Þetta líkt sem önnur ár augum hverfur mínum, flytur bæði bros og tár burt á vængjum sínum.Þannig orti María Bjarnadóttir (1896-1976), afkomandi Bólu-Hjálmars. Þegar við lítum til baka yfir árið okkar sem senn er liðið í aldanna skaut finnum við sjálfsagt flest þessar blendnu tilfinningar sem skáldið lýsir. Árið 2015 hefur fært okkur bæði bros og tár og hvorttveggja líður hjá á fljúgandi ferð, flyst burt á vængum ársins sem senn kveður. En hvað er það sem situr eftir? Eru það erfiðu stundirnar eða glaðvær augnablik? Er það hversdagurinn eða það sem skar sig úr? Líklega eru svörin jafn misjöfn og við erum mörg hér í Langholtskirkju við aftansöng í dag, á gamlársdag, rétt áður en heilagt verður, eins og sagt var hér áður fyrr þegar klukkan sló sex líkt og á aðfangadag.
Hver er hamingjuleiðin? Ég veit ekki með ykkur en ég verð alltaf dálítið meyr á gamlárskvöld. Það er ekki bara árið sem er að kveðja sem leitar þannig á mig heldur öll árin mín einhvernvegin, lífið eins og það leggur sig. En yfirleitt er þetta góð angurværð, full af blíðum minningum og kærleika, einnig vegna þess sem var öðruvísi en ég hefði kosið. Þegar allt kemur til alls er augnablikið núna ávöxtur þess sem var, fylling þess sem er liðið. Því verður ekki breytt og þess vegna er best að umfaðma það allt, biðja um fyrirgefandi hjarta og fyrirgefningu Guðs vegna þess sem aflaga fór, biðja um sátt og þá sælu að finna að allt sé eins og það á að vera, þrátt fyrir allt.
Stundum er spurt að hamingjunni, hver sé hamingjuleiðin, eins og það er orðað hjá Jeremía spámanni. Spámaðurinn sá hvetur okkur til að nema staðar og litast um, spyrja um gömlu göturnar. Þar sé svarið að finna og sé hamingjuleiðin farin finnum við sálum okkar hvíld (Jer 6.16). Nema staðar. Litast um. Spyrja um gömlu göturnar. Þar er hvíld að finna, andlega hvíld; þá góðu stöðu að hvíla í augnablikinu, í trausti og öryggi, eins og ritningarlestrar gamlárskvöld tala um. Hamingjuleiðin er fólgin í því að vona á Guð, bíða og vona, leita Guðs (Harmlj 3.21-26), treysta því að Jesús Kristur biðji fyrir okkur og ekkert geti gert okkur viðskila við kærleika hans (Róm 8.31b-39).
Slatti af hamingju Í söngtexta Þorsteins Eggertssonar, Hamingjan, sem Ðe Lónlí Blú Bojs gerðu frægan á sínum tíma segir:
Þegar Guð var ungur var enginn heimur, aðeins niðdimm nóttin og nakinn geymur, svo bjó hann til heim úr heilmiklu og slatta af hamingju. Hann skóp fugla og fé, fiska, blóm og tré stjörnur, tungl og sól, himinn, ský og pól, síðan fegurðina og kærleikann, loks kom hamingjan.Getur það verið rétt hjá skáldinu að viljastyrkur sé forsenda hamingju? Sýndu viljastyrk og þá verður veröld þín full af hamingju? Ég held að það sé mikið til í því og finnst það reyndar ríma mjög vel við það sem Biblían kennir. Því hamingjan er ekki fyrirbæri sem dettur yfir okkur fyrirvaralaust. Hamingjan byggir á trausti, grundvallartrausti til lífsins, því trausti að allt hafi tilhneigingu til að fara heldur vel, eins og góður maður sagði eitt sinn, eða með orðum Páls postula: að allt samverki þeim til góðs sem Guð elska (Róm 8.28).Og hamingjan, hún var best af öllu sköpunarverkinu, blandað fegurð, ást og góðmennsku varð af skærri, tærri hamingju. En hamingjan er ei öllum gefin fremur en skýra gull, en með viljastyrk verður veröldin full af hamingju.
Að elska Guð er ekki bara tilviljanakennt tilfinningamál, heldur einbeittur vilji, sama hvernig veröldin veltur. Það sama gildir jú í hjónabandinu: farsælt hjónaband byggir ekki á ástartilfinningunni einni saman heldur þeim vilja að vera saman. Þess vegna varðar fyrri spurningin við hjónavígsluna einmitt viljastyrkinn: Er það einlægur ásetningur þinn að ganga að eiga hana eða hann sem hjá þér stendur? Síðan er spurt að ást, trúfesti og virðingu.
Græðgin bindur hamingjuna Já, viljastyrkurinn kemur fyrst. Það krefst einlægs ásetnings að elska, reynast trú og virða, sama hvernig lífið veltist. Það gildir í hjónabandinu, í trúnni á Guð og í öllum aðstæðum lífsins. Því margt er það sem reynir á þolinmæði okkar og vill ræna okkur friði og gleði, eða eins og skáldið lýsir hamingjunni: fegurð, ást og góðmennsku.
Fráhvarf hamingjunnar í lýsingu Þorsteins Eggertssonar er líka mjög biblíulegt stef: Það er græðgin sem rænir manneskjuna hamingjunni, bindur hamingjuna. Þessi tilhneiging að vilja sífellt meir og meir, að kunna ekki að una glöð við sitt, fagna því sem fyrir ber heldur ásælast sífellt meira er mesti hamingjuþjófur sem til er. Svona yrkir hann:
Er í Paradís Adam Evu sá birtist hamingjan þeim báðum hjá. Svo kom græðgin upp, eplið tældi hann, en þá hvarf hamingjan. Yfir fugla og fé, fiska, blóm og tré, stjörnur, tungl og sól, himinn, ský og pól, breiddist græðgin út mjög hratt, hamingjuna batt.Já, hamingjan felst í því að kunna að njóta þess sem er, núna, á meðan það er og sleppa tökunum á því sem ekki er okkar að hafa áhrif á, láta það ekki binda sig. Og raunsæ áskorun skáldsins talar til okkar í dag:
En hamingjan er ei öllum gefin og ef hún birtist þér þá skaltu ekki sleppa takinu á hamingju.Ef hún birtist þér skaltu ekki sleppa takinu á henni. Að kristnum skilningi og reynslu trúarinnar er grundvöllur þess að halda fast við hamingjuna að leggja allt sem liðið er og allt sem framundan er í hendi Guðs og fulltreysta því að hann muni vel fyrir sjá á öllum sviðum (Sálm 37.3-7). Hvað hið liðna varðar er Jesús Kristur okkar málsvari eins og lýst er í Rómverjabréfinu (8.31b-39):
Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? Það er eins og ritað er: Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn og við metin sem sláturfé. Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.
Því getum við sagt með spámanninum í Harmljóðunum (3.21-26, 40-41):
En þetta vil ég hugfesta og þess vegna vona ég: Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda, hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín. Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, þess vegna vona ég á hann. Góður er Drottinn þeim er á hann vona og þeim manni er til hans leitar. Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins. Rannsökum breytni vora og prófum og snúum aftur til Drottins. Fórnum hjarta og höndum til Guðs í himninum.Já, rannsökum breytni okkar, prófum okkur sjálf í ljósi liðins tíma. Þó við getum ekki snúið tímanum við getum við með Guðs hjálp lært af reyslunni með því að snúa aftur til Drottins, spyrja gömlu göturnar. Fórn hjarta og huga er fólgin í traustinu sem um var rætt, traustinu til Guðs sem hlúir að okkur eins og víngarðsmaðurinn í dæmisögu Jesú í guðspjalli dagsins (Lúk 13.6-9). Græðgin vill höggva niður það sem ekki ber ávöxt, uppræta það sem er ekki sýnilega til gagns þá stundina en málsvari okkar Jesús Kristur er okkar varnarmaður, óháð sýnilegum afköstum okkar. Hann gefst ekki upp á okkur, hann elskar okkur eins og við erum, sér fegurðina og kærleikann, ástina og góðmennskuna sem býr að baki viðleitni okkar sem svo oft skortir viljastyrk. Biðjum því Guðs anda að gefa okkur viljastyrk til að elska, reynast trú og virða okkur sjálf og annað fólk en fyrst og síðast Guð því þar í liggur hamingja og velferð okkar sem allt annað er innifalið í, hvert augnablik.
Megi okkur öllum hlotnast slatti af hamingju einmitt núna og um ókomna tíð, í gegn um bros og tár, í trausti til Guðs. Gleðilegt ár.