Saga dymbilviku og páska hittir í mark.
Hún hittir í mark vegna þess að hún fjallar um stöðu okkar í lífinu og afstöðuna til samfélagsins. Hún dregur upp myndir af því að stundum töpum við og stundum sigrum við. Hún segir sögu samfélags sem er vonlaust og óöruggt en fær hugrekki og trú til að breyta heiminum.
Fyrri myndin tengist tengist skírdegi og föstudeginum langa. Við sjáum hvernig boðskapur Jesú og sú von og trú sem hann kveikti í hjörtum mannanna lýtur í lægra haldi fyrir valdinu. Hvernig mannúð og kærleikur víkur fyrir hagsmunagæslu og valdbeitingu. Þau sem voru samankomin við síðustu kvöldmáltíðina, mynduðu skjálfandi, óöruggt samfélag, sem þurfti að sjá á bak vonum sinna um betri heim. Þau áttu samfélag hugrekkis og sannfæringar, en þurftu að færa stórar fórnir.
Föstudagurinn langi stendur fyrir átök mannúðar og laga. Jesús helgaði líf sitt þjónustunni við aðra og gekk á undan í því að breyta samfélaginu til mannúðar. Hann gekk gegn viðteknum gildum og lögum hagsmunanna. Sú ganga endaði á krossi. Baráttan fyrir mannúð kostar hugrekki og sannfæringu og hún krefst alls. Krossinn er hvatning okkar til að leggja okkar af mörkum til þess að gera heiminn betri. Krossinn er áminning um að hið góða er hvorki ókeypis né létt.
Við hlið myndarinnar af vonlausu samfélagi skírdags og föstudagsins langa er myndin af páskunum. Egg og ungar, blóm og laufgaðar greinar eru lífstákn. Páskarnir eru tákn um trúna og hugrekkið, tákn um málstað Jesú sem rís upp í lífi þeirra sem trúa á hann. Upprisan gefur kraft til að trúa, vona og elska og til að feta í fótspor Jesú.
Upprisan gefur fyrirheit um að ef við sýnum við sama hugrekki og hann breytum við samfélaginu.