Fimmtudagurinn var tekin snemma, leiðin lá til Helskinki með millilendingu í Osló. Eftir hressandi rótsterkan kaffibolla var tölvan tekin upp. Tilgangur ferðarinnar var að undirbúa útvarpsguðsþjónustu sem halda á í lok samkirkjulegs norræns kvennaþings á Sófíusetri finnsku rétttrúnaðarkirkjunnar rétt fyrir utan Helsinki í ágúst 2012. Finnska útvarpið gerir þá kröfu að dagskrá með nokkuð nákvæmum tímasetningum liggi fyrir með góðum fyrirvara.
Tölvan var ekki opnuð til þess að undirbúa fundinn heldur guðsþjónustu næsta sunnudags, 1. sunnudags nýs kirkjuárs og ljóst að ekki yrði mikill tími til prédikunarskrifa þegar út væri komið. Hugmynd hafði verið að búa um sig dagana á undan og nú var hún sett á blað. Það var kallað inn í vél og haldið til Noregs. Þótt einbeittur ásetningur væri að nota tímann vel á Gardermoen flugvelli til frekari skrifa var ekki hægt annað en að kíkja aðeins í búðir, kaupa KK og Kamilla, sykraða jólaseigmenn og smá brúnost handa mömmu. Svo var haldið áfram að við prédikunarskrif.
Í Helsinki var haldið sem leið lá á KFUK hótelið í miðborginni þar sem stuttur kvöldfundur var haldinn og línur lagðar. Föstudagurinn var magnaður. Við sátum við í sjö tíma, ein norsk, ein íslensk og tvær finnskar prestvígðar konur og vinnan var skapandi og árangursrík. Okkur tókst að setja saman fallega guðsþjónustu með ljóði Irju Askola biskps, predikun að fyrirmynd þriggja íslenskra kvenna sem prédikuðu í Ríkisútvarpinu sl. sumar, norskri blessun og hlýjum bænum.
Kvöldið var ánægjulegt, gefandi félagsskapur, ljúffengur matur og góðu dagverki skilað. Laugardagurinn var heimferðardagur með viðkomu í Svíþjóð. Hreindýrapylsa og urriðahrogn keypt fyrir starfsmannafund næstu viku.
Síðasti dagur kirkjuársins er kallaður litlu jól í Finnlandi. Ég tók aðventustemninguna með mér heim og hún fylgdi mér í guðsþjónustu og aðventukvöld 1. sunnudags aðventunnar í Langholtskirkju. Von í lofti.