Matt 20.1-16, Jer 9.22-23, 1Kor 9.24-27
Biðjum... Eilífi Guð, opnaðu hjörtu okkar fyrir boðskap þínum, gefðu að lifandi orð þitt snerti líf okkar og að við verðum aldrei viðskila við þig. Við lofum þig og tignum. Amen
Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.
Sá sem vill
hrósa sér, hrósi sér af því að
hann sé hygginn og þekki mig… sagði Drottinn
Þetta er það eina í þessum heimi sem eyðist ekki… Öll auðæfi heimsins eru forgengileg… geta eyðilagst… en þekkingin á Drottni eyðist ekki, hún geymist í hjarta þínu fram yfir gröf og dauða… Hún fylgir sál þinni og hefur merkt hana Guði… þó líkaminn eyðist… Þess vegna sagði Páll að við eigum við að keppa eins og hnefaleikamenn sem slá engin vindhögg… að sigursveignum sem opnar okkur leiðina í Guðs ríki.
Í guðspjallinu fengum við staðfestingu á að það er aldrei of seint að játa trúna á Jesú Krist. Það er sagan um verkamennina í víngarðinum. Sagan segir að allir fengu sömu laun, hvort sem þeir byrjuðu að vinna snemma um morguninn eða seint um daginn. Jesús sagði þessa sögu til að láta alla vita að þeir eru velkomnir í ríki Guðs... hvort sem þeir hafi tekið trú seint eða snemma á lífsleiðinni.
Sagan er snilldarlega uppsett... hvers vegna ákvað víngarðseigandinn að borga FYRST þeim sem unnu styst... því það er eins og við segjum oft: ,,ávísun upp á leiðindi” þegar þeir... sem unnu lengst... uppgötva að þeir fá sömu laun og allir hinir.
Við sjáum á sögunni að jafnvel á tímum Jesú hafa menn verið á nokkurs konar
,,tímakaupi” en ekki daglaunum... og sagan segir að þeir sem unnu lengst hafi
vonast eftir kauphækkun... þeir vonuðust til að fá meira en þeir sömdu
um. Já, við köllum það "bónus"
Ef Víngarðseigandinn hefði borgað FYRST þeim sem unnu lengst, þá
hefðu allir farið ánægðir heim... Ekkert vesen... EN... Víngarðseigandinn sem táknar GUÐ í
sögunni... var með ákveðin skilaboð til okkar.... sagan er sögð til að láta
okkur vita að við fáum öll jafnt.
Allir sem vinna í víngarði
Guðs... þ.e ALLIR sem trúa að Jesús sé sonur Guðs og vilja fylgja honum, fá sömu
laun... aðgang að ríki Guðs.. útlitið skiptir ekki máli, veraldlegt ríkidæmi skiptir
ekki máli og það skiptir heldur ekki máli hversu lengi við höfum verið í trú....
við fáum öll sömu laun, sama sigursveiginn.
Áhrifaríkasta dæmi um þetta, sem við höfum úr NT er þegar ræninginn á krossinum, við hliðina á Jesú, játar trú sína og Jesús segir honum, að hann muni verða í ríki Guðs. Við höfum enga hugmynd um, hvort hann var dæmdur fyrir eitthvað meira en rán... hann er sagður ræningi... en hann fékk fyrirgefningu á öllum sínum brotum á síðustu stundu.
Þetta eiga margir erfitt með að sætta sig við... að einhver sem hafi brotið
MIKIÐ af sér, geti fengið allt fyrirgefið. Við erum vön að meta allt á okkar
hátt... eftir skala sem við búum til sjálf... OG það
er ekkert nýtt, þeir sem skrifuðu guðspjöllin lögðu mat á samborgara
sína... sumir voru sagðir syndarar, aðrir voru ber-syndugir... og okkar tími segir suma
vera stór-syndara... og við getum spurt okkur... hvað þurfi viðkomandi að
uppfylla til að vera tekinn aftur inn í samfélagið... eða er það kannski útilokað...
og persónan utangarðs til æviloka.... og hvar eru mörkin á milli stórra og
lítilla afbrota?
Í upphafsbæninni sagði: Hjálpa okkur að vera góðgjörn eins og þú (Drottinn) og
(hjálpaðu okkur) gleðjast yfir því sem þú gefur öðrum.
Við sjáum í biblíusögunum að Jesús gerði ekki upp á milli manna, hann elskar
okkur öll jafn mikið... þetta kemur
sérstaklega fram í sögum af fólki sem var minni máttar og útundan í
þjóðfélaginu. Hann borðaði með fólki sem var óvinsælt... fyrirlitið eða jafnvel
hatað, eins og Sakkeusi tollheimtumanni, hann læknaði holdsveika sem enginn
átti að koma nálægt, hvað þá snerta... og drakk úr sömu ausu og kona af öðrum
trúflokki... og það var stórmál í augum
lærisveina hans.
Já, á tímum Jesú voru skírar reglur, skráðar og óskráðar... hvernig fólk átti að haga sér í samfélaginu til þess að vera metið og gjaldgengt innan þess.
Jesús kom til að brjóta niður þessa sýnilegu og ósýnilegu múra sem við byggjum á milli okkar því hann vill að við verðum ein stór fjölskylda – systkini og umfram allt vinir... Hann hvetur okkur til að líta í eigin barm, skoða eigin galla. Hann hvetur okkur til að fyrirgefa skilyrðislaust og treysta fólki aftur... eins og við þurfum á að halda þegar okkur verður á... Guð vill að við fyrirgefum á sama hátt og hann fyrirgefur okkur...
Já, hjálpaðu okkur Guð að gleðast
yfir því að AÐRIR fái líka það sem við viljum heitast. Við sem erum öll
verkamenn í víngarði Guðs, viljum fá sama sigursveiginn... sömu laun – óháð “vinnutíma”...
þess vegna skulum við íhuga orð Drottins sem voru lesin áðan: Sá
sem vill hrósa sér, hrósi sér af því að hann sé hygginn og þekki mig…
Lærum að þekkja veg Drottins, því eftir honum liggur leiðin í ríki hans... munum að þakka Guði fyrir kærleika hans og umhyggju
fyrir okkur. Þakka honum fyrir að ganga með okkur, vera
skjól okkar og skjöldur og fyrir að gefa okkur allt sem blessar bæði
okkur og samfélagið í heild.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen
1. sunnudagur í níuviknaföstu (Septuagesisma)
9.febr 2020 í Tálknafjarðarkirkju