Spádómar tilheyra gamla tímanum en vonin þeim nýja

Spádómar tilheyra gamla tímanum en vonin þeim nýja

Maður var rétt búinn að kyngja feigðinni með morgunkaffinu þegar einhver ægilegasta Völvuspá síðari ára blasti við eins og framhald af hrollvekju númer eitt. Þar gaf að líta m.a. spár um skilnaði, ósætti, landflótta og bágt heilsufar þjóðþekktra landsmanna og ég komst ekki hjá því að hugsa stundarkorn til hennar ömmu minnar sálugu sem hélt utan um barnahópinn stóra þegar heimilisfaðirinn sigldi út í óvissuna.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
31. desember 2012
Flokkar

Þegar móðir mín var ung kona í Reykjavík um miðbik síðustu aldar átti hún góða vinkonu sem átti systur er var starfandi spákona. Móðir mín var alin upp af miklu raunsæisfólki enda kannski eins gott þar sem afi minn sálugi starfaði sem loftskeytamaður á millilandaskipum Eimskipafélags Íslands og sigldi því bæði til Bandaríkjanna og Evrópu á tímum seinni heimsstyrjaldar. Heimilislíf þessarar barnmörgu fjölskyldu var sveipað gráköldum veruleika óvissunnar um það hvort heimilisfaðirinn skilaði sér lífs eða liðinn heim eða hvort hin vota gröf yrði hans áningarstaður á leið inn í eilífðina. En amma var kona sem æðraðist aldrei yfir því sem hún fékk ekki breytt heldur umvafði barnahópinn með ró sinni og reglufestu og gaf þeim þannig óorðað fyrirheiti um að lífið væri miskunnsamt. En víkjum aftur að spákonunni. Eitt sinn höfðu mamma og vinkonur hennar skipulagt kvöldstund í heimahúsi þangað sem spákonan var boðuð til að spá fyrir þeim sem allar voru ungar og fyrirvaralausar um framtíðina. Þegar kom að mömmu að ganga inn í herbergi spákonununnar sem hún hafði þekkt alla tíð gaf spákonan strax merki um að hún skyldi ekki ómaka sig á því að setjast, „ ég er ekki að fara að spá fyrir þér Matthildur mín því þú trúir ekkert á það sem ég segi.“ Og það vissi ungfrú Matthildur jafn vel og spákonan sem sýndi kannski þarna helstu hæfileika sína og næmi fyrir fólki og því snerist hún flissandi á hæl og yfirgaf herbergið jafn nær og hún kom. Ef til vil bjó líka djúp alvara að baki því flissi, reynslan af móður sem miðlaði virðingu og æðruleysi gagnvart því sem enginn veit nema Guð.

Á liðinni aðventu höfum við upplifað þrenns konar spádóma. Heimsendaspá átti að rætast þann 21.desember síðastliðinn en sú dagsetning tengdist einu dagatali Mayja indíána sem þá tók enda. Samkvæmt Vísindavefnum voru það nokkrir nýaldarspekingar sem settu þá hugmynd fram undir lok 9.áratugarins að þegar þetta tiltekna dagatal tæki enda væri von á miklum hörmungum ( vísindavefurinn.4.9.08). Fjölmiðlar gerðu sér að vonum nokkurn mat úr þessari hugsanlegu vá sem varð annars vegar til kveikja á svörtustu húmortaugum Facebook notenda og hins vegar til að hræða lítil börn þannig að hin bölvaða þrenning Grýla,Leppalúði og jólakötturinn urðu beinlínis að sunnudagaskólaefni í samanburði við þá skelfingu. Það er kannski óþarft að taka það fram þar sem við sitjum hér öll sprelllifandi að ekkert varð úr spánni því heimurinn er enn á sínum stað, Vaðlaheiðin, veðrið og víxlarnir líka. Korteri fyrir jól datt svo hið ágæta Fréttablað inn um bréfalúguna eins og bústin babúska því inn í blaðinu leynast gjarnan minni blöð sem gera ýmsum og ólíkum dægurmálum skil. Gott ef blaðið kom ekki sama dag og heimsendir Mayanna átti að ríða yfir. Maður var rétt búinn að kyngja feigðinni með morgunkaffinu þegar einhver ægilegasta Völvuspá síðari ára blasti við eins og framhald af hrollvekju númer eitt. Þar gaf að líta m.a. spár um skilnaði, ósætti, landflótta og bágt heilsufar þjóðþekktra landsmanna og ég komst ekki hjá því að hugsa stundarkorn til hennar ömmu minnar sálugu sem hélt utan um barnahópinn stóra þegar heimilisfaðirinn sigldi út í óvissuna. Það er sumt sem að maður fær hreinlega ekkert við ráðið, hvort sem sem það er hafið eða svartsýn Völva sem varpar djúpsjávarsprengjum kringum landið. Þriðji spádómurinn var síðan lesin á aðfangadag jóla, spádómur Jesaja, ritaður til hughreystingar hræddri og kúgaðri þjóð sirka 700 árum fyrir Krist. Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós. Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla, hann skal nefndur: Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti, héðan í frá og að eilífu.

Auðvitað eru ekki allir spádómar Gt svona bjartir og huggunarríkir sumir vara við hörmungum og yfirvofandi hervaldi en þessi texti er sá texti sem hefur haft hvað mest áhrif og hefur enn. Textinn sem hefur lifað, texti lífs og vonar. Frá því að Jesaja spámaður flutti þjóð sinni þessi orð hafa liðið u.þ.b. þrjúþúsund örlagarík ár, ár gleði, sorga, vonbrigða og sigra en heimurinn stendur enn. Og frá því að hann flutti þessi orð liðu sirka sjöhundruð ár uns fólk gat sett þau í raunverulegt samhengi. Og auðvitað erum við enn að setja þau í samhengi. Spádómar eiga ekkert skylt við yfirnáttúrulega krafta eða dulræna hæfileika, þeir eru í eðli sínu trúarboðskapur. Einmitt þess vegna geta neikvæðir spádómar haft áhrif á okkur jafnvel þó að við trúum ekkert á yfirnáttúrulega krafta eða dulræna hæfileika. Neikvæðir spádómar trufla okkur vegna þess að þeir orða okkar versta kvíða, þess vegna á enginn að gera sér það að leik að fabúlera um framtíð annars fólks, það er ábyrgðarhlutur. Fæðing frelsarans Jesú varð til þess að gera spádóma með öllu óþarfa, sú fæðing er yfirlýsing um það að mönnum sé óhætt að lifa í nánd við hið ókomna. Spádómar tilheyra gamla tímanum en vonin þeim nýja. Áramót þurfa ekki að verða okkur kvíðaefni ef við leyfum bjarmanum frá jötu barnsins að lýsa fram veginn. Sá bjarmi er ekki bara hugguleg helgisaga heldur samansafn ákvarðana og gilda sem þú átt til að mæta hverjum degi. Auðvitað er heilsuleysi, skilnaðir, ósætti og landflótti og hvert annað mannkynsins mein áþreifanlegur veruleiki í lífi okkar en það er líka, ástin, réttlætið, sannleikurinn og vonin, gleymum því ekki. Og það sem meira er, það er hægt að umpóla ranglæti með réttlæti, hatri með ást, harmi með von, því „náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda,hún er ný á hverjum morgni. Um það vitnar Jesús Kristur, jatan, krossinn og gröfin tóma sem birtast okkur í dag í öllu því fólki sem þjónar lífinu af kærleika og réttlæti en það er stór og bjartur hópur.Þess vegna ættum við aldrei að gera spádóma að öðru en saklausri dægradvöl í eldhúskrók sem vekur hlátur og gleði. Nema þá kannski veðurspár og efnahagsspár en þær eru líka byggðar á allt öðrum forsendum og reynslu. Og talandi um reynslu þá er hún vissulega veruleiki sem vert er að hlýða á. Hún er mikilvægur mælikvarði á framtíð okkar Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka, nú gengin er sérhver þess gleði og þraut, það gjörvallt er runnið á eilífðar braut, en minning þess víst skal þó vaka.(VB) Þess vegna eru áramót góður tími til að fara yfir liðið ár og meta göngulag og lífstakt, bæði fyrir okkur sem einstaklinga og samfélag. Þar eiga fjölmiðlar líka stóran og mikilvægan þátt sem þeir skila jafnan vel. Það er gott að gera upp árið, taka til í bakpokanum áður en haldið er upp á næsta tind. Kannski er hægt að létta á honum eða a.m.k. dreifa álaginu. Til þess eru margir kallaðir, bæði stofnanir og einstaklingar, kirkjan hefur þar mikilvægu hlutverki að gegna, hún á að vera þessi móðir sem æðrast ekki heldur miðlar von í ljósi reynslunnar af góðum Guði , sem hvetur börn sín til dáða, huggar, styrkir, eflir og rökræðir, gleðst yfir fjölbreytileikanum og veitir börnum sínum rými til að vera sjálfstæðir og skapandi einstaklingar. Því hún er móðirin sem veit í öllum frumum líkamans að lífið hefur tilhneigingu til að fara vel. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.