Kostir lýðræðis
Saga Vesturlanda undanfarnar tvær aldir hefur sýnt fram á gildi lýðræðislegra stjórnunarhátta. Kostir lýðræðis eru þeir að þar er tekist á um ólíka hagsmuni. Reynt er að greina á milli minni hagsmuna og meiri og komast að niðurstöðu sem er sem flestum til hagsbóta. Sú hætta er hins vegar fyrir hendi þar sem einn eða fáir ráða að ákvarðanir þeirra ráðist um of af takmörkuðum hagsmunum þeirra sjálfra og lítilli yfirsýn. Í löndum þar sem herforingjastjórn heldur um stjórnartaumana má búast við því að hag hersins sé vel borgið en hætt er við að ekki sé eins vel gætt að hagsmunum einstaklinga og atvinnulífs. Sama er að segja um aðrir tegundir fámennisstjórna svo sem klerkastjórn eða alræði flokksforustunnar. Á meðan fámennisstjórn treystir á hugvit lítils hóps þá er með lýðræðinu reynt að virkja fjöldann og þá þekkingu sem býr í hverjum og einum.
Almennur kosningaréttur er einn af hornsteinum lýðræðis í dag. Með honum er það tryggt að allir geti haft áhrif á stefnumótun og þróun þess samfélags, sem þeir lifa í. Aðrir hornsteinar eru jafnræði og jafnrétti. Í lýðræðislegum ríkjum er álitið mikilvægt að sem flestir hópar samfélagsins eigi sína fulltrúa í stjórninni, sem geti þá komið þeirra sjónarmiðum á framfæri og stað vörð um hagsmuni hópsins. Fjölbreytni og jafnræði eru því lykilhugtök í lýðræðislegri stjórnun.
Alþingi Íslendinga væri ekki vel skipað ef þær sætu einvörðungu lögfræðingar, allt karlar á aldrinum 60 til 70 ára og allir búandi í Vesturbænum í Reykjavík og allir í KR. Það er engum blöðum um það að flétta að slíkur þinghópur þætti allt of einsleitur þó allt væru þetta ágætis karlar. Í slíkan hóp vantar þekkingu úr atvinnulífinu, úr sjávarútvegi, landbúnaði, verslun o.s.frv. Hins vegar er þinglið vel skipað þegar fulltrúarnir koma úr öllum stéttum atvinnulífsins, ungir og gamlir, konur og karlar, vegna þess að þá er samkomin í þinginu góð þekking og yfirgripsmikil. Þetta sjáum við þegar verið er að stilla upp framboðslistum hvort sem er til Alþingis eða í sveitarstjórn. Góður listi og sterkur er sá sem hefur breiðan hóp frambjóðenda með ólíkan bakgrunn og menntun. Á slíkum lista er samkomin meiri þekking og reynsla heldur en á einsleitum lista. Í nútímaþjóðfélagi, sem einkennist af fjölbreytni og þróun, er meiri þörf en áður að jafnræðis sé gætt við alla lýðræðislega stjórnun.
Kirkjan og lýðræðið
Með vissri einföldum má segja að kirkjustjórnin sé tvískipt, það er á landsvísu og heima í héraði. Á heimavelli, í hverri sókn, eru stjórnhættir mjög lýðræðislegir. Á aðalsafnaðarfundum er kosið í sóknarnefndir og kosið um hin stærri mál. Þar hafa allir þeir, sem mæta, kosningarrétt og kjörgengi. Möguleiki þjóðkirkjufólks til að hafa áhrif á það, sem fram fer í sinni sóknarkirkju, er því tryggður með venjulegu gamalgrónu fundalýðræði. Athyglisvert er að hafa í huga að hlutfall kvenna og karla í sóknarnefndum er viðunandi miðað við forsendur jafnréttisáætlunar kirkjunnar.
Þegar kemur að landsstjórn kirkjunnar þá er allt annað upp á teninginn. Í kosningum til sveitastjórna og Alþingis mega allir kjósa, hið sama á við um sóknarnefndir. En þegar kemur að kosningum til kirkjuþings þá bregður allt í einu svo við að innan við eitt prósent þjóðkirkjufólks 16 ára og eldri má kjósa. Prestar þjóðkirkjunnar eru minna en einn þúsundasti hluti kirkjunnar, engu að síður kjósa þeir úr sínum hópi tæpan helming kirkjuþingsfulltrúa, það er 9 af 21. Aðalmenn í sóknarnefndum kjósa hina.
Hugsið ykkur, djáknar sem eru menntaðir við sömu guðfræðideildina og prestarnir, og eru meira að segja vígðir til sinna starfa innan kirkjunnar, bera stólu á ská yfir herðarnar til marks um að þeir gangi erinda Krists hér í heimi; þeir fá ekki að kjósa til kirkjuþings. Hið sama á við um guðfræðinga, lögfræðinga, organista og fleiri starfsmenn kirkjunnar. Augljóslega er ekki um jafnræði milli starfsmanna kirkjunnar að ræða þegar kemur að kosningum til kirkjuþings.
Yfirskrift jafnréttisáætlunar kirkjunnar er sú að Guð fari ekki í manngreinarálit. En þegar kemur að kirkjuþingskosningum þá er gerður gríðarlegur mannamunur. Orð Páls postula um að „hér sé hvorki Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona heldur séum við öll eitt í Kristi“ hafa undarlega holan hljóm þegar litið er yfir kirkjuþing. Þar sitja engir djáknar eða organistar þó svo að kirkjuþing fjalli um málefni þessarra starfsmanna sem annarra og setji þeim starfsreglur. Af 21 kirkjuþingsfulltrúa á síðasta þingi var einungis ein kona. Þrír voru yngra en 50 ára. Enginn var 40 ára eða yngri.
Þegar Karl Sigurbjörnsson vígðist til biskups sagði hann í vígsluræðu sinni að innan kirkjunnar væri einungis ein vígsla sem skipti máli og það væri skírnin. Þetta er í anda Lúters um hinn almenna prestsdóm. En þegar kemur að kirkjuþingskosningum þá er eins og þessi orð biskupsins séu ekki lengur gild. Við kirkjuþingskosningar eru það sko önnur vígsla en skírnin sem skiptir máli og það er prestsvígslan. Vilji menn hafa áhrif á stefnumörkum íslensku kirkjunnar þá er leiðin sú að verða prestur. Kirkjan okkar er þjóðprestakirkja.
Hvað förum við á mis við?
Prestarnir eru forréttindahópur í kirkjunni. Þeir eru „nomenklatúran“. Með lögum er það tryggt að þeir skipi tæpan helming kirkjuþingsmanna. Kirkjuþing hefur svo sjálft sett starfsreglur um það hver megi kjósa og hver ekki.
Það er fremur einsleitur hópur, sem situr á kirkjuþingi. Sú hætta er fyrir hendi að samþykktir og stefnumörkun kirkjuþings mótist um of af hagsmuna þess þrönga hóps, sem situr á kirkjuþingi og kýs til þess. Kirkjuþing er ekki að nýta sér þá þekkingu sem djáknar og fleiri hópar kirkjufólks búa yfir.
Í öllu kirkju- og safnaðarstarfi eru konur áberandi. Trúarlífsfræðingar hafa bent á mikilvægi hinnar biðjandi móður í trúaruppeldi margra einstaklinga. Mikill mannauður býr í konum, sem eru helmingur þjóðkirkjufólks á Íslandi. Sú auma staðreynd að einungis ein kona hafi setið á seinasta kirkjuþingi er til marks um að kirkjan kann ekki að nýta sér reynslu kvenna.
Þess vegna getur undirritaður ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að það sé bæði nauðsynlegt og tímabært að kjósa fleiri konur á kirkjuþing. Það mætti líka kjósa eitthvað af ungu fólki. Yngsti meðlimur seinasta kirkjuþings er nefnilega löngu orðinn gráhærður.