, hvert sem farartækið er. Eitt andartak í ævi prestsins og levítans í guðspjalli dagsins, eitt fótmál á lífsins leið þeirra, afhjúpar allt um þá. Þeir ganga fram hjá manninum sem þarf hjálpar við vegna árásar ræningja. Þannig eru þeir kyrrsettir á einum bletti vegarins á milli Jerúsalem og Jeríkó, fastir í kastljósinu, sem greip þetta eina augnablik í ævi þeirra. Má vera að eitthvað sem maður hefur jafnvel gleymt , segi allt um mann, hver maður sé í raun innst inni? Eitthvað sem maður til dæmis lofaði einhverjum og gleymdi svo og efndi ekki. Ég get verið prestur eða levíti og haldið allri minni virðingu og áliti, bæði meðan ég dvelst í Jerikó og eins, þegar ég kem aftur til Jerúsalem. Get þóst að ekkert hafi mætt mér á veginum og reynt að gleyma því.

Viðmælandi Jesú í guðspjallinu er að spyrja um eilíft líf. Eilíft líf er að elska segir Jesús Kristur. Og hvernig snertir það lífið okkar hér á jörð? Við eigum að hjálpa, við eigum að vera náunga okkar náungi. Ekki ganga framhjá okkar systrum og bræðrum. Jesús Kristur kom hér til jarðar til að vera förunautur minn og þinn. Hann kom úr ríki kærleikans og með kærleikann. Við ferðumst ekki ein okkar veg. Jesús Kristur þiggur allt, sem við höfum gert öðrum til góðs eins og það sé honum gert. Og hann spyr: “Viltu þiggja hönd mina?” Hann bendir ekki aðeins á veginn, hann er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Ekki þjóðsaga frá Miðausturlöndum. Heldur lifandi veruleiki.

Trúir þú því?

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.