Ný heimsmynd

Ný heimsmynd

Þar sem hann var einn inni í herberginu sínu fullur angistar ákvað hann að gera það sem hann hafði ekki gert síðan hann var barn, að biðja til Guðs. Í örvæntingu bað hann einfaldrar og einlægrar bænar: „Guð hjálpaðu mér.“
fullname - andlitsmynd Kjartan Jónsson
29. apríl 2012
Flokkar

Ástjarnarkirkja 29. apríl 2012, 3. sd. e. páska, útvarpsmessa. Jóh. 16-23.

Við skulum biðja:

Víst er ég veikur að trúa, veistu það, Jesú, best, frá syndum seinn að snúa, svoddan mig angrar mest. Þó framast það ég megna þínum orðum ég vil treysta og gjarnan gegna. Gef þú mér náð þar til. (Hallgrímur Pétursson)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ein af skopmyndum Fréttablaðsins í vikunni vakti athygli mína. Á henni óskaði teiknarinn nýkjörnum biskupi Íslands velfarnarðar við að miðla 2000 ára gamalli heimsmynd og siðferðislegum og félagslegum gildum sem að hans mati stangast að mestu á við þekkingu mannkyns í dag.

Trú og skynsemi Það er margt í kristinni trú sem stangast illilega á við skynsemi okkar, raunvísindi og heimsmynd eins og upprisa dauðra, holdtekja Jesú Krists, meyfæðingin, kraftaverk hans og fleira. Við sem teljumst upplýst viljum ekki verða uppvís að því að setja traust okkar á ævintýri eða hindurvitni. Að sönnu eru ýmsir haldnir fordómum gagnvart trúnni og misskilnings gætir hjá öðrum vegna vanþekkingar á boðskap hennar. En efinn hrjáir mörg okkar samt. Getur þetta verið satt? Er óhætt að treysta orðum Biblíunnar? Það er hægt að rökræða sannleiksgildi trúarinnar fram og aftur án þess að vantrúar- og efasemdamaðurinn sannfærist.

Páskarnir, mesta sigurhátíð kristinna manna, er nýafstaðin og nú beinum við sjónum okkar til hvítasunnu, hátíðar Heilags anda.

Í guðspjallinu í dag er að finna samtal Jesú og lærisveina hans kvöldið sem hann var svikinn þar sem  hann segir þeim fyrir um yfirvofandi dauða sinn og sorg þeirra en fullyrðir jafnframt að það muni allt saman breytast og að sorgin muni snúast í fögnuð. Allt var þetta óraunverulegt og óskiljanlegt fyrir lærisveinunum á þessari stundu. Við getum e.t.v. sagt að heimsmynd þeirra hafi ekki boðið upp á þennan möguleika. Þeir héldu að Jesús væri kominn til þess að verða stórkostlegur konungur á veraldarvísu sem myndi gera þjóð þeirra að stórveldi og þá að stórmennum.

Kraftur hvítasunnunnar Á hvítasunnudag úthellti Guð anda sínum yfir hnýpna lærisveina sem földu sig í þakherbergi af ótta við að verða teknir af lífi sem landráðamenn eins og meistari þeirra. Þá umbreyttust þeir úr hræddum mönnum sem syrgðu brostnar vonir í djarfa boðendur trúarinnar, sem óttuðust hvorki fangelsi né vopnavald yfirvalda. Þeir fengu alveg nýja sýn á það hver Jesús var og boðskap hans.

Góðir gestir Við hjónin fengum góða gesti til okkar í vikunni. Eftir ljúfenga máltíð komum við okkur fyrir í betri sætum og ræddum saman, m.a. um trúmál. Einn gestanna sagði frá því hvernig hann hefði fyrir mörgum árum misst tökin á lífi sínu og verið kominn í öngstræti vegna áfengisneyslu, tóbaksneyslu, neyslu svefnlyfja og annarra ávanabindandi lyfja. Að lokum leitaði hann ásjár AA-samtakanna. Fljótlega lá leiðin þaðan í meðferð. Eftir nokkurra daga dvöl þar voru öll lyf tekin af honum sem varð til þess að hann gat ekki sofnað á kvöldin v.þ.a. hann fékk ekki svefnlyfin sín eins og hann var vanur. Í þrjá sólarhringa gat hann ekki sofið og óttaðist að hann myndi missa vitið. Þar sem hann var einn inni í herberginu sínu fullur angistar ákvað hann að gera það sem hann hafði ekki gert síðan hann var barn, að biðja til Guðs. Í örvæntingu bað hann einfaldrar og einlægrar bænar: „Guð hjálpaðu mér.“ Strax og hann hafði beðið þessarar bænar kom mikill kraftur yfir hann og hann fylltist miklum friði og svaf vel um nóttina. Í meira en þrjátíu ár sem liðin eru síðan hefur hann ekki bragðað áfengi, reykt, notað svefnlyf né nein önnur ávanabindandi lyf. Þessi reynsla varð til þess að Guð varð raunverulegur fyrir honum. Nú vinnur hann jafnt og þétt að því að styrkja trú sína og öðlast meiri skilning á boðskap Biblíunnar. Trú þessa manns hófst ekki með pottþéttri röksemdafærslu byggða á nýjustu niðurstöðum vísinda heldur reynslu af Guði. Hann hafði ekki sótt kirkju eða farið á samkomur. Guð mætti honum þar sem hann var staddur í angist sinni. Nýjar víddir bættust við heimsmynd hans.

Orðið gekk áfram á milli okkar í stofunni og ljóst var að við höfðum öll eignast trúna á mismunandi hátt. Sameiginlegt öllum var einhvers konar reynsla af nærveru Guðs, sumir sögðu frá dramatískri reynslu af starfi Heilags anda, aðrir frá skynjun návistar friðar og kærleika sem þeir höfðu ekki þekkt áður og enn aðrir frá sannfæringu sem hafði orðið til smátt og smátt. Reynslan af hinum lifandi Guði hafði svo afgerandi áhrif á flesta í stofunni að iðkun og miðlun trúarinnar var það sem skipti þá mestu máli í lífinu.

Einn erlendur vinur sagði okkur frá því að hann hefði lagt stund á nám viðskiptafræði og stjórnun og skarað fram úr í háskóla. Honum stóðu til boða hæst launuðustu stjórnunarstöður í heimalandi hans. Hann var einkasonur foreldra sinna og erfingi fyrirtækis sem hafði 200 manns í vinnu. Það lá beint við að hann tæki við rekstri þess er háskólanámi lyki. En hann hafnaði þessu öllu, trúin skipti hann meira máli. Hann hafði köllun til að miðla trúnni með öðrum og vildi gera það í fullu starfi. Nú stjórnar hann samtökum sem höfðu þrjá starfsmenn þegar hann tók til starfa fyrir 30 árum en hafa nú um 100, auk starfsemi í ótal löndum víðs vegar um heim.

Reynslusönnun Jesús sagði eitt sinn: „Kenning mín er ekki mín heldur hans er sendi mig. Sá sem vill gera vilja hans mun komast að raun um hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.“ Jesús býður okkur reynslusönnun.

Trúin skiptir okkur fyrst verulegu máli þegar við öðlumst einhvers konar reynslu af nærveru Guðs. Þá fær hinn gamli texti Biblíunnar nýtt líf og merkingu. Heimsmynd okkar nútímamanna er að mörgu leyti lokuð. Í raunvísindum telst tilgáta sönnuð þegar búið er að endurtaka sömu tilraunina nokkrum sinnum við sams konar aðstæður og fá ávallt sömu niðurstöðu. Getum við fullyrt að heimsmynd okkar sé hin endanlega, besta og eina rétta? Hafa þjóðir með aðra heimsmynd algjörlega rangt fyrir sér? Er sömu sögu að segja um forfeður okkar? Mun heimsmynd okkar ekki halda áfram að taka stöðugum breytingum með nýrri vísindaþekkingu og reynslu mannkyns af umhverfi sínu og lífinu sjálfu? Mun sá tími einhvern tíma renna upp er við höfum rannsakað allt, skiljum allt og vitum allt? Við þurfum auðmýkt gagnvart heimsmynd annarra. Mynd okkar Íslendinga af tilverunni er langt frá því að vera einsleit og það er margt sem vísindi geta ekki fest hönd á og við munum aldrei ná að skilja til fulls v.þ.a. tilveran  er svo margslungin.

Reynslan af Guði er einstaklingsbundin, sniðin að þörfum hvers og eins og leiðir oftar enn ekki til þess að hin lokaða heimsmynd okkar opnast og fær nýja vídd.

Sveigjanleg heimsmynd Aftur að skopteikningu Fréttablaðsins. Það er rétt að hugmyndir manna um heiminn eru um margt öðru vísi í Biblíunni en á okkar tímum. Það er rétt að halda því til haga að Biblían er bókasafn, samsafn 66 bóka þar sem ýmsar heimsmyndir fyrirfinnast. En mannlegt eðli hefur ekkert breyst. Það sem sagt er um það, bæði gott og vont, á jafnvel við nú og þá. Boðorðin 10  og boðskapur Fjallræðunnar eru enn í fullu gildi eins og þá og boðskapur Biblíunnar um náungakærleika, óeigingirni, fórnfýsi, umhyggju, heiðarleika og gleði hafa aldrei átt meira erindi til okkar en nú. Biblían er full af sístæðum sannleika sem verður þó að einhverju leyti framandi þar til Heilagur andi gefur okkur skilning á sannleika hans og merkingu. Þess vegna þurfum við svo mjög á honum að halda.

Sem ungur maður var bara eitt sem ég gat ekki hugsað mér að læra þegar menntaskóla lyki. Það var guðfræði. Tilkoma huggarans, Heilags anda, breytti þessu. Hann gaf mér skilning á því að Guð væri raunverulega til, ekki bara goðsögn. Mér fannst ég geta þreifað á honum. Þessi uppgötvun kom mér mjög á óvart. Ég komst í samband við skapara minn, uppsprettu lífsins og gleðinnar. Nærvera hans fyllti mig gleði sem ekki átti sér neinar aðrar rætur. Líf mitt fékk nýjan tilgang og ég þráði að nota það til að miðla þessum veruleika með öðrum. Boðskapur Biblíunnar lifnaði við og fékk nýja merkingu og heimsmynd mín öðlaðist nýja vídd sem ég hafði ekki þekkt áður.

Umfjöllun um kristna trú verður alltaf ófullkomin ef ekki er gert ráð fyrir Heilögum anda sem gefur okkur trúna og upplýkur inntaki hennar fyrir okkur. Þess vegna verður siðaboðskapur Jesú, t.d. í Fjallræðunni, kraftlaus ef trúarsambandið við höfund hennar vantar er gefur okkur löngun og kraft til að lifa eftir honum.

Biðjið og yður mun veitast Guðspjallið endar á þessum orðum: „Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður.“ Kæri hlustandi. Hvar sem þú ert og hverjar sem aðstæður þínar eru þá getur þú beðið Guð um að mæta þér þar sem þú ert. Opna hjarta þitt fyrir honum. Hann er hjá þér, ber umhyggju fyrir þér og heyrir jafnvel hina hljóðu bæn. Amen