Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð.Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.
Símon svaraði: Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna.Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.
Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður. En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.
Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum. Lk. 5.1-11
Þessi sunnudagur er kallaður dagur postulanna í nágrannakirkjum okkar, enda undirstrika tekstar þessa dags efnið mjög vel.
Legg þú á djúpið, eftir Drottins orði, - þannig sungum við. Góð hugvekja út frá texta dagsins.
Mynd Guðspjallsins er afar björt og falleg, Jesús stendur við Genesaretvatn í stórbrotnu umhverfi og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð, - og til þess að leggja áherslu á orð sín og boðskap þá setur Jesús þessa fallegu mynd á svið, þannig leyfi ég mér að hugs, - sendir Pétur út á djúpið til fiskjar, hann þráast við í fyrstu, en segir svo: En fyrst þú segir það, skal ég leggja netin, - og netin fylltust.
Svo sjáum við viðbrögð Péturs eftir þessa reynslu, því það fór ekki milli mála að hér var Guð að verki, - Immanúel var kominn, Guð mitt á meðal manna. - Pétur fann nálægð hins hæsta og féll í duftið, sá synd sína og skömm og fannst hann ekki vera verðugan þess að líta meistarann. En Jesús ávarpaði hann og kallaði hann til starfa, Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða. Pétur og hans menn yfirgáfu allt og fylgdu Jesú.
Það er afar lærdómsríkt að virða Pétur fyrir sér og samskipti þeirra Péturs og Jesú.
Skoðum aðra mynd, sem einnig er lesin á þessum degi (samkv. 2. textaröð), en það er Játning Péturs. Þá segir Mattheus guðspjallamaður frá því þegar Jesús tekur lærisveina sína með sér út fyrir landamæri landsins helga og er kominn til Sesareu Filippí, en þar var ný höfðuborg í byggingu í litlu ríki Heródesar Filippusar, sem hann hafði erft eftir föður sinn.
Sagt er að þar hafi allt verið upp á gríska vísu. Í musterinu sem þar gnæfði yfir var keisarinn dýrkaður og við rætur Hermons fjalls var stór mynd af gríska náttúrugoðinu Pan greipt inn í bergið í yndislega fallegu umhverfi, en þarna er uppspretta árinnar Jórdan.
Í þessu umhverfi standa þeir – virða þetta allt fyrir sér, og Jesús fer að spjalla við þá um hvað fólk sé að tala: Hvern segja menn Mannssoninn vera. Kannski ekki undarleg spurning miðað við kringumstæðurnar.
Þeir segja honum það, - jú þeir nefna hina þekktu spámenn, Jóhannes skírara, Elía, Jeremía o.fl. Og Jesús spyr þá, en þið, hvern segið þið mig vera. Þá tekur Pétur til máls og gefur þessa stórkostlegu játningu: Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.
Þetta hafði aldrei verið sagt áður, þessi játning hafði aldrei verið borin fram af venjulegum manni. Jú, þetta hafði heyrst af himnum ofan á skírnarstund Jesú. Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hefi velþóknun á, hlýðið á hann. En þessi orð Péturs var fyrsta trúarjátningin. Enda verður Jesús í senn undrandi og glaður: Enginn maður hefur opinberað þér þetta, - heldur faðir minn á himninum. Og Jesús heldur áfram: “Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast.”
Þegar ég var að skoða þessa texta í vikunni þá fannst mér það varla vera tilviljun að Jesús og lærisveinarnir skyldu vera staddir á þessum stað, í Sesareu Fillippí, þar sem hin æfaforna náttúrudýrkun blasti við öðru megin og hinum megin hin nútímalega sekúlariseraða dýrkun á mannlegu valdi og dýrð. Jesús hlýtur að hafa valið þennan stað til að skapa þetta sterka umhverfi, fyrir játninguna og köllunina.
Þegar grannt er skoða, þá eru þessar kringumstæður ekki ólíkar því sem við lifum við í dag, þetta er það umhverfi sem við sjáum og börnin okkar alast upp við. Fjölmenningar þjóðfélag með markaðstorgið allt um kring.
Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs. Guð var í Kristi að vitja okkar mannanna og til þess að það kæmist til allra manna á þessari jörð, þá kallaði Jesús á ófullkomnar manneskju sem hann treysti fyrir boðskapnum, Guðs heilaga orði. Hann kallaar kirkju sína til ábyrgðar í veröldinni, mitt í alls kyns átrúnaði, valdafýkn og ásókn hinna illu afla í margvíslegum myndum, þar þarf játningin að heyrast, - líka í dag, þar þarf Kristur að sjást í vitnisburði trúar, vonar og kærleika.
Pétur var ekkert mjög trúverðugur, enda kom það í ljós, hann sveik frelsara sinn, en fékk uppreisn, hann fékk náð til þess að vitna um trú sína. Hinir postularnir voru ekki heldur fullkomnir menn, þeir efuðust, voru oft trúlitlir, eins og guðspjöllin herma, en Jesús gat notað þá til að byggja kirkju.
Jeremía reyndi að afsaka sig þegar Drottinn kallaði hann, Móse reyndi að komast undan kölluninni, - þannig mætti lengi telja...... Guð kallar og gefur kraftinn sem þarf.
Eða eins og segir í pistlinum: En þið eruð útvalin kynslóð, konunglegur prestsdómur, eignarlýður, til þess að þið skuluð víðfrægja dáðir Drottins, sem kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.
Hér er Pétur að tala um kirkjuna, samfélag þeirra sem fylgja Jesú Kristi, hann er að tala við þig og mig, okkur sem hér sitjum í dag.
Legg þú út á djúpið, - gakktu inn í verkefni daganna í Jesú nafni til þess að víðfrægja dáðir Drottins, - hverjar eru þær? Jú, þær eru margar og margvíslegar, allt sem er til uppbyggingar, allt sem er til góðs. Hér væri hægt að telja upp svo ótal, ótal margt.
Öll höfum við okkar hæfileika, náðargáfur til þess að nota Guði til dýrðar og náunganum til blessunar og gleði. Marteinn Lúther þreyttist ekki á að undirstrika að störf okkar hvers og eins er köllunarstarf, svo framarlega sem það flokkast undir gott og heiðarlegt starf. Stundum talar fólk eins og eina verðuga köllunin sé að vera munkur, nunna, prestur, kristniboði eða þess háttar andleg störf. En þannig er það ekki, verkamaðurinn, læknirinn, iðnaðarmaðurinn, stjórnamálamaðurinn, skrifstofumaðurinn, - listamaðurinn - allt eru þetta störf sem við erum kölluð til að vinna.
Allt eru þetta störf sem Guð getur blessað og látið bera ávöxt í mannfélaginu.
Í dag opnum við enn eina listsýninguna hér í kirkjunni, þá er ávallt hátíð í Hallgrímskirkju, því við höfum séð og reynt hvernig listgreinarnar geta víðfrægt dáðir Drottins, hvernig listamennirnir geta vísað veginn, prédikað, glatt, uppörfað, lyft hug og hjarta í hæðir. Við bjóðum Sólveigu Baldursdóttur velkomna með höggmyndirnar sínar, en sýningin hennar heitir: Vor í Hallgrímskirkju.
Legg þú á djúpið ... Listamaðurinn fær þessa köllun aftur og aftur, og hann tekst á við ný og ný verkefni. Ég hugsa að það séu fá hús hér í borginni sem hafa boðið upp á eins fjölbreytta og frábæra list og hér er gert undir forystu Listvinafélagsins og kantorsins, - og vissulega hefur það lyft tugþúsundunum í hæðir, Guði til dýrðar og svo mörgum svo mörgum til blessunar. Sólveig lagði út á djúpið og fyllti netin af verkunum sem hér verða sýnd næstu mánuði.
Í dag hefst einnig Alþjóðlegt orgelsumar, röð orgeltónleika á fimmtudögum í Dómkirkjunni og á laugardögum og sunnudögum hér í Hallgrímskirkju. Hörður Áskelsson kantor heldur fyrstu tónleikana að þessu sinni... Þökkum fyrir þetta allt í dag og einnig fyrir það, að enginn er undanskilinn, við erum öll kölluð til þess að leggja út á djúpið, djúp trúarinnar, djúp verkefnanna mörgu og litskrúðugu.
Fyrst þú segir það, sagði Pétur við meistara sinn, þá skal ég fara.
Göngum inn í þessar aðstæður í dag, hlýðum hinum upprisna lifandi frelsara, sem þráir það eitt að við göngum með honum á veginum. Hann orðaði þetta svo vel þegar hann sagði: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Í félagsskap með Jesú Kristi þá eigum við allt sem þarf, allt sem skiptir máli í lífi og í dauða.