ú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð.Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.
Símon svaraði: Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna.Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.
Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður. En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.
Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum. Lk. 5.1-11
Sumarið hefur sigið inn með öllu sínu veldi. Sólin allan sólarhringinn. Þetta er ótrúlegt. Náttúran er lifnuð.
,,Allt í fjöri iðar titrar angar blóm sem fyrrum kól.”
Dásamlegur tími fyrir okkur Íslendinga sem við mættum gera meira af því að njóta. Þó ekki væri nema með því að leggjast út á grasflöt, finna gróðurangan, nema suð flugunnar, fegurð blómanna, finna fjögurra laufa smára, óska sér, gleyma áhyggjum, lifa í núinu, lifa í dagþéttri veröld eins og barn eða dýr, hafa ekki áhyggjur af stríði eða friði, glæp eða refsingu, lífi og dauða, bara vera, njóta verundarinnar, fíla lífið í botn. ,,Sé” maður gamall er gott á horfa á börnin leika sér í grasinu áhyggjulaus og glöð, sjá sig í sporum þeirra, minnast liðinna daga með ánægju. Baða sig í skini sólar yst sem innst. Láta gleðina leika um sig. Grípa hamingjuna sem er hérna innan seilingar. Sunnudagur – dagur sólarinnar –dagur gleðinnar – dagur hvíldarinnar. Aldrei skulum við vanmeta hvíldina. Það er gott að hvíla lúin bein. Gott að hvíla hugann líka. Sökkvar sér niður í Sunnudaginn. Láta öðrum dögum amstrið eftir. Hafa mánudaginn til sinnar mæðu.
Í dag er samkvæmt kirkjutímatalinu fimmti sunnudagur eftir Þrenningarhátíð en þrenningarhátíð eða trínitatis er sunnudagurinn eftir Hvítasunnu. Jesús er í guðspjalli dagsins við Geneseretsvatn og mannfjöldinn þrengir að honum til að hlýða á Guðs orð. Við ,,eftirbátar” hans þurfum ekki að hafa bát til taks þó að kirkjunni sé reyndar sótt eins og á öllum tímum reyndar af fólki sem hafnar trúarbrögðum, telur þau vera vitleysu í besta falli saklausa í versta falli stórhættulega. En Jesú sá tvo báta við vatnið og fiskimenn að þvo net sín. Hann bað mann að nafni Símon að leggja lítið eitt frá landi og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum. Þetta er glæsileg sviðsetning ræðunnar. Síðan segir hann við Símon: ,,Legg þú á djúpið” og þeir fylla bátinn. Við þekkjum eftirmálann: ,,Héðan í frá skaltu menn veiða” sagðann og þeir yfirgáfu allt og fylgdu honum.
Þetta er málið: Hann kallar í sína þjónustu karla og konur og framkvæmir með þeim verk sitt á jörðu. Hann kallar mig og þig en til hvers? Til allra góðra verka væntanlega. Bæði til þess að verða miskunnsamir Samverjar og reisa við þá föllnu, bera út í sólina þá sem ekki geta farið þangað sjálfir. Kynslóðirnar hafa í nafni hans reynt að lækna sjúka, bera smyrsl á sárin, aðstoða fátæka, standa með þeim sem minna mega sín, boða réttlæti, miskunnsemi, frið. Þeir hafa rekið málstað barna og gamalmenna, hinna kúguðu, afskiptu. Þeir hafa boðað og barist fyrir réttlátum samfélögum í stíl við guðsríkið framtíðarmarkmið allra kristinna manna þar sem réttlæti hins eilífa friðs eitt ríkir. Þeir hafa boðað fagnaðarerindið ekki bara í orði heldur einnig í verki.
En boðendur hans hafa einnig drepið, misþyrmt, kúgað. Stuðlað að því að viðhalda misskiptingu, misrétti, þrælahaldi, dauðarefsingum, kvennakúgun – í hans nafni. Í þessum efnum sannast hið fornkveðna: Veldur hver á heldur. Þar sem hann er ekki lengur í bátnum útifyrir í eiginlegri merkingu þá verðum við að treysta hvert öðru og okkar eigin hugsun þegar kemur að því að útleggja orð hans. Þegar kemur að því að gefa orðum hans nýja vængi. Hvernig má þetta vera?
Bókstafshyggjan gerir ráð fyrir því að Guð hafi gripið inn í söguna og sett ófrávíkjanlegar reglur. Svona skal þetta vera ,,drengir” þá væntanlega. Líkt og hann gerði ekki ráð fyrir þróun í hugsunum mannsins, nýrri þekkingu, þróun hugmynda. Ég sé ekki alveg fyrir mér nútíma samfélag jafnréttis, lýðræðis, þekkingarleitar og framþróunar ef þessi áhersla hefði náð yfirhöndinni í kristnum samfélögum. Þá hefðum við ennþá þræla, konan væri ennþá ,,bakvið eldavélina” og við fyrirlitum homma eins og fyrrum. Og ég sé ekki fyrir mér að kristin lífssýn verði meðal höfuðafla í hugmyndadeiglu framtíðar ef framlag hennar verður það eitt að hanga á því sem einu sinni var álitið rétt í ljósi orða Biblíunnar eins og hægt er að skilja þau bókstaflega.
Sú leið sem meirihluti kristinna manna hefur ætíð farið er að leggja kærleiksviðmið Jesú Krists á alla hluti. Biblían er þeim vissulega innblásið Guðs orð en hana ber að skilja út frá kærleika Krists, en þeir túlka alla Biblíuna út frá kærleiksviðmiði því sem hann setur.
Nýir tímar kalla sífellt á ný viðfangsefni, nýja sýn, nýja túlkun, byggðra á reynslu mannkyns, nýrri þekkingu, nýjum rökum, himininn yfir oss er stöðugt að breytast. Þá ætti svar hinna kristnu manna við hverju nýju viðfangsefni að vera: Hvernig hefði hann brugðist við úr bátnum? Hvað hefði hann sagt? Hvernig rímar þetta við boð hans: ,, Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra”?. Hvernig rímar þetta við boð hans: ,, Þú skalt elska....náunga þinn eins og sjálfan þig?” Hvernig rímar þetta við það allir séu skapaðir í Guðs mynd? Hvar er kærleikur hans í þessu? Fordómaleysi? Þannig verður Kristur nýr þó hann sé samur svo kallast sé á við sálm Sigurbjörns biskups sem við syngjum hér á eftir. Sá sem grefur sig inn í bókstafstrúna og veifar sífellt fordæmandi setningum og setningarhlutum úr Biblíunni, honum má líkja við hellisbúa sem grefur sig sífellt lengra inn í fjallið en gengur ekki mót hellismunnanum og horfir yfir víðlendar sléttur, sér sól rísa yfir nýjum degi, rismikil fjöll, gróskumikla skóga, gleði og hamingju mannlífsins, ný og spennandi úrlausnarefni. Hann er eins og saltstólpi. Fjötraður í eigin bing. Saltstólpar ferðast ekki. Hvorki með Kristi né öðrum. Kristnum er ætlað annað hlutskipti. Þess vegna kom Kristur fram og smellti kærleikanum í hvert orð, hverja hugsun, hverja sýn. Við eigum að fylgja honum. Verum með í ferð Krists í átt til framtíðar. Yfirgefum allt sem bindur hugsun okkar, leysum fjötra vanahugsunar og fylgjum boði hans. Áfram gakk..