I.
Þyríðarfjörður er fimmta stærsta stöðuvatn á Noregi, innsævi landlukt síðan á ísaldartímum og samkvæmt fornum heimildum kenndur við Þyrí drottningu. Vatnið er friðsæl útivistarparadís í aðeins 40 mínútna keyrslu fjarlægð frá stórborginni Osló og þar marar í hálfu kafi hólminn Útey. Þessa smáeyju hefur norski verkamannaflokkurinn átt síðan um miðja síðustu öld og þar hafa verið reknar sumarbúðir fyrir ungt fólk um árabil. Mörg hundruð manns á tvítugsaldri voru saman komin í sólinni á Útey síðasta föstudag þegar skotárásin hófst.
Við vitum öll hvað gerðist á föstudaginn. Fyrst sprengingin stóra í Osló og síðan fjöldamorðin hræðilegu í Útey. Fréttir af mannfalli voru varfærnar fyrst í stað og það var í raun ekki fyrr en í gær sem heimurinn heyrði af því hversu gríðarlegt mannfall hefur orðið. Hver fremur fjöldamorð í sumarbúðum? Ekki hér, ekki við friðsælt, norrænt stöðuvatn. Ekki hér hjá okkur Norðmönnum, ekki heldur í bakgarðinum hjá okkur Íslendingum.
Mörg okkar hafa setið yfir fréttunum og lesið frásagnir af þeim sem lifðu af. Önnur hafa ekki megnað að fylgjast með lýsingunum. En flest þau sem ég hef heyrt í í dag og í gær trúa þessu ekki enn. Trúa því ekki enn að svona hlutir geti gerst hjá frændum og vinum í friðsælu, lýðræðislegu landi eins og Noregi.
Í ræðu sinni í gærmorgun sagði forsætisráðherra Noregs Jens Stoltenberg þessi orð: “Þetta kvöld krefst mikills af okkur öllum og næstu dagar verða jafnvel meira krefjandi. En svarið við þessum árásum verður að vera meira lýðræði og opnari gáttir. Annars hafa þau sem stóðu á bak við tilræðin náð tilgangi sínum.“
Í þessum orðum er mikill og sterkur boðskapur sem er að sama skapi erfiður í framkvæmd. Það er auðvelt að átta sig á því að það sem krafist er það að sýna samúð í verki, að standa saman eftir hræðilegar hörmungar. En forsætisráðherra Noregs bendir líka á að næstu dagar verði líka krefjandi. Það eru dagarnir þegar áfallið rennur sitt skeið og fólk hefur almennilega áttað sig á því sem gerst hefur, dagarnir þar sem reiðin ríkir.
Dagar næstu viku eru dagarnir þegar farið verður að kafa ofan í hvernig annað eins og þetta gat gerst og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að slíkir atburðir gerist aftur. Dagarnir framundan eru dagar þar sem andvaraleysið verður gagnrýnt og þjóðarlíkami Norðmanna herpist saman. Eru það ekki einmitt eðlileg viðbrögð við ógn að kreppa sig saman og verja sig með öllum tiltækum ráðum?
Þessi viðbrögð sér Stoltenberg fyrir og segir löndum sínum að leiðin til lausnar verði að vera þriðja leiðin. Ekki andvaraleysi. Ekki að svara ofbeldi með því að verða sjálfur varðhundur. Ofbeldi verður ekki svarað með ofbeldi og ofurreglu, heldur með lýðræði og opnum gáttum. En hvernig getur sá sem hefur orðið fyrir ofbeldi verið opinn? Opinn fyrir hverju?
II.
Ég bjarga þér úr höndum vondra manna og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.
Kaflinn úr spádómsbók Jeremía sem var lesinn fyrir okkur áðan segir frá harmagráti Jeremía vegna pólitísks glundroða og ofbeldis í landi hans. Kaflarnir á undan ritningarlestrinum okkar í dag segja frá reiði Jeremía. Honum finnst Guð sinn lítils megnugur, bænirnar hrífa ekkert, hann skammar Guð og kvartar yfir því að móðir hans hafi fætt hann. “Þú ert orðinn eins og vatnslaus farvegur, svikult vatnsból” segir Jeremía við Guð sinn. Og allt í einu talar Guð til Jeremía. Guð lofar engu um það að óreiðan breytist í reiðu í einu vetfangi. Guð dregur ekkert guðdómlegt trikk upp úr vasanum til að allt komist í lag. Hins vegar heitir Guð Jeremía því að frelsa hann frá vondum mönnum og ofbeldismönnum og að Guð muni gera úr Jeremía eirvegg til að verjast hinu vonda.
Þegar ég les þessi orð í skugga alls hins illa sem hefur gerst í Osló og Útey, þá velti ég því fyrir mér hvernig Guð geti gert úr okkur eirvegg til að verjast hinu vonda. Maðurinn sem stóð að baki árásunum, Anders Behring Breivik taldi sjálfan sig vera slíkan vegg, vegg til varnar fjölhyggjunni, gegn útlendingum, gegn þeim sem játuðu aðra trú en hann. Þessi ungi maður gaf út stefnuyfirlýsingu sína í spjallþráðaformi rétt áður en hann myrti hundrað manneskjur. Þar segir hann meðal annars 9. desember 2009:
Ég er sjálfur mótmælandi og skírður/fermdur af fúsum og frjálsum vilja þegar ég var 15 ára. En mótmælandakirkja nútímans er brandari. Prestar í gallabuxum sem taka þátt í fjöldagöngum fyrir Palestínu, og kirkjur sem líta út eins og mínimalískar verslunarmiðstöðvar. Ég styð óbeint afturhvarf mótmælenda-kirkjunnar til hinnar kaþólsku kirkju. En á meðan greiði ég íhaldsömustu frambjóðendum í kirkjukosningum atkvæði mitt. Það eina sem getur bjargað mótmælendakirkjunni er að fara aftur til grundvallaratriðanna.
Rúmum mánuði fyrr er þessi “gullkorn” að finna í stefnuyfirlýsingunni:
Einbeitið ykkur að hinni sönnu illsku- sem er fjölhyggjan, og ekki afleiðingum illskunnar. Ef það er vatnsleki einhvers staðar, er mikilvægt að einbeita sér að því að stöðva lekann, en ekki að þurrka upp vatnið.
Það er athyglisvert að bera saman texta þessara tveggja manna sem ég hef vitnað í, hins gyðinglega spámanns og hins norska nýnasista. Báðir upplifa þeir glundroða og stjórnmálalegt óöryggi. Báðir nota þeir vatnslíkingar til að útskýra birtingarmyndir illskunnar. En þar lýkur líka samanburðinum. Jeremía telur að það vanti meira vatn og kvartar yfir því að guðdómurinn sé gufaður upp. Anders kvartar yfir of miklu vatni, holskeflu vatns í öðrum manneskjum sem hann kallar menningarmarxista. Í þeirra hópi telur Anders vera femínista, baráttumenn fyrir kynverundarréttindum, fjölhyggjufólk af ýmsu tagi sem m.a. hafi gert mótmælendakirkjurnar að brandara. Við þessu stjórnlausa flæði þarf að dómi Andrésar að bregðast við með því að stífla uppsprettuna, gera við lekann, bæla niður brandarann.
Jeremía biður til Guðs í skrifum sínum, biður um meira vatn.
Anders telur í sínum skrifum að kirkjan sé eitt af því sem hluta af því sem verður að hreinsa og þurrka upp, svo að regla og öryggi komist á.
Það er einmitt vegna þessarar áherslu á hreinsunina, þurrkunina og regluveldið sem ég held að það hafi verið óhemju mikilvægt að forsætisráðherra Norðmanna notaði fyrsta tækifæri eftir harmleikinn mikla til að tala við landa sína um hið opna og lýðræðislega, en ekki hið lokaða og stíflaða. Í þann mund sem áfallið er í rénun og reiðin er að vaxa er mikilvægt að hafa í huga sannleikann um hið opna og glaða líf, frekar en hið samanherpta varðhundalíf ógnarinnar.
III.
Í guðspjalli dagsins spyr Jesús Pétur „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“ Þegar Pétur svarar því til að hann sé Kristur, sonur hins lifanda Guðs, segir Jesús þeim að hann muni senn fara til Jerúsalem. Og síðan segir Jesús samkvæmt guðspjallinu:
„Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?”
Í dag, á þriðja degi frá langafrjádegi Úteyjar og Oslóborgar, þá tel ég að við verðum að horfast í augu við dýpt þessarar afneitunar og krossfarar sem Jesús prédikar í guðspjalli dagsins. Það er ekki auðvelt að horfast í augu við illsku og hugmyndafræði illsku. Þessa illsku er ekki hægt að skýra burt með því að segja að Anders Behring Breivik sé geðveikur, eins og hann sé undantekningin frá annars fullkomnu lífi í nútíma samfélagi norðursins. Ofbeldi hans á sér stað í samhengi og skoðunum annarra og það er þetta samhengi sem norðrið hefur vaknað til um þessa helgi.
Sjálfsafneitun og kross. Sá eða sú sem stendur upp gegn ofbeldi og illsku þarf oft á gríðarlegum kjarki og sjálfsafneitun að halda til að taka upp merki kærleikans í ranglætinu miðju. Ekki með píslarvætti og sjálfvorkunn, heldur með því að gera það upp við okkur hvers konar veröld við viljum vera hluti af og hvað við erum tilbúin til að leggja á okkur fyrir hana. Og þar tel ég sem kristin manneskja að fordæmi Jesú Krists, kjarkur hans og kærleikur til heimsins geti hjálpað okkur.
Elska til heimsins, ekki illska, það er málið. Anders bað vini sína á spjallþráðunum um að einbeita sér að illskunni. Og hann hefur svo sannarlega fylgt því ráði sjálfur. Hver er rót illskunnar? Hvort ætlum við að uppræta óreiðuna eða finna leiðir til þess að ólíkt fólk geti lifað saman í virðingu hvert fyrir öðru? Hvernig ætlum við að bregðast við illskunni? Hvort viljum við lítið vatn eða mikið, óreiðu eða þurrð?
Andvaraleysið er ekki raunhæfur möguleiki fyrir þau sem þrá af hjarta það sem Jeremía bað um: Bjarga mér úr höndum vondra manna. Frelsa mig úr greipum ofbeldismanna.
Illskuna þarf að nefna því við höfum séð hana undanfarna daga. Hún hefur afskræmt litlu fallegu eyjuna við Þyríðarfjörð. Hún hefur breitt sorg yfir Noreg, Norðurlönd og heiminn allan. Illskan liggur í því sem hann trúir á, járnvilja alræðishyggjunnar og undirlægju við reglumótun alls lífs. Þeim sem ekki passa inn í einfeldningslegt mynstur þeirrar reglu vegna kynhegðunar, skoðana eða litarháttar, trúarbragða menningarupruna er skilyrðislaust eytt eða send í útlegð úr fyrirmyndarríkinu. Alræðishyggjan fjallar ekki um það hvort við erum til hægri eða vinstri í pólitík, eða hvort við erum fylgjandi miklum eða litlum ríkisafskiptum, hvort við erum trúuð eða trúuð, heldur hvaða aðferðum við erum tilbúin til að beita til að koma á okkar pólitísku eða trúarpólitísku paradís.
Það að nefna illskuna sem braust út í Osló og Útey á föstudaginn er verkefni allra þeirra sem láta sig lýðræði og frið varða. Það er líka kristið verkefni, að því leyti að þau sem kristin eru þurfa að horfast í augu við þá tegund kristni sem Anders Behring Breivik aðhyllist. Við þurfum að hafna slíkum öfgaandlitum kristninnar og leita uppi allar þær stíflur vatnsins, sem þessar birtingarmyndir trúarbragða rembast við að setja upp í tíma og rúmi.
Það er líka kristið verkefni að íhuga Krist í ljósi atburðanna við Útey og Osló. Hvar ertu Guð, þegar allt þetta ljóta gerist? Hvers vegna er allur þessi kross í veröldinni? Auðvelt er að taka undir með harmagráti Jeremía og saka guðdóminn um að vera vatnslaus farvegur, svikult vatnsból. Sumir sjá engan Guð í þessum harmleik. Aðrir sjá aðeins litlu sprænuna sem Anders og félagar hafa stíflað til þess að hún passi inn í litlu, óhugnanlegu nasistaveröldina þeirra og kalla kristna.
Enn aðrir horfa til andpyrnunnar við þessum hugsunarhætti reglunnar og finna Guð sinn í henni, Guð sem verndar og bjargar gegn vondu fólki og ofbeldismönnum. Fyrir þeim rennur Guð frá hjartanu eins og “lækir lifandi vatns” (Jóh 7:38) og gefur okkur kjark til að afneita eigin öryggi og standa upp gegn ranglæti og illsku í öllum birtingarmyndum hennar. Þann segja menn Mannsoninn vera. Sá Guð býr til eirvegg úr þeim sem horfast í augu við illskuna, nefna hana réttu nafni og hreinsa úr henni stíflur hatursins. Sá veggur stendur ekki utan um litla, kreppta ógnarveröld af hvítu, hlýðnu, heterósex og feðraveldiselskandi fólki. Slíkur eirveggur er veggur lýðræðisins, sem heldur því einu úti sem ekki getur þolað lýðræðið, málfrelsið, fjölbreytnina, jafnréttið og bregst við óreiðu hins fjölbreytta með hatri og ofbeldi.
IV.
Eyjan við Þyríðarfjörð marar þögul í vatninu eftir hildarleikinn. Skjólið sem norðrið hefur notið frá lokum seinni heimstyrjaldar er á einhvern hátt rofið. Við verðum að horfast í augu við uppgang þeirra sem sjá ógn í fjölhyggjunni og þeim sáttmála sem samfélög okkar eru byggð á. Við höfum horfst í augu við illskuna og ofbeldið á svo afgerandi hátt að við erum ekki söm og jöfn á eftir. Og til okkar á fimmta sunnudag eftir þrenningarhátíð er varpað spurningu Jesú í skugga Úteyjar.
Hvern segja menn Mannsoninn vera?
Við vitum hvert svar Anders Breivik er: “Það eina sem getur bjargað mótmælendakirkjunni er að fara aftur til grundvallaratriðanna.” Því verður ekki á móti mælt. En Guð gefi okkur kraft, vit og áræði til að þau grundvallaratriði, sem við sjáum í tilvist Mannsonarins séu að öllu leyti eðlisólík grundvallarhugsun Anders Behring Breivik. Guð gefi okkur svar sem bregst við ofbeldi eins og því sem blasir við í Útey og Osló með meiri kjarki: Meira lýðræði, opnar gáttir. Drottinn, gefðu okkur meira vatn.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Lexía: Jer 15.19-21, Guðspjall: Matt 16.13-26