Það besta sem Guð hefur skapað

Það besta sem Guð hefur skapað

Það leynist jafnvel mitt í öskrum falsspámanna um að eina leiðin til að eiga og tryggja frið sé kannski að tortýma annrra lífi, eyða annarra jörð, taka von frá heimsins börnum. Okkur er sagt að þá séum við á réttri leið...en við hljótum að vita betur því slæmt tré ber ekki góðan ávöxt..

Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar.Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu.Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá. Ekki mun hver sá, sem við mig segir: Herra, herra, ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi: Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn. Mt 7.15-23
Nýr dagur

“Það besta sem Guð hefur skapað er nýr dagur “ sungu þeir í hljómsveitinni Sigurrós á Klambratúni á tónleikum eitt milt sunnudagskvöld í júlí og tónarnir svifu út í kvöldrökkrið. Meðan tónarnir svifu í loftinu og  ég var ekki í vafa um að það væri ef ekki það besta, þá örugglega með því besta. Svo margt gott sem skaparinn hefur lagt okkur til á lífsleiðinni en ekkert verður án daganna, ný dags. Það skiptir öllu máli að við fáum nýjan dag til að breyta því sem afvega fór í gær, fáum nýjan dag til að fyrirgefa eða verða fyrirgefið. Eigum nýjan dag til að iðrast orðanna sem voru ósanngjörn, strika yfir mistökin brosa á nýtt og njóta þess að vera til, elska og lifa. Það er ekki gott líf sem er án tækifæra til að rata á réttan veg, læra að þekkja lífið betur af ávöxtum þess og greina falsið frá því sem er satt.

Ræða Jesú

Í dag, á enn öðrum mildum sumardegi stöndum við hér í Skógarkoti í umhverfi íslenskrar náttúru með veggi veraldarinnar eina sem skjól og himinn Guðs sem þakið. Þetta umhverfi flytur okkur enn betur til móts við guðspjall dagsins í dag sem er í Matteusarguðspjalli, hluti af fjallræðunni. Ræðan sem forðum var flutt út undir beru lofti, innan sömu veggja og undir sama himni og við stöndum í dag. Aldir hafa þvegið og skýrt þann boðskap sem þar kemur fram en samt hefur ekkert fengið innihaldinu breytt, ekkert slitnað heldur bara mætt nýjum aðstæðum, nýju fólki. Hvert orð á enn við sama hversu við höfum gengið á hlykkjum lagðri braut í 2000 ár og oftast í framfaraátt eru orðin í textum Biblíunnar svo skýr . Við rekum okkur líka á í orðum guðspjallanna hvernig Kristur með orðum sínum skapaði stundum efa og hálfgerðan pirring í kring um viðtekin munstur í hugsun fólks. Hann leyfði sér að ganga gegn því sem var viðtekinn hugsunarháttur og við erum hvött til að gera það sama. Hann deildi ekki út tilbúnum svörum en í stað þess ýtti hann við fólki og með orðum sínum hvatti okkur til að hugsa sjálf. Oft voru orðin þokukennd enda getum við greint af orðum Jesú að hann vissi að tilbúin svör leysa okkur undan leitinni að sannleikanum. Við eigum að leita svaranna sjálf glíma við veruleikann þannig að finnum við svörin sem hjálpa okkur að greina falsspámenn, finna hvað er raunverulegt í lífinu og leiðir okkur til Krists og að uppsprettum sannleikans.

Fjársjóðsleit

Stundum má líkja lífinu okkar við fjársjóðsleit þar sem við höfum kortið þar sem bent er á staðinn þar sem fjársjóðurinn er grafinn. En viti menn, rétt eins og við lesum um í bókum og sjáum í kvikmyndum um þá sem leita fjársjóðs eftir þessu leiðum þá er afar erfitt að rata. Kortin eru oft afar villandi og fá kennileiti. Oft er vaðið í villu og á leiðinni verður gjarnan ekki bara einn fjársjóðsfundur heldur kannski margir því víða liggja fjársjóðirnir..og þá sérstaklega þeir sem mölur og ryð fá ekki grandað. Eigum við ekki öll okkar fjársjóðsfundi ? Stundir í lífinu þegar við erum minnt á eitthvað sem skiptir svo miklu máli að við förum með það heim. Geymum það í hjarta okkar og reynum að láta það hafa áhrif á líf okkar til góðs. Andstætt því þegar falsspámenn sem talað er um í guðsspjallinu hafa talað. Innantómt orðagjálfur sem engu breytir en selst kannski vel um tíma eða í versta falli leiðir fólk afvega.Það væri hægt að halda margar ræður um falsspámenn og hvernig heimur versnandi stöðugt og sífellt. Svo margir hafa falsspámennirnir og falsspádómarnir verið í aldanna rás. Enn í dag, í okkar upplýsta samfélagi eru þeir á ferli og í krafti síns innantóma erindis ná þeir oft eyrum fjöldans. Við hneykslumst og stynjum undan oki fjölmiðlanna sem eru alltaf að færa okkur fréttir af hneykslum og hvernig allt fer afvega í veröldinni. Síðan rekumst við líka á fréttir af fólki sem er tilbúið að ganga sinn veg og láta gott af sér leiða. Þetta færir athygli okkar frá stríðshrjáðri veröld þar sem erfitt er að finna frið til að sjá fegurð heimsins.

Í iðu dagsins

Í nýliðinni viku heyrði ég í útvarpinu þjóðkunnan Íslending segja frá því hvaða og hvernig atburðir í lífi hans höfðu valdið straumhvörfum. Hann lýsti því hvernig samtal við annan mann olli því að hann tók sér ferð á hendur til Afríku sem á endanum varð til þess að þar var stofnað fyrir hans og annarra atbeina barnaheimili. Eins og hann lýsti því sjálfur þá voru það atvik í hversdagslífinu sem urðu til þess að eitthvað breyttist varanlega í lífi hans öðrum til gagns og gleði. Þetta eykur trúna á lífið og að hið sanna og raunverulega sé til, leynist í iðu hversdagsins, á meðal okkar. Að það leynist jafnvel mitt í öskrum falsspámanna um að eina leiðin til að eiga og tryggja frið sé kannski að tortýma annrra lífi, eyða annarra jörð, taka von frá öðrum heimsins börnum og okkur er sagt að þá séum við á réttri leið. En við hljótum að vita betur því slæmt tré ber ekki góðan ávöxt og því skiptir svo miklu máli hvernig við lifum lífi okkar og á það minnir fjallræðan öll. Í lífinu, á síðum blaða og í fölbláu skyni ljósvakamðlanna þá mætum við heimsherrum sem eru bara úlfar í sauðargæru hreint út sagt en meðan við heyrum hinn kristna boðskap um að vonin verður ekki troðin undir hælum falsspámanna og góð orð verða ekki máð úr hugum þeirra sem heyra sannleikann.

Gleymd orð

Það kemur oft í hugann slitur úr ræðu eftir Martein Lúther King, hinns mikla baráttumanns fyrir mannréttindum þar sem segir: “Einhvern tímann mun æskan reyna að læra orð sem þau skilja ekki: Börnin frá Indlandi munu spyrja…hvað er hungur ? Börnin frá Alabama munu spyrja, hvað er aðskilnaður kynnþátta ? Börnin frá Hirosima munu spyrja, hvað er atómsprengja? Börnin í skólanum munu spyrja, hvað er stríð. Og þú munt svara þeim og segja þeim: Þessi orð eru ekki notuð framar frekar en orð eins og þrælahald, galeiður eða póstvagnar. Þessi orð hafa ekki lengur merkingu og þess vegna hafa þau verið tekin úr úr orðabókum."

 Marteinn Lúther King átti líka orðin “Ég á mér draum….” .og sá draumur er kannski fjarlægur enn í dag rétt eins og fjársjóðurinn á kortinu og orðin sem sögð voru í hópnum stóra forðum þegar Jesús deildi með fólkinu sínu þessu djúpa boðskap fjallræðunnar,  þá erum við samt enn á leið í átt að takmarki þess sanna og góða.  Það er af því við eigum leiðsögn hans sem vekur drauma okkar um betri heim og leiðbeinir að við fáum greint rétt frá röngu og hjálpar okkur að finna leiðsögn í lífinu og greina fals frá því sem er rétt, satt og mikilvægt.  Kannski að “læra tungumál englanna” en eitthvað í þessa veru varð finnskri konu að orði í viðtali í einu dagblaðanna í síðustu viku. Hún var í heimsókn hér á landi og hafði lagt það á sig að læra íslensku eða eins og hún sagði sjálf: “til að geta talað við íslensku englana ”.  Svona orð minna á að til að geta talað saman þá þurfum við að skilja hvert annað og leggja eitthvað á okkur til þess. Læra að greina mál englanna frá rödd falsspámanna og um leið að læra mál hvers annars þannig að við skiljum, lifum í kærleika til samferðafólks okkar og þá kannski hverfa fleiri orð úr orðabókunum sem tiltekin voru hér áðan í ræðu Marteins Lúthers King.

Enn hljómar í eyrum.”Það besta sem Guð hefur skapað er nýr dagur” og þessi dagur er okkar, ný tækifæri, nýtt upphaf, Guði sé lof fyrir það og megi hann fylgja okkur og móta líf okkar, hugsun, dómgreind og viðmót nú og ætíð.