I
Internetið er stórkostlegt. Líkast til erum við ekki búin að átta okkur á þeirri byltingu sem alnetið er og vitum svo sem heldur ekki hvað mun gerast því að aldrei áður hafa jarðarbúar getað skipst á upplýsingum með viðlíka hraða. Með tilkomu alnetsins flýtur svo margt upp á yfirborð mannlífsins sem áður var hulið og nýjar heildarmyndir taka að birtast. Aðstæður ókunnugs fólks í fjarlægum löndum eru nú aðgengilegar í máli og myndum og hver sem vill segja sögu sína getur varpað henni út á netið þar sem hún geymist um aldur, - eða alltént alveg þangað til slokknar á rafmagninu.
En það sem merkilegast er í þessu öllu er sú staðreynd að það er enginn við stjórnvölinn. Kínastjórn, Bush-öflin í Bandaríkjunum og aðrir hefðbundnir valdamenn sem margt hafa að fela vita ekki sitt rjúkandi ráð vegna þess að gamalreyndu þöggunaraðferðirnar bíta ekki lengur. Alnetið hefur engan ótta rásandi á ljóshraða um hnattkúluna. Við vitum svo sem að alnetið er ekki bara óttalaust það hefur heldur engan sóma. Óvandaðir menn hafa fyllt það af grimmd og allskyns ljótleika sem hvert barn getur nálgast nema það eigi ástvini sem vernda það. Þetta vitum við líka. En hin stóra frétt alnetsins er ekki grimmdin því hún hefur verið í heiminum allan tímann. Nýungin sem alnetið ber inn í veröldina er hið óþaggandi tjáningarfrelsi og sú öra söfnun upplýsinga sem fram fer. Almannarómur hefur þar eignast nýja vídd og almannahagur hefur fengið sýnileika sem gerir það að verkum að hið ævaforna og langþróaða þvingunarvald hefur óvænt misst slagrými í veröldinni. Nú er lygin ekki jafn örugg aðferð og hún alltaf hefur verið. - Það gæti lekið á netið. Wikileaks gæti birt skýrslur. Á sléttum Eþíópíu, þar sem rafmagn og vatn er af skornum skammti, er gott netsamband í gegnum GSM kerfið. Í stórborgum Indlands þar sem bláfátækur almenningur berst fyrir lífi sínu eiga flestir sinn GSM síma. Hvenær sem stórviðburðir verða í veröldinni streyma upptökur með mynd og hljóði í gegnum ótal litla síma í almenningseigu.
II
Í þessu samhengi er merkilegt að heyra upphaf 12. kafla Lúkasarguðspjalls, en texti þessa sunnudags kemur einmitt úr þeim kafla þar sem Jesús er að fjalla um ótta og óttastjórnun, og það mætti halda að hann væri í þann mund að fara að kynna internetið og GSM kerfið fyrir notendum er hann segir:
„ Ekkert er hulið sem eigi verður opinbert né leynt er eigi verður kunnugt. Því mun allt það sem þér hafið talað í myrkri heyrast í birtu, og það sem þér hafið hvíslað í herbergjum mun kunngjört á þökum uppi.” (Lúk. 12.2-3)
Þannig hefur Jesús mál sitt þegar hann vill leiða lærisveina sína inn í lögmál frelsisins svo að þeir séu óhræddir við valdið í heiminum. Hann byrjar á því að staðhæfa að allt sé opinbert. “Privat is public!” – „Hið einkalega er opinbert” hefur m.a. orðið eitt af einkennisorðum feminismans þar sem tekist er á við rótgróðið valdakerfi karlaveldisins.
„ Ekkert er hulið sem eigi verður opinbert né leynt er eigi verður kunnugt.” segir Jesús. M.ö.o.: Veruleikinn er einn og við erum öll þar inni.
Fátt er hinu hefðbundna veraldarvaldi viðlíka þyrnir í augum og staðhæfing sem þessi. Megin aðferð í allri þöggun og þvingun er sú að búa til lagskiptan veruleika þar sem ekki smitast upplýsingar á milli. En þegar samskipti komast á og lifandi fólk fer að tala saman þá áttar það sig á því að hvarvetna er lífið eins. Sá sem hefur dökka húð er að berjast samskonar lífsbaráttu og hinn sem er með hvíta húð. Þau sem eru gagnkynhneigð þrá ást, unað og trúfesti með sama hætti og þau sem eru samkynhneigð. Konur vilja hafa völd eins og karlar og karlar njóta þess að veita þjónustu eins og konur gera. Það er eitthvað til sem heitir almannaheill og almannahagur sem sem allar upplýsingar benda til að sé mjög áþreifanlegt fyrirbæri.
Í ræðu sinni í 12. kafla Lúkasarguðspjalls er Jesús að tala um almannahag og það hvernig við missum af honum ef við erum hrædd og smásmuguleg en getum gengið að honum vísum ef við bara trúum og treystum. „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.”(v. 15) segir hann, og svo gefur hann söguna af ríka bóndanum sem var allur í sjálfum sér og sá ekkert út fyrir sína þröngu hagsmuni svo að hann bara dó fyrir hreinan misskilning. Ríki bóndinn misskildi leikinn af því að hann gat ekki séð að þau gæði sem honum höfðu hlotnast væru gjafir. Hann leit á lífsgæði sín sem eigin feng og skildi ekki að enginn á neitt fyrr en hann hefur látið það renna áfram. Listin að lifa er í því fólgin að þiggja með þökkum, meðhöndla af leikni og veita svo áfram af rausn, en ríki bóndinn var bara stjarfur og safnaði öllu upp í hlöðuna sína. „Heimskingi!” sagði Guð við hann, svo var hann dauður.
III
Jón Vídalín biskup var einn af merkustu mönnum sem þjóðin hefur alið, og enn vara áhrif hans í samtíma okkar. Hann missti föður sinn ungur og fékk að kynnast sárri fátækt og umkomuleysi Íslensks almennings á 17. öld. Og er örlögin höguðu því svo að hann komst til mennta og valda og varð biskup yfir Íslandi þá gerði hann prédikunarstólinn að skjóli fátækrar alþýðu fyrir ofríki valdsstéttarinnar. Ræður hans voru harðar og þar fengu allir sitt að heyra, fátækir jafnt sem ríkir, en rauði þráðurinn í öllu verki þessa sterka kennimanns var vitundin um heilagleika Guðs og jöfnuð allra manna. Höfuðástæða þess að Íslenskur almenningur tók ræður og hómilíur Jóns Vídalíns inn að hjarta sínu var sú að hann bar virðingu fyrir almannahag í Jesú nafni. “Ég vildi og fátt eitt við yður talað hafa, þér veraldarhöfðingjar, með yðar góða leyfi.” Sagði hann í einni ræðu sinni. “Munu þeir ekki finnast yðar á meðal er svefnhöfgi renni á í dómarasæti? Ég vil eigi tala um það hversu menn [...] spilla stefnum og vitnum [...] og útleggja lögin eftir því sem menn þykjast við þurfa í það sinn og aka þeim eins og seglum eftir veðrinu.” (Vídalínspostilla s. 202)
Og sem biskup krafði hann presta sína um að standa vörð um réttlætið, áminna valdsmenn ef með þyrfti og gæta þess að réttur lítilmagnans væri ekki fyrir borð borinn. Með því kvað Jón Vídalín prestinn standa vörð um sálarheill valdsmannsins að hann áminnti hann um að syndga ekki gegn Guði með því að bregðast í því ráðsmennskuhlutverki sem honum hefði verið falið. Og hætt er við að einhverjum kennimanninum hafi sviðið er Jón Vídalín mælti: „Og þótt menn séu nú svo spakir við höfðingjana og þá hverra vald menn óttast þá vantar menn ekki suma hverja á stundum að brúka síns embættis myndugleika við lítilmagnann...” (Vídalínspostilla s. 200-201)
Enda þótt Jón Vídalín hlyti upphefð í augum manna, þá gleymdi hann aldrei samhengi sínu við almannahag. Hann óttaðst Guð einan og boðaði í Jesú nafni skylduaðild allra manna að veruleikanum, hvar í flokki sem þeir stæðu.
IV „Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.” Segir Jesús í beinu framhaldi af sögunni um ríka bóndann. (v.32) Ástæða þess að við þurfum ekkert að óttast í heiminum er einfaldlega sú að við eigum allt. Föður okkar hefur þóknast að gefa okkur ríkið. Himinn og jörð eru þín og mín. Hið opinbera er einka! „Seljið eigur yðar og gefið ölmusu, fáið yður pyngjur er slitna ekki, fjársjóð á himnum er þrýtur ekki, þar sem þjófur fær eigi í nánd komist né mölur spillt. Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera. “ (v.33-34) Í þessu ljósi verða auðskilin orð Jesú í guðspjalli dagsins er hann áminnir alla sem með völd fara og segir: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á rétum tíma? Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur. [...] En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: Það dregst að húsbóndi minn komi, og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi er hann væntir ekki, á þeirri stundu er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum. Sá þjónn sem veit vilja húsbónda síns og hirðir ekki um að hlýða honum mun barinn mörg högg. En hinn sem veit ekki hvað húsbóndi hans vill en vinnur til refsingar mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.”
Veruleikinn er einn og við erum öll þar inni. Guð vill almannaheill.
Amen.
Drottinn mælti: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur. Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: Það dregst að húsbóndi minn komi, og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi er hann væntir ekki, á þeirri stundu er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum. Sá þjónn sem veit vilja húsbónda síns og hirðir ekki um að hlýða honum mun barinn mörg högg. En hinn sem veit ekki hvað húsbóndi hans vill en vinnur til refsingar mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð. Lúk 12.42-48